Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs, hefur fyrirskipað Fiskistofu þar í landi (Fiskeridirektoratet) að stöðva útgáfu á heimildum til erlendra aðila til að kaupa fiskiskip sem halda á fiskveiðikvóta þar í landi. Hann hefur grunsemdir um að erlendir fjárfestar í sjávarútvegi séu að sniðganga lög sem segja til um að skip með úthlutuðum fiskveiðikvóta verði að vera í að minnsta kosti 60 prósent eigu Norðmanna, með því að raunverulegt eignarhald sé til að mynda falið með lánveitingum frá erlendum aðilum. Þeir, erlendu aðilarnir, hafi svo mun meiri áhrif á það hvernig útgerð sé rekin en uppgefið eignarhald þeirra segir til um.
Ingebrigtsen segir enn fremur að til greina komi að endurskoða viðskipti með skip sem halda á fiskveiðikvóta aftur í tímann og vinda ofan af þeim. Þetta kemur fram í umfjöllun norska viðskiptablaðsins Dagens Næringsliv um málið.
Helsta ástæða þess að Ingebrigtsen grípur nú til aðgerða er einföld: íslenski sjávarútvegsrisinn Samherji.
Grunur um sniðgöngu á lögum um erlent eignarhald
Í umfjöllun Dagens Næringsliv er greint frá útgerðarfyrirtækinu Eskøy í Finnmörku í Norður-Noregi. Þar til nýlega var það í eigu tveggja íslenskra bræðra, Hrafns og Helga Sigvaldasona, sem hafa búið um skeið í Noregi og eru norskir ríkisborgarar. Seint á síðasta ári var gert samkomulag um að Icefresh GmbH, dótturfélag Samherja í Þýskalandi, myndi leggja fyrirtækinu til nýtt fé og fá í staðinn 40 prósent hlut í Eskøy. Greint var formlega frá frágangi viðskiptanna á vef vef Icefresh seint í apríl, eftir að norska Fiskistofan hafði samþykkt ráðahaginn. Eskøy hefur um árabið verið í samstarfi við Icefresh sem rekur fiskvinnslu nálægt Frankfurt am Main í Þýskalandi.
Til stóð að nota hið nýja fjármagn sem Samherji lagði Eskøy til til að kaupa upp norsk skip og aflaheimildir sem þeim fylgdu. Dagens Næringsliv segir að haft hafi verið samband við útgerð sem kallast Senja með það fyrir augum að gera slík viðskipti.
Sjávarútvegsráðuneytið í Noregi ákvað nýverið að skoða þau viðskipti sérstaklega. Í bréfi sem það sendi til Eskøy þann 16. apríl síðastliðinn var fyrirtækið krafið um ýmiskonar upplýsingar, meðal annars um hluthafasamkomulög og aðkomu ytri aðila að fjármögnun á kaupunum af Senja. Hrafn Sigvaldason segir við Dagens Næringsliv að það hefði verið afar sérstakt fyrir litla útgerð að fá slíkt bréf frá sjávarútvegsráðherra Noregs. Það er enda afar óvenjulegt að ráðherrann, Ingebrigtsen, sendi slík bréf í eigin nafni beint til útgerða. Í þessu tilfelli þótti honum það nauðsynlegt.
Segir Samherja vera með laskað mannorð
Ingebrigtsen segir við Dagens Næringsliv að svör Eskøy hafi verið ófullnægjandi. Sjávarútvegsráðherrann felur það heldur ekki að hann er ekki jákvæður í garð Samherja. „Þetta fyrirtækið er með laskað mannorð. Í Noregi hafa skip sem þeir eiga oftsinnis verið stöðvuð af landhelgisgæslunni, sem er auðvitað óheppilegt. Meiri áhersla verður lögð á slík mál í framtíðinni þegar samþykki verður veitt fyrir breytingum á eignarhaldi.“
Í janúar hafði norska landhelgisgæslan afskipti af frystitogaranum Santa Princesa, sem er í eigu Samherjasamstæðunnar og er skráður í Portúgal. Samherji segir að dómstólar hafi staðfest að málið hafi verið tilhæfulaust og tilkomið vegna þess að tilkynningarkerfi milli Noregs og Portúgal virkaði ekki sem skyldi.
Í skriflegu svari til norska viðskiptablaðsins segir Margrét Ólafsdóttir, talskona Samherja, að það valdi Samherja vonbrigðum að norski sjávarútvegsráðherrann segi að samstæðan sé með „laskað mannorð“. Hún segir orð ráðherrans vera „mjög ósanngjörn“.
Það sé ekki upplifun Samherja á sjálfum sér og ekki upplifum samstæðunnar af samskiptum hennar við samstarfsaðila í Noregi, hvort sem um sé að ræða þá sem smíði fyrir hana skip, banka sem láni þeim fjármuni eða starfsmenn Samherja þar í landi.
Samherjarannsókn afhjúpaði veikleika í peningaþvættisvörnum
Þetta er ekki eina málið tengt Samherja sem ratað hefur í fréttir í Noregi á síðustu dögum.
Í síðustu viku var greint frá því að norska fjármálaeftirlitið hefði ákveðið að sekta norska bankann DNB, sem er að stórum hluta í eigu norska ríkisins, um 400 milljónir norskra króna, jafnvirði um það bil sex milljarða íslenskra króna, vegna áralangra bresta í eftirliti og vörnum bankans gegn peningaþvætti. Bankinn fékk harða gagnrýni frá fjármálaeftirlitinu, meðal annars vegna eftirlits með fjármagnsflutningum fyrirtækja í Samherjasamstæðunni.
Mat fjármálaeftirlitsins var að þeir vankantar sem komu í ljós í tengslum við rannsóknina á Samherjamálinu hafi staðfest veikleika í vörnum DNB sem afhjúpast hafi í fyrri athugunum fjármálaeftirlitsins á vörnum bankans gegn peningaþvætti árin 2016 og 2018 og sömuleiðis þeirri nýjustu, sem nú var sektað fyrir.
Þau brot sem voru undir í rannsókn fjármálaeftirlitsins á Samherjamálinu voru þó sögð fyrnd og framin er eldri lög um peningaþvætti voru í gildi í Noregi.
Grunur um ýmiskonar lögbrot víða um heim
Samherji er til rannsóknar hérlendis og í Namibíu vegna meintra mútubrota, skattasniðgöngu og peningaþvættis í tengslum við viðskipti sín í Namibíu. Á Íslandi rannsaka bæði embætti héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóri málið og alls sex núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja hafa fengið stöðu sakbornings við yfirheyrslur.
Á mánudag var greint frá því að Tindholmur, færeyskt dótturfélag Samherja, hefði greitt 345 milljónir króna vegna vangoldinna skatta í ríkissjóð Færeyja. Skattskil félagsins hafa sömuleiðis verið kærð til lögreglu í Færeyjum.
Málið kom upp í mars síðastliðnum þegar fyrri hluti heimildarmyndar um umsvif Samherja í Færeyjum var sýnd er í færeyska sjónvarpinu. Hún var unnin í samstarfi við Kveik og Wikileaks.
Þar kom fram að Íslendingur úr áhöfn togara í eigu Samherja, sem gerður var út í Namibíu, fékk laun sín greidd frá færeyska félaginu Tindholmur, sem Samherji stofnaði þar í landi árið 2011. Gögn sýndu að hann hafi auk þess verið ranglega skráður í áhöfn færeysks flutningaskips í eigu Samherja, en útgerðum býðst 100 prósent endurgreiðsla á skattgreiðslum áhafna slíkra skipa.
Þannig er talið að málum hafi verið háttað með fleiri sjómenn sem unnu fyrir Samherja í Namibíu. Fyrir vikið greiddu sjómennirnir ekki skatta í Namibíu og Samherji þurfti því ekki að bæta þeim upp tekjutap vegna slíkra skattgreiðslna.
Telur orðspor íslenskra fyrirtækja ekki í hættu vegna Samherja
Áhrif atferlis Samherja á alþjóðavettvangi á orðspor Íslands var til umræðu á Alþingi í liðinni viku.
Í óundirbúnum fyrirspurnum til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, meðal annars: „Orðspor Íslands og Íslendinga skaðaðist við bankahrunið. Það gerði það líka þegar fjöldi Íslendinga, þar á meðal ráðherrar, birtust í Panama-skjölunum.“
Hún spurði svo Bjarna hvort hann teldi að neikvæð umfjöllun um samskipti Samherja, meðal annars meint skattsvik í Færeyjum, peningaþvætti í gegnum banka í Noregi og mútugreiðslur í Namibíu gæti skaðað traust á íslensku atvinnulífi. „Að neikvæð umræða um viðskipti eigenda Samherja fylgi orðsporsáhætta? Hafi neikvæð áhrif sem teygir sig yfir í viðskipti annarra íslenskra fyrirtækja og viðskiptasamninga þeirra? Hvað er hæstvirt ríkisstjórn að gera til þess að verja orðspor Íslands að þessu leyti?“.