„Pörupiltarnir“ í gróðurhúsi íslenskrar myndlistar
Árni Már Erlingsson og Skarphéðinn Bergþóruson hafa rekið Gallery Port frá því um mitt ár 2016 og halda nú jólasýningu í fyrsta sinn á nýjum stað að Laugavegi 32 en galleríið var áður til húsa nokkrum metrum neðar við götuna. Þeir eru þó engir nýgræðingar í jólavertíðinni en þetta er þeirra sjötti jólabasar. Þeir líkja jólamörkuðunum sem nú spretta upp kollinum hér og hvar við piparhúðað sælgæti: „Það var pipar á einhverju einu sælgæti og svo var allt í einu pipar á öllu sælgæti.“
Galleríistarnir Árni Már Erlingsson og Skarphéðinn Bergþóruson í Gallery Port færðu nýlega út kvíarnar þegar þeir fluttu sig um set á nýjan stað við Laugaveg 32, steinsnar frá gömlu húsakynnunum við Laugaveg 23 með portinu góða sem galleríið er kennt við. Gestir Laugavegarins geta því nú í fyrsta sinn horft inn um glugga til þess að skoða verkin sem hanga í Portinu hverju sinni auk þess sem þeir Árni og Skarpi hafa úr meira rými að moða fyrir sýningarhald eftir flutningana.
Það er þó tvennt ólíkt að skoða sýningar í gegnum rúðugler og inni í sjálfum sýningarsalnum. Kjarninn staldraði við í kaffi hjá þeim félögum til að ræða um nýtt sýningarrými, um íslenskan listmarkað og áhuga almennings á list – en ekki síst um jólabasara. Þeir Árni og Skarpi eru orðnir ansi sjóaðir í jólamarkaðsleiknum, enda eru þeir að halda sína sjöttu jólasýningu, í þetta sinn undir yfirskriftinni Jólagestir Gallery Port.
Um 200 verk á sýningunni í ár
Strákarnir í Portinu hafa uppi stórar hugmyndir, líkt og Árni bendir á á einum stað í viðtalinu sem hér fer á eftir þegar hann segir: „Annað hvort erum við á leiðinni í eitthvað stærra geim eða í gjaldþrot,“ en ummælin eru til marks um þann húmor sem einkennir þá Árna og Skarpa. Á þeim tíma sem bandið í upptökutækinu fékk að rúlla og á meðan kaffið var sötrað, létu þeir gamminn geisa og spyrill varð á stundum að áhorfanda mitt í snakki þeirra félaganna. En við hefjum yfirferðina á því að spyrja út í umfang markaðarins í ár, líkt og í fyrri viðtölum við staðarhaldara sem halda úti jólamörkuðum.
Skarpi: „Þetta eru rúmlega 60 listamenn og við höfum enga hugmynd um fjölda listaverka, þetta er frá einu og upp í fimm verk á mann.“
Árni: „Svo eru þeir sem eru ofvirkastir sem koma með lager.“
Skarpi: „Síðan við byrjuðum hafa þetta verið eitthvað um 200 verk að minnsta kosti. Svo eru prentverk og alls konar verk.“
Þeir segja að nokkur rótering hafi verið á verkum vegna ágætrar sölu en Árni bendir á að salan aukist alltaf eftir því sem nær dregur jólum. Af þeim sökum tapst heildaryfirbragð jólasýningarinnar heldur fljótt, segir Skarpi, þó það sé ekki endilega markmiðið að ná slíkri heildarsýn:
„Síðan er bara tekið af veggjunum eins og er á svona mörkuðum, fólk tekur með sér verk. Þá reynum við að stoppa í götin með verkum frá þeim sama eða öðrum eða eitthvað sem passar í gatið. Þetta er sjötti jólamarkaðurinn og við byrjum alltaf á að reyna að raða þessu upp eins og þetta sé sýning, finna hvað passar saman og svona. Svo er þetta allt á hreyfingu þannig að þetta skiptir ekki svo miklu máli á endanum. Það er gaman að sjá þetta korteri fyrir opnun og svo hverfa myndir af veggjunum.“
„Stela aðeins“ af jólalaunum rithöfundanna
Þú segir að þetta sé sjötta jólasýningin. Svo þið hafið verið komnir frekar snemma á vagninn, jafnvel verið með þeim fyrstu til að setja upp svona jólasýningu?
Árni: „Ef ég man rétt þá var Kunstschlager sem var starfandi listamannarekið gallerí á Rauðarárstíg að gera þetta á sínum tíma, sem er talsvert fyrir okkar tíð.“
Skarpi: „En var ekki smá gat í þessu?“
Árni: „Ég held að það hafi komið eitthvað gat þarna á milli og svo verður þetta meira áberandi. Við byrjum að gera þetta og svo Ásmundarsalur og svo kemur Ljósabasar Nýlistasafnsins og svo núna er Listval komið. Svo er Mutt með pop-up sýningu og Þula er með jólasýningu með verkum frá Kína. Þannig að þetta er orðið svolítið mikið.“
Skarpi: „Það var svolítið gat í þrjú, fjögur ár af svona mörkuðum eins og við vorum með fyrst, með fólki af yngra taginu.“
Árni: „Við erum bara að reyna að troða okkur með rithöfundunum, stela aðeins af jólalaununum þeirra. Þetta er bæði ótrúlega skemmtilegt því að við fáum báðir mikið af heimsóknum frá fjölskyldu og vinum sem koma kannski ekki oft en koma í bæinn af því að það eru að koma jól og svo er mikið af fólki sem kemur hingað inn því það eru að koma jól þannig að þetta verður hálfgerð árshátíð. Mikið af listamönnum sem eru tengd galleríinu koma á þessu tímabili og mikil gleði í bland við langa opnunartíma og mikið stuð.“
Jólamarkaðir orðnir eins og piparhúðað nammi
Hafið þið einhverja skýringu á því hvers vegna jólamarkaðirnir eru orðnir svona margir?
Árni: „Er það ekki bara eins og allt sem verður vinsælt og skemmtilegt á Íslandi? Eins og saltið á sínum tíma, það var sjávarsalt í öllu og svo þróast þetta bara áfram. Það var pipar á einhverju einu sælgæti og svo var allt í einu pipar á öllu sælgæti, er þetta ekki bara íslenskt þema?“
Skarpi: „Líka bara listamennirnir fara að bjóða sig fram, þeir sjá að þetta virkar. Þeir eru lang, langflestir að taka þátt. Það eru ekki margir sem eru að gera svona list, söluvænlega list, sem taka ekki þátt að neinu leyti. Margir eru á fjórum eða fimm mörkuðum.“
Nú eruð þið báðir að fást við myndlist og það eru verk eftir ykkur hérna og líka annars staðar. Þið eruð báðir í Ásmundarsal og ert þú ekki líka með verk hjá Listval, Árni?
„Ég er algjört sell-out þessi jólin, það er klárt mál,“ segir Árni og hlær.
Svo það má kannski segja að íslenskur listmarkaður sé ekki mjög stór, þið sýnið til dæmis víða. Höndlar íslenskur listmarkaður svona marga basara á sama tíma ár eftir ár?
Árni: „Það er fyndið að þú skulir minnast á þetta. Ég var einmitt að eiga þetta samtal við einn gest hérna um daginn um að mig langar, og við þurfum að útfæra það á næsta ári, mig langar að setja upp „edition“ markað eins og við vorum með fyrir nokkrum árum, til að reyna að hafa einhverja sérstöðu.“
Skarpi: „Það var lagt upp með það fyrst að vera með lítil, söluvænleg edition verk. Svo er þetta búið að stækka.“
Árni: „Ég held að Listval, við og Ásmundarsalur séum öll að koma vel út úr þessu. Fyrir viðskiptavininn er þetta næs, því hann getur farið út um allt, það er rosa mikið framboð. Það eru allir listmarkaðirnir auðvitað með sína sérstöðu en svo eru „the usual supsects“ yfirleitt á flestum stöðum. Jújú, það er eitthvað sambærilegt á sumum stöðum en svo hafa Listval og Ásmundarsalur einhverjar myndir sem eru ekki annars staðar.“
Skarpi: „Ásmundarsalur bað um ný verk gerð fyrir sig. Þannig að þetta eru ekki sömu verkin.“
Prakkaraskapur listamanna
Er það rétt að hér í Porti sé alúð lögð við að sinna grasrótinni?
Skarpi: „Við erum með nýtt slagorð fyrir Portið núna, „Gróðurhús í íslenskri myndlist“. Það var fyrst „Gróðurhús grasrótarinnar í íslenskri myndlist“. En ég held að sé bara „Gallery Port: Gróðurhús í íslenskri myndlist“.“
Árni: „Það laumast alltaf einn og einn inn, einn og einn svona eldri frændi eða frænka með okkur.
Um þessa eldri frændur og frænkur segir Skarpi að þau eigi það þó sameiginlegt að beita smá prakkaraskap í listsköpun sinni og nefnir hann sem dæmi verkið Ekki þitt besta verk eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur. Verkið er einfalt að gerð, Kristín hefur saumað út á striga orðin „Ekki þitt besta verk“ með rauðum ullarþræði. Árni nefnir í sömu andrá verkið Leiðarljós eftir Pétur Magnússon sem er gangstéttarhella með tyggjóklessu. Árni heldur áfram og segir grasrótina engu að síður fá gott pláss í Porti:
„Ég held í sjálfu sér að þetta eldist með því sem við eldumst en við erum með eins og til dæmis Einar Lúðvík sem við spáum góðu gengi á næstu árum. Hann er bara tiltölulega nýútskrifaður, svo erum við með Evu Schram, ljósmyndara. Það eru tvö ár síðan hún útskrifaðist. Hjördís Eyþórs sömuleiðis og Ýmir Grönvold. Við erum með þessa grasrót en mig grunar að það fari að þróast í þetta millistig á milli þess að vera grasrót og vera kannski komin út í „commercial“ gallerí eða erlendis.“
Líta ekki á sig sem sýningarstjóra
Spurðir að því hvort líta megi á Gallery Port sem einhvers konar stökkpall fyrir unga listamenn segja þeir að svo megi vera. Að mati Árna eru þeir til dæmis „ágætis tól til að kenna listamönnum mikilvægi þess að starfa með galleríum,“ og Skarpi segir að það geti verið skref upp á við fyrir einhverja að sýna í Porti. Hann bætir því kankvís við að þeir séu eins konar „nasaþefur af „the big time“,“ þó þeir tveir geti ekki beint kallað sig sýningarstjóra.
Árni: „Hvernig þá?“
Skarpi: „Við vinnum með fólki þegar það kemur inn. En við erum ekki sýningastjórar, „curatorar“, inni í einhverju ferli í marga mánuði, þannig, þó að einhver komi og segi „mig langar að vera með svona sýningu,“ þá getum við ekki sett það á CV-ið okkar að við höfum „curatað“ þeirri sýningu.“
Árni: „Við erum búnir að vera að þessu í sex ár og sem betur fer verðum við aðeins betri í þessu með tímanum. Við erum fluttir í þetta fína húsnæði hérna þar sem við erum með stórar hugmyndir. Annað hvort erum við á leiðinni í eitthvað stærra geim eða í gjaldþrot.“
Hversu langur er undirbúningurinn að svona sýningu?
Árni: „Það byrjar bara í lok sumars.“
Skarpi: „Þá förum við að snerta á þessu, nefna þetta við fólk og fólk nefnir þetta jafnvel við okkur að fyrra bragði um það leyti. Við kannski lærðum það fyrir einhverjum árum að vera snemma í því.“
Árni: „Af einhverjum öðrum seinagangi af einhverjum öðrum jólamarkaði.“
Hvað eruð þið svo lengi að henda þessu upp?
Árni: „Það er eiginlega minnsti tíminn. Mesti tíminn fer eiginlega í að staðfesta, bóka, taka ljósmyndir og samskipti við listamenn.“
Skarpi: „Og að vorkenna okkur yfir því að þurfa að setja þetta allt upp. Horfa á þetta og spá í þessu. En nei, við vorum ekkert lengi að þessu. Við höfðum heldur ekki mikinn tíma og það hefur alltaf verið þannig á sýningum hérna. Við erum alltaf með tvær sýningar í mánuði.“
Árni: „Í þetta skiptið höfðum við einhverja þrjá eða fjóra daga.“
Og einhverjar fleiri hendur til þess að negla þetta allt upp?
Skarpi: „Nei í raun og veru ekki, ekki í þetta sinn.“
„Mér líst vel á þennan bissness!“
Það er eitt sem mér finnst dálítið skemmtilegt og verð að nefna. Sýningarstaðir leggja mismikið upp úr því að vera með sýningarskrá eða „katalóg“ á þessum jólasýningum. Þið farið þá leið að nota gömlu góðu verðmiðana, hvaða „statement“ er það?
Árni: „Það held ég að skrifist bara á haugaskap.“
Skarpi segir í kjölfarið frá leiðangri þeirra Árna í leit að verðmiðabyssunni sem hefur reynst þeim nauðsynlegt tól, því „menn eru misgóðir í að geyma verðin í huganum“. Þeir lögðu leið sína í verslun sem selur ýmsan varning, stimpla, verðmiðabyssur og annað í þeim dúr og þar hafi þeir fundið tvær slíkar byssur til sölu. Munurinn var sá, líkt og kona sem starfaði í búðinni útskýrði fyrir þeim, að önnur gat gert miða með fimm tölustöfum en hin með sex! Árni var fljótur að velja sex stafa byssuna og þá segir konan í búðinni: „Mér líst vel á þennan bissness!“
Árni: „Þetta er alls ekkert haugaskapur hjá okkur. Það er rosa erfitt að fá allar þessar ljósmyndir sem við báðum um. Svo eru það gæði ljósmyndanna, þetta er stundum bara tekið á síma. Í fyrra þá vorum við með Óskar Hallgrímsson, vin okkar, sem er ljósmyndari og myndlistarmaður með okkur í liði. Þetta voru örugglega tveir sólarhringar komplett í ljósmyndun, eftirvinnslu og að búa til bækling og svo var bæklingurinn svo stór og mikill að við vorum bæði með hann í digital formi, við vorum með QR kóða fyrir viðskiptavini og bæklinginn á staðnum.“
Skarpi: „Svo verður hann útrunninn.“
Árni: „Það er svo mikil hreyfing á verkum og svo átti fólk stundum í stökustu vandræðum með að finna tiltekin verk, þannig að fólk kom alltaf til mín. Við vorum að pæla í því núna í gær hvort við ættum að prenta út og setja miða með nöfnum á alla. Sem yrði þá í stíl, yrði þá í sama lit og úr verðmiðabyssunni. En klárlega fyrir næstu jól, þá þurfum við að finna einhverja lausn á þessu.“
Skarpi: „En það er líka gaman að láta fólk meta verkin, ekki út frá nafni heldur bara út frá verði. Það væri auðvitað best ef það væri ekki verð. En það er fyndið að sjá fólk bera hlutina saman út frá verði.“
Árni: „En annars er þetta eitthvað sem er stranglega bannað held ég, í svona gallerísreglunum.“
Ég ætla að leyfa mér að segja að ég fíla þetta, það er mikil „Ports áferð“ á þessum verðmiðum, er ekki eitthvað til í því?
Árni: „Við erum alltaf, kannski er það ekki rétt hjá mér, en mér finnst við alltaf vera smá pörupiltar.“
S: „Þetta er líka mikill búðarleikur. Að vera hérna á Laugavegi, það kemur hérna fullt af venjulegu fólki og það er að meta verðin og þetta. Maður þarf stundum að svara fyrir eitthvað, eða reyna það.“
Gaman að fá fólk „óvart“ inn um dyrnar
Hvernig er það að reka gallerí við Laugaveg?
Árni: „Það er eitt sem flækir örlítið fyrir okkur málin. Við höfum vissulega mátt njóta góðs af ýmiss konar styrkjum frá Reykjavíkurborg, en okkar styrkleiki liggur ekki í að liggja yfir umsóknum og sækja um styrki. Það hefur alltaf flækt fyrir okkur að við þurfum að reka galleríið með sölu á verkum. Vissulega væri draumur, og það er eitthvað sem við munum vonandi geta gert, að leyfa okkur meira að vera með einhverja samtímalist sem kannski er erfiðara að koma í verð.“
Að einblína þá meira á sýningar frekar en sölu?
Árni: „Að leyfa því að vera bæði. Við erum báðir ótrúlega tví- og þrívíðir í fúnksjón sem listamenn. Ég held að þetta eigi við sama hvar við hefðum verið staðsettir að það væri alveg gaman að geta haft minni áhyggjur af rekstri og meiri áhyggjur af því að leika sér.“
Skarpi: „En að vera við Laugaveginn, það hefur ekkert komið mikil reynsla á þessa nýju staðsetningu. Við vorum náttúrlega í einhver sex ár þarna í Portinu. Að vera við Laugaveginn og fá, eins og sérstaklega í kringum jólin og á þorláksmessu, að fá strauminn af venjulegu fólki inn. Og jafnvel svona „óvart“ inn. Að vera svona í framlínunni gagnvart almenningi er erfitt en gaman. Svo kemur túristinn líka.“
Árni: „Við eigum eftir að komast að því hvernig þetta verður hérna í þessu sýnilega plássi á Laugaveginum en við höfum haft mjög gaman af því að vera á Laugaveginum.“
Þið hafið verið hérna við Laugaveg í öll þessi ár, þar sem lokað er fyrir bílaumferð. Hafið þið einhverja skoðun á því máli?
Árni: „Þetta er heitt „topic“. Ég held að einn baráttumaður fyrir því að Laugavegurinn ætti að vera lokaður fyrir bílaumferð, fyrrum leigusali okkar Hörður Ágústsson í Macland, hafi orðað þetta ágætlega: Það hefði bara átt að loka þessu strax. Þá hefðum við vanist þessu. Þá hefðum við búið til einhverjar aðferðir til þess að láta þetta virka. Vöruafhending getur farið fram á morgnanna eins og það er í dag og þá værum við ekki alltaf í þessu fíaskói. Eins og einn daginn mættum við Skarpi bara í vinnuna og þá var fólk að keyra upp Laugaveginn, við spurðum okkur hreinlega: „Hvað er í gangi hérna?“ Þá var öfug umferð á milli Klapparstígs og Frakkastígs.“
Skarpi: „Það var bókstaflega hættulegt.“
Árni: „Það voru mörg myndbönd sem fóru á samfélagsmiðla af bílum að keyra í sitthvora áttina og fólkið fór úr bílunum og kallaði: „Hvað ertu að fokking gera?“ Ég held að það eigi bara að loka fyrir bílaumferð til frambúðar frá Frakkastíg eða Klapparstíg og svo komast þeir sem eiga í erfiðleikum í bláu stæðin og vöruafhending á morgnanna.“
„Ótrúlegustu týpur“ hafa áhuga á myndlist
Í ljósi þess að þið fáið marga gesti og kannski vegna þessa að þið eruð á þessum stað, hvernig metið þið myndlistaráhuga almennings í dag?
Skarpi: „Hann er mjög mikill. Bara venjulegt fólk spáir mikið til dæmis í íslenskri myndlist á Instagram heima hjá sér og talar um það í saumaklúbbum og svoleiðis. Og það þekkir ótrúlegasta myndlistarfólk. Fólk þekkir Ými Grönvold og Loja Höskulds og Helgu Páleyju og Ásgeir Skúlason, það þekkir þessi nöfn. Fólk sem maður myndi kannski halda að væri ekki inni í þessu, hefur mikinn áhuga.“
Árni: „Mér finnst líka bara mikill áhugi hjá ungu fólki. Ungt fólk áttar sig á mikilvægi þess að virða fyrir sér og eignast myndlist og fræðast um þetta. Auðvitað eru alltaf einhverjir sem vilja tikka í einhver box, „mig langar að eiga þennan og þennan af því að þetta er geggjað og ótrúlega vinsælt akkúrat núna,“ en það eru rosa margir sem hafa mikinn áhuga á þessu. Oft og tíðum alveg ótrúlegustu týpur, sem maður átti kannski enga von á. Oft sér maður fyrir sér að þetta sé fólk sem klæðir sig í arty föt en svo er það ekki þannig.“
Skarpi: „Þarna er Árni að tala um fólk sem er að kaupa. En það er líka fólk sem kemur ekki endilega á opnanir, það er að vísu einn hópur sem kemur á opnanir og fær sér rauðvín sem við sjáum alltaf, einhvers konar myndlistaráhugamenn. En svo er líka fólk sem býr hérna í grenndinni og hefur mikinn áhuga á að skoða hvað er nýtt. Fólk sem getur gengið að því vísu að við séum alltaf með eitthvað nýtt á tveggja vikna fresti.“
Hafið þið fylgst með áhuganum þróast á einhvern hátt, hefur hann aukist?
Skarpi: „Myndum við ekki segja að hann hafi aukist núna í COVID til dæmis, áhuginn á því að spá í einhverju svona? Fólk var líka miklu meira heima hjá sér.“
Árni: „Svo held ég að það hafi bara verið leikarastéttinn sem fékk smá undanþágu í COVID til að starfa í hinu og þessu, í til dæmis þáttum fyrir sjónvarp. Allir almennt í kringum okkur í leikhúsi, sviðslistum og tónlist og öllum þessum skapandi greinum voru bara í hakki en við í myndlistinni komum ágætlega út úr þessu.
Mikill húmor í íslenskri myndlist í dag
Hvað einkennir listsköpun starfandi listamanna í dag?
Skarpi: „Það er eiginlega bara það hvað það er fjölbreytt. Við erum búin að vera með eitthvað í kringum 120 sýningar frá því við byrjuðum og það er svo vítt svið. Bæði í efni og hugmyndum.“
Árni: „Sindri Leifsson sýndi til dæmis hjá okkur verk sem eru unnin úr trjám, tré sem er tekið og skorið í tvennt, slípað og lakkað og svo sýnt sem skúlptúr. Svo höfum við líka verið með einhver alveg rammklassísk málverk eftir Rögnvald Skúla Árnason eða Þránd Þórarinsson. Við höfum verið með ótrúlega margbreytilegar sýningar, eitthvað sem lítur út eins og mynd eftir David Lynch á slæmum niðurtúr og allt þar á milli.“
Skarpi: „Við munum aldrei ná því hvað einkennir þetta og þetta er ekki í fyrsta skipti sem við fáum þessa spurningu. Eitt sem mér dettur í hug er að það er mikill húmor í íslenskri myndlist núna. Ekki eitthvað svona skens eða glens, heldur húmor, eitthvað broslegt.“
Árni: „Eftir að ég flutti frá Þýskalandi þá tók ég eftir að ég varð meira var við hákarlastemningu erlendis. Maður var að heyra af krökkum sem voru í listaháskólunum, þar væri fólk bara að stela hvert af öðru og stíga á tærnar hvert á öðru til að komast fram fyrir því það er svo erfitt að komast að. Mér fannst frekar krúttleg hippastemning hérna á Íslandi, fólk er meira til í að hjálpast að og svona. Kannski veit ég ekki betur en mér finnst þetta alltaf pínu einkennandi fyrir íslensku senuna. En svo þekkist það alveg líka þessi hákarlastemning hérna á íslandi, það er alveg til líka. En það var svona „væbið“ sem ég fékk þegar maður kom heim. Portið hefði til dæmis aldrei orðið að því sem það hefur orðið nema fyrir þennan hóp af listamönnum sem hefur annað hvort komið og hjálpað okkur að mála á milli sýninga eða komið og tekið þátt á einn eða annan hátt að öðru leyti en að koma með verk eða setja upp sýningu. Við hefðum ekkert náð að gera það sem við höfum náð að gera bara við tveir.
Hafa stórar hugmyndir um framtíðina
Eru öll dýrin í þessum litla skógi sem íslensk myndlistarsena er góðir vinir?
Árni: „Auðvitað ekki og kannski eðlilega. Við Skarpi erum til dæmis ekki með einkasýningu hérna með einhverjum sem er á mála hjá i8, Berg eða Hverfisgalleríi. Það til dæmis kom hingað listamaður í gær eða fyrradag sem við höfum aðeins unnið með sem er að fara að vera með einkasýningu í september hjá vinum okkar í Listamönnum á Skúlagötu og þá reynum við ekki að bóka hann hérna í mars. Auðvitað eru einhver prinsipp. Einhvern tímann var sagt við mig að öll dýrin eru vinir þangað til málið fer að snúast um peninga en það var í samhengi við eitthvað annað. Að einhverju leyti eru samt allir vinir.“
Já, „að einhverju leyti eru samt allir vinir,“ gætu verið prýðileg lokaorð, nú þegar kaffifantar okkar Árna og Skarpa eru orðnir tómir. En það er ekki hægt að kveðja galleríistana án þess að spyrja hvað framtíðin beri í skauti sér fyrir Gallery Port. Árni segir hróðugur frá herbergi aftast í galleríinu sem nú er orðið að sérstöku upplagsplássi, eins konar galleríi inni í galleríi sem tileinkað er verkum í upplagi, „hvort sem það er prent eða skúlptúr í númeruðu upplagi“.
Spurður að því hvort þeir hafi stórar hugmyndir um framtíðina á þessum nýja stað svarar Árni játandi, „allavega í bili“. Skarpi beitir hins vegar kaldhæðninni fyrir sér: „Ekki nema lokun Laugavegar setji strik í reikninginn og enginn komist hingað.“
Lesa meira
-
2. janúar 2023Höfundur Matador þáttanna látin – „Maður er ekkert merkilegur af því maður er gamall“
-
2. janúar 2023„Stjórna erlendar streymisveitur bráðum innlendri kvikmyndaframleiðslu?“
-
24. desember 2022Ólöf Arnalds safnar fyrir útgáfu fimmtu breiðskífu sinnar
-
20. desember 2022Hundrað ára afmæli Cafe Fodkold
-
18. október 2022Þekkt en þó óþekkt
-
9. október 2022Segja niðurskurð á framlögum færa fagsjóði listgreina á sama stað og þeir voru 2014
-
30. september 2022Staða menningarmála: Fornleifar
-
23. ágúst 2022Endurkoma smurbrauðsins
-
17. ágúst 2022Stefnt að því að sameina þrjá tónlistarsjóði í einn og skilgreina Sinfó sem þjóðareign
-
16. ágúst 2022Ævintýrið um Carmen rúllurnar