Mynd: Bára Huld Beck

Kaupendalistinn sem gerði allt vitlaust í íslensku samfélagi

Á miðvikudag var, eftir dúk og disk, birtur listi yfir þá 207 aðila sem fengu að kaupa í Íslandsbanka í lokuðu útboði þar sem afsláttur var veittur á almenningseign. Á listanum er að finna föður ráðherrans sem seldi hlutina í bankanum, útgerðarmenn, hrunverja, fólk í virkum lögreglurannsóknum, starfsmenn söluráðgjafa og ýmsa sem engum datt í hug að væru flokkaðir sem „fagfjárfestar“. Stjórnsýsluúttekt verður framkvæmd á sölunni en ákall er um skipun rannsóknarnefndar.

Þegar lokað útboð á 22,5 pró­sent hlut íslenska rík­is­ins í Íslands­banka var yfir­staðið þann 22. mars síð­ast­lið­inn skrif­aði Banka­sýsla rík­is­ins Bjarna Bene­dikts­syni, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, bréf. Í því sagði að sölu­ráð­gjafar stofn­un­ar­inn­ar, sem ráðnir höfðu verið án útboðs til að finna kaup­endur að hlutn­um, hefðu fengið 150 til 200 íslenska og erlenda fjár­festa til að skrá sig fyrir hlutum fyrir sam­tals meira en 100 millj­arða króna. Lagt var til að selja þessum hópi fyrir 52,65 millj­arða króna með 2,25 pró­senta afslætti frá mark­aðs­verði, sem gerir frá­vik upp á 4,1 pró­sent. 

Því liggur fyr­ir, sam­kvæmt bréf­inu sem birt var opin­ber­lega á vef stjórn­ar­ráðs­ins í gær, að umfram­eft­ir­spurn var að minnsta kosti tvö­föld. Banka­sýslan óskaði eftir því að fá heim­ild frá Bjarna til að ganga frá sölu á hlutnum á grund­velli þess­arar nið­ur­stöðu. Undir bréfið skrifar öll stjórn stofn­un­ar­inn­ar: Lárus Blön­dal stjórn­ar­for­mað­ur, Mar­grét Krist­manns­dóttir vara­for­maður stjórnar og Vil­hjálmur Bjarna­son með­stjórn­andi. Bjarni svar­aði sam­dæg­urs og í stuttu bréfi veitti hann Banka­sýsl­unni heim­ild til að ganga frá söl­unn­i. 

Hæfnin skil­greind af sölu­ráð­gjöf­unum

Leiðin sem var valin til að selja hlut­inn kall­ast til­boðs­leið. Hún er fram­kvæmd á nokkrum klukku­tímum og ákveðið var að ein­blína á það sem kallað var „hæfir fjár­fest­ar“. Síðar hefur verið vísað í að þar sé um að ræða þá sem skil­grein­ast sem fagjár­festar sam­kvæmt lög­um. Til þess þarf að upp­fylla tvö af þremur skil­yrð­um: að hafa átt ákveðið mörg við­skipti á árs­fjórð­ungi, að fjár­­­­­mála­­­gern­ingar þeirra og inn­­i­­­stæður væru sam­an­lagt virði 500 þús­und evra (um 70 milljón króna) eða meira eða að fjár­­­­­festir hafi gegnt eða gegni, í að minnsta eitt ár, stöðu í fjár­­­­­mála­­­geir­­­anum sem krefst þekk­ingar á fyr­ir­hug­uðum við­­­skiptum eða þjón­ust­u.

Rök­semd­ar­færslan fyrir því að fara þessa leið var meðal ann­ars sú að það myndi spara kostn­að. Ekki þyrfti að ráð­ast í útboðs­lýs­ingu til að upp­fylla upp­lýs­inga­skil­yrði fyrir almenna fjár­festa, venju­legt fólk. Bara þeir sem hefðu óskil­greindan betri skiln­ingi á því sem þeir væru að kaupa, var boðið að vera með. 

700 millj­ónir fyrir að selja hlut á nokkrum klukku­tímum

Síðar kom í ljós að kaup­end­urnir sem fengu að taka þátt í til­boð­inu voru alls 207 tals­ins og að 85 pró­sent þeirra voru inn­lend­ir. Hlut­irnir voru seldir á nokkrum klukku­tímum og ráð­gjaf­arnir sem valdir voru til að sjá um útboðið fá um 700 millj­ónir króna frá rík­inu fyrir að hafa selt hlut­inn til þessa hóps. 

Tvær grímur runnu á marga þegar kom í ljós að margir þess­ara aðila voru ekki það sem kalla mætti stofn­ana­fjár­festar sem hefðu burði til að styðja við bank­ann til lengri tíma né voru að kaupa í því magni að nauð­syn­legt væri að velja þá til þátt­töku í lok­uðu útboði umfram almenna fjár­festa. Tor­tryggni vakn­aði strax og til­kynn­ingar um kaup stjórn­enda og stjórn­ar­manna Íslands­banka, eða aðila sem tengd­ust þeim, voru birtar í Kaup­höll til að mæta til­kynn­ing­ar­skyldu um inn­herj­a­við­skipti. Þar voru ein­stak­lingar að kaupa fyrir nokkrar millj­ónir króna. Þrýst­ingur var settur á að fá frek­ari upp­lýs­ingar um hverjir hafi fengið að kaupa og við hvert skref sem var stigið í að opin­bera það vökn­uðu fleiri spurn­ing­ar. 

Þeir sem keyptu fyrir minna en 30 millj­ónir króna voru 59 tals­ins. Þeir sem keyptu fyrir minna en 50 millj­ónir voru 79. Alls 167 aðilar keyptu fyrir 300 millj­ónir króna eða minna. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum sem Kjarn­inn hefur aflað er ljóst að sumir þeirra sem sölu­ráð­gjaf­arnir flokk­uðu sem fag­fjár­festa eru ekki skil­greindir sem slíkir í öðrum fjár­mála­fyr­ir­tækj­um. Í því birt­ist það vanda­mál að fyr­ir­tæki í verð­bréfa­miðlun eru með það hlut­verk sam­kvæmt lögum að meta sjálf hvort við­skipta­vinir þeirra upp­fylli skil­yrði þess að telj­ast slík­ur. 

Þá liggur fyrir að margir, bæði inn­lendir og erlend­ir, fag­fjár­festar fengu ekki boð um að vera með þrátt fyrir að sumir þeirra hafi leitað beint eftir því. Hefur Kjarn­inn til að mynda undir höndum tölvu­póst­sam­skipti milli aðila og Banka­sýsl­unnar þar sem leitað var eftir því að stór alþjóð­legur fjár­fest­ing­ar­sjóður fengi að taka þátt í útboð­inu 22. mars. Engin svör bár­ust. Umræddur aðili sem sendi póst­inn er ekki á meðal þeirra sölu­ráð­gjafa sem valdir voru til að sjá um útboð­ið.

Óvar­legt og athuga­semdir

Þrýst­ingur jókst á að birta list­ann yfir þá sem fengu að kaupa. Um rík­is­eign væri að ræða og nauð­syn­legt gegn­sæi þyrfti til svo almenn­ingur treysti því að rétt hefði verið staðið að mál­u­m. 

Fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið lét loks undan þrýst­ingi og sendi bréf á Banka­sýsl­una 30. mars, átta dögum eftir að salan var frá­geng­in, og bar um lista yfir þá sem keyptu. Banka­sýslan svar­aði sex dögum síðar. Í bréfi hennar sagði að hún hefði leitað lög­fræði­ráð­gjafar hjá LOGOS um hvort stofn­un­inni væri heim­ilt að afhenda eða birta opin­ber­lega upp­lýs­ingar um kaup­end­ur. „Þar kemur meðal ann­ars fram álit þess efnis að vegna laga­á­kvæða um þagn­ar­skyldu væri óvar­legt að nafn­greina kaup­endur í útboð­inu án skrif­legs sam­þykkis við­kom­and­i.“ 

Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins.
Mynd: Skjáskot/Dagmál

Banka­sýsla rík­is­ins leit­aði jafn­framt eftir afstöðu Íslands­banka til máls­ins, en fyr­ir­tækja­ráð­gjöf og mark­aðsvið­skipti bank­ans gegndu hlut­verki umsjón­ar­að­ila og önn­uð­ust upp­gjör við­skipt­anna. „Þar kemur meðal ann­ars fram að vegna laga­á­kvæða um þagn­ar­skyldu myndi bank­inn gera athuga­semdir við birt­ingu upp­lýs­inga um kaup­endur úr hópi við­skipta­vina bank­ans nema að fengnu sam­þykki þeirra.“

Banka­sýslan komst að þeirri nið­ur­stöður að opin­ber birt­ing á kaup­enda­list­anum væri á skjön við við­teknar venjur á alþjóð­legum mörk­uð­um. „Ein­dregið er mælt gegn slíkri birt­ingu og látið að því liggja að frá­vik frá mark­aðs­fram­kvæmd að þessu leyti kynni að hafa nei­kvæð áhrif á sölu­með­ferð í tengslum við eft­ir­stæðan hlut íslenska rík­is­ins í Íslands­banka.“

Í ljósi alls ofan­greinds taldi Banka­sýsla rík­is­ins sér ekki heim­ilt að birta opin­ber­lega þær upp­lýs­ingar sem ráðu­neytið hefur óskað eft­ir. Rík­is­stjórn­in, undir gríð­ar­legum þrýst­ingi, ákvað hins vegar að birta list­ann á mið­viku­dag eftir að fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra hafði lagt sjálf­stætt mat á hvort það væri lög­legt eða ekki.

Sá veru­leiki sem þar birt­ist hefur leitt til þess að Alþingi var tekið í gísl­ingu í lok vik­unnar vegna krafna stjórn­ar­and­stöðu um að skipuð yrði rann­sókn­ar­nefnd til að fara yfir söl­una. Stjórn­ar­liðar hafa meira að segja gagn­rýnt söl­una. Rík­is­end­ur­skoðun var ræst út til að gera stjórn­sýslu­út­tekt á henni og fyrr­ver­andi nefnd­ar­maður í rann­sókn­ar­nefnd Alþingis um banka­hrunið hefur stigið fram, sagt söl­una ólög­lega og kraf­ist þess að við­skipt­unum verði rift. 

Útgerðin fyr­ir­ferða­mikil

Það var ýmis­legt sem vakti athygli á list­anum yfir kaup­end­ur. Eitt af því er að aðilar sem hafa hagn­ast á útgerð eru fyr­ir­ferða­miklir á meðal þeirra. 

Þar má nefna eign­­ar­halds­­­fé­lagið Stein ehf., sem er í eigu Þor­­steins Más Bald­vins­­sonar for­­stjóra Sam­herja og Helgu S. Guð­­munds­dótt­­ur, fyrr­ver­andi eig­in­­konu hans, sem keypti hluta­bréf í lok­aða útboð­inu fyrir 296,3 millj­­ónir króna. 

Félög sem Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Samherja, og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, eiga í keyptu í útboðinu.
Mynd: Samherji

Í Eign­ar­halds­fé­lag­inu Stein​​i er meðal ann­ars 43,48 pró­­sent eign fyrr­ver­andi hjón­anna í Sam­herja Hold­ing ehf., sem heldur utan um erlenda eign Sam­herj­a­sam­stæð­unnar og hlut hennar í Eim­skip. Á meðal eigna sem eru vistaðar inni í Sam­herja Hold­ing er Namib­­íu­­starf­­semi Sam­herja, sem er til umfangs­­mik­illar rann­­sóknar hér­­­lendis vegna meintra mút­u­greiðslna, pen­inga­þvættis og skatta­snið­­göng­u. Þor­steinn Már er með stöðu sak­born­ings í þeirri rann­sókn.

Eign­ar­halds­fé­lagið Steinn átti  hreina bók­­færða eign upp á 61,7 millj­­arða króna í lok árs 2020. 

Kjálka­nes ehf., næst stærsti eig­andi Síld­ar­vinnsl­unnar með 17,44 pró­sent eign­ar­hlut og á meðal stærstu eig­enda Sjó­vár, keypti í Íslands­banka fyrir um 110 millj­ónir króna. Félagið er í Björg­­­­ólfs Jóhanns­­­­son­­­­ar, fyrr­ver­andi for­­­­stjóra Sam­herja, og fólks sem teng­ist honum fjöl­­­­skyld­u­­­­bönd­­­­um. Um er að ræða sama hóp og á útgerð­ar­fyr­ir­tækið Gjög­ur. 

For­stjóri Síld­ar­vinnsl­unn­ar, Gunn­þór Ingva­son, keypti einnig hlut í bank­an­um, bæði í eigin nafni fyrir 2,2 millj­ónir króna og í gegnum félagið Hraun­lón, sem hann á 60 pró­sent hlut í, fyrir 4,5 millj­ónir króna. Gunn­þór og tveir félagar hans í fram­kvæmda­stjórn Síld­ar­vinnsl­unnar urðu sterk­efn­aðir nán­ast yfir nóttu þegar fyr­ir­tækið var sett á markað í fyrra. Í aðdrag­anda þess höfðu þeir keypt félagið Hraun­lón, sem átti hlut í Síld­ar­vinnsl­unni, á 640 millj­ónir króna. Þeir seldu 37 pró­sent þess hlutar í útboð­inu og fengu fyrir 608 millj­ónir króna. Eft­ir­stand­andi hlutur þeirra er met­inn á um 1,6 millj­arð króna.

Stærstu eig­endur Morg­un­blaðs­ins keyptu

Fjár­fest­inga­fé­lagið Krist­inn ehf., í eigu Guð­bjargar Matth­í­as­dóttur og fjöl­skyldu, fékk líka að kaupa nokkuð stóran hlut í Íslands­banka, eða fyrir 468 millj­ónir króna. Guð­björg er stærsti eig­andi Ísfé­lags Vest­manna­eyja og hefur fært út kví­arnar í ótengda geira á und­an­förnum árum. Á meðal þeirra eigna sem fjöl­skylda hennar hefur fjár­fest í er ÍSAM og Árvak­ur, útgáfu­fé­lag Morg­un­blaðs­ins, en félög Guð­bjargar og tengdra aðila eru stærstu eig­end­ur þess og hafa lagt útgáfu­fé­lag­inu til umtals­vert fé á liðnum árum til að mæta miklum tap­rekstri. Þau eru auk þess umsvifa­mikil á fast­eigna­mark­aði og eiga meðal ann­ars Korpu­torg auk fjöl­margra verð­mætra fast­eigna í Skeif­unni.

Guðbjörg Matthíasdóttir og fjölskylda hennar eiga meðal annars Ísfélag Vestmannaeyja og eru stærstu eigendur útgáfufélags Morgunblaðsins.
Mynd: Bára Huld Beck

Stál­­skip, í eigu eigu hjón­anna Guð­rúnar Lár­us­dóttur og Ágústs Sig­­urðs­­sonar og þriggja barna þeirra, keypti fyrir um 225 millj­ónir króna í lok­aða útboð­inu. Stál­­skip var stofnað sem útvegs­­fyr­ir­tæki árið 1970 en seldi fryst­i­­tog­ar­ann sinn og allan kvóta árið 2014. Í kjöl­farið var því breytt í fjár­­­fest­inga­­fé­lag.

Félagið Jakob Val­geir keypti hlut í Íslands­banka fyrir 936 millj­ónir króna í lok­aða útboð­inu. Fyrir átti það hlut í bank­anum sem er met­inn á um tvo millj­arða króna. Þetta félag var áður í eigu útgerða­manns­ins Jak­obs Val­geirs Flosa­son­ar, en meiri­hluta­eig­andi er nú skráður eig­in­kona hans, Björg Hildur Daða­dótt­ir, með 68,9 pró­sent hlut í útgerð­inni. Aðrir skráðir eig­endur eru tveir bræður Jak­obs Val­geirs.

Faðir fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra þurfti að kaupa

Jakob Val­geir og Þor­steinn Már tengj­ast líka öðrum hópi sem á list­anum sem fékk að kaupa og hefur vakið eft­ir­tekt: Þeim sem voru fyr­ir­ferða­miklir í eig­enda- eða við­skipta­manna­hópi gömlu bank­anna fyrir hrun. 

Jakob Val­geir var á sínum tíma stjórn­ar­for­maður og hlut­hafi félags sem fékk nafnið Stím ehf. Það félag var búið til til að kaupa hluti í Glitni banka og FL Group, stærsta eig­anda Glitnis banka, seint á árinu 2007 fyrir 24,8 millj­arða króna á þávirði. Glitn­ir, sem er fyr­ir­renn­ari Íslands­banka, lán­aði Stím að mestu fyrir kaup­un­um. Þegar Stím var gert upp feng­ust ein­ungis 15 millj­ónir króna upp í um 24 millj­arða króna kröf­ur. 

Þor­­steinn Már var svo stjórn­­­ar­­for­­maður Glitnis banka, fyr­ir­renn­­ara Íslands­­­banka, þegar sá banki fór í þrot haustið 2008.

Það eru fleiri með tengsl við fallna banka sem er að finna á list­anum yfir þá sem fengu að kaupa. Bene­dikt Sveins­son, faðir Bjarna Bene­dikts­son­ar, átti um tíma umtals­vert af hluta­bréfum í Glitni og var leystur undan sjálf­skuld­ar­á­byrðum Glitnis á lánum til félags síns Haf­silf­urs þann 29. sept­em­ber 2008, sama dag og til­kynnt var að íslenska ríkið ætl­aði sér að eign­ast 75 pró­sent hlut í Glitni vegna bágrar stöðu hans. Nokkrum dögum síðar varð Glitnir gjald­þrota. Bene­dikt keypti hlut í Íslands­banka í mars í gegnum sama félag, Haf­silf­ur. 

Fyrr­ver­andi stór­leik­endur í banka­kerfi sem hrundi

Einnig var þar að finna félög í eigu fjár­­­festa sem komu að banka­­rekstri hér­­­lendis á árunum fyrir fjár­­­mála­hrun­ið, þegar bank­­arnir urðu gjald­­þrota og voru þjóð­nýtt­­ir. Þeirra á meðal var fjár­­­fest­ing­­ar­­fé­lagið SKEL, en stjórn­­­ar­­for­­maður félags­­ins, Jón Ásgeir Jóhann­es­­son, kom að félögum sem voru á meðal stærstu hlut­hafa Glitnis banka, for­vera Íslands­­­banka, þegar hann féll í októ­ber 2008. Eitt þeirra félaga, FL Group, heitir í dag Stoðir og er stýrt af Jóni Sig­­urðs­­syni. Hann var for­­stjóri FL Group fyrir banka­hrun og sat sem vara­­for­­maður stjórnar Glitn­­is. Stoðir er einnig á meðal kaup­enda í Íslands­­­banka. Á meðal stórra hlut­hafa í FL Group fyrir banka­hrun­ið, og stórra lán­tak­enda hjá Glitni, voru félög í eigu Pálma Har­alds­son­ar. Félag hans, Sól­völl­ur, keypti í Íslands­banka fyrir 225 millj­ónir króna.

Þá keyptu félög í eigu bræðr­anna Lýðs og Ágústs Guð­munds­sona, sem oft­­ast eru kenndir við Bakka­vör, einnig fyrir mörg hund­ruð millj­­ónir króna í útboði 22. mars, en þeir voru stærstu eig­endur Kaup­­þings áður en sá banki hrundi 2008. Lýður var dæmdur til fang­els­is­vistar eftir banka­hrun­ið. Félag í eigu Sig­urðar Val­týs­son­ar, sem starfar fyrir bræð­urna, keypti einnig hlut.

Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir stýrðu Exista fyrir bankahrun og komu meðal annars fyrir í Panamaskjölunum.
Mynd: Kjarninn

Félagið Lyf og Heilsa hf., sem keypti í lok­aða útboð­inu fyrir rúmum tveimur vik­um, er í eigu Jóns Hilm­­­ars Karls­­­son­­ar. Faðir hans, Karl Wern­er­s­­­son, átti áður félagið en seldi syni sínum það áður en hann varð gjald­­­þrota. Þrotabú Karls höfð­aði í kjöl­farið nokk­ur rift­un­­­­ar­­­­mál þar sem talið var að eign­um hefði verið komið und­an kröf­u­höf­um, meðal ann­­­­ars með því að eign­um Karls væri komið yfir til Jóns Hilm­­­­­­­ars. Karl var aðal­­­eig­andi fjár­­­­­fest­ing­­­ar­­­fé­lags­ins Milestone fyrir banka­hrun, sem var um tíma á meðal stærstu eig­enda Glitn­­­is. Hann hefur setið í fang­elsi fyrir alvar­­leg efna­hags­brot tengd hrun­inu.

Erlendir skamm­tíma­sjóðir sem virð­ast þegar byrj­aðir að selja

Á meðal þeirra sem voru valdir til að kaupa í lok­aða útboð­inu voru líka erlendir sjóðir sem höfðu líka keypt í almenna útboð­inu í fyrra­sum­­­ar. Sex þeirra sem keyptu í bank­­anum í aðdrag­anda skrán­ingar í maí í fyrra seldu bréfin sem þeim var úthlutað innan þriggja daga eftir skrán­ingu með umtals­verðum hagn­aði, en sölu­and­virðið var um fjórir millj­­arðar króna. Á meðal þess­­ara sex voru sjóðir Sil­ver Point Capital, Fiera Capital, Lans­downe Partners og Key Squ­are Partners.

Þrátt fyrir að þessir sjóðir hafi selt sig nán­­ast strax út úr Íslands­­­banka þegar þeir gátu eftir síð­­asta útboð þótti til­­hlýð­i­­legt að bjóða þeim þátt­­töku í lok­aða útboð­inu og veita þeim afslátt af kaup­verði. Sil­ver Point keypti fyrir rúm­­lega 1,3 millj­­arða króna, Lands­down Partners fyrir næstum 556 millj­­ónir króna, Fiera Capi­tal fyrir 468 millj­­ónir króna og KeySqu­are Partners fyrir 409,5 millj­­ónir króna. Sam­tals keyptu þessir fjórir sjóðir því fyrir rúm­­lega 2,7 millj­­arða króna í lok­aða útboð­inu og fengu í stað­inn 5,2 pró­­sent hlut í Íslands­­­banka.

Auk þess var sjóður í stýr­ingu banda­ríska sjóð­­stýr­ing­­ar­­fyr­ir­tæk­is­ins RWC Asset Mana­gement val­inn sem einn horn­­steins­fjár­­­fest­anna í Íslands­­­banka í aðdrag­anda almenna útboðs­ins í fyrra. Sá sjóður fékk þá að kaupa 1,54 pró­­sent hlut á 2,4 millj­­arða króna. Hann hafði selt þorra eignar sinnar um síð­­­ustu ára­­mót og leyst um leið út umtals­verðan hagn­að. Sjóður í stýr­ingu RWC Asset Mana­gement fékk að kaupa hluti fyrir tæp­­lega tvo millj­­arða króna. 

Sam­kvæmt upp­lýs­ingum sem teknar hafa verið saman fyrir Kjarn­ann var velta með bréf í Íslands­banka marg­föld dag­ana eftir útboðið miðað við með­al­við­skipti á dag á árinu fyrir útboð­ið. Það bendir til þess að margir sem keyptu í útboð­inu hafi selt sig niður strax fyrstu dag­anna eftir það. Heim­ildir Kjarn­ans herma að þar sem meðal ann­ars um að ræða erlenda sjóð­i. 

Starfs­menn sölu­ráð­gjafa keyptu

Þá sýnir list­inn að starfs­menn eða makar hjá hluta þeirra fyr­ir­tækja sem voru ráðnir til að finna kaup­endur keyptu sjálfir í útboð­inu. Stærsti eig­andi Íslenskra verð­bréfa er félagið Björg Capi­tal ehf. sem á 50 pró­sent hlut. Þor­björg Stef­áns­dótt­ir, eig­in­kona Jóhann M. Ólafs­sonar fram­kvæmda­stjóra Íslenskra verð­bréfa, er eig­andi Bjargar Capital, sem keypti fyrir 22,5 millj­ónir króna í útboð­inu. Á meðal ann­arra eig­enda Íslenskra verð­bréfa er félag í eigu Sam­herja og Kjálka­nes, í eigu sömu aðila og eiga útgerð­ina Gjög­ur. 

Íslandsbanki var á meðal umsjónaraðila í útboði á hlutum í bankanum sjálfum.
Mynd: Íslandsbanki

Fyr­ir­tækja­ráð­gjöf og verð­bréfa­miðlun Íslands­banka voru á meðal umsjón­ar­að­ila útboðs­ins. Tveir starfs­menn verð­bréfa­miðl­unar bank­ans, Ómar Özcan sem keypti fyrir 27 millj­ónir króna, og Geir Oddur Ólafs­son sem keypti minnst allra þeirra sem voru sam­þykkt­ir, eða fyrir rúm­lega 1,1 milljón króna, tóku þátt í útboð­inu. Þá keypti Brynjólfur Stef­áns­son, sjóðs­stjóri hjá Íslands­sjóð­um, sjóð­stýr­ing­ar­fyr­ir­tækis í eigu Íslands­banka, fyrir 4,5 millj­ónir króna, Guð­mundur Magnús Daða­son, sem starfar í gjald­eyr­is­miðlum bank­ans, keypti fyrir 5,5 millj­ónir króna og Ásmundur Tryggva­son, sem er fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tækja- og fjár­fest­inga­sviðs, keypti fyrir 11 millj­ónir króna. Þá keypti Ari Dan­í­els­­­son, stjórn­­­­­ar­­­maður í Íslands­­­­­banka, fyrir 55 millj­­­ónir króna, og Rík­­­harður Daða­­­son, sam­býl­is­­­maður Eddu Her­­­manns­dóttur mark­aðs- og sam­­­skipta­­­stjóra bank­ans, keypti fyrir tæpar 27 millj­­­ónir króna.

Inn­herji greindi svo frá því í gær að for­stöðu­maður eigna­stýr­ingar Festu líf­eyr­is­sjóðs, Baldur Snorra­son, hafi sjálfur keypt hlut í Íslands­banka sam­hliða líf­eyr­is­sjóðnum sem hann starfar fyr­ir, en hann keypti fyrir tæpan millj­arð króna. 

Grun­aður um að hafa rýrt eignir Íslands­banka en fékk að kaupa

Þórður Már Jóhann­es­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­for­maður Fest­is, keypti fyrir meira en 100 millj­ónir króna í útboð­inu. Hann þurfti að segja af sér stjórn­ar­for­mennsku í Festi fyrr á árinu vegna meints kyn­­ferð­is­brots hans og tveggja ann­­arra manna gagn­vart konu haustið 2020. Kon­an, Vítalía Laz­areva, kærði menn­ina til lög­reglu fyrir skemmst­u. 

Kári Þór Guð­jóns­son, sem á einka­hluta­fé­lagið Nolt, keypti fyrir um 45 millj­ónir króna í útboð­inu. Hann er með stöðu sak­born­ings í hinu svo­kall­aða Skelj­ungs­máli ásamt fimm öðrum ein­stak­ling­um. Einn hinna er Einar Örn Ólafs­son, stór hlut­hafi í Stoðum sem keypti líka í Íslands­banka. Kári og Einar unnu saman í fyr­ir­tækja­ráð­gjöf Íslands­banka og eru grun­aðir um að hafa mis­­­notað aðstöðu sína til að koma eignum út úr banka á und­ir­verði að hafa nýtt sam­eig­in­­­legar eignir Skelj­ungs og bank­ans til að greiða fyrir kaup í félag­inu, að hafa vilj­andi rýrt eignir Íslands­­­­­banka og að hafa gert með sér sam­komu­lag sem tryggði hvorum þeirra yfir 800 millj­­­ónir króna fyrir þeirra aðkomu að mál­inu.

Þórður Már Jóhannesson var nýverið kærður til lögreglu. Tvö félög í hans eigu keyptu hlut í Íslandsbanka.
Mynd: Festi

Ýmis önnur nöfn hafa einnig vakið athygli þar sem þau hafa hingað til ekki verið tengd við fag­fjár­fest­ing­ar. Má þar nefna að félagið Ban­ana­lýð­veld­ið, í eigu uppi­stand­ar­ans og athafna­manns­ins Björns Braga Arn­ars­son­ar, fékk að kaupa fyrir 17,6 millj­ónir króna, upp­ljóstr­ar­inn Hall­dór Krist­manns­son fékk að kaupa fyrir 69,4 millj­ónir króna og félag í eigu Sölva Blön­dal, tón­list­ar­út­gef­anda og –manns, keypti fyrir tæpar níu millj­ónir króna.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar