„Leyfa listinni að lýsa upp skammdegið“ á Ljósabasar Nýló
Ljósabasar Nýló er nú haldinn í þriðja sinn og rúmlega 200 verk um 70 félagsmanna eru til sölu á basarnum í Marshallhúsinu. Safnstjóri segir frábært að safnið hafi fengið fastan samastað í húsinu og hún spáir íslensku myndlistarsenunni bjartri framtíð.
Um þessar mundir öslar fólk í gegnum snjó og slabb til þess að sækja jólasýningar sem haldnar eru víða um borgina. Jólasýningunum eða jólabasörunum, eins og þessar sýningar eru gjarnan kallaðar, hefur vaxið fiskur um hrygg á nýliðnum árum og segja má að þær séu orðnar fastur liður í jólaundirbúningi hjá fjölda fólks. Áhugafólk um myndlist sækir þær til að sjá það helsta sem uppi er á teningnum í myndlist samtíðarinnar, listamenn skila af sér fjölda verka og starfsfólk sýningarstaðanna vinnur í kappi við tímann í byrjun desember við að setja sýningarnar upp.
Kjarninn fór í leiðangur um borgina, skoðaði basarana og ræddi við staðarhaldara. Ferðalagið hefst í Nýlistasafninu en þar stendur yfir Ljósabasar Nýló sem nú er haldinn í þriðja sinn. Hann opnaði á sjálfan fullveldisdaginn, 1. desember og stendur til þess 19. Í Nýlistasafninu tekur á móti okkur Sunna Ástþórsdóttir en hún er safnstjóri og formaður stjórnar Nýlistasafnsins. Að hennar sögn er Ljósabasar Nýló að verða að föstum lið í starfi Nýlistasafnsins en hann er þáttur í fjármögnun safnsins.
„Það er að skapast hefð fyrir basarnum,“ segir Sunna. „Þetta eru fulltrúar Nýló sem taka þátt, allt listamenn sem eiga og reka safnið ásamt hinum fulltrúum safnsins. Þetta er svona að þeirra frumkvæði og skilar sér beint til þeirra, en líka að hluta inn í kjarnastarfsemi Nýló, og sá ágóði nýtist sérstaklega í að styðja við sýninga- og viðburðahald safnsins.“
Hvað geturðu sagt mér um umfang basarsins, hvað eru þetta mörg verk og eftir hve marga listamenn?
„Þeir eru hátt í 70 listamennirnir sem taka þátt. Þegar við opnuðum voru listamennirnir um 60 en það eru alltaf fleiri að bætast við flóruna. Sama með verkin, þau eru rúmlega 200 en það eru alltaf að koma inn fleiri. Svo seljast verk og ný koma inn í staðinn,“ segir Sunna og bendir á að einnig sé hægt að skoða verkin á netinu.
„Basarinn er bæði hér í sýningarsalnum í Marshallhúsinu og á netinu, á ljosabasar.nylo.is. Basarinn var í fyrsta sinn á netinu í fyrra vegna heimsfaraldursins, þá gátum við ekki haldið hann í salnum okkar eins og áður. Í ár ákváðum við að gera bæði, enda reyndist heimasíðan vel. Þar er líka hægt að lesa um listamennina sem taka þátt og glöggva sig aðeins á þeim og verkum þeirra í víðara samhengi, auk þess sem hægt er að kaupa verk.“
200 verk hengd upp á tveimur dögum
Sú venja hefur skapast á jólamörkuðum sem þessum að þegar fólk kaupir verk, í það minnsta á staðnum, þá getur það fengið verkið afhent um leið og tekið það svo með sér heim og hengt verkið upp á vegg eða pakkað inn, sé listaverkið ætlað einhverjum öðrum. Upphengið á jólamörkuðunum er haft með svokölluðum salon stíl, verkin hanga mjög þétt og ná hér um bil frá gólfi og upp í loft og því er hægt að sýna mörg verk samtímis. Nafngiftin á þessum stíl upphengis er tilkominn því þessi háttur var hafður á við upphengi mynda á salon sýningunum í París sem voru einn stærsti listviðburður í heimi um áraraðir.
Hvernig er með undirbúning fyrir svona stóran markað, hvenær hefst hann?
„Undirbúningurinn hefst tímanlega, félagsmenn skrá sig snemma og við byrjum snemma að huga að rammanum en svo er alveg spýtt í lófana í nóvember, og sérstaklega þegar við erum að fara að setja upp. Yfirleitt setjum við upp hátt í 200 verk á tveimur dögum. Það er mikil stemning, þá söfnum við liði, og það er svo gaman að pakka öllum verkunum upp og sjá með eigin augum hvaða verk félagsmenn hafa komið með. Þau eru öll einstök, og endurspegla í raun fjölbreytileika fulltrúaráðs safnsins. Það er mjög skemmtilegt að sjá verk mismunandi kynslóða myndlistarmanna saman í kös.“
Þessi hraði í uppsetningu, hann fæst kannski vegna þess að þið njótið ákveðins frelsis við upphengingu verka, því þetta er ekki eins og hefðbundin sýning í þeim skilningi?
„Einmitt, þetta er heldur ekki sýning. Þetta er basar og í salon stíl og verkin eru dálítið í belg og biðu sem er svolítið fagurfræði listaverkamarkaða. Þannig að jú, við getum hengt hátt og lágt og ég held að sérstaklega fyrir börn sé mjög gaman að fara á þessa listjólamarkaði því mörg verkanna eru hengd upp í þeirra augnhæð.“
Ekki markmiðið að vera í samkeppni við aðra basara
Nú er þessi basar dálítið frábrugðinn öðrum basörum í borginni vegna þess að þetta er safn alla aðra mánuði ársins. Hvernig er að fá að setja þennan hatt á sig og verða eins konar sölugallerí í um það bil mánuð á ári?
„Við erum safn allan ársins hring, og safnastarfið heldur áfram í desember líkt og aðra mánuði. Ljósabasarinn er haldinn að frumkvæði félagsmanna sem fjáröflun fyrir safnið okkar. Þessi markaður er ekki sýning heldur vettvangur þar sem félagsmenn taka höndum saman fyrir Nýló, hluti söluágóðans rennur síðan í starfsemi safnsins. Eitt það skemmtilegasta við basarinn er að sjá þessi ólíku verk félagsmanna í sama rými. Þannig að þetta er í rauninni bara mjög skemmtilegt tækifæri til þess að vinna beint með félagsmönnum.“
Hlutverk Nýlistasafnsins er margþætt eins og Sunna fer yfir í kjölfarið: „Við erum listamannarekið safn, og í því felst fjölbreytt hlutverk. Í stuttu máli söfnum við samtímamyndlist með öllu því sem því tilheyrir, höldum úti sýningarhaldi og miðlum myndlist. Sú staðreynd að við erum listamannarekin snýr svo að því á hvaða forsendum starfið er unnið, það er ávallt á forsendum myndlistarmanna og meðal annars með það að markmiði að opna augu almennings fyrir viðfangsefnum myndlistarmanna hverju sinni. Við erum í góðu samstarfi við bæði ríki og borg, og Ljósabasarinn er svo ein leið til þess að fjármagna starfsemina.“
Nafnið Ljósabasar, hvernig er það tilkomið?
„Þegar þáverandi stjórn lagði grunn að basarnum, þá var hugmyndin ekki að vera í samkeppni við jólamarkaðina, heldur frekar að nýta sér styrkinn í því að það er margt í gangi í desember. Basarinn á sér stað á myrkasta árstímanum, þannig hugsunin var að leyfa listinni að lýsa upp skammdegið.“
Ekki bara ljósaverk á boðstólum
Sunna segir það hafa komið fyrir að nafnið hafi valdið misskilningi. Það hafi til dæmis gerst að listamenn hafi verið tvístígandi við það að taka þátt í basarnum vegna þess að þeir eigi ekkert ljósaverk til að selja. Einnig hafa gestir haldið að einungis sé hægt að festa kaup á ljósaverkum.
„Það eru margir sem halda að þetta séu bara verk sem lýsa en það er ekki svo. Það má líka skoða þetta í breiðu samhengi. Einn af eiginleikum listarinnar er að gera ákveðna kima heimsins sýnilega, hvort sem sú skot séu raunveruleg eða tilheyra öðrum víddum, þá spretta fram einhver ný sjónarhorn með listinni. Svo er það nú svo að ef það væri ekki ljós í heiminum þá gæti mannsaugað ekki numið liti eða okkar sýnilega umhverfi.“
Jólamarkaðir líkt og Ljósasbasar Nýló eru orðnir að föstum lið í helgihaldi margra, líkt og áður var vikið að og slíkir markaðir hafa á nýliðnum árum skotið upp kollinum einn af öðrum. Sunna segist ekki hafa myndað sér sérstaka skoðun á því hvort að slíkir markaðir séu orðnir of margir eða hvort að íslenskur listmarkaður þoli þennan fjölda. En eitt er hún sannfærð um og það er gildi þess að kaupa íslenska myndlist.
„Mér finnst að fleiri ættu að íhuga að fjárfesta í myndlist,“ segir Sunna og nefnir það að fleira sé myndlist en málverk á vegg: „Hér á basarnum okkar eru tvívíð verk unnin með ýmsum aðferðum, en líka skúlptúrar, vídeóverk, innsetningar og allt þar á milli.“
Gott að hafa fastan samastað eftir tíða flutninga
Talið berst nú að öðru – sjálfu Marshallhúsinu, hvar Nýló hefur verið til húsa í rúm fjögur ár þegar húsið var formlega opnað eftir gagngerar endurbætur í mars árið 2017. Í húsinu er einnig að finna annað listamannarekið rými, galleríið Kling&Bang, en þar er auk þess Stúdíó Ólafs Elíassonar, sem að vísu hefur að mestu verið lokað í heimsfaraldri, og veitingastaðurinn La Primavera. Að sögn Sunnu er það frábært að myndlistin sé í aðalhlutverki í húsinu, það bjóði upp á frjótt samtal milli íbúa hússins. Að auki sé það gott að starfsemin í húsinu dragi til sín mismunandi hópa.
Áður en Nýlistasafnið fékk nýjan samastað í Marshallhúsinu hafði það verið á hálfgerðum vergangi og flutningar voru reglulegur viðburður, eitthvað sem er alls ekki æskilegt í safnastarfi. Spurð að því hvort það hafi verið bylting fyrir Nýlistasafnið að fá aðsetur í húsinu svarar Sunna játandi.
„Nýlistasafnið hefur náttúrlega þurft að flytja fimm eða sex sinnum í gegnum tíðina. Það var stofnað 1978 og hefur flutt margoft, bæði sýningarrýmið en líka safneignin og það er ekki gott fyrir verk að vera alltaf á flutningi. Við erum með safneignargeymslur í Breiðholti og vonandi getum við verið þar til frambúðar, það er rosalega mikið öryggi að vita af því að safneigin er ekki að fara á flakk næstu árin.“
Nýlistasafnið leigir aðstöðu sína af Reykjavíkurborg sem jafnframt styrkir starfsemi safnsins. Enn er um áratugur eftir af leigusamningnum sem Sunna segir vera langan tíma á skala Nýlistasafnsins. Það að safnið hafi trygga búsetu á svo góðum stað til svo langs tíma hefur auk þess í för með sér að kraftar starfsfólksins nýtast betur að sögn Sunnu.
„Síðan er líka bara frábært hvað salurinn er fallegur og þetta er skemmtilegt og bjart rými að vinna í. Nú þurfum við ekki að pæla í einhverjum vatnslekum eða rafmagnsrofi. Við erum bara að einbeita okkur að því sem við eigum að gera sem er að sinna listinni.“
Framtíð myndlistarsenunnar „rosalega björt“
Nú fylgist þið hér í Nýló vel með samtímalistinni, er einhver rauður þráður í listsköpun starfandi listamanna og um hvað fjalla þeir í listsköpun sinni í dag?
„Mér finnst eiginlega meira spennandi, kannski í ljósi árstímans, að pæla í hvað er fram undan. Myndlistarsenan er svo fjölbreytt, í sífelldri gerjun og alltaf á hreyfingu. Sjón er yfirleitt sögu ríkari, hér er mjög mikið um að vera, nýjar sýningar að opna nánast vikulega og á nýju ári er til dæmis tilvalið að setja sér markmið um að heimsækja nýjan sýningarstað í hverjum mánuði. Það eru spennandi tímar í vændum á mörgum sviðum, en sérstaklega finnst mér vert að nefna að umræðan um inngildingu, málefni og stöðu aðfluttra Íslendinga, er byrjuð að taka pláss hér á landi. Þetta er mikilvæg og löngu tímabær umræða sem á vonandi eftir að ýta við sýningalandslaginu, færa okkur fjölbreyttari sýningar og verk sem ýta enn frekar við viðteknum hugmyndum okkar um listina.“
Hún segir einnig að léttleiki og nýjungagirni einkenni myndlistarsenuna á Íslandi í dag.
„Myndlistarmenn hér á landi eru líka mjög leikandi. Þó að snert sé á alvarlegum viðfangsefnum þá er aldrei langt í einlægni eða húmor jafnvel. Ég held að rauði þráðurinn sé sá að myndlistarmenn eru óhræddir við að glíma við bæði ný og ögrandi viðfangsefni.“
Þannig að framtíð myndlistar á Íslandi er björt?
„Rosalega björt.“
Lesa meira
-
2. janúar 2023Höfundur Matador þáttanna látin – „Maður er ekkert merkilegur af því maður er gamall“
-
2. janúar 2023„Stjórna erlendar streymisveitur bráðum innlendri kvikmyndaframleiðslu?“
-
24. desember 2022Ólöf Arnalds safnar fyrir útgáfu fimmtu breiðskífu sinnar
-
20. desember 2022Hundrað ára afmæli Cafe Fodkold
-
18. október 2022Þekkt en þó óþekkt
-
9. október 2022Segja niðurskurð á framlögum færa fagsjóði listgreina á sama stað og þeir voru 2014
-
30. september 2022Staða menningarmála: Fornleifar
-
23. ágúst 2022Endurkoma smurbrauðsins
-
17. ágúst 2022Stefnt að því að sameina þrjá tónlistarsjóði í einn og skilgreina Sinfó sem þjóðareign
-
16. ágúst 2022Ævintýrið um Carmen rúllurnar