Forstjórarnir með 5,6 milljónir á mánuði að meðaltali í fyrra – Sextánföld lágmarkslaun
Forstjórar skráðra félaga á Íslandi héldu áfram að hækka í launum í fyrra, nú um að minnsta kosti 8,5 prósent að meðaltali. Hækkun á milli ára er vel umfram ein lágmarkslaun. Þá á eftir að taka tillit til kaupauka og kauprétta á hlutabréfum, sem hækka heildargreiðslur til sumra forstjóra umtalsvert.
Meðallaun forstjóra þeirra 20 félaga sem skráð eru á aðalmarkað Kauphallar Íslands á síðasta ári voru rúmlega 5,6 milljónir króna. Það er um 8,5 prósent hærri laun en þeir voru með að meðaltali árið 2020, þegar þau voru tæplega 5,2 milljónir króna. Alls hækkuðu laun þeirra að meðaltali um 444 þúsund krónur.
Þetta má lesa úr ársreikningum skráðra félaga sem hafa birst hver af öðrum undanfarið. Sú breyting er gerð á samantekt Kjarnans nú frá fyrri árum að í öllum tilfellum er mótframlag í lífeyrissjóði nú talið með auk hlunninda og launa, enda tiltekið með skýrum hætti í öllum ársreikningum fyrir síðasta ár. Vert er að taka fram að tvö skráð félög hafa ekki birt ársuppgjör sín. Síldarvinnslan birti ekki fyrr en í næstu viku og því miða laun forstjóra hennar í þessari samantekt við þau laun sem hann hafði á árinu 2020 og Hagar hafa öðruvísi uppgjörsár en önnur skráð félög, sem hefst 1. mars. Því miða laun Haga við uppgjörsárið 2020/2021.
Samkvæmt samantekt Kjarnans hækkuðu 15 forstjórar í launum á síðasta ári, fjórir lækkuðu og, líkt og áður sagði, þá hefur eitt félag ekki skilað ársuppgjöri með upplýsingum um kjör forstjóra.
Til samanburðar má nefna að regluleg laun launafólks í fullu starfi voru að meðaltali 670 þúsund krónur á mánuði árið 2020 og um helmingur launafólks var með laun á bilinu 480 til 749 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands. Tíundi hver launamaður var með regluleg laun undir 400 þúsund krónur á mánuði, en lágmarkslaun á Íslandi í fyrra voru 351 þúsund krónur. Laun forstjóra skráðra félaga hækkuðu því um ein lágmarkslaun og 93 þúsund krónum betur á síðasta ári að meðaltali og voru næstum sextánföld lágmarkslaun. Þá á eftir að taka tillit til kaupaukagreiðslna og áunninna kauprétta.
Mikill gangur á markaði vegna aðgerða yfirvalda
Síðasta ár var sérstakt að mörgu leyti. Kórónuveirufaraldurinn geisaði með tilheyrandi áhrifum og aðgerðir Seðlabanka og stjórnvalda til að draga úr neikvæðum efnahagslegum afleiðingum hans voru enn í fullri virkni. Í þeim fólst meðal annars að stýrivextir voru lækkaðir mikið og sveiflujöfnunarauki var afnuminn um tíma til að auka framboð af ódýru lánsfé.
Fyrir vikið hefur eignaverð rokið upp, þar á meðal virði hlutabréfa.
Þannig hækkuðu bréf í öllum félögum sem skráð eru á aðalmarkað á árinu 2021. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkaði um þriðjung á síðasta ári, samanborið við 20,5 prósent á árinu 2020.
Mest hækkuðu þau hjá Arion banka á síðasta ári, alls um 100,5 prósent, en minnst hjá Marel, stærsta skráða félagi landsins og því eina sem er í umfangsmiklum alþjóðlegum vaxtafasa, en bréf þess hækkuðu um 10,9 prósent. Bréf Marel eru líka skráð á markaði í Hollandi.
Tvö félög voru skráð á aðalmarkað í fyrra, Íslandsbanki og Síldarvinnslan. Markaðsvirði skráðra hlutabréfa var í árslok 2.556 milljarðar króna samanborið við 1.563 milljarða króna í lok árs 2020, sem er um 64 prósent hækkun milli ára.
Forstjóri stærsta félagsins með hæstu launin
Nokkur félög í íslensku kauphöllinni gera upp í öðrum myntum en íslenskri krónu. Til að gæta samræmis þá eru öll laun forstjóra reiknuð á árslokagengi þess gjaldmiðils sem viðkomandi félög gera upp í. Inni í launum eru laun, hlunnindi og mótframlag í lífeyrissjóði en fyrir utan þær greiðslur eru sumir forstjórar með kauprétti af hlutabréfum sem geta í sumum tilfellum verið mun meira virði en þær peningagreiðslur sem þeir fá.
Sá forstjóri sem var með hæstu launin var, líkt og undanfarin ár, Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel. Laun hans voru um 13 milljónir króna á mánuði í fyrra að meðaltali og lækkuðu um tíu prósent milli ára. Til viðbótar við þessi laun þá vann Árni Oddur sér inn umtalsverða kauprétti sem metnir voru á 363 þúsund evrur, um 53,6 milljónir króna, á síðasta ári.
Hækkuðu um helming í launum
Nokkrir forstjórar hækkuðu duglega í launum á síðasta ári. Hlutfallslega hækkuðu laun Heiðars Guðjónssonar, forstjóra Sýnar, mest eða um 51,4 prósent. Heiðar var með 5,3 milljónir króna að meðaltali á mánuði í laun en Sýn skilaði hagnaði í fyrra, eftir að hafa skilað tapi árin 2019 og 2020. Hagnaðurinn var þó að öllu leyti tilkominn vegna eignasölu. Án hennar hefði verið tap á rekstri Sýnar á árinu 2021.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, hækkaði um næstum 48 prósent í launum og var með 6,9 milljónir króna að meðaltali á mánuði í laun, hlunnindi og mótframlag í lífeyrissjóð.
Icelandair Group hefur gefið það út að launahækkun Boga Nils megi meðal annars rekja til þess að launalækkun sem hann tók á sig í kjölfar þess að kórónuveirukreppan skall á. Icelandair Group hefur tapað næstum 80 milljörðum króna á fjórum árum, farið í tvær hlutafjáraukningar sem hafa þynnt út fyrri hluthafa um meira en 80 prósent á skömmum tíma, fengið meira fjármagn úr ríkissjóði en nokkuð annað fyrirtæki til að takast á við kórónuveirufaraldurinn og átt í fyrirferðamiklum vinnumarkaðserjum við lykilstéttir til að lækka laun þeirra og auka vinnuframlag. Í dag fer fram aðalfundur Icelandair Group þar sem tekin verður fyrir tillaga stjórnar félagsins um að setja á fót hvatakerfi fyrir framkvæmdastjórn félagsins og valda lykilstarfsmenn. Samkvæmt tillögu stjórnarinnar snýst kerfið um að hópurinn muni geta fengið allt af 25 prósent af árslaunum sínum í bónus í formi kaupréttar á hlutum í Icelandair Group. Fyrirhugað er að gefa út 250 milljón hluti í ár vegna kerfisins og alls 900 milljón hluti á þriggja ára tímabili. Miðað við markaðsvirði Icelandair Group í dag er virði þeirra hluta sem greiða á út sem kaupauka um tveir milljarðar króna. Hægt verður að innleysa umrædda kauprétti að þremur árum liðnum.
Lífeyrissjóðurinn Gildi, einn stærsti hluthafi Icelandair Group, hefur þegar gefið það út að hann muni greiða atkvæði gegn tillögunni.
Bankastjórar vel haldnir
Bónuskerfin eru þó komin í gagnið víða í íslensku atvinnulífi, til dæmis hjá Arion banka. Þar hafa verið innleidd bæði kaupauka- og kaupréttarkerfi fyrir alla fastráðna starfsmenn. Lykilstjórnendur fá svo hærri kaupauka en aðrir.
Á meðal þeirra er Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka. Hann var með rúmlega 5,8 milljónir króna á mánuði að meðaltali í laun, hlunnindi og mótframlag í lífeyrissjóð í fyrra sem var 6,6 prósent meira en hann fékk árið 2020. Hann fékk auk þess kaupauka upp á 17,5 milljónir króna í formi hlutabréfa auk þess sem hann getur keypt hlutabréf í bankanum fyrir 1,5 milljónir króna á ári á gengi sem er um helmingur markaðsgengi bankans samkvæmt kaupréttaráætlun Arion banka.
Hinir bankastjórarnir í Kauphöllinni eru heldur ekki á flæðiskeri staddir. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka og eina konan sem stýrir skráðu félagi á Íslandi, var með 5,7 milljónir króna á mánuði að meðaltali, meðal annars vegna þess að hún fékk sérstaka álagsgreiðslu í tengslum við skráningu bankans á markað. Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, hækkaði um 23,3 prósent í launum milli ára og var með 5,3 milljónir króna í laun, hlunnindi og mótframlag að meðaltali á mánuði.
Allir nema einn með yfir fjórar milljónir á mánuði
Einungis einn forstjóri var með laun undir fjórum milljónum krónum á mánuði að meðaltali, Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri fasteignafélagsins Einar. Það munaði þó ekki miklu þar sem meðaltalslaun hans á síðasta ári voru 3,95 milljónir króna á mánuði.
Alls ellefu forstjórar voru með yfir fimm milljónir króna á mánuði í laun, hlunnindi og mótframlag í lífeyrissjóði. Næstur á eftir Árna Oddi kom Árni Pétur Jónsson, sem stýrði Skeljungi í fyrra, með sjö milljónir króna á mánuði. Laun, hlunnindi og mótframlag hækkuðu um meira en þriðjung á árinu 2021. Árni Pétur sagði starfi sínu lausu fyrr á þessu ári og eftir að honum barst tölvupóstur frá yrrum samstarfskonu hans í öðru fyrirtæki, þar sem hann var yfirmaður hennar fyrir um 17 árum síðan. Í tilkynningu sem Árni Pétur sendi frá sér vegna þessa sagði: „Þar greinir hún frá því að í dag upplifi hún samskipti okkar á þessum tíma með þeim hætti að ég hafi gengið yfir ákveðin mörk.“
Skeljungur hagnaðist um 6,9 milljarða króna í fyrra en nær allur sá hagnaður var vegna eignasölu. Til stendur að breyta nafni félagsins í Skel fjárfestingafélag á komandi aðalfundi.
Orri Hauksson, forstjóri Símans, hækkaði líka duglega í launum og var með tæplega 6,4 milljónir króna á mánuði að meðaltali í fyrra, að teknu tilliti til lífeyrisgreiðslna. Það er 16,5 prósent meira en árið áður. Síminn hagnaðist um 5,2 milljarða króna á árinu 2021, sem var umtalsvert meira en árið áður.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi