Kosningar sem skiluðu sömu ríkisstjórn eftir næst lengstu viðræður í þrjá áratugi
Ríkisstjórnin ríghélt í þingkosningum sem fram fóru á árinu en tók sér samt rúmlega tvo mánuði að endurnýja heitin. Frjálslyndu miðjunni mistókst illa að sveigja valdajafnvægið í sína átt og Miðflokkurinn beið fullkomið afhroð. Eldra og tekjuhærra fólk er ánægðast með nýju stjórnina og þrír af hverjum fjórum telja að hún haldi út kjörtímabilið.
Það var kosið til Alþingis 25. september. Ríkisstjórnin hélt velli í kosningunum og bætti við sig tveimur þingmönnum frá kosningunum 2017. Flokkarnir þrír sem hana mynduðu, Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, voru þó með fjórum þingmönnum fleiri en þeir höfðu þegar kosið var síðast 2017 þar sem tveir þingmenn Vinstri grænna yfirgáfu flokkinn á liðnu kjörtímabili vegna óánægju með stjórnarsamstarfið.
Framsóknarflokkurinn var óumdeildur sigurvegari kosninganna. Hann bætti við sig 6,6 prósent fylgi og fimm þingmönnum, en alls 13 eru á hans vegum á Alþingi á komandi kjörtímabili. Það er besta niðurstaða hans í kosningum frá árinu 2013, en vert er þó að taka fram að árin 2016 og 2017 fékk Framsókn sína verstu útreið í sögu flokksins sem spannar nú meira en eitt hundrað ár.
Hin svokallaða frjálslynda miðja: Samfylking, Viðreisn og Píratar höfðu ætlað sér annað hvort saman eða í sitthvoru lagi að vera alvöru kostur í ríkisstjórn. Það gekk ekki eftir. Samanlagt fylgi hinnar frjálslyndu miðjuflokka var 28 prósent árið 2017. Það dróst saman um 1,2 prósentustig milli kosninga.
Sá flokkur sem tapaði mestu milli kosninga var Miðflokkur Sigmundar Daviðs Gunnlaugssonar sem fékk 5,5 prósent atkvæða og þrjá þingmenn. Það er rúmlega helmingi minna en flokkurinn fékk 2017 en framan af kosningakvöldinu mældist flokkurinn alls ekki inni á þingi.
Þingmönnum Miðflokksins fækkaði svo úr þremur í tvo þegar Birgir Þórarinsson yfirgaf flokkinn og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, tveimur vikum eftir kosningarnar.
Langdregnar viðræður
Við blasti að ríkisstjórnarflokkarnir myndu reyna að halda stjórnarsamstarfinu áfram og snemma lá fyrir að það yrði gert á þeim forsendum að Katrín Jakobsdóttir myndi halda áfram sem forsætisráðherra þrátt fyrir að flokkur hennar hafi tapað næst mestu fylgi allra flokka milli kosninga, alls 4,3 prósent.
Stjórnarmyndunarviðræðurnar tóku hins vegar mun lengri tíma en flestir höfðu væntingar um. Nýr stjórnarsáttmáli var ekki kynntur fyrr en 28. nóvember, rúmum tveimur mánuðum eftir kosningar. Eina skiptið á síðustu þremur áratugum sem slíkar viðræður hafa tekið lengri tíma var eftir kosningarnar 2016, þegar þær tóku 74 daga. Þá var hins vegar afar erfitt að mynda ríkisstjórn og allir flokkar sem náðu inn á þing reyndu fyrir sér við stjórnarmyndun.
Langur sáttmáli umgjörð utan um ólíkar áherslur
Stjórnarsáttmálinn var nokkuð lengri en sömu flokkar gerður fjórum árum áður (9.645 orð nú en 6.212 þá) og bar þess merki að vera umgjörð utan um samstarf flokka sem hafa mismunandi pólitískar áherslur.
Þar kom meðal annars fram að stefnt yrði að því að lækka skatta, selja banka og láta fjármagnseigendur greiða útsvar. Auðvelda átti fyrirtækjum að virkja vind og endurskoða lög um rammaáætlun. Hærri endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar voru festar í sessi en Miðhálendisþjóðgarður heyrði sögunni til og heildarendurskoðun stjórnarskrár í þverpólitísku samstarfi líka. Opnað var á fjárfestingar lífeyrissjóða í innviðum, tilkynnt að stjórn yrði sett yfir Landspítalann og frítekjumark ellilífeyrisþega yrði tvöfaldað.
Meiri athygli vakti þó verkaskiptingin milli flokkanna og sú uppstokkun á stjórnarráðinu sem greint var frá samhliða. Ráðherrum var fjölgað um einn í tólf og ráðuneytum fjölgað um tvö (áður sátu tveir ráðherrar í atvinnuvegaráðuneytinu). Málaflokkum var skipt með öðrum hætti en áður og mörg ráðuneyti munu fá nýtt heiti.
Katrín hélt forsætisráðuneytinu eins og búist var við en Svandís Svavarsdóttir færði sig yfir í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og Guðmundur Ingi Guðbrandsson varð félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.
Framsóknarflokkurinn bætti við sig viðbótar ráðherranum. Sigurður Ingi Jóhannsson er nú innviðaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Willum Þór Þórsson settist í heilbrigðisráðuneytið.
Bjarni Benediktsson var eini ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem flutti sig ekki um set, og heldur áfram sem fjármála- og efnahagsráðherra. Hann hefur gegnt því embætti nánast sleitulaust frá árinu 2013, ef undan eru skildir nokkrir mánuðir á árinu 2017 þegar hann var forsætisráðherra. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fór í utanríkisráðuneytið og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir stýrir nýju ráðuneyti vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarmála. Guðlaugur Þór Þórðarson settist svo óvænt í ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála.
Einn ráðherra Sjálfstæðisflokks frá síðasta kjörtímabili hætti stjórnmálaþátttöku fyrir síðustu kosningar, Kristján Þór Júlíusson. Það kom mörgum í opna skjöldu þegar Jón Gunnarsson var gerður að dómsmálaráðherra í að minnsta kosti 18 mánuði til að fylla það skarð í ráðherrahópnum, en tilkynnt var að Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, myndi taka við ráðherraembætti að þeim tíma liðnum.
Gert er ráð fyrir að breytt skipun stjórnarráðsins, sem felur í sér tilfærslu málaflokka milli ráðuneyta og fjölgun þeirra úr tíu í tólf, kosti 505 milljónir króna á ári.
Kjósendur allra stjórnarflokka ánægðir
Um miðjan desember var birt könnun sem Gallup um ánægju fólks með endurnýjað ríkisstjórnarsamstarf. Hún sýndi að því eldra sem fólk er og því hærri sem tekjur þess eru, því ánægðari er það með áframhald ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
Kjósendur allra stjórnarflokkanna eru mun ánægðari með ráðahaginn en óánægðir. Alls segjast 92 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks vera ánægðir með nýskipaða ríkisstjórn og 84 prósent kjósenda Framsóknarflokks eru sama sinnis. Einungis fjögur prósent Sjálfstæðismanna og sex prósent Framsóknarmanna eru óánægðir með stjórnina.
Alls 71 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna eru ánægðir með nýskipaða ríkisstjórn og einungis átta prósent þeirra eru óánægðir.
Heilt yfir er helmingur landsmanna ánægður með nýskipaða ríkisstjórn en tæplega þriðjungur óánægður. Þá telja flestir, næstum þrír af hverjum fjórum, að stjórnarsamstarfið muni halda út kjörtímabilið. Einungis 17 prósent telja það ólíklegt. Alls eru 42 prósent landsmanna ánægðir með val á ráðherrum í ríkisstjórnina en 36 prósent óánægðir.
Lestu meira:
-
5. janúar 2022Markaðsvirði veðsettra íslenskra hlutabréfa var 273 milljarðar króna í lok síðasta árs
-
3. janúar 2022Öll félögin á aðalmarkaði hækkuðu mikið í fyrra – Arion banki tvöfaldaðist í virði
-
3. janúar 2022Heimurinn er betri en við höldum
-
2. janúar 2022Austurland 2021: Árið eftir skriðurnar
-
2. janúar 2022Aðlögun er búin að vera og heyrir sögunni til
-
2. janúar 2022Vitskert veröld
-
1. janúar 2022Rugl, veiran, kerfið sem brást, hrunið og konan sem hefði átt að vera meira „kallinn“
-
1. janúar 2022Stafrænt langstökk til framtíðar
-
1. janúar 2022Árangur í skugga heimsfaraldurs
-
1. janúar 2022Hver hefur eftirlit með eftirlitinu?