„Þetta getur verið góð fjárfesting, sérstaklega ef þú kaupir réttu verkin“
Elísabet Alma Svendsen og Helga Björg Kjerúlf þurftu að hafa hraðar hendur við uppsetningu jólasýningar Listsvals eftir að þær fengu nýjan sýningarstað í Hörpu. „Þetta er eitthvað sem hreinlega átti að gerast hjá okkur,“ segir Helga en upphaflega stóð til að gera eitthvað annað en að halda jólabasar á aðventunni. „Ég sagði á einhverjum tímapunkti: „Mig langar alls ekki að gera eitthvað eins og allir hinir.“ Svo höfum við hlegið aðeins að þessu því maður er svolítið að gera það,“ segir Elísabet.
Þetta er eitthvað sem hreinlega átti að gerast hjá okkur. Við vorum svo mikið að hugsa hvað við ættum að gera um jólin, hvort við ættum að leigja eitthvað rými eða hvort við ættum að fara eitthvað niður í bæ, því við erum líka með aðsetur á Hólmaslóð. Svo bara kom þetta upp,“ segir Helga Björg Kjerúlf og á þá við um sýningarrýmið sem þær Elísabet Alma Svendsen fengu í Hörpu fyrir starfsemi Listvals sem þær reka saman.
„Þá bara settum við í fimmta gír eða sjötta,“ segir Elísabet en þær þurftu að hafa hraðar hendur til þess að koma jólasýningunni upp sem opnaði þann 4. desember. „Það er allt hægt ef maður bara kýlir á það,“ bætir Helga við. Samkvæmt Elísabetu og Helgu eiga um 85 listamenn verk á markaðnum og flestir þeirra á bilinu þrjú til fimm. Samtals séu verkin því um 250 talsins.
Líkt og á öðrum mörkuðum er nokkur rótering á verkum enda taka flestir kaupendur keypt verk með sér heim beint af sýningarstaðnum. Spurðar að því hvort mikið hafi selst segir Elísabet: „Já, það hefur slatti selst, þetta er greinilega jólagjöfin í ár.“
Smá að gera „eins og allir hinir“
Hvernig er áhugi Íslendinga á myndlist í dag og hefur hann aukist á nýliðnum árum?
Helga: „Já, ekki spurning. Ég held að það sé líka ákveðin vitundarvakning meðal almennings um gildi myndlistar. Bæði út frá menningarlegum sjónarmiðum en líka bara sem fjárfesting.“
Elísabet: „Þetta getur verið góð fjárfesting, sérstaklega ef þú kaupir réttu verkin. Við erum náttúrlega með ráðgjöf líka þannig að við getum aðstoðað fólk ef það er í þeim hugleiðingum. En fyrst og fremst á þetta að vera eitthvað sem maður heillast að og snertir þig á einhvern hátt. Það er það fyrsta sem maður á að horfa til.“
Hvers vegna ákváðuð þið að taka þátt í þessu jólabasaraflóði?
Elísabet: „Það var náttúrlega alls ekki planið fyrst, áður en við fengum þetta rými. Þá ætluðum við mögulega að gera eitthvað allt annað. Ég man að ég sagði á einhverjum tímapunkti: „Mig langar alls ekki að gera eitthvað eins og allir hinir.“ Svo höfum við hlegið aðeins að þessu því maður er svolítið að gera það.“
Helga: „Listval opnaði sýningarrými í júní úti á Granda og það er svipuð pæling í gangi þar. Kannski ekki eins mikið af verkum en það er samt sama konsept. Þú getur komið inn, labbað um og tekið verkið með þér heim. Hérna er þetta svipað nema við erum með fleiri verk og minna bil á milli, þennan salon stíl.“
Hægt að kaupa myndlist allan ársins hring
Mynduð þið segja að jólabasarar séu orðnir mjög mikilvægir fyrir starfandi listamenn?
Elísabet: „Ég held það. Þetta er ákveðinn vettvangur og það selst alveg frekar vel á flestum þessum sýningum og klárlega er það bara frábært fyrir listamennina. Það eru ekkert endilega hvaða verk sem er sem fara inn á þessa markaði. Allavega þeir listamenn sem við höfum talað við eru allir mjög til í þetta.“
Helga. „Ég held líka að það séu ekki allir sem átta sig á því að allan ársins hring er hægt að kaupa myndlist inni í galleríunum og á sýningum, en það er bara ekki borið þannig fram. Hérna er það mjög aðgengilegt. Þetta er bara eins og að fara út í búð.“
Elísabet. „Við höfum verið að gera það á Hólmaslóð frá því við opnuðum í júní. Fólk kemur með mömmu sína og ömmu sína og velur verk. Ég held alveg að Listval hafi kannski smá opnað þetta rými sem er eins og er fyrir aftan galleríin. Þar er svona: “Heyrðu komdu hérna, þú getur séð fleiri verk hérna fyrir aftan,” við erum smá að opna það. Fólk elskar það að það sé boðið velkomið.“
Helga. „Það er líka eitt sem við leggjum út af, að það sé gott andrúmsloft og fólk velkomið að staldra við og setjast niður.“
Stór ákvörðun að kaupa myndlist „en alltaf góð“
Upphaflega var Listval einungis til á netinu. Elísabet stofnaði fyrirtækið árið 2019 og hún segir að þá hafi hún verið búin að ganga með þessa hugmynd í maganum í einhvern tíma. Hún hafði starfað í virtu galleríi um tíma og þá fundið að þörf hafi verið fyrir ráðgjöf við val á myndlist líkt og þeirri sem Listval býður upp á.
Í fyrra hófst sýningarhald af hálfu Listvals í NORR11 við Hverfisgötu sem var töluvert stökk frá því að vera einungis af vefnum að sögn Elísabetar. „Síðan í kjölfarið þá kemur Helga inn snemma á þessu ári og þá fórum við að kasta boltanum svolítið á milli okkar,“ bætir hún við.
Helga: „Að sýna myndlistarsýningu innan um hönnun – þá ertu í öðru umhverfi en á safni. Auðvitað hefur það alveg verið gert áður en þetta hífir hvort annað upp. Því auðvitað þarftu myndlist á veggina en auðvitað þarftu líka húsbúnað.“
Elísabet: „Og við vorum alltaf með einkasýningar þar. Við erum búnar að vera með níu sýningar þar.“
Helga: „Það er líka oft sem maður horfir í galleríi á myndlistarverk á hvítum veggjum, það er eitt, svo þegar maður fer að hugsa hvort maður vilji fá það heim til sín, þá er svo erfitt að hugsa um hvernig það muni líta út heima hjá mér. Með NORR11 náðum við að skapa ákveðna hugmynd. Við erum dálítið að taka þetta inn í ráðgjöfina. Á heimasíðunni getur fólk séð öll verkin, bæði „uploadað“ mynd af þínu heimili eða þinni stofu og sett verkið þar inn eða bara á mynd sem við erum með nú þegar. Svo erum við líka að bjóða fólki upp á ráðgjöf. Að koma heim til fólks, að finna heimilið og smekk og svona og svo sendum við þér tillögu þar sem við „photoshoppum“ verkin inn á. Og þetta skiptir allt máli því það er auðvitað stórt skref að kaupa sér myndlist, þetta kostar peninga og er líka stór ákvörðun. En alltaf góð ákvörðun.“
Frábært að vera í Hörpu sem er „listaverk út af fyrir sig“
Líkt og segir á heimasíðu Hörpu þá er húsið eitt helsta kennileiti Reykjavíkur og „miðstöð menningar og mannlífs í hjarta miðborgarinnar“. Húsið er sannkallað heimili tónlistarinnar á Íslandi, enda hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands þar aðsetur og tónleikahald alls kyns tónlistarfólks er einkennandi fyrir starfsemina í húsinu. Það mætti því segja að rekstur myndlistargallerís í húsinu fari vel saman við aðra starfsemi sem þar þrífst.
Hvernig er það að hafa fengið aðstöðu hérna í Hörpu?
Elísabet: Það er bara æðislegt. Húsið er náttúrlega listaverk út af fyrir sig. Að vera í anddyri Hörpu er bara geggjað. Rýmið blasir líka svo mikið við frá götunni, þessi hvíti veggur. Þannig að við erum alveg í skýjunum með það hvernig þetta kom út. Því maður vissi ekki alveg hvernig þetta myndi verða þegar við ákváðum að keyra á þetta. Það er mikil orka hérna og margt fólk. Það er alltaf upplifun að koma hingað inn.
Helga: Mér líður alltaf eins og það sé sunnudagur þegar maður kemur hingað inn, það er eitthvað hátíðlegt við það. Allir hérna inni í Hörpu eru frábærir og það var tekið vel á móti okkur.
En hvernig er með framhaldið, eftir að þessari sýningu lýkur?
Elísabet: Við gerðum sex mánaða samning, maður veit náttúrlega ekki hvernig faraldurinn þróast, en vonandi getum við verið hérna lengur. Við þurfum líka bara að meta það.
Með mörg járn í eldinum
Þið eruð komnar hingað, þið eruð með aðstöðu á Hólmaslóð og hafið verið með sýningar í NORR11, munið þið halda áfram að halda sýningar þar?
Elísabet: Já, Gjörningaklúbburinn verður þar í janúar og svo verður Rúrí hérna í janúar. Þannig að það er brjálað að gera.
Helga: Við byrjum á þessari jólasýningu og svo ætlum við bara að leyfa rýminu og tímanum að leiða í ljós hvernig útfærslan verður hér. Rúrí verður hér með sýningu í janúar, sem verður eiginlega „mini“ yfirlitssýning. En við fáum kannski aðeins að dreifa okkur hérna inni í Hörpu. Það er líka svo mikið af ferðamönnum hérna og frábært að leyfa þeim aðeins að fá að kynnast henni. Við ætlum líka að gera lítinn örþátt um hana, þar sem hún segir frá sér. Svo er þetta líka gluggagallerí.
Elísabet: við ætlum að reyna að nýta það svolítið, að vera með skjá og fólk getur þá horft inn að utan og upplifað þetta líka þannig. Þetta er náttúrulega bara helmingur gluggar og við viljum nýta það.
Maður sér það mjög vel úr fjarlægð, þetta litríka horn, þegar maður nálgast bygginguna.
Helga: Maður vill náttúrlega ekki taka of mikla athygli af húsinu. Neieni, það er bara góð athygli.
Er hægt að taka of mikla athygli af húsinu?
Elísabet: Ég held að flestir séu sammála því að þetta sé gott fyrir húsið. Þetta bara passar vel hérna inn, þessi menningartengda starfsemi.
Helga: Við fengum styrk frá Reykjavíkurborg til að aðstoða okkur við kostnaðinn af sýningum hérna þannig að það verða kannski ársfjórðungslega sem við setjum upp nýja sýningu. Það er að vísu erfitt að tala um sýningu þegar þetta eru bara nokkrir veggir, en listamaðurinn tekur í það minnsta yfir hluta af rýminu.
„Forréttindi að vinna við eitthvað sem maður elskar“
Þær Elísabet og Helga hafa báðar fjölbreyttan bakgrunn. Þær eiga það þó sameiginlegt að hafa starfað þvert á svið myndlistar og hönnunar við fjölbreytt verkefni auk þess sem þær þekkja vel til innan myndlistsarsenunnar.
Elísabet: „Það styrkir okkur í ráðgjöfinni. Þú lærðir arkitektúr og ég fatahönnun áður, fyrir löngu og er síðan búin að vera í leikmyndahönnun og allskonar tengdu hönnun.“
Helga: „Ég kem úr arkitektúr en svo hef ég starfað við grafíska hönnun og í allskonar verkefnum tengdum myndlist. Ég stofnaði Neptún magazine sem var myndlistartímarit. Þar kviknaði þessi „online“ þráhyggja, það er að segja að miðla myndlist þannig. Svo lærði ég vefhönnun sem hjálpar okkur líka og er svo að klára mastersnám í markaðsfræði og nýsköpunar- og frumkvöðlafræði.“
Elísabet: „Það sem einkennir Listval er miðlunin sem við höfum báðar lagt mikla áherslu á. Ég var í hagnýtri menningarmiðlun líka, maður brennur svolítið fyrir því að kynna myndlist. Það er grunnurinn að Listval.“
Helga: „Það eru ákveðin forréttindi að vinna við eitthvað sem maður elskar. En það getur verið erfitt stundum því við erum báðar með hausinn svo fullan af hugmyndum. Þá þarf maður aðeins að stoppa og klára það sem maður er að vinna að fyrst.“
Hugmyndirnar eru ekki af skornum skammti hjá þeim stöllum í Listsval. Þær langar til að mynda til þess að geta boðið upp á sýndarheimsóknir í þrívídd. „Þá getur fólk sem býr út á landi eða ekki á Íslandi labbað inn í rýmið. Tæknin er orðin svo rosaleg og stundum eru möguleikarnir yfirþyrmandi,“ segir Helga og bætir við. „það er mjög gaman að skoða þróunina í þessum heimi, það er svo margt að gerast. Það verður gaman að sjá hvernig staðan verður eftir fimm ár.“
Lesa meira
-
2. janúar 2023Höfundur Matador þáttanna látin – „Maður er ekkert merkilegur af því maður er gamall“
-
2. janúar 2023„Stjórna erlendar streymisveitur bráðum innlendri kvikmyndaframleiðslu?“
-
24. desember 2022Ólöf Arnalds safnar fyrir útgáfu fimmtu breiðskífu sinnar
-
20. desember 2022Hundrað ára afmæli Cafe Fodkold
-
18. október 2022Þekkt en þó óþekkt
-
9. október 2022Segja niðurskurð á framlögum færa fagsjóði listgreina á sama stað og þeir voru 2014
-
30. september 2022Staða menningarmála: Fornleifar
-
23. ágúst 2022Endurkoma smurbrauðsins
-
17. ágúst 2022Stefnt að því að sameina þrjá tónlistarsjóði í einn og skilgreina Sinfó sem þjóðareign
-
16. ágúst 2022Ævintýrið um Carmen rúllurnar