Stóru línurnar í þróun borgarinnar breytast lítið með nýjum meirihluta
Framsókn undir forystu Einars Þorsteinssonar virðist hafa fallið eins og flís við rass að stefnu síðasta meirihluta í málum sem varða framtíðarvöxt og -þróun Reykjavíkurborgar. Stóru línurnar eru að miklu leyti hinar sömu, en aukna áherslu á uppbyggingu húsnæðis austan Elliðaáa má þó sjá, samkvæmt því sem lesa má út úr samstarfssáttmála nýs meirihluta í Reykjavíkurborg.
Nýr meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar í borgarstjórn Reykjavíkurborgar kynnti málefnasamning sinn á blaðamannafundi í Elliðaárdal í gær. Sáttmálinn er settur fram í plaggi sem teygir sig yfir 33 blaðsíður og er rúmlega 4.500 orð að lengd. Til samanburðar var samstarfssáttmáli síðasta borgarstjórnarmeirihluta settur fram í rúmlega 2.800 orðum á 16 blaðsíðum.
Kjarninn rýndi í nokkur lykilatriði sáttmálans út frá stefnum flokkanna, en flokkarnir fjórir voru samkvæmt framlögðum kosningastefnum málefnalega sammála um marga hluti. Meirihlutasáttmálinn er loðinn um margt og almennt orðaður, en í honum má síður en svo merkja einhverja kúvendingu á stefnu borgarinnar í helstu málaflokkum, þrátt fyrir að áhrif atriða sem Framsókn talaði fyrir í kosningabaráttunni sjáist allvíða.
Þróun og vöxtur borgarinnar
Einna helst var blæbrigðamunur á Framsókn og hinum þremur flokkunum um áherslur í húsnæðisuppbyggingu í borginni – en Framsókn talaði af nokkrum krafti fyrir því að nýtt land yrði brotið undir nýja byggð á meðan að megináhersla Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata var á þéttingu byggðar, auk byggingar hins nýja borgarhverfis á Ártúnshöfðanum, en þar eiga þúsundir íbúða að rísa á næstu árum samkvæmt nýlegum breytingum á aðalskipulagi borgarinnar.
Framsókn reið inn í kosningabaráttuna með nokkra áherslu á hraðari uppbyggingu Keldnalandsins en áður hafði verið stefnt að. Segja má að síðasti meirihluti hafi brugðist við því ákalli Framsóknar þegar í kosningabaráttunni.
Tveimur vikum fyrir kosningar var blaðamönnum boðið að mæta upp að Keldum til að fylgjast með undirritun viljayfirlýsingar á milli Reykjavíkurborgar og Betri samgangna ohf. um að flýta uppbyggingu tveggja leiða Borgarlínu, frá Krossamýrartorgi að Keldnaholti og frá Vogabyggð í Efra-Breiðholt. Samkvæmt viljayfirlýsingunni átti að efna til samkeppni um þróun Keldnalandsins og Keldnaholtsins og þær niðurstöður að liggja fyrir áður en árið er á enda.
Þessar áherslur um Keldnalandið og Keldnaholtið eru á meðal þeirra sem eru á lista yfir aðgerðir sem nýi meirihlutinn segist ætla að ganga beint í á fyrstu mánuðum sínum við völd. Einnig ætlar meirihlutinn að ráðast í húsnæðisátak og úthluta lóðum í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi, á Hlíðarenda og í Gufusnesi, auk lóða á Ártúnshöfðanum, á næstu mánuðum. Ekkert er þó tekið fram í sáttmálanum um hversu margar íbúðir áætlað sé að byggist upp t.d. í Úlfarsársdal umfram núverandi áætlanir.
Í sáttmálanum segir að skipulagssýn hins nýja meirihluta byggi á aðalskipulaginu fram til 2040, „með ákveðnum breytingum“, eins og þeirri að flýta uppbyggingu Keldnalands frá því sem áður var samþykkt. Uppbygging verði tryggð á þeim svæðum sem áður hafa verið nefnd, auk þess sem haldið verði áfram að byggja upp á reitum vestar í borginni, „við Kringluna, í Skeifunni, á Hlíðarenda, við Vesturbugt, á Kirkjusandi, á Heklureit, á Orkureit, á LHÍ-reit í Laugarnesi og á fleiri svæðum“.
Ætla að standa vörð um svæðisskipulagið
Borgarstjórnarmeirihlutinn segist ætla að „standa vörð“ um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins í samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, en ljóst er að nokkur togstreita gæti orðið um svæðisskipulagið, sem gildir til 2040, á næstu árum.
Nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Hafnarfirði lýsir því til dæmis yfir í sínum málefnasamningi að hann muni leggja ríka áherslu „á upptöku svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins svo brjóta megi nýtt land“ undir byggð, en svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins sem öll sveitarfélög svæðisins sammæltust um árið 2015 felur í sér að útþenslu byggðar á höfuðborgarsvæðinu eru sett ákveðin mörk.
Áfram kvaðir um félagslegar íbúðir og óhagnaðardrifna uppbyggingu
Nýi meirihlutinn ætlar að halda áfram að fylgja viðmiðum aðalskipulags borgarinnar um að 5 prósent nýrra íbúða verði félagslegar íbúðir og 20 prósent íbúða verði á vegum óhagnaðardrifinna félaga.
Einnig vill meirihlutinn beita sér fyrir því að gerður verði húsnæðissáttmáli ríkis og sveitarfélaga, sem skilgreini „hlutdeild og skyldur sveitarfélaga í húsnæðisuppbyggingu, viðmið um hlutdeild hagnaðar- og óhagnaðardrifinnar húsnæðisuppbyggingar og hlutdeild félagslegs húsnæðis,“ en bæði Samfylkingin og Framsókn fóru fram með áherslu á „húsnæðissáttmála“ sem tæki til fleiri sveitarfélaga í stefnuskrám sínum fyrir kosningar.
Borgarlínu flýtt og Sundabraut fyrir alla ferðamáta
Í samgöngumálum segir hinn nýi meirihluti styðja samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. . „Við viljum flýta Borgarlínu og hjólastíganeti höfuðborgarsvæðisins. Við ætlum að klára skipulag fyrir Arnarnesveg, við ætlum að útfæra gatnamót við Bústaðaveg meðal annars með tilliti til Borgarlínu og hefja undirbúning að hönnun og framkvæmd stokka fyrir Miklubraut og Sæbraut,“ segir um þau mál sem varða samgöngusáttmálann í meirihlutasáttmálanum.
Í kaflanum loftslag og samgöngur segir enn fremur að meirihlutinn vilji að „öll ákvarðanataka innan borgarinnar taki mið af markmiðum í loftslagsmálum og áhrifum ákvarðana á þau“ en það stefnumál er nær orðrétt upp úr kosningastefnuskrá Pírata, sem einmitt munu fara með formennsku í nýju umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar.
Í sáttmálanum er kveðið á um að samkomulagi ríkis og borgar frá 2021 um gerð Sundabrautar verði fylgt eftir. „Ráðist verður í gerð umhverfismats, hafist handa við víðtækt samráð, og nauðsynlegar skipulagsbreytingar vegna Sundabrautar undirbúnar. Leggja þarf áherslu á að Sundabraut nýtist öllum ferðamátum, skoða loftslagsáhrif framkvæmdarinnar, áhrif hennar á nærliggjandi byggð og rýna mögulegar mótvægisaðgerðir,“ segir um Sundabrautina í sáttmálanum.
Ef Sundabrautin á að nýtast öllum ferðamátum, eins og borgarstjórnarmeirihlutinn segist í sáttmála sínum ætla að leggja áherslu á, er ólíklegt að hún verði útfærð í jarðgöngum undir Kleppsvík, sem hefur til þessa verið annar tveggja valmöguleika um legu brautarinnar á þeim kafla.
Í samgöngumálum má svo nefna að meirihlutinn vill að næturstrætó verði tekinn aftur upp, sem ætti að geta létt á álaginu á leigubílastöðvum og skutlara-hópum á Facebook við að koma þeim sem eru á næturbrölti í miðborginni heim tíl sín. Meirihlutinn segist líka vilja halda áfram að draga úr skutli og innleiða hámarkshraðaáætlun í borginni, auk þess að draga úr svifryksmengun.
Meirihlutinn segist einnig vilja undirbúa Samgöngumiðstöð Reykjavíkur á BSÍ-reit og vinna að því að græn samgöngutenging komist á milli Reykjavíkur og Keflavíkur.
Græna planið uppfært
Um fjármál borgarinnar segir nýi meirihlutinn að hann ætli að hafa „ráðdeild í rekstri og vandaða fjárhagsáætlunargerð í fyrirrúmi“. Meirihlutinn segist ætla að hagræða í rekstri, halda áfram 1 prósent hagræðingu innan kerfi og sameina einingar í borgarkerfinu, t.d. sameina málaflokka íþrótta og menningar í einu sviði.
Útsvar borgarbúa verður óbreytt og við lögbundið hámark, sem er 14,52 prósent. Meirihlutinn stefnir á að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í lok kjörtímabilsins en ekki kemur fram í sáttmálanum hversu mikið til stendur að lækka þá skatta.
Ekkert er fjallað um lækkun fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði, en borgin er nú þegar á meðal sveitarfélaga þar sem hann er lægstur, eða 0,18 prósent og öfugt við flest önnur sveitarfélög eru gjöld á borð við vatns- og fráveitugjöld ekki beintengd við fasteignamatið í Reykjavík. Sú mikla hækkun fasteignamats sem tekur gildi næstu áramót bitnar því síður á reykvískum heimilum en öðrum í formi skatta og gjalda.
Meirihlutinn segist ætla að uppfæra fjárfestingaráætlunina Græna planið og endurskoða 10 ára fjármálastefnu borgarinnar „til að tryggja svigrúm til fjárfestinga, rekstrar, sjálfbærni og langtímastöðugleika“ en orðalagið gefur til kynna að eitthvað verði dregið úr þeim fjárfestingaráformum sem sett voru fram í upphafi undir hatti Græna plansins.
Nýi meirihlutinn segist einnig ætla að „vinna að leiðréttingu á fjármögnun verkefna sem flust hafa frá ríkinu svo sem þjónustu við fatlað fólk“ en nýlega kom fram skýrsla frá hinu opinbera sem sýndi fram á að rekstrarniðurstaða sveitarfélaga vegna þessarar þjónustu var orðin neikvæð um tæpa 9 milljarða árið 2020 og borgin bar meira en helmings þess halla. Þetta vill nýr meirihluti fá leiðrétt með aukinni fjármögnun frá ríkinu.
Leikskólamál lítið útfærð í sáttmála
Leikskólamálin fengu nokkuð mikið rými í umræðunni fyrir kosningarnar í borginni. Nýr meirihluti er þó fáorður um málaflokkinn í málefnasáttmálanum, en segist ætla að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla „með fjölbreyttum aðferðum“.
Síðasti meirihluti mótaði stefnu um að brúa bilið á síðasta kjörtímabili og þess má vænta að áætlanir um fjárfestingar í uppbyggingu leikskólaplássa haldi áfram undir stjórn þess nýja meirihluta sem nú hefur tekið við.
Auðvelt ætti að verða fyrir fjölmiðla að veita nýjum meirihluta aðhald hvað leikskólamálin varðar, enda eignuðust oddvitar bæði Framsóknar og Pírata börn á lokametrum kosningabaráttunna. Verður fróðlegt að sjá hvort þau nái að innritast á leikskóla um það leyti sem árslangt fæðingarorlof foreldranna rennur sitt skeið næsta vor.
Meirihlutinn hyggst innleiða systkinaforgang í leikskóla, en það er áherslumál sem Framsókn var með á sinni stefnuskrá. Systkinaforgangurinn var áður við lýði en svo afnuminn í borginni árið 2008, þar sem hann var talinn brjóta gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.
Borgarstjórnarmeirihlutinn segist ætla að gera viðhaldsátak í leik- og grunnskólum og frístundahúsnæði að forgangsmáli og flýta verkefnum í þeim efnum eins og kostur er.
Meirihlutinn segist einnig ætla að endurskoða fjármögnun sjálfstætt starfandi grunnskóla, „með það að markmiði að þeir verði fjármagnaðir með sambærilegum hætti og hinir borgarreknu en innheimti þess í stað ekki skólagjöld, inntaka barna sé sambærileg og að aukið fjármagn frá borginni sé nýtt í skólaþróun en sé ekki tekið út sem arður.“ Viðreisn lagði mikla áherslu á fjölbreytt rekstrarform í skólakerfinu í sinni stefnuskrá fyrir kosningarnar.
Lestu meira
-
21. desember 2022Kosningastjóri Samfylkingarinnar nýr aðstoðarmaður borgarstjóra
-
3. nóvember 2022Framsókn og Vinstri græn hafa tapað um átta prósentustigum af fylgi frá síðustu kosningum
-
31. ágúst 2022Vegglistaverk Libiu og Ólafs þótti óleyfilegur kosningaáróður í Hafnarfirði
-
20. ágúst 2022Laun 30 dýrustu bæjarstjóranna voru samtal 698 milljónir króna í fyrra
-
12. ágúst 2022Hildur varði 9,3 milljónum í prófkjörsslaginn og átti eina og hálfa milljón afgangs