Fyrri einkavæðing bankanna: Þegar franskur stórbanki reyndist óþekktur þýskur banki
Síðari einkavæðing ríkisbanka hófst í fyrra, þegar byrjað var að selja hluti í Íslandsbanka. Því ferli var svo haldið áfram í mars þegar umdeilt lokað útboð fór fram. Síðasta einkavæðing fjármálafyrirtækja í ríkiseigu hófst skömmu fyrir aldarmót, lauk snemma árs 2003 og leiddi til þess að rúmum fimm árum síðar var allt íslenska bankakerfið hrunið. Kjarninn mun rekja sögu fyrri einkavæðingarinnar í þremur hlutum um páskana. Þetta er þriðji hluti.
Fjórum dögum eftir að einkavæðingarnefnd ákvað að selja Samson-hópi Björgólfsfeðga hlut ríkisins í Landsbankanum, þann 13. september 2002, snéri nefndin sér að því að hefja undirbúning á sölu á Búnaðarbankanum.
Íslenska ríkið hafði lengi lagt mikla áherslu á að eitt af helstu markmiðum einkavæðingar bankanna væri að fá erlenda fjármálastofnun til að koma inn sem eigandi að íslenskum banka. Þar sem hlutur ríkisins í Landsbankanum hafði verið seldur til Samson, sem augljóslega var ekki erlendur banki, þá þótti ljóst að æskilegt væri að bjóðendur í Búnaðarbankann væru með slíkan meðfjárfesti í farteskinu.
Á endanum átti S-hópurinn hæsta boðið í bankann. Í mati breska bankans HSBC, ráðgjafa íslenska ríkisins í ferlinu, á S-hópnum kom hins vegar fram að hann hefði áhyggjur af miklum krosseignatengslum milli þeirra sem komu að fjárfestingarhópnum því það gerði bankanum erfitt fyrir að meta raunverulega stöðu hans. Þá kom einnig fram að þeir aðilar sem mynduðu S-hópinn höfðu verið í miklum lánaviðskiptum við Búnaðarbankann. Samtals námu lán til þeirra 4,3 milljörðum króna, eða 2,9 prósentum af heildarútlánum bankans um mitt ár 2002. Við mat á þekkingu og reynslu S-hópsins var sérstaklega tekið tillit til aðkomu erlendrar fjármálastofnunar og þess tengslanets sem myndi fylgja slíkri aðkomu. Hinir sem skipuðu hópinn vissu enda ekki neitt um bankastarfsemi.
S-hópurinn lét í það skína í upplýsingagjöf sinni til einkavæðingarnefndar að Sociéte Générale, franskur risabanki, ætlaði að kaupa hlut ríkisins með hópnum. Þeim skilaboðum var fyrst komið á framfæri við ráðgjafa nefndarinnar seint í október eða snemma í nóvember 2002. Engum datt hins vegar í hug að hringja í, eða senda fax til, Sociéte Générale og spyrja hvort málið væri raunverulega þannig.
Sociéte Générale varð Hauck & Aufhäuser
Meint aðkoma Sociéte Générale virðist á endanum hafa ráðið úrslitum um það að einkavæðingarnefnd ákvað að mæla með því við ráðherranefnd um einkavæðingu, á fundi sínum 4. nóvember 2002, að S-hópurinn fengi að kaupa hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.
Skrifað var undir rammasamkomulag um kaup hópsins á hlut í Búnaðarbankanum 15. nóvember 2002.
Í fundargerð einkavæðingarnefndar sem dagsett er 12. desember 2002 segir að gert yrði ráð fyrir því að „aðild Soc.Gen yrði staðfest morguninn eftir.“ Það gerðist hins vegar ekki og þess í stað tilkynntu forsvarsmenn S-hópsins einkavæðingarnefnd að erlendi aðilinn sem átti aðild að hópnum yrði ekki kynntur fyrr en skrifað yrði undir kaupsamninginn.
Á fundi sínum þennan dag, 13. desember, ræddi einkavæðingarnefnd um hvernig ætti að bregðast við þessari beiðni. Í fundargerð er bókað að „nefndin taldi nauðsynlegt að vita hverjir væru væntanlegir fjárfestar m.t.t. markmiða ríkisins með sölunni.“ Greinilegt var á viðbrögðunum að þessi afstaða kom nefndarmönnum í opna skjöldu og samkvæmt fundargerðinni var meðal annars rætt um hvort hætta ætti við ferlið. Það var hins vegar ekki gert. Frekar var ákveðið að ganga að ótrúlegum kröfum Ólafs Ólafssonar og félaga hans um að það kæmi ríkinu ekkert við fyrirfram hver væri að kaupa banka af því.
Næsti fundur einkavæðingarnefndar var ekki haldinn fyrr en 6. janúar 2003, 24 dögum síðar og tíu dögum áður en gengið var formlega frá kaupum S-hópsins á ráðandi hlut í Búnaðarbankanum.
Þann 9. janúar, viku áður en skrifað var undir samning um kaup S-hópsins á 45,8 prósent hlut hans í Búnaðarbankanum á 11,4 milljarða króna, var þeim sem sátu í einkavæðingarnefnd í fyrsta sinn gerð grein fyrir því hver erlendi fjárfestirinn var sem ætlaði að fjárfesta með hópnum. Það reyndist alls ekki vera franski stórbankinn Sociéte Générale, heldur þýskur einkabanki að nafni Hauck & Aufhäuser. Sá hafði um 70 prósent tekna sinna af þóknunum og stóð ekki í neinni sýnilegri fjárfestingastarfsemi. Bankinn hafði auk þess átt afleitt rekstrarár 2002 þar sem hann tapaði peningum. Samt var Hauck & Aufhäuser mættur til Íslands til að eignast ráðandi hlut í íslenskum viðskiptabanka.
Kaupsamningur um sölu á ráðandi hlut ríkisins í Búnaðarbankanum var undirritaður 16. janúar 2003 í höfuðstöðvum hans. Í fréttatilkynningu sem S-hópurinn sendi frá sér vegna kaupanna sagði að það væru „mikil tíðindi að traustur, erlendur banki taki þátt í að fjárfesta í íslenskri fjármálastofnun“. Í sameiginlegri tilkynningu frá Hauck & Aufhäuser og ráðgjafanum Michael Sautter frá Société Générale sagði að nokkrar ástæður lægju að baki „þeirri ákvörðun eigenda Hauck & Aufhäuser Privatbankiers að fjárfesta í Búnaðarbankanum. Á meðal þeirra: Búnaðarbankinn væri „vænleg fjárfesting.“
Tók fjórtán ár að fá svör
Eftir stóð þjóð og reyndi að átta sig á hvað hefði gerst. Enginn á Íslandi hafði heyrt um þennan þýska banka áður. Yahoo og Alta Vista, ráðandi leitarvélar þess tíma, skiluðu engum upplýsingum og sumir efuðust beinlínis um hvort bankinn væri raunverulegur.
Rúmum tveimur árum eftir að Hauck & Aufhäuser keypti hlut í Búnaðarbankanum var bankinn búinn að selja hann allan til annarra aðila innan S-hópsins.
Það áttu eftir að líða rúm fjórtán ár frá því að skrifað var undir kaupsamninginn þar til að opinberað var hvað hefði raunverulega átt sér stað. Sú opinberum varð ótrúlegri en nokkurn hefði getað grunað.
Þegar einkavæðing bankanna stóð yfir var lítill fjárfestingarbanki farinn að gera sig mjög gildandi á Íslandi. Hann hét Kaupþing og hann sameinaðist Búnaðarbankanum í apríl 2003, tæpum þremur mánuðum eftir að ríkið seldi hlut sinn í Búnaðarbankanum til S-hópsins. Samhliða tóku stjórnendur Kaupþings öll völd í hinum sameinaða banka.
Takmarki var náð. Líkt og Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, sagði við rannsóknarnefnd Alþingis þá fengu Kaupþingsmenn það sem þeir þurftu við sameininguna; „lánshæfismat og viðskiptabankagrunn á Íslandi."
Allt frá upphafi heyrðust efasemdaraddir um að allt væri eins og af var látið í sölunni á Búnaðarbankanum. Margir efuðust um að Hauck & Aufhäuser væri raunverulegur eigandi sem hefði haft áhuga á að fjárfesta á Íslandi og enn fleiri fannst í meira lagi sérkennilegt hvað það tók stuttan tíma fyrir S-hópinn að renna Búnaðarbankanum saman við Kaupþing.
Þessi umræða fór mjög í taugarnar á Ólafi Ólafssyni og Kaupþingsmönnum. Þeir neituðu því ítrekað opinberlega að Hauck & Aufhäuser hefði verið leppur og að fyrir hefði legið einhverskonar samkomulag um að sameina Búnaðarbankann við Kaupþing fyrirfram.
Ein áhrifamesta sagan af þessu er frásögn Björgólfs Guðmundssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis í janúar 2010. Þar sagði Björgólfur að það hefði verið „óskaplega mikið hatur“ milli Búnaðarbankans/Kaupþings og Landsbanka Íslands, sem hann hefði aldrei skilið. Skýringin hafi verið sú að Kaupþingsmenn töldu að aðilar innan Landsbankans hefðu komið því í umræðuna að tilboð Hauck & Aufhäuser hefði verið einhvers konar „falstilboð frá Þýskalandi“.
Síðan sagði Björgólfur: „Ég man bara eftir því að ég var kallaður til ákveðins aðila, hann hundskammaði mig fyrir að vera að leggja þá í einelti, þessa góðu drengi, Ólaf Ólafsson og félaga út af þessu máli í Þýskalandi, þetta væri allt hreint og klárt og þetta var nú Halldór Ásgrímsson sem að gerði það.“ Halldór Ásgrímsson var á þessum árum formaður Framsóknarflokksins, utanríkisráðherra og forsætisráðherra á árunum 2004 til 2006. Hann lést árið 2015.
Björgólfur sagði við nefndina að honum hefði brugðið mikið við þetta. „Ég man ég sagði við hann [Halldór Ásgrímsson]: Heyrðu, má ég skrifa þetta eftir þér? Af því að hann var, þetta var nú mánudagur kl. 9, erfið helgi og ég fékk miklar skammir fyrir það að ég stæði fyrir einhverjum miklum áróðri, eða við, um þann hóp sem hefði keypt Búnaðarbankann að það væri hvergi allt greitt með erlendu fjármagni. Ég hafði ekki hugmynd um það.“
Aðspurður sagði Björgólfur að þessi fundur hafi líklega átt sér stað árið 2004. Hann sagði að Halldór hefði sagt að „þeir [væru] alltaf að kvarta í sig yfir að við[...]hefðum haldið uppi áróðri að[...]þessi þýski banki væri bara falskt identity.[...]„Þessi tengsl, það voru rosaleg framsóknartengsl þarna inni, alveg ótrúleg. Ég veit ekkert um flokkapólitík eða neitt en þetta var, virtist vera, Ólafur Ólafsson virtist hafa alltaf beinan aðgang að Halldóri og einhvern veginn, og var alltaf að magna upp einhver leiðindi.“
Tók fjórtán ár að fá sannleikann fram
Sú tortryggni sem var til staðar gagnvart ferlinu leiddi til þess að Ríkisendurskoðun var látin vinna skýrslu um einkavæðingu ríkisfyrirtækja árið 2003. Niðurstaðan var sú að „íslensk stjórnvöld hafi í meginatriðum náð helstu markmiðum sínum með einkavæðingu ríkisfyrirtækja á árunum 1998-2003.“ Engar athugasemdir voru gerðar við það hvernig staðið var að sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum til S-hópsins í skýrslunni.
Í júní 2016, rúmum þrettán árum eftir að skrifað var undir kaupin á Búnaðarbankanum, dró loks til tíðinda í þessu málið þegar Tryggvi Gunnarssonar, umboðsmaður Alþingis, sendi upp úr þurru bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Í bréfinu lagi Tryggvi til að skipuð yrði rannsóknarnefnd til að komast til botns í aðkomu þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser að kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003. Þetta ætti að gera vegna þess að Tryggvi hefði nýjar upplýsingar sem byggðu á ábendingum um hver raunveruleg þátttaka þýska bankans var. Á tillögu Tryggva var fallist.
Kjartan Bjarni Björgvinsson var skipaður í rannsóknarnefndina og réð til sín einn starfsmann, saksóknarann Finn Þór Vilhjálmsson. Þeir rannsökuðu málið um nokkurra mánaða skeið. Þann 29. mars 2017 héldu þeir blaðamannafund og birtu 189 blaðsíðna skýrslu um niðurstöður sínar. Í henni var opinberaður blekkingarleikur sem reyndist enn ótrúlegri og margslungnari en flestir ætluðu.
Fléttu sem í fólst að hópur manna stóð að gerð leynilegra baksamninga við Hauck & Aufhäuser um hlutinn í Búnaðarbankanum sem látið var í skína að þýski bankinn hefði keypt.
Hauck & Aufhäuser leppaði eignarhaldið
Baksamningarnir fólu í sér að þýski bankinn var í reynd aðeins að nafninu til meðal kaupenda að hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Eignarhaldið var aðeins til málamynda og tímabundið. Aðrir aðilar fjármögnuðu í reynd, báru alla áhættu og áttu alla hagnaðvon af þessum viðskiptum sem gerð voru í nafni Hauck & Aufhäuser. Þýska bankanum var tryggt algjört skaðleysi af þátttöku sinn í viðskiptunum og fjárhagslegir hagsmunir hans takmörkuðust við umsamda þóknun sem kveðið var á um í baksamningunum.
Sá aðili sem bar alla áhættuna af viðskiptunum var Kaupþing. Þegar fléttan var gerð upp hafði Kaupþing sameinast Búnaðarbankanum.
Þannig lá fyrir að hið keypta bar áhættuna af fléttu utan um kaup á sér.
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sagði að fyrirhuguð, en leynileg, sameining Kaupþings og Búnaðarbankans hafi legið fyrir í október 2002. Þá hafi verið haldnir fundir í þáverandi skrifstofuhúsnæði eignarhaldsfélagsins Sunds ehf. í svonefndum litla turni Kringlunnar. Þau fundarhöld áttu sér því stað nokkrum vikum áður en að ákveðið var að ganga til samninga við S-hópinn um kaup á 45,8 prósent hlut ríkisins í Búnaðarbankanum og mánuðum áður en að skrifað var undir kaupsamninginn. Kaupþings var hins vegar hvergi getið í tilboði S-hópsins.
Það blasti líka við að erlendur aðili var nauðsynlegur til að tilboðinu yrði tekið.
Í skýrslunni sem Kjartan og Finnur unnu var opinberað, líkt og marga hafði grunað, að aðkoma Société Générale var hluti af blekkingarleik. Aldrei stóð til að bankinn myndi kaupa hlut í Búnaðarbankanum. Tveir starfsmenn Þýskalandsarms bankans, sem störfuðu fyrir Ólaf Ólafsson í málinu, höfðu aldrei neina heimild til að skuldbinda slíkan stórbanka í kaup á viðskiptabanka á Íslandi. Mennirnir voru einfaldlega að sinna ráðgjöf og spiluðu þar með í leik Ólafs.
Fyrir ómakið fengu þeir um 300 milljónir króna í þóknun.
Rannsóknarskýrslan varpaði ljósi á, með óyggjandi hætti, að Hauck & Aufhäuser hefði aldrei verið alvöru kaupandi að hlut í Búnaðarbankanum. Aðkoma hans var blekking. Raunveruleikinn var sá að Kaupþing hafði fjármagnaði kaupin að fullu, að baki lágu baksamningar sem tryggðu Hauck & Aufhäuser fullt skaðleysi, þóknanatekjur upp á eina milljón evra fyrir að leppa og sölurétt á hlutnum eftir að þýski leppbankinn var búinn að halda á honum í tæp tvö ár. Sem hann síðan nýtti sér.
Hagnaður sem lenti í aflandsfélögum
Til viðbótar lá fyrir í fléttunni, sem var kölluð „Puffin“, að hagnaður sem gæti skapast hjá réttum eigenda hlutarins, aflandsfélagsins Welling & Partners á Bresku Jómfrúareyjunum, myndi renna til tveggja aflandsfélaga, skráð á sama stað, sem áttu það félag.
Annað þeirra aflandsfélaga var Marine Choice Limited, í eigu Ólafs Ólafssonar. Hann hagnaðist um 3,8 milljarða króna á fléttunni.
Hitt félagið, Dekhill Advisors, hagnaðist um 2,9 milljarða króna á „Puffin“ verkefninu. Þessar fjárhæðir voru greiddar út til þeirra snemma árs 2006. Á núvirði er sameiginlegur hagnaður félaganna tveggja rúmlega 11 milljarðar króna.
Í niðurstöðuhluta skýrslu Kjartans og Finns segir: „Í íslensku lagamáli nær hugtakið blekking almennt til þess að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd manns um einhver atvik. Telja verður raunar að almennur skilningur á þessu hugtaki sé í meginatriðum á sömu lund. rannsóknarnefnd Alþingis telur að þau gögn sem rakin hafa verið og birt í þessari skýrslu, og þau atvik sem umrædd gögn varpa skýru og ótvíræðu ljósi á, sýni fram á svo ekki verði um villst að íslensk stjórnvöld hafi á sínum tíma verið blekkt um aðkomu Hauck & Aufhäuser að þeirri einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf. sem lokið var með kaupsamningi 16. janúar 2003. Á sama hátt varpar skýrsla þessi að mati nefndarinnar skýru og ótvíræðu ljósi á hverjir stóðu að þeirri blekkingu, komu henni fram og héldu svo við æ síðan, ýmist með því að leyna vitneskju sinni um raunverulega aðkomu Hauck & Aufhäuser eða halda öðru fram gegn betri vitund.“
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
3. desember 2022Var Ríkisendurskoðun að misskilja eða veitti Bankasýslan ráðherra ekki réttar upplýsingar?
-
1. desember 2022Íslandsbanki segir ekki hversu margir fengu flokkun sem hæfir fjárfestar á meðan að á útboðinu stóð
-
30. nóvember 2022„Það var mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi“
-
25. nóvember 2022Yfir 60 prósent treysta ekki stjórninni til að selja Íslandsbanka og vilja rannsóknarnefnd
-
24. nóvember 2022„Ríkisendurskoðun hafnar aðdróttunum ákveðinna fjölmiðla um annarleg sjónarmið“
-
21. nóvember 2022Spyr Bjarna hvort Fjármálaeftirlitið hafi lagaheimildir til að rannsaka Bjarna
-
21. nóvember 2022Ekki í fyrsta sinn sem ríkisbanki, Ríkisendurskoðun og Bankasýslan fara í hár saman
-
18. nóvember 2022Vill að Katrín mæti fyrir fjárlaganefnd og geri grein fyrir næstu skrefum í bankasölu
-
17. nóvember 2022Sögðu Sjálfstæðisflokkinn bara vilja ræða leka, ekki bankasöluna eða skýrsluna um hana