Skýrslan sem átti ekki að taka langan tíma og vinnast hratt væntanleg eftir sjö mánaða meðgöngu
Allt bendir til þess að almenningur fái loks að sjá skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluferlið á Íslandsbanka eftir helgi, þegar næstum átta mánuðir verða liðnir frá því að salan átti sér stað. Mikil átök áttu sér stað á þingi þegar þessi leið var valin í málinu, í stað þess að skipa rannsóknarnefnd. Þar lofuðu margir stjórnarþingmenn frekari rannsókn ef eitthvað yrði eftir í skugganum þegar Ríkisendurskoðun lyki sér af. Síðasta rannsóknarnefnd Alþingis skilaði af sér skýrslu innan við tíu mánuðum eftir að hún hóf störf.
Skýrsla ríkisendurskoðunar um söluna á Íslandsbanka í vor er tilbúin og verður send á stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í dag eða á morgun, samkvæmt heimildum Kjarnans. Áður en skýrslan verður gerð opinber almenningi þarf Ríkisendurskoðun að halda kynningu á henni fyrir nefndina og ef hún berst ekki fyrr en á föstudag verður sá fundur ekki fyrr en eftir helgi, á mánudag, þar sem nefndarmenn þurfa að undirbúa sig fyrir fundinn.
Beðið var um skýrsluna snemma í apríl. Upprunalega átti skýrslan, sem fjallar um sölu á eign ríkisins þann 22. mars í lokuðu útboði, að vera tilbúin í júní.
Því liggur fyrir að næstum átta mánuðir verða liðnir frá því að salan átti sér stað þegar skýrslan verður birt og sjö mánuðir og sjö dagar verða liðnir frá því að beðið var um hana. Skilin hafa frestast um fjóran og hálfan mánuð.
Hrósaði Bankasýslunni fyrir góða niðurstöðu
Þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gaf munnlega skýrslu um söluna á hlut í Íslandsbanka á þingi þann 30. mars 2022, sagði hann ánægjulegt að eiga umræða á þeim tíma. „Með tveimur sölum á hlut ríkisins í Íslandsbanka höfum við náð miklum árangri fyrir samfélagið allt og það sem meira er, við höfum náð öllum helstu markmiðum okkar með sölunni; dreift eignarhald, að uppistöðu fjárfestar sem horfa til lengri tíma, mikil þátttaka almennings, skráningu í kauphöll hefur styrkt hlutabréfamarkaðinn, ríkið hefur dregið úr þátttöku sinni á samkeppnismarkaði og fengið gott verð fyrir.“
Síðar sagði hann að útboðið sem fór fram átta dögum áður, 22. mars, hefði gengið „vel á alla mælikvarða“. „Af öllu þessu má sjá að það er óneitanlega full ástæða til að hrósa Bankasýslu ríkisins fyrir góða niðurstöðu.[...] Góður árangur í sölunni, jafnt nú sem síðasta sumar, raungerðist ekki fyrir tilviljun. Undirbúningur málsins alls hefur verið umfangsmikill og vandaður.“
Í ræðu hans sagðist Bjarni líka að ríkisstjórnin vildi ljúka sölu Íslandsbanka fyrir lok næsta árs, 2024, því salan skipti sköpum „í samhengi ríkisfjármálanna á næstu árum og þar með talið fyrir vaxtabyrðina og komandi kynslóðir.“
Kaupendalistinn sem gerði allt vitlaust
Þá þegar var hins vegar komin fram margháttuð gagnrýni á söluferlið. Í því var 22,5 prósent hlutur ríkisins í Íslandsbanka seldur til 207 fjárfesta í lokuðu útboði fyrir 52,65 milljarða króna, sem var undir markaðsvirði þess tíma. Þrýstingur var á að listinn yfir þá sem valdir voru til að kaupa yrði gerður opinber.
Sama dag og Bjarni flutti munnlega skýrslu fyrir þingið um söluferlið, 30. mars, óskaði hann eftir því með bréfi til Bankasýslu ríkisins að hún skilaði sér yfirliti yfir kaupendur. Þrátt fyrir að telja að það færi gegn lögum um bankaleynd afhenti stofnunin listann 6. apríl. Sama dag var listinn birtur.
Þar kom í ljós að á meðal kaupenda voru starfsmenn og eigendur söluráðgjafa, litlir fjárfestar sem rökstuddur grunur var um að uppfylltu ekki skilyrði þess að teljast fagfjárfestar, erlendir skammtímasjóðir sem höfðu sýnt það áður í verki að þeir höfðu engan áhuga á að vera langtímafjárfestar í Íslandsbanka, fólk í virkri lögreglurannsókn, útgerðarmenn, aðilar sem áttu stóra hluti í bönkum fyrir hrun og faðir fjármála- og efnahagsráðherra.
Við þetta varð allt vitlaust.
Vildi tryggja að „ekkert sé í skugganum“
Degi síðar, 7. apríl, óskaði Bjarni eftir því að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á því hvort sala á hlutum ríkisins í Íslandsbanka í mars hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum.
Í umræðum um málið á þingi sagði hann þetta vera gert vegna þeirrar gagnrýni sem fram hafði komið. „Þá held ég að það sé langbest til þess að tryggja einmitt að það sé ekkert í skugganum og það sé bara vel farið yfir þá framkvæmd sem við höfum hér nýgengið í gegnum að við fáum Ríkisendurskoðun til að taka út framkvæmd útboðsins og fara yfir það fyrir þingið með hvaða hætti lög og fyrirmæli voru framkvæmd við þetta útboð. Ég tel, miðað við það sem ég veit, að það muni koma vel út fyrir alla framkvæmdina.“
Stjórnarandstæðingar gagnrýndu þetta harðlega og kölluðu eftir að rannsóknarnefnd Alþingis, sem hefur mun víðtækari heimildir, yrði skipuð til að fara yfir málið. Ríkisendurskoðun hefði takmarkaðar heimildir til að skýra það sem farið hafði fram.
Sama dag sagði samflokksmaður Bjarna og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Óli Björn Kárason, í ræðu á þingi að hann heyrði það sem stjórnarandstaðan væri að segja. „Að fólk virðist ekki hafa trú á því að það séu nægar heimildir hjá ríkisendurskoðanda til að gera það. Ef það kemur í ljós í vinnu ríkisendurskoðanda að það þurfi frekari heimildir þá lýsi ég því aftur yfir, svo það sé algerlega skýrt: Ég mun ekki skorast undan því að styðja það að sett verði á fót sérstök rannsóknarnefnd til að kafa betur ofan í það vegna þess að ég tel afar mikilvægt að hér sé öllum steinum velt við.“ Málið snerist um traust og „við skynjum það alveg á umræðunni hér og í samfélaginu og í fjölmiðlum að það ríkir ekki fullkomið traust um þetta.“
„Ekkert að fela“
Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, tók í svipaðan streng og sagði að ef hugmynd Bjarna um skoðun Ríkisendurskoðunar á málinu væri ekki nóg „þá tek ég heils hugar undir með þeirri hugmynd að setja á fót sérstaka rannsókn í málinu, bara heils hugar. Það er allra hagur að þetta mál sé upplýst ef einhver vafi er um ferlið þannig ég tek heils hugar undir það, svo það komi skýrt fram.“
Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknarflokksins, steig líka í pontu og sagði að það gæti vel verið staðan að þingið þyrfti að skoða söluferlið betur. „Við höfum fengið kynningar á málinu. Ég held að á heildina litið hafi þetta tekist mjög vel og til að eyða allri tortryggni finnst mér sjálfsagt að fara í slíkt hér innan þingsins og styð það heils hugar.“
Í annarri ræðu sagðist hann þó bera traust til Ríkisendurskoðunar. „Ég myndi halda að sú tillaga sem fjármálaráðherra kom hér upp með fyrr í dag ætti að vera fyrsta skref. En ég er jafnframt að sjálfsögðu, eins og ég hef sagt hér áður, opinn fyrir því að þingið taki málið í einhverjar aðrar áttir og mun heils hugar styðja það, enda mikilvægt þegar banki í eigu ríkisins er seldur, þegar horft er til þess sem á undan er gengið í þeim hrakförum sem hér voru fyrir tíu árum síðan, að við eyðum allri tortryggni um þetta mál.“
Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og verðandi dómsmálaráðherra, sagðist ekki óttast það að rannsaka ferlið frá A til Ö og hvatti til þess að það yrði gert. „Hér er ekkert að fela.“
Ætti ekki að tala langan tíma og verður unnið hratt
Gagnrýnin hélt hins vegar áfram og áköll um frekari rannsókn urðu háværari. Þann 8. apríl var áfram rætt um málið á Alþingi. Handfylli stjórnarþingmanna stóðu áfram vaktina og tóku upp hanskann fyrir það ferli sem skoðun á söluferlinu hafði verið sett í. Óli Björn kom í pontu og sagði Ríkisendurskoðanda vera og verða alltaf sjálfstæðan í öllum sínum vinnubrögðum og að Alþingi þyrfti að tryggja að svo yrði áfram. „Hann starfar í okkar umboði og hann starfar á okkar ábyrgð. Ég hef sagt og ætla að endurtaka það hér að ef það verður niðurstaða þingsins að úttekt ríkisendurskoðanda, sem ætti ekki að taka langan tíma, dugi ekki til þá mun ég styðja það að komið verði á fót sjálfstæðri rannsóknarnefnd.“
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagðist sagðist vera þeirra skoðunar að það væri algjörlega réttur farvegur að hefja rannsókn á málinu hjá Ríkisendurskoðun. „Það getur svo alveg þýtt það að einnig verði í kjölfarið skipuð rannsóknarnefnd ef við teljum þær upplýsingar sem koma frá Ríkisendurskoðun á einhvern hátt ekki nægilega yfirgripsmiklar. [...] Ég vil ítreka að það hefur ekkert verið fallið frá því að koma á fót sjálfstæðri rannsóknarnefnd. [...] Ég hef trú á því, vegna þess að Ríkisendurskoðun er í sífellu að fara yfir mál og framkvæmd þeirra, að niðurstaðan úr slíku máli geti legið fyrir nokkuð hratt og örugglega, og það skiptir máli. Það skiptir máli að fá einhverjar niðurstöður og umfjöllun um það sem gerðist hratt. [...] Sjálfstæð rannsóknarnefnd, sem ég held að sé einnig góð hugmynd, vinnur öðruvísi og mun taka lengri tíma í störfum sínum.“
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokks, var á svipuðum slóðum og sagði að sér fyndist eðlilegt að fyrst yrði leitað til eftirlitsstofnunar ríkisins, Ríkisendurskoðunar. „Það hefur verið sagt hér í pontu að það ferli muni ekki taka langan tíma og held ég að við ættum að ýta eins mikið á eftir því og hægt er. Gefi sú niðurstaða eitthvert tilefni til þess að skoða þetta enn frekar mun ekki standa á þingflokki Framsóknar að stofna rannsóknarnefnd til þess að skoða þetta.“
Frá því að Óli Björn og Ingibjörg sögðu að úttekt ríkisendurskoðanda ætti ekki að taka langan tíma og Steinunn Þóra sagði að Ríkisendurskoðun myndi vinna hratt eru liðnir rúmir sjö mánuðir.
Síðasta rannsóknarnefnd skilaði af sér innan tíu mánaða
Síðasta rannsóknarnefnd Alþingis sem skipuð var rannsakaði þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á 45,8 prósent eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands. Skipun hennar var samþykkt 2. júní og einn maður, Kjartan Bjarni Björgvinsson dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, var falið að stýra rannsókninni.
Þann 1. september sama ár var Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari hjá embætti Héraðssaksóknara, ráðinn starfsmaður við rannsóknina. Þeir skiluðu skýrslu um málið 29. mars 2017, tæplega tíu mánuðum eftir að nefndin var skipuð. Starf hennar, sem fólst í því að varpa ljósi á flókna atburðarás sem átt hafði sér næstum 15 árum áður, tók því þremur mánuðum lengri tíma en það hefur tekið Ríkisendurskoðun að vinna sína stjórnsýsluúttekt á Íslandsbankasölunni. Í því samhengi verður að hafa í huga að þeir fjórir einstaklingar sem nefndin vildi taka skýrslu af neituðu upphaflega að mæta til hennar og þurfti að leita atbeina dómstóla til að knýja skýrslutökur fram. Það tafði framgang rannsóknarinnar verulega.
Varpaði algjörlega nýju ljósi á atburðarás
Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar lýsti allt öðrum veruleika en tvær skýrslur Ríkisendurskoðunar sem fjölluðu um söluferli Búnaðarbankans höfðu gert. Hún opinberaði að aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupunum á hlut í Búnaðarbankanum hafi verið blekking. Kaupþing fjármagnaði kaupin að fullu, að baki lágu baksamningar sem tryggðu Hauck & Aufhäuser fullt skaðleysi, þóknanatekjur upp á eina milljón evra fyrir að leppa og sölurétt á hlutnum eftir að þýski leppbankinn var búinn að halda á honum í tæp tvö ár. Tilgangurinn var að komast yfir Búnaðarbankann svo hægt yrði að sameina hann Kaupþingi og búa til stærsta banka á Íslandi. Það var gert nokkrum mánuðum eftir einkavæðingu.
Til viðbótar lá fyrir í fléttunni, sem var kölluð „Puffin“, að hagnaður sem gæti skapast hjá réttum eigenda hlutarins, aflandsfélagsins Welling & Partners á Bresku Jómfrúareyjunum, myndi renna til tveggja aflandsfélaga, skráð á sama stað, sem áttu það félag. Annað þeirra aflandsfélaga var Marine Choice Limited, í eigu Ólafs Ólafssonar, eins þeirra sem leiddi kaupin á Búnaðarbankanum. Hann hagnaðist um 3,8 milljarða króna á fléttunni. Hitt félagið, Dekhill Advisors, hagnaðist um 2,9 milljarða króna á „Puffin“ verkefninu. Á virði ársins 2017 var sameiginlegur hagnaður félaganna tveggja rúmlega 11 milljarðar króna. Íslensk skattayfirvöld telja að bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, oftast kenndir við Bakkavör, hafi verið eigendur Dekhill Advisors.
Stjórnarþingmenn lofuðu stuðningi við rannsóknarnefnd ... seinna
En förum á ný fram til 8. apríl 2022. Þann dag var lögð fram beiðni um skipun rannsóknarnefndar í fundarlotu forseta Alþingis með þingflokksformönnum stjórnarliða og stjórnarandstöðu þar sem reynt var að lenda niðurstöðu sem hefði hleypt þingmönnum í páskafrí.
Helga Vala Helgadóttir, þáverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði þá í þingpontu að stjórnarliðar hafi ekki fallist á einlæga ósk stjórnarandstöðu um að sett yrði af stað rannsóknarnefnd Alþingis til að fara ofan í saumana á sölu á hlut í Íslandsbanka. „Við höfum lagt það til ítrekað vegna þess að rannsóknarnefnd Alþingis hefur samkvæmt lögum víðtækar heimildir til rannsóknar til að kalla eftir upplýsingum, til að veita fólki vernd sem gefur upplýsingar þrátt fyrir að hafa tekið þátt í ólögmætum löggerningi, getur skyldað fólk til að koma til skýrslugjafar o.s.frv. En nei, stjórnarliðar vilja frekar fara þá leið sem hæstvirtur fjármálaráðherra lagði til í gær og hæstvirtur forsætisráðherra tók undir, að hæstvirtur fjármálaráðherra fari sjálfur fram á að Ríkisendurskoðun skoði störf hans, tillögur hans, og hefur ríkisendurskoðandi fallist á það með þær takmörkuðu heimildir sem hann hefur til rannsóknar. Þetta var niðurstaða fundarins. Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Það eru vonbrigði að stjórnarliðar skuli ekki átta sig á alvarleika málsins. Ég verð að segja það og það hryggir mig að félagar okkar í Vinstri grænum skuli fara með í þennan leiðangur.“
Orri Páll, þingflokksformaður Vinstri grænna, var á meðal þeirra sem svöruðu. Í ræðu hans sagði hann að það væri augljóst að ekki ríkti traust um málið. „Þær heimildir sem við höfum, og bæði þingið og einstaka ráðherrar geta nýtt, eru einmitt að fá til þess eftirlitsstofnun Alþingis sem er Ríkisendurskoðun. Það var m.a. rætt á þessum fundi, og ég svo sem kannski tók ekki rétt eftir svari við því, hvort það væri þá ekki hægt að tengja betur saman eftirlitsnefnd þingsins, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, með þessari vinnu ríkisendurskoðanda án þess að hafa áhrif á það hvernig hann vinnur með sínum sjálfstæðu vinnubrögðum. Ég fékk ekki svar við þeirri hugmynd að við nýtum tækifærið og tímann, að ríkisendurskoðandi fái að klára sína vinnu en samhliða sé unnið að því að reyna að móta hugmyndir um það hvernig rannsóknarskýrsla myndi líta út leiði ríkisendurskoðandi eða mat því samhliða í ljós að það þurfi að fara í þá vegferð. Og bara svo ég bæti því við þá hef ég sagt það hér að ég tel mikilvægt að velta við öllum steinum í þessu máli, svo ég ítreki það.“
Óli Björn endurtók þá skoðun sína að það væri skynsamlega að verki staðið að fela óháðum aðila sem vinni í umboði þingsins og á ábyrgð þingsins að gera úttekt á söluferlinu. „Á grundvelli þeirrar úttektar, leiði hún í ljós frekari þörf eða að eitthvað athugavert hafi komið í ljós, þá mun ég standa við það að styðja tillögu um að sett verði á fót rannsóknarnefnd á vegum þingsins samkvæmt lögum. Það stendur. “
„Ég vildi óska þess að þetta hefði ekki farið svona“
Ein síðasta ræðan sem flutt var áður en Alþingi var forseti þess hringdi inn páskafríið var flutt af Jóhanni Páli Jóhannssyni, þingmanni Samfylkingarinnar. Þar sagði hann þingmenn vera að fara í frí í skugga mjög alvarlegs hneykslismáls. „Ég vil bara upplýsa fólk sem fylgist með Alþingi um það að við í stjórnarandstöðu höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til þess að knýja fram ráðstafanir til að endurheimta traust í samfélaginu, knýja það fram að skipuð verði óháð rannsóknarnefnd til að fara yfir söluna á Íslandsbanka. Við erum búin að hamast í dag en við lentum á vegg. Hér er nefnilega mjög sterkur stjórnarmeirihluti. Hér er fjöldi þingmanna úr þremur flokkum, þingmanna sem fylkja sér á bak við sinn ráðherra og beita sér af alefli fyrir því að hans draumaleið, hans draumafarvegur á þessu máli verði að veruleika. Við munum halda áfram að gera okkar besta. Ég vildi óska þess að þetta hefði ekki farið svona. — Gleðilega páska.“
Átta af hverjum tíu landsmönnum vildi rannsóknarnefnd
Í könnun sem Gallup birti í apríl síðastliðnum var meðan annars spurt að því hvort rannsóknarnefnd Alþingis ætti að gera úttekt á sölunni, líkt og þorri stjórnarandstöðunnar hefði lagt til. Niðurstaðan þar var sú að 73,6 prósent landsmanna töldu að það ætti að skipa rannsóknarnefnd en 26,4 prósent töldu nægjanlegt að Ríkisendurskoðun geri úttekt á sölunni, líkt og fjármála- og efnahagsráðherra hafði þegar falið henni að gera.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins skáru sig úr þegar kom að þessu, en 74 prósent þeirra voru á því að úttekt Ríkisendurskoðunar nægði til. Tæplega þriðjungur kjósenda hinna stjórnarflokkanna var á þeirri skoðun en um tveir þriðju á því að skipa þyrfti rannsóknarnefnd. Ekki þarf að koma á óvart að kjósendur stjórnarandstöðuflokka voru nær allir á því að rannsóknarnefnd væri nauðsynleg.
Í sömu könnun sögðu næstum níu af hverjum tíu svarendum að þeir töldu að illa hefði verið staðið að sölunni, sjö af hverjum tíu töldu að lög hefðu verið brotin og alls 88,4 prósent töldu að óeðlilegir viðskiptahættir hefðu verið viðhafðir.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
3. desember 2022Var Ríkisendurskoðun að misskilja eða veitti Bankasýslan ráðherra ekki réttar upplýsingar?
-
1. desember 2022Íslandsbanki segir ekki hversu margir fengu flokkun sem hæfir fjárfestar á meðan að á útboðinu stóð
-
30. nóvember 2022„Það var mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi“
-
25. nóvember 2022Yfir 60 prósent treysta ekki stjórninni til að selja Íslandsbanka og vilja rannsóknarnefnd
-
24. nóvember 2022„Ríkisendurskoðun hafnar aðdróttunum ákveðinna fjölmiðla um annarleg sjónarmið“
-
21. nóvember 2022Spyr Bjarna hvort Fjármálaeftirlitið hafi lagaheimildir til að rannsaka Bjarna
-
21. nóvember 2022Ekki í fyrsta sinn sem ríkisbanki, Ríkisendurskoðun og Bankasýslan fara í hár saman
-
18. nóvember 2022Vill að Katrín mæti fyrir fjárlaganefnd og geri grein fyrir næstu skrefum í bankasölu
-
17. nóvember 2022Sögðu Sjálfstæðisflokkinn bara vilja ræða leka, ekki bankasöluna eða skýrsluna um hana