Kaupendalistinn sem gerði allt vitlaust í íslensku samfélagi
Á miðvikudag var, eftir dúk og disk, birtur listi yfir þá 207 aðila sem fengu að kaupa í Íslandsbanka í lokuðu útboði þar sem afsláttur var veittur á almenningseign. Á listanum er að finna föður ráðherrans sem seldi hlutina í bankanum, útgerðarmenn, hrunverja, fólk í virkum lögreglurannsóknum, starfsmenn söluráðgjafa og ýmsa sem engum datt í hug að væru flokkaðir sem „fagfjárfestar“. Stjórnsýsluúttekt verður framkvæmd á sölunni en ákall er um skipun rannsóknarnefndar.
Þegar lokað útboð á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka var yfirstaðið þann 22. mars síðastliðinn skrifaði Bankasýsla ríkisins Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, bréf. Í því sagði að söluráðgjafar stofnunarinnar, sem ráðnir höfðu verið án útboðs til að finna kaupendur að hlutnum, hefðu fengið 150 til 200 íslenska og erlenda fjárfesta til að skrá sig fyrir hlutum fyrir samtals meira en 100 milljarða króna. Lagt var til að selja þessum hópi fyrir 52,65 milljarða króna með 2,25 prósenta afslætti frá markaðsverði, sem gerir frávik upp á 4,1 prósent.
Því liggur fyrir, samkvæmt bréfinu sem birt var opinberlega á vef stjórnarráðsins í gær, að umframeftirspurn var að minnsta kosti tvöföld. Bankasýslan óskaði eftir því að fá heimild frá Bjarna til að ganga frá sölu á hlutnum á grundvelli þessarar niðurstöðu. Undir bréfið skrifar öll stjórn stofnunarinnar: Lárus Blöndal stjórnarformaður, Margrét Kristmannsdóttir varaformaður stjórnar og Vilhjálmur Bjarnason meðstjórnandi. Bjarni svaraði samdægurs og í stuttu bréfi veitti hann Bankasýslunni heimild til að ganga frá sölunni.
Hæfnin skilgreind af söluráðgjöfunum
Leiðin sem var valin til að selja hlutinn kallast tilboðsleið. Hún er framkvæmd á nokkrum klukkutímum og ákveðið var að einblína á það sem kallað var „hæfir fjárfestar“. Síðar hefur verið vísað í að þar sé um að ræða þá sem skilgreinast sem fagjárfestar samkvæmt lögum. Til þess þarf að uppfylla tvö af þremur skilyrðum: að hafa átt ákveðið mörg viðskipti á ársfjórðungi, að fjármálagerningar þeirra og innistæður væru samanlagt virði 500 þúsund evra (um 70 milljón króna) eða meira eða að fjárfestir hafi gegnt eða gegni, í að minnsta eitt ár, stöðu í fjármálageiranum sem krefst þekkingar á fyrirhuguðum viðskiptum eða þjónustu.
Röksemdarfærslan fyrir því að fara þessa leið var meðal annars sú að það myndi spara kostnað. Ekki þyrfti að ráðast í útboðslýsingu til að uppfylla upplýsingaskilyrði fyrir almenna fjárfesta, venjulegt fólk. Bara þeir sem hefðu óskilgreindan betri skilningi á því sem þeir væru að kaupa, var boðið að vera með.
700 milljónir fyrir að selja hlut á nokkrum klukkutímum
Síðar kom í ljós að kaupendurnir sem fengu að taka þátt í tilboðinu voru alls 207 talsins og að 85 prósent þeirra voru innlendir. Hlutirnir voru seldir á nokkrum klukkutímum og ráðgjafarnir sem valdir voru til að sjá um útboðið fá um 700 milljónir króna frá ríkinu fyrir að hafa selt hlutinn til þessa hóps.
Tvær grímur runnu á marga þegar kom í ljós að margir þessara aðila voru ekki það sem kalla mætti stofnanafjárfestar sem hefðu burði til að styðja við bankann til lengri tíma né voru að kaupa í því magni að nauðsynlegt væri að velja þá til þátttöku í lokuðu útboði umfram almenna fjárfesta. Tortryggni vaknaði strax og tilkynningar um kaup stjórnenda og stjórnarmanna Íslandsbanka, eða aðila sem tengdust þeim, voru birtar í Kauphöll til að mæta tilkynningarskyldu um innherjaviðskipti. Þar voru einstaklingar að kaupa fyrir nokkrar milljónir króna. Þrýstingur var settur á að fá frekari upplýsingar um hverjir hafi fengið að kaupa og við hvert skref sem var stigið í að opinbera það vöknuðu fleiri spurningar.
Þeir sem keyptu fyrir minna en 30 milljónir króna voru 59 talsins. Þeir sem keyptu fyrir minna en 50 milljónir voru 79. Alls 167 aðilar keyptu fyrir 300 milljónir króna eða minna. Samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn hefur aflað er ljóst að sumir þeirra sem söluráðgjafarnir flokkuðu sem fagfjárfesta eru ekki skilgreindir sem slíkir í öðrum fjármálafyrirtækjum. Í því birtist það vandamál að fyrirtæki í verðbréfamiðlun eru með það hlutverk samkvæmt lögum að meta sjálf hvort viðskiptavinir þeirra uppfylli skilyrði þess að teljast slíkur.
Þá liggur fyrir að margir, bæði innlendir og erlendir, fagfjárfestar fengu ekki boð um að vera með þrátt fyrir að sumir þeirra hafi leitað beint eftir því. Hefur Kjarninn til að mynda undir höndum tölvupóstsamskipti milli aðila og Bankasýslunnar þar sem leitað var eftir því að stór alþjóðlegur fjárfestingarsjóður fengi að taka þátt í útboðinu 22. mars. Engin svör bárust. Umræddur aðili sem sendi póstinn er ekki á meðal þeirra söluráðgjafa sem valdir voru til að sjá um útboðið.
Óvarlegt og athugasemdir
Þrýstingur jókst á að birta listann yfir þá sem fengu að kaupa. Um ríkiseign væri að ræða og nauðsynlegt gegnsæi þyrfti til svo almenningur treysti því að rétt hefði verið staðið að málum.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið lét loks undan þrýstingi og sendi bréf á Bankasýsluna 30. mars, átta dögum eftir að salan var frágengin, og bar um lista yfir þá sem keyptu. Bankasýslan svaraði sex dögum síðar. Í bréfi hennar sagði að hún hefði leitað lögfræðiráðgjafar hjá LOGOS um hvort stofnuninni væri heimilt að afhenda eða birta opinberlega upplýsingar um kaupendur. „Þar kemur meðal annars fram álit þess efnis að vegna lagaákvæða um þagnarskyldu væri óvarlegt að nafngreina kaupendur í útboðinu án skriflegs samþykkis viðkomandi.“
Bankasýsla ríkisins leitaði jafnframt eftir afstöðu Íslandsbanka til málsins, en fyrirtækjaráðgjöf og markaðsviðskipti bankans gegndu hlutverki umsjónaraðila og önnuðust uppgjör viðskiptanna. „Þar kemur meðal annars fram að vegna lagaákvæða um þagnarskyldu myndi bankinn gera athugasemdir við birtingu upplýsinga um kaupendur úr hópi viðskiptavina bankans nema að fengnu samþykki þeirra.“
Bankasýslan komst að þeirri niðurstöður að opinber birting á kaupendalistanum væri á skjön við viðteknar venjur á alþjóðlegum mörkuðum. „Eindregið er mælt gegn slíkri birtingu og látið að því liggja að frávik frá markaðsframkvæmd að þessu leyti kynni að hafa neikvæð áhrif á sölumeðferð í tengslum við eftirstæðan hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka.“
Í ljósi alls ofangreinds taldi Bankasýsla ríkisins sér ekki heimilt að birta opinberlega þær upplýsingar sem ráðuneytið hefur óskað eftir. Ríkisstjórnin, undir gríðarlegum þrýstingi, ákvað hins vegar að birta listann á miðvikudag eftir að fjármála- og efnahagsráðherra hafði lagt sjálfstætt mat á hvort það væri löglegt eða ekki.
Sá veruleiki sem þar birtist hefur leitt til þess að Alþingi var tekið í gíslingu í lok vikunnar vegna krafna stjórnarandstöðu um að skipuð yrði rannsóknarnefnd til að fara yfir söluna. Stjórnarliðar hafa meira að segja gagnrýnt söluna. Ríkisendurskoðun var ræst út til að gera stjórnsýsluúttekt á henni og fyrrverandi nefndarmaður í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið hefur stigið fram, sagt söluna ólöglega og krafist þess að viðskiptunum verði rift.
Útgerðin fyrirferðamikil
Það var ýmislegt sem vakti athygli á listanum yfir kaupendur. Eitt af því er að aðilar sem hafa hagnast á útgerð eru fyrirferðamiklir á meðal þeirra.
Þar má nefna eignarhaldsfélagið Stein ehf., sem er í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja og Helgu S. Guðmundsdóttur, fyrrverandi eiginkonu hans, sem keypti hlutabréf í lokaða útboðinu fyrir 296,3 milljónir króna.
Í Eignarhaldsfélaginu Steini er meðal annars 43,48 prósent eign fyrrverandi hjónanna í Samherja Holding ehf., sem heldur utan um erlenda eign Samherjasamstæðunnar og hlut hennar í Eimskip. Á meðal eigna sem eru vistaðar inni í Samherja Holding er Namibíustarfsemi Samherja, sem er til umfangsmikillar rannsóknar hérlendis vegna meintra mútugreiðslna, peningaþvættis og skattasniðgöngu. Þorsteinn Már er með stöðu sakbornings í þeirri rannsókn.
Eignarhaldsfélagið Steinn átti hreina bókfærða eign upp á 61,7 milljarða króna í lok árs 2020.
Kjálkanes ehf., næst stærsti eigandi Síldarvinnslunnar með 17,44 prósent eignarhlut og á meðal stærstu eigenda Sjóvár, keypti í Íslandsbanka fyrir um 110 milljónir króna. Félagið er í Björgólfs Jóhannssonar, fyrrverandi forstjóra Samherja, og fólks sem tengist honum fjölskylduböndum. Um er að ræða sama hóp og á útgerðarfyrirtækið Gjögur.
Forstjóri Síldarvinnslunnar, Gunnþór Ingvason, keypti einnig hlut í bankanum, bæði í eigin nafni fyrir 2,2 milljónir króna og í gegnum félagið Hraunlón, sem hann á 60 prósent hlut í, fyrir 4,5 milljónir króna. Gunnþór og tveir félagar hans í framkvæmdastjórn Síldarvinnslunnar urðu sterkefnaðir nánast yfir nóttu þegar fyrirtækið var sett á markað í fyrra. Í aðdraganda þess höfðu þeir keypt félagið Hraunlón, sem átti hlut í Síldarvinnslunni, á 640 milljónir króna. Þeir seldu 37 prósent þess hlutar í útboðinu og fengu fyrir 608 milljónir króna. Eftirstandandi hlutur þeirra er metinn á um 1,6 milljarð króna.
Stærstu eigendur Morgunblaðsins keyptu
Fjárfestingafélagið Kristinn ehf., í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, fékk líka að kaupa nokkuð stóran hlut í Íslandsbanka, eða fyrir 468 milljónir króna. Guðbjörg er stærsti eigandi Ísfélags Vestmannaeyja og hefur fært út kvíarnar í ótengda geira á undanförnum árum. Á meðal þeirra eigna sem fjölskylda hennar hefur fjárfest í er ÍSAM og Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, en félög Guðbjargar og tengdra aðila eru stærstu eigendur þess og hafa lagt útgáfufélaginu til umtalsvert fé á liðnum árum til að mæta miklum taprekstri. Þau eru auk þess umsvifamikil á fasteignamarkaði og eiga meðal annars Korputorg auk fjölmargra verðmætra fasteigna í Skeifunni.
Stálskip, í eigu eigu hjónanna Guðrúnar Lárusdóttur og Ágústs Sigurðssonar og þriggja barna þeirra, keypti fyrir um 225 milljónir króna í lokaða útboðinu. Stálskip var stofnað sem útvegsfyrirtæki árið 1970 en seldi frystitogarann sinn og allan kvóta árið 2014. Í kjölfarið var því breytt í fjárfestingafélag.
Félagið Jakob Valgeir keypti hlut í Íslandsbanka fyrir 936 milljónir króna í lokaða útboðinu. Fyrir átti það hlut í bankanum sem er metinn á um tvo milljarða króna. Þetta félag var áður í eigu útgerðamannsins Jakobs Valgeirs Flosasonar, en meirihlutaeigandi er nú skráður eiginkona hans, Björg Hildur Daðadóttir, með 68,9 prósent hlut í útgerðinni. Aðrir skráðir eigendur eru tveir bræður Jakobs Valgeirs.
Faðir fjármála- og efnahagsráðherra þurfti að kaupa
Jakob Valgeir og Þorsteinn Már tengjast líka öðrum hópi sem á listanum sem fékk að kaupa og hefur vakið eftirtekt: Þeim sem voru fyrirferðamiklir í eigenda- eða viðskiptamannahópi gömlu bankanna fyrir hrun.
Jakob Valgeir var á sínum tíma stjórnarformaður og hluthafi félags sem fékk nafnið Stím ehf. Það félag var búið til til að kaupa hluti í Glitni banka og FL Group, stærsta eiganda Glitnis banka, seint á árinu 2007 fyrir 24,8 milljarða króna á þávirði. Glitnir, sem er fyrirrennari Íslandsbanka, lánaði Stím að mestu fyrir kaupunum. Þegar Stím var gert upp fengust einungis 15 milljónir króna upp í um 24 milljarða króna kröfur.
Þorsteinn Már var svo stjórnarformaður Glitnis banka, fyrirrennara Íslandsbanka, þegar sá banki fór í þrot haustið 2008.
Það eru fleiri með tengsl við fallna banka sem er að finna á listanum yfir þá sem fengu að kaupa. Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, átti um tíma umtalsvert af hlutabréfum í Glitni og var leystur undan sjálfskuldarábyrðum Glitnis á lánum til félags síns Hafsilfurs þann 29. september 2008, sama dag og tilkynnt var að íslenska ríkið ætlaði sér að eignast 75 prósent hlut í Glitni vegna bágrar stöðu hans. Nokkrum dögum síðar varð Glitnir gjaldþrota. Benedikt keypti hlut í Íslandsbanka í mars í gegnum sama félag, Hafsilfur.
Fyrrverandi stórleikendur í bankakerfi sem hrundi
Einnig var þar að finna félög í eigu fjárfesta sem komu að bankarekstri hérlendis á árunum fyrir fjármálahrunið, þegar bankarnir urðu gjaldþrota og voru þjóðnýttir. Þeirra á meðal var fjárfestingarfélagið SKEL, en stjórnarformaður félagsins, Jón Ásgeir Jóhannesson, kom að félögum sem voru á meðal stærstu hluthafa Glitnis banka, forvera Íslandsbanka, þegar hann féll í október 2008. Eitt þeirra félaga, FL Group, heitir í dag Stoðir og er stýrt af Jóni Sigurðssyni. Hann var forstjóri FL Group fyrir bankahrun og sat sem varaformaður stjórnar Glitnis. Stoðir er einnig á meðal kaupenda í Íslandsbanka. Á meðal stórra hluthafa í FL Group fyrir bankahrunið, og stórra lántakenda hjá Glitni, voru félög í eigu Pálma Haraldssonar. Félag hans, Sólvöllur, keypti í Íslandsbanka fyrir 225 milljónir króna.
Þá keyptu félög í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, sem oftast eru kenndir við Bakkavör, einnig fyrir mörg hundruð milljónir króna í útboði 22. mars, en þeir voru stærstu eigendur Kaupþings áður en sá banki hrundi 2008. Lýður var dæmdur til fangelsisvistar eftir bankahrunið. Félag í eigu Sigurðar Valtýssonar, sem starfar fyrir bræðurna, keypti einnig hlut.
Félagið Lyf og Heilsa hf., sem keypti í lokaða útboðinu fyrir rúmum tveimur vikum, er í eigu Jóns Hilmars Karlssonar. Faðir hans, Karl Wernersson, átti áður félagið en seldi syni sínum það áður en hann varð gjaldþrota. Þrotabú Karls höfðaði í kjölfarið nokkur riftunarmál þar sem talið var að eignum hefði verið komið undan kröfuhöfum, meðal annars með því að eignum Karls væri komið yfir til Jóns Hilmars. Karl var aðaleigandi fjárfestingarfélagsins Milestone fyrir bankahrun, sem var um tíma á meðal stærstu eigenda Glitnis. Hann hefur setið í fangelsi fyrir alvarleg efnahagsbrot tengd hruninu.
Erlendir skammtímasjóðir sem virðast þegar byrjaðir að selja
Á meðal þeirra sem voru valdir til að kaupa í lokaða útboðinu voru líka erlendir sjóðir sem höfðu líka keypt í almenna útboðinu í fyrrasumar. Sex þeirra sem keyptu í bankanum í aðdraganda skráningar í maí í fyrra seldu bréfin sem þeim var úthlutað innan þriggja daga eftir skráningu með umtalsverðum hagnaði, en söluandvirðið var um fjórir milljarðar króna. Á meðal þessara sex voru sjóðir Silver Point Capital, Fiera Capital, Lansdowne Partners og Key Square Partners.
Þrátt fyrir að þessir sjóðir hafi selt sig nánast strax út úr Íslandsbanka þegar þeir gátu eftir síðasta útboð þótti tilhlýðilegt að bjóða þeim þátttöku í lokaða útboðinu og veita þeim afslátt af kaupverði. Silver Point keypti fyrir rúmlega 1,3 milljarða króna, Landsdown Partners fyrir næstum 556 milljónir króna, Fiera Capital fyrir 468 milljónir króna og KeySquare Partners fyrir 409,5 milljónir króna. Samtals keyptu þessir fjórir sjóðir því fyrir rúmlega 2,7 milljarða króna í lokaða útboðinu og fengu í staðinn 5,2 prósent hlut í Íslandsbanka.
Auk þess var sjóður í stýringu bandaríska sjóðstýringarfyrirtækisins RWC Asset Management valinn sem einn hornsteinsfjárfestanna í Íslandsbanka í aðdraganda almenna útboðsins í fyrra. Sá sjóður fékk þá að kaupa 1,54 prósent hlut á 2,4 milljarða króna. Hann hafði selt þorra eignar sinnar um síðustu áramót og leyst um leið út umtalsverðan hagnað. Sjóður í stýringu RWC Asset Management fékk að kaupa hluti fyrir tæplega tvo milljarða króna.
Samkvæmt upplýsingum sem teknar hafa verið saman fyrir Kjarnann var velta með bréf í Íslandsbanka margföld dagana eftir útboðið miðað við meðalviðskipti á dag á árinu fyrir útboðið. Það bendir til þess að margir sem keyptu í útboðinu hafi selt sig niður strax fyrstu daganna eftir það. Heimildir Kjarnans herma að þar sem meðal annars um að ræða erlenda sjóði.
Starfsmenn söluráðgjafa keyptu
Þá sýnir listinn að starfsmenn eða makar hjá hluta þeirra fyrirtækja sem voru ráðnir til að finna kaupendur keyptu sjálfir í útboðinu. Stærsti eigandi Íslenskra verðbréfa er félagið Björg Capital ehf. sem á 50 prósent hlut. Þorbjörg Stefánsdóttir, eiginkona Jóhann M. Ólafssonar framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa, er eigandi Bjargar Capital, sem keypti fyrir 22,5 milljónir króna í útboðinu. Á meðal annarra eigenda Íslenskra verðbréfa er félag í eigu Samherja og Kjálkanes, í eigu sömu aðila og eiga útgerðina Gjögur.
Fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun Íslandsbanka voru á meðal umsjónaraðila útboðsins. Tveir starfsmenn verðbréfamiðlunar bankans, Ómar Özcan sem keypti fyrir 27 milljónir króna, og Geir Oddur Ólafsson sem keypti minnst allra þeirra sem voru samþykktir, eða fyrir rúmlega 1,1 milljón króna, tóku þátt í útboðinu. Þá keypti Brynjólfur Stefánsson, sjóðsstjóri hjá Íslandssjóðum, sjóðstýringarfyrirtækis í eigu Íslandsbanka, fyrir 4,5 milljónir króna, Guðmundur Magnús Daðason, sem starfar í gjaldeyrismiðlum bankans, keypti fyrir 5,5 milljónir króna og Ásmundur Tryggvason, sem er framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingasviðs, keypti fyrir 11 milljónir króna. Þá keypti Ari Daníelsson, stjórnarmaður í Íslandsbanka, fyrir 55 milljónir króna, og Ríkharður Daðason, sambýlismaður Eddu Hermannsdóttur markaðs- og samskiptastjóra bankans, keypti fyrir tæpar 27 milljónir króna.
Innherji greindi svo frá því í gær að forstöðumaður eignastýringar Festu lífeyrissjóðs, Baldur Snorrason, hafi sjálfur keypt hlut í Íslandsbanka samhliða lífeyrissjóðnum sem hann starfar fyrir, en hann keypti fyrir tæpan milljarð króna.
Grunaður um að hafa rýrt eignir Íslandsbanka en fékk að kaupa
Þórður Már Jóhannesson, fyrrverandi stjórnarformaður Festis, keypti fyrir meira en 100 milljónir króna í útboðinu. Hann þurfti að segja af sér stjórnarformennsku í Festi fyrr á árinu vegna meints kynferðisbrots hans og tveggja annarra manna gagnvart konu haustið 2020. Konan, Vítalía Lazareva, kærði mennina til lögreglu fyrir skemmstu.
Kári Þór Guðjónsson, sem á einkahlutafélagið Nolt, keypti fyrir um 45 milljónir króna í útboðinu. Hann er með stöðu sakbornings í hinu svokallaða Skeljungsmáli ásamt fimm öðrum einstaklingum. Einn hinna er Einar Örn Ólafsson, stór hluthafi í Stoðum sem keypti líka í Íslandsbanka. Kári og Einar unnu saman í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og eru grunaðir um að hafa misnotað aðstöðu sína til að koma eignum út úr banka á undirverði að hafa nýtt sameiginlegar eignir Skeljungs og bankans til að greiða fyrir kaup í félaginu, að hafa viljandi rýrt eignir Íslandsbanka og að hafa gert með sér samkomulag sem tryggði hvorum þeirra yfir 800 milljónir króna fyrir þeirra aðkomu að málinu.
Ýmis önnur nöfn hafa einnig vakið athygli þar sem þau hafa hingað til ekki verið tengd við fagfjárfestingar. Má þar nefna að félagið Bananalýðveldið, í eigu uppistandarans og athafnamannsins Björns Braga Arnarssonar, fékk að kaupa fyrir 17,6 milljónir króna, uppljóstrarinn Halldór Kristmannsson fékk að kaupa fyrir 69,4 milljónir króna og félag í eigu Sölva Blöndal, tónlistarútgefanda og –manns, keypti fyrir tæpar níu milljónir króna.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi