Bára Huld Beck Nýló
Bára Huld Beck

„Leyfa listinni að lýsa upp skammdegið“ á Ljósabasar Nýló

Ljósabasar Nýló er nú haldinn í þriðja sinn og rúmlega 200 verk um 70 félagsmanna eru til sölu á basarnum í Marshallhúsinu. Safnstjóri segir frábært að safnið hafi fengið fastan samastað í húsinu og hún spáir íslensku myndlistarsenunni bjartri framtíð.

Um þessar mundir öslar fólk í gegnum snjó og slabb til þess að sækja jóla­sýn­ingar sem haldnar eru víða um borg­ina. Jóla­sýn­ing­unum eða jóla­basör­un­um, eins og þessar sýn­ingar eru gjarnan kall­að­ar, hefur vaxið fiskur um hrygg á nýliðnum árum og segja má að þær séu orðnar fastur liður í jóla­und­ir­bún­ingi hjá fjölda fólks. Áhuga­fólk um mynd­list sækir þær til að sjá það helsta sem uppi er á ten­ingnum í mynd­list sam­tíð­ar­inn­ar, lista­menn skila af sér fjölda verka og starfs­fólk sýn­ing­ar­stað­anna vinnur í kappi við tím­ann í byrjun des­em­ber við að setja sýn­ing­arnar upp.

Kjarn­inn fór í leið­angur um borg­ina, skoð­aði basar­ana og ræddi við stað­ar­hald­ara. Ferða­lagið hefst í Nýlista­safn­inu en þar stendur yfir Ljósa­basar Nýló sem nú er hald­inn í þriðja sinn. Hann opn­aði á sjálfan full­veld­is­dag­inn, 1. des­em­ber og stendur til þess 19. Í Nýlista­safn­inu tekur á móti okkur Sunna Ást­þórs­dóttir en hún er safn­stjóri og for­maður stjórnar Nýlista­safns­ins. Að hennar sögn er Ljósa­basar Nýló að verða að föstum lið í starfi Nýlista­safns­ins en hann er þáttur í fjár­mögnun safns­ins.

„Það er að skap­ast hefð fyrir basarn­um,“ segir Sunna. „Þetta eru full­trúar Nýló sem taka þátt, allt lista­menn sem eiga og reka safnið ásamt hinum full­trúum safns­ins. Þetta er svona að þeirra frum­kvæði og skilar sér beint til þeirra, en líka að hluta inn í kjarna­starf­semi Nýló, og sá ágóði nýt­ist sér­stak­lega í að styðja við sýn­inga- og við­burða­hald safns­ins.“

Hvað get­urðu sagt mér um umfang basars­ins, hvað eru þetta mörg verk og eftir hve marga lista­menn?

„Þeir eru hátt í 70 lista­menn­irnir sem taka þátt. Þegar við opn­uðum voru lista­menn­irnir um 60 en það eru alltaf fleiri að bæt­ast við flór­una. Sama með verk­in, þau eru rúm­lega 200 en það eru alltaf að koma inn fleiri. Svo selj­ast verk og ný koma inn í stað­inn,“ segir Sunna og bendir á að einnig sé hægt að skoða verkin á net­inu.

„Basar­inn er bæði hér í sýn­ing­ar­salnum í Mars­hall­hús­inu og á net­inu, á ljosa­bas­ar.nylo.­is. Basar­inn var í fyrsta sinn á net­inu í fyrra vegna heims­far­ald­urs­ins, þá gátum við ekki haldið hann í salnum okkar eins og áður. Í ár ákváðum við að gera bæði, enda reynd­ist heima­síðan vel. Þar er líka hægt að lesa um lista­menn­ina sem taka þátt og glöggva sig aðeins á þeim og verkum þeirra í víð­ara sam­hengi, auk þess sem hægt er að kaupa verk.“

200 verk hengd upp á tveimur dögum

Sú venja hefur skap­ast á jóla­mörk­uðum sem þessum að þegar fólk kaupir verk, í það minnsta á staðn­um, þá getur það fengið verkið afhent um leið og tekið það svo með sér heim og hengt verkið upp á vegg eða pakkað inn, sé lista­verkið ætlað ein­hverjum öðr­um. Upp­hengið á jóla­mörk­uð­unum er haft með svoköll­uðum salon stíl, verkin hanga mjög þétt og ná hér um bil frá gólfi og upp í loft og því er hægt að sýna mörg verk sam­tím­is. Nafn­giftin á þessum stíl upp­hengis er til­kom­inn því þessi háttur var hafður á við upp­hengi mynda á salon sýn­ing­unum í París sem voru einn stærsti list­við­burður í heimi um árarað­ir.

Hvernig er með und­ir­bún­ing fyrir svona stóran mark­að, hvenær hefst hann?

„Und­ir­bún­ing­ur­inn hefst tím­an­lega, félags­menn skrá sig snemma og við byrjum snemma að huga að ramm­anum en svo er alveg spýtt í lóf­ana í nóv­em­ber, og sér­stak­lega þegar við erum að fara að setja upp. Yfir­leitt setjum við upp hátt í 200 verk á tveimur dög­um. Það er mikil stemn­ing, þá söfnum við liði, og það er svo gaman að pakka öllum verk­unum upp og sjá með eigin augum hvaða verk félags­menn hafa komið með. Þau eru öll ein­stök, og end­ur­spegla í raun fjöl­breyti­leika full­trúa­ráðs safns­ins. Það er mjög skemmti­legt að sjá verk mis­mun­andi kyn­slóða mynd­list­ar­manna saman í kös.“

Verk á Ljósabasar Nýló hanga hátt og lágt á veggjum safnsins í Marshallhúsinu. Slíkt upphengi er sagt vera með salon stíl og tíðkast á jólamörkuðum sem þessum.
Bára Huld Beck

Þessi hraði í upp­setn­ingu, hann fæst kannski vegna þess að þið njótið ákveð­ins frelsis við upp­heng­ingu verka, því þetta er ekki eins og hefð­bundin sýn­ing í þeim skiln­ingi?

„Einmitt, þetta er heldur ekki sýn­ing. Þetta er basar og í salon stíl og verkin eru dálítið í belg og biðu sem er svo­lítið fag­ur­fræði lista­verka­mark­aða. Þannig að jú, við getum hengt hátt og lágt og ég held að sér­stak­lega fyrir börn sé mjög gaman að fara á þessa listjóla­mark­aði því mörg verk­anna eru hengd upp í þeirra augn­hæð.“

Ekki mark­miðið að vera í sam­keppni við aðra basara

Nú er þessi basar dálítið frá­brugð­inn öðrum basörum í borg­inni vegna þess að þetta er safn alla aðra mán­uði árs­ins. Hvernig er að fá að setja þennan hatt á sig og verða eins konar sölugall­erí í um það bil mánuð á ári?

„Við erum safn allan árs­ins hring, og safna­starfið heldur áfram í des­em­ber líkt og aðra mán­uði. Ljósa­basar­inn er hald­inn að frum­kvæði félags­manna sem fjár­öflun fyrir safnið okk­ar. Þessi mark­aður er ekki sýn­ing heldur vett­vangur þar sem félags­menn taka höndum saman fyrir Nýló, hluti sölu­á­góð­ans rennur síðan í starf­semi safns­ins. Eitt það skemmti­leg­asta við basar­inn er að sjá þessi ólíku verk félags­manna í sama rými. Þannig að þetta er í raun­inni bara mjög skemmti­legt tæki­færi til þess að vinna beint með félags­mönn­um.“

Hlut­verk Nýlista­safns­ins er marg­þætt eins og Sunna fer yfir í kjöl­far­ið: „Við erum lista­manna­rekið safn, og í því felst fjöl­breytt hlut­verk. Í stuttu máli söfnum við sam­tíma­mynd­list með öllu því sem því til­heyr­ir, höldum úti sýn­ing­ar­haldi og miðlum mynd­list. Sú stað­reynd að við erum lista­manna­rekin snýr svo að því á hvaða for­sendum starfið er unn­ið, það er ávallt á for­sendum mynd­list­ar­manna og meðal ann­ars með það að mark­miði að opna augu almenn­ings fyrir við­fangs­efnum mynd­list­ar­manna hverju sinni. Við erum í góðu sam­starfi við bæði ríki og borg, og Ljósa­basar­inn er svo ein leið til þess að fjár­magna starf­sem­ina.“

Nafnið Ljósa­basar, hvernig er það til­kom­ið?

„Þegar þáver­andi stjórn lagði grunn að basarn­um, þá var hug­myndin ekki að vera í sam­keppni við jóla­mark­að­ina, heldur frekar að nýta sér styrk­inn í því að það er margt í gangi í des­em­ber. Basar­inn á sér stað á myrkasta árs­tím­an­um, þannig hugs­unin var að leyfa list­inni að lýsa upp skamm­deg­ið.“

Ekki bara ljósa­verk á boðstólum

Sunna segir það hafa komið fyrir að nafnið hafi valdið mis­skiln­ingi. Það hafi til dæmis gerst að lista­menn hafi verið tví­stíg­andi við það að taka þátt í basarnum vegna þess að þeir eigi ekk­ert ljósa­verk til að selja. Einnig hafa gestir haldið að ein­ungis sé hægt að festa kaup á ljósa­verk­um.

„Það eru margir sem halda að þetta séu bara verk sem lýsa en það er ekki svo. Það má líka skoða þetta í breiðu sam­hengi. Einn af eig­in­leikum list­ar­innar er að gera ákveðna kima heims­ins sýni­lega, hvort sem sú skot séu raun­veru­leg eða til­heyra öðrum vídd­um, þá spretta fram ein­hver ný sjón­ar­horn með list­inni. Svo er það nú svo að ef það væri ekki ljós í heim­inum þá gæti manns­augað ekki numið liti eða okkar sýni­lega umhverf­i.“

Jóla­mark­aðir líkt og Ljósas­basar Nýló eru orðnir að föstum lið í helgi­haldi margra, líkt og áður var vikið að og slíkir mark­aðir hafa á nýliðnum árum skotið upp koll­inum einn af öðr­um. Sunna seg­ist ekki hafa myndað sér sér­staka skoðun á því hvort að slíkir mark­aðir séu orðnir of margir eða hvort að íslenskur list­mark­aður þoli þennan fjölda. En eitt er hún sann­færð um og það er gildi þess að kaupa íslenska mynd­list.

Þrátt fyrir að listamenn séu ekki skyldugir til þess að skila af sér ljósaverkum á Ljósabasar má fá þar keypt ljósaverk. Hér má sjá þrjú slík verk: Bel Ray, Total Performance Lubricants eftir Elísabet Birtu Sveinsdóttur og tvö verk Katrínar Ingu Jónsdóttur Hjördísardóttur sem bæði heita Sjálfsást.
Bára Huld Beck

„Mér finnst að fleiri ættu að íhuga að fjár­festa í mynd­list,“ segir Sunna og nefnir það að fleira sé mynd­list en mál­verk á vegg: „Hér á basarnum okkar eru tví­víð verk unnin með ýmsum aðferð­um, en líka skúlp­t­úr­ar, víd­eó­verk, inn­setn­ingar og allt þar á milli.“

Gott að hafa fastan sama­stað eftir tíða flutn­inga

Talið berst nú að öðru – sjálfu Mars­hall­hús­inu, hvar Nýló hefur verið til húsa í rúm fjögur ár þegar húsið var form­lega opnað eftir gagn­gerar end­ur­bætur í mars árið 2017. Í hús­inu er einnig að finna annað lista­manna­rekið rými, gall­er­íið Kling&Bang, en þar er auk þess Stúdíó Ólafs Elí­as­son­ar, sem að vísu hefur að mestu verið lokað í heims­far­aldri, og veit­inga­stað­ur­inn La Prima­vera. Að sögn Sunnu er það frá­bært að mynd­listin sé í aðal­hlut­verki í hús­inu, það bjóði upp á frjótt sam­tal milli íbúa húss­ins. Að auki sé það gott að starf­semin í hús­inu dragi til sín mis­mun­andi hópa.

Áður en Nýlista­safnið fékk nýjan sama­stað í Mars­hall­hús­inu hafði það verið á hálf­gerðum ver­gangi og flutn­ingar voru reglu­legur við­burð­ur, eitt­hvað sem er alls ekki æski­legt í safna­starfi. Spurð að því hvort það hafi verið bylt­ing fyrir Nýlista­safnið að fá aðsetur í hús­inu svarar Sunna ját­andi.

„Ný­lista­safnið hefur nátt­úr­lega þurft að flytja fimm eða sex sinnum í gegnum tíð­ina. Það var stofnað 1978 og hefur flutt margoft, bæði sýn­ing­ar­rýmið en líka saf­n­eignin og það er ekki gott fyrir verk að vera alltaf á flutn­ingi. Við erum með saf­n­eign­ar­geymslur í Breið­holti og von­andi getum við verið þar til fram­búð­ar, það er rosa­lega mikið öryggi að vita af því að saf­neigin er ekki að fara á flakk næstu árin.“

Nýlista­safnið leigir aðstöðu sína af Reykja­vík­ur­borg sem jafn­framt styrkir starf­semi safns­ins. Enn er um ára­tugur eftir af leigu­samn­ingnum sem Sunna segir vera langan tíma á skala Nýlista­safns­ins. Það að safnið hafi trygga búsetu á svo góðum stað til svo langs tíma hefur auk þess í för með sér að kraftar starfs­fólks­ins nýt­ast betur að sögn Sunnu.

„Síðan er líka bara frá­bært hvað sal­ur­inn er fal­legur og þetta er skemmti­legt og bjart rými að vinna í. Nú þurfum við ekki að pæla í ein­hverjum vatnslekum eða raf­magns­rofi. Við erum bara að ein­beita okkur að því sem við eigum að gera sem er að sinna list­inn­i.“

Fram­tíð mynd­list­ar­sen­unnar „rosa­lega björt“

Nú fylgist þið hér í Nýló vel með sam­tíma­list­inni, er ein­hver rauður þráður í list­sköpun starf­andi lista­manna og um hvað fjalla þeir í list­sköpun sinni í dag?

„Mér finnst eig­in­lega meira spenn­andi, kannski í ljósi árs­tím­ans, að pæla í hvað er fram und­an. Mynd­list­ar­senan er svo fjöl­breytt, í sífelldri gerjun og alltaf á hreyf­ingu. Sjón er yfir­leitt sögu rík­ari, hér er mjög mikið um að vera, nýjar sýn­ingar að opna nán­ast viku­lega og á nýju ári er til dæmis til­valið að setja sér mark­mið um að heim­sækja nýjan sýn­ing­ar­stað í hverjum mán­uði. Það eru spenn­andi tímar í vændum á mörgum svið­um, en sér­stak­lega finnst mér vert að nefna að umræðan um inn­gild­ingu, mál­efni og stöðu aðfluttra Íslend­inga, er byrjuð að taka pláss hér á landi. Þetta er mik­il­væg og löngu tíma­bær umræða sem á von­andi eftir að ýta við sýn­inga­lands­lag­inu, færa okkur fjöl­breytt­ari sýn­ingar og verk sem ýta enn frekar við við­teknum hug­myndum okkar um list­ina.“

Rúmlega 200 verk eftir hátt í 70 listamenn eru til sölu á Ljósabasar Nýló þetta árið en basarinn stendur til 19. desember.
Bára Huld Beck

Hún segir einnig að létt­leiki og nýj­unga­girni ein­kenni mynd­list­ar­sen­una á Íslandi í dag.

„Mynd­list­ar­menn hér á landi eru líka mjög leik­andi. Þó að snert sé á alvar­legum við­fangs­efnum þá er aldrei langt í ein­lægni eða húmor jafn­vel. Ég held að rauði þráð­ur­inn sé sá að mynd­list­ar­menn eru óhræddir við að glíma við bæði ný og ögrandi við­fangs­efn­i.“

Þannig að fram­tíð mynd­listar á Íslandi er björt?

„Rosa­lega björt.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnGrétar Þór Sigurðsson
Meira úr sama flokkiViðtal