Hlutabréfaverð skaust upp á sama tíma og afkoma flestra félaga varð verri
Úrvalsvísitala íslensku Kauphallarinnar hefur hækkað um 80 prósent á einu ári. Alls jókst markaðsvirði 17 af þeim 19 félögum sem skráð eru í hana í fyrra. Samt skiluðu 14 af þessum 19 félögum verri afkomu en á síðasta ári en þau gerðu 2020. Hvað útskýrir þetta eiginlega?
Síðasta ár var gjöfult fyrir eigendur hlutabréfa á Íslandi. Alls hækkaði úrvalsvísitalan, sem mælir gengi bréfa í þeim tíu skráðu félögum sem eru með mestan seljanleika, um 20,5 prósent. Sú tala er þó villandi þar sem Icelandair var inni í vísitölunni þangað til í desember í fyrra, en bréf í flugfélaginu lækkuðu alls um 78,3 prósent á árinu 2020.
Níu þeirra tíu félaga sem mynda hana núna hækkuðu í verði í fyrra. Mest allra hækkaði Kvika banki, alls um 63,5 prósent, og svo TM, sem Kvika er að fara að sameinast í náinni framtíð, sem hækkaði um 53,6 prósent.
Alls hækkuðu tólf þeirra 19 félaga sem skráð eru á Aðalmarkað hérlendis um 26,9 til 63,5 prósent. Önnur fimm hækkuðu um 2,9 til 12,6 prósent. Og tvö lækkuðu: áðurnefnt Icelandair Group og fasteignafélagið Reitir, sem lækkaði um 2,9 prósent.
Hækkunarhrinan hefur að mestu haldið áfram á þessu ári. Alls hefur úrvalsvísitalan hækkað um tólf prósent frá áramótum og þegar hækkun hennar er skoðuð frá lægsta punkti síðasta árs, 23. mars 2020, þá hefur vísitalan hækkað um 80 prósent. Það þýðir að ef fjárfestir sem átti hlutabréfasafn sem er samansett á sama hátt og úrvalsvísitalan og var metið á einn milljarð króna fyrir ári síðan, þá myndi hann hagnast um 800 milljónir króna ef hann seldi bréfin í dag.
14 af 19 félögum skiluðu verri afkomu
Það er eðlilegt að velta fyrir sér hvað veldur þessum miklu hækkunum. Fátt í undirliggjandi rekstri flestra félaganna í Kauphöll Íslands bendir til þess að virði þeirra ætti að hækka. Raunar er það þannig að 14 af 19 félögum sem skráð eru á Aðalmarkað skiluðu verri afkomu á árinu 2020 en á árinu 2019. Þ.e. hagnaður þeirra dróst saman og í einu tilfelli, hjá Icelandair Group, þá jókst tapið stórkostlega milli ára. Flugfélagið tapaði 7,8 milljörðum króna árið 2019 en heilum 51 milljarði króna í fyrra.
Þetta gerðist þrátt fyrir að þessi stærstu fyrirtæki á Íslandi ættu, miðað við þróun mála, átt að hafa lækkað fjármagnskostnað sinn á síðasta ári, enda vextir á Íslandi í sögulegu lágmarki.
Fjöldi viðskipta jókst hins vegar mikið á síðasta ári þegar þau voru 56.337, eða 226 á dag. Því er ljóst að fleiri eru að sýsla með hlutabréf en áður. Ástæður þess má rekja til kórónuveirufaraldursins, að minnsta kosti að hluta. Einstaklingar geta ekki lengur eytt peningum í ýmislegt sem þeir gátu áður eytt í, t.d. ferðalög. Auk þess hafa launahækkanir átt sér stað frá því að faraldurinn skall á, sparnaður hefur hlaðist upp og ofan á það hafa skuldir heimila landsins aukist mikið vegna fjárfestinga, þó aðallega í íbúðarhúsnæði.
Það eru 58 prósent fleiri viðskipti en voru á árinu 2019 og mesti fjöldi viðskipta á hlutabréfamarkaði í tólf ár, eða frá hrunárinu 2008. Íslenskur hlutabréfamarkaður nær þurrkaðist út eftir bankahrunið í október það ár og því má segja að árið í fyrra sé metár hins endurreista hlutabréfamarkaðar þegar kemur að fjölda viðskipta.
Munur á þeim sem gengu betur
Þau fimm félög sem skiluðu betri afkomu á síðasta ári en árið þar á undan voru heldur ekki steypt í sama mót. Þannig jókst hagnaður Arion banka úr 1,1 milljarði króna í tæplega 12,5 milljarða króna og hagnaður TM fór úr 1,9 milljarði króna í 5,3 milljarða króna. Fyrrnefndi bankinn hefur líka tilkynnt að skila 18 milljörðum króna til hluthafa sinna í formi arðgreiðslna og endurkaupa á hlutabréfum á þessu ári og að hann stefni að því að skila yfir 50 milljörðum króna til hluthafa á næstu árum.
Í tilfelli síðarnefnda félagsins telst með í hagnaði tekjufært undirverð vegna kaupa á fjármögnunarfyrirtækinu Lykli upp á tæpa 2,3 milljarða króna, en rekstrarhagnaður TM var 3,4 milljarðar króna í fyrra. Sjóvá bætti líka vel við hagnaðinn sinn, og fóru úr 3,9 milljörðum króna 2019 í 5,3 milljarða króna hagnað á árinu 2020. Þá stórbatnaði rekstur Eimskips, sem gerir upp í evrum. Hagnaður þess félags fór úr einni milljón evra í 4,5 milljónir evra. Á lokagengi síðasta árs var sá hagnaður rétt rúmlega 700 milljónir króna.
Fimmta félagið sem bætti afkomu sína, tapaði samt á síðasta ári. Þar er um að ræða fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækið Sýn sem lækkaði taprekstur sinn á milli ára úr 1.748 milljónum króna í 405 milljónir króna.
Til viðbótar við þessa hækkun öfluðu skráð félög sér 29 milljarða króna á markaði, en þar bar hlutafjárútboð Icelandair Group hæst, enda þriðja stærsta hlutafjárútboð í sögu íslenska hlutabréfamarkaðarins. Samhliða varð tvöföldun á fjölda einstaklinga sem áttu bréf skráð á markaðnum, enda þátttaka almennings í hlutafjárútboði Icelandair Group mikil.
Alþjóðleg þróun
Þessi staða er sannarlega ekki einskorðuð við Íslands.
Eftir að hlutabréfaverð hrundi í heiminum frá lokum febrúar í fyrra og fram til 23. mars 2020 þá tókst að snúa stöðunni á hlutabréfamörkuðum við með umfangsmiklum aðgerðum seðlabanka og þjóðríkja. Þar vísuðu Bandaríkin veginn.
Vextir lækkuðu sem gerðu fjármagn ódýrara og peningum var bókstaflega dælt inn í hagkerfi heims til að halda þeim gangandi á meðan að heimsfaraldurinn gengur yfir.
Í Bandaríkjunum hafa hlutabréf að jafnaði hækkað með svipuðum hætti og hérlendis. Þar eru uppi miklar áhyggjur af því að verið sé að blása upp hlutabréfabólu. Ekkert í undirliggjandi rekstri margra skráðra félaga þár réttlæti heldur þá miklu hækkun sem sást á síðasta ári. Uppáhaldsdæmi flestra sérfræðinga er rafbílaframleiðandinn Tesla. Á árinu 2020 hækkuðu bréf í félaginu um meira en 700 prósent, Tesla komst inn á lista yfir tíu stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna og varð verðmætasti bílaframleiðandi í heimi. Elon Musk, stofnandi Tesla, varð fyrir vikið þriðji ríkasti maður heims.
Miðað við markaðsvirði var Tesla orðið meira virði en samkeppnisaðilarnir Toyota, Volkswagen, General Motors, Ford, Fiat Chrysler, Nissan and Daimler samanlagt. Toyota eitt og sér seldi um tíu milljónir bifreiða á ári. Í fyrra seldust 367.500 Teslur.
Tesla er að byggja tvær risaverksmiðjur og félagið hefur skilað hagnaði fimm ársfjórðunga í röð. Sá hagnaður er þó ekki mikil og Toyota hagnaðist um sex sinnum hærri upphæð á þriðja ársfjórðungi í fyrra en Tesla gerði á öllu þessu fimm ársfjórðunga tímabili.
Gagnrýnisraddir heyrast
Á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt þessa stöðu er bandaríski fjárfestirinn Seth Klarman, stofnandi vogunarsjóðsins Baupost Group, sem er meðal annars stór eigandi í Bakkavör Group, félags sem á rætur sínar að rekja til Íslands. Alls stýra sjóðir innan Baupost um 30 milljörðum dala, eða rúmlega 3.800 milljörðum króna. Til samanburðar var verg landsframleiðsla alls íslenska hagkerfisins undir þrjú þúsund miljörðum króna í fyrra.
Í bréfi sem hann skrifaði til fjárfesta fyrr á þessu ári, og birt var að hluta í Financial Times, benti Klarman á að hin umfangsmikla innspýting á ódýru eða nær ókeypis peningum inn á fjármálamarkaði hafi farið langt með að eyða allri áhættu sem fylgi fjárfestingu í hlutabréfum.
Fyrir vikið sé nær ómögulegt að meta raunverulega stöðu efnahagslífsins. Klarman líkti því við að reyna að meta hvort einhver sé með hita eftir að viðkomandi hafði tekið stóran skammt af hitalækkandi lyfjum. „Líkt og með froska í vatni sem er hægt og rólega verið að hita upp að suðu, þá er verið að skilyrða fjárfesta til að átta sig ekki á hættunni,“ skrifaði Klarman.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi