„Tilvera án samhygðar markast af illsku“
Kári Stefánsson segist engan áhuga hafa haft á læknisfræði þegar hann rambaði af algjörri tilviljun í hana. Hér ræðir hann m.a. um hvernig hann slysaðist í fræðin, um börnin sín og fráfall eiginkonu sinnar – sem og stríðið í Úkraínu og hugarástand Pútíns út frá sjónarhóli taugavísindanna.
Illa greiddur maður í rúllukragabol situr með krosslagðar hendur við óreiðu á skrifborði. „Ef þetta verður leiðinlegt þá hætti ég að tala við þig,“ tilkynnir Kári Stefánsson áður en blaðamaður nær sambandi við stólsetuna. Kári er landsmönnum kunnur fyrir framlag Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) til rannsókna á erfðamengi mannsins og fyrir framlag fyrirtækisins til íslenskrar þjóðar á tímum heimsfaraldurs COVID. Færri vita að áður en hann helgaði líf sitt rannsóknum á vegum ÍE var hann prófessor í taugalæknisfræði og taugameinafræði við Harvard-háskóla.
Kári greinir hér frá ástæðum þess að hann lærði læknisfræði og sérhæfði sig í taugavísindum. Hann talar um börnin sín, sem hann segist hafa vanrækt og sorgina sem hann er að takast á við vegna fráfalls eiginkonu sinnar, sem lést á síðasta ári. Þá tjáir hann sig um stríðið í Úkraínu út frá kjarnorkuógn og stríðið í huga Pútíns frá sjónarhóli taugavísindanna. Hetjudáð eða fífldirfska Volodymyrs Zelenskys forseta Úkraínu ber á góma og loks vonin, sem skín þrátt fyrir allt, í gegnum sprengjuregn.
Rambaði fullur inn í læknisfræðina
Blaðamaður hittir Kára á skrifstofu hans í ÍE, þar sem honum líður að eigin sögn eins og barni í sandkassa.
„Ég ætlaði ekkert í læknisfræði’,“ segir hann. „Einhvern tíman eftir stúdentspróf þá datt ég í það með bekkjarfélaga mínum sem heitir Stefán Karlsson og morguninn eftir þegar við vorum að ganga um í Hljómskálagarðinum, lúnir eftir að hafa verið drukknir alla nóttina, þá sagði hann við mig: „Ég ætla að fara upp í háskóla og skrá mig í læknisfræði, viltu ekki koma með mér“ Og ég bara kom með honum og skráði mig í læknisfræði. Ég hafði engan áhuga á læknisfræði.“
Kári segir að hann hafi verið alinn upp við að maður eigi að ljúka verkefnum sem maður byrjar á „og nú sit ég hér, rúmum 50 árum síðar. Sé ég eftir því? Nei ég sé ekki eftir því. Ég sé eftir ýmsu öðru, en ekki því.“
Hann segist sjá mest eftir að hafa ekki varið meiri tíma með börnunum sínum þegar þau voru lítil.
„Ég var allt of metnaðarfullur og það er ekkert ljótara gagnvart börnum heldur en vanræksla og ég held því fram að ég hafi verið sekur um töluverða vanrækslu á börnunum mínum.“
Kári sérhæfði sig í taugalæknisfræði vegna þess að honum þótti spennandi hversu mikið átti eftir að uppgötva um heilann „enn þann dag í dag erum við á þeim stað að við vitum raunverulega afskaplega lítið hvernig heilinn virkar,“ segir hann.
Er það vegna þess sem það reynist svo erfitt að díla við geðsjúkdóma?
„Já, hvernig ætlarðu að fara að lækna vandamál sem á rætur sínar í því að það er biluð einhver starfsemi heilans þegar þú veist ekkert um þessa starfsemi heilans,“ segir Kári.
Hann segir að eitt af því sem við vitum um heilann sé að hann er líffæri meðvitundar og að innihald meðvitundar eru hugsanir og tilfinningar. Hugsanir og tilfinningar skilgreina okkur sem dýrategund og sem einstaklinga innan tegundarinnar, segir hann.
Kári var prófessor við Harvard-háskóla og yfirlæknir við Beth Israel-sjúkrahúsið í Boston áður en hann stofnaði Íslenska erfðagreiningu árið 1996.
„Að fá að vinna hérna, innan um allt þetta flotta unga fólk sem er sífellt að gera uppgötvanir, að fá að vera hluti af því og fá að taka þátt í því er ævintýralega spennandi og gaman,“ segir hann. „Ég er svo heppinn að þegar ég kem í vinnuna þá finnst mér einhvern veginn eins og ég sé ennþá að leika mér í sandkassanum,“ segir hann og brosir.
Ekkert sérstaklega notendavænt þetta líf
Rödd vísindamannsins breytist þegar talið berst að eiginkonu hans, Valgerði Ólafsdóttur, sem lést í nóvember á síðasta ári.
„Markmiðið hjá mér núna er að reyna að vakna til hvers dags svolítið jákvæður. Mér gengur það mismunandi vel,“ segir hann hugsi. „Þegar maður, sko, það er dálítið flókið þegar maður missir félaga og samferðarmanneskju sem maður hefur átt í 53 ár, því að þegar maður er búinn að eiga ferðafélaga um mjög langan tíma þá endar það á því að manni finnst einhvern veginn maður ekki vera búinn að upplifa neitt fyrr en maður er búinn að deila því með þeim einstaklingi. En svo allt í einu getur maður það ekki og þá verður maður að finna nýja leið til þess að fóta sig í tilverunni og það tekur smá tíma, það gerir það,“ segir hann og þagnar um stund. „En ég á mjög góð börn sem hlúa að mér, og barnabörn og vini og félaga. Þannig að ég er með töluvert stuðningsnet.“
Eftir umhugsun bætir hann við: „Ég held að markmiðið sé alltaf að láta sér líða vel í augnablikinu, því lífið er bara samansafn augnablika. En við erum öll að ströggla að einhverju leyti. Það er ekkert sérstaklega „user friendly“ þetta líf. Það er vandi að láta sér líða vel.“
Stríðið beri vott um heimsku og miskunnarleysi
Vorið er framundan og COVID virðist loksins vera að renna sitt skeið. En þá gerir Rússland innrás í Úkraínu. Hvaða hugrenningar vekur þessi staða heimsmálanna hjá þér?
„Mér líður núna mjög skringilega vegna þess að jú, við erum að komast út úr COVID. Ég held að við lok þessa mánaðar verði þessi pest að mestu leyti farin. En þá sitjum við uppi með stríð í Evrópu, sem mér finnst alveg með ólíkindum. Að við skulum núna vera nær því að lenda í kjarnorkustríði heldur en nokkru sinni áður. Þetta er náttúrulega fyrst og fremst Pútín en það er líka það að NATO skuli halda áfram að seilast austar og austar. Það má náttúrulega líta á það sem ögrun. Mér finnst þetta alveg gjörsamlega út í hött. Hvurs konar heimska, hvurs konar miskunnarleysi og vitleysa.“
Heimsbyggðin í vanda þegar fólk sem skortir samhygð endar á að stjórna stórveldum
Fyrir flest venjulegt fólk er líklega erfitt að skilja hvernig á því stendur að til séu einstaklingar sem eru tilbúnir til að rústa lífum saklauss fólks. Geta taugavísindin varpað ljósi á slíkt hugarástand og er illska til?
„Sko, það er ýmislegt sem bendir til þess að illskan sé til,“ segir hann. „Sumt fólk fæðist með afskaplega litlar tilfinningar til annars fólks og síns umhverfis. Við köllum það siðleysingja, sýkópata og svo framvegis. Fólk sem bara fæðist fatlað á þann hátt að það hefur enga samhygð og tilvera án samhygðar markast af illsku.“
Er illska þá skortur á tilfinningum?
„Já og skortur á samhygð,“ segir Kári. „Þú getur rétt ímyndað þér hvað það hlýtur að vera dapurlegt að vera til án samhygðar. Án þess að hafa væntumþykju sem hluta af þínu lífi. Það hlýtur að vera mjög erfitt og sársaukafullt og við verðum að finna leið til þess að hlúa að þannig fólki. Ekki bara fyllast af heilagri vandlætingu og refsa því. Við verðum að reyna að koma þeim á rétta braut,“ segir hann. „En þegar að svona fólk endar á því að stjórna stórveldi eins og Rússlandi þá erum við í svolitlum vanda.“
Margir efuðust fram á síðasta dag um að Pútín myndi láta verða af því að ráðast á Úkraínu, vegna þess að það þótti augljóst að innrás myndi hafa mjög slæmar afleiðingar fyrir Rússa sjálfa. En Pútín lét verða af því. Er það ekki sérstakt áhyggjuefni fyrir heimsbyggðina hversu óstöðugur og óútreiknanlegur Pútín virðist vera?
„Við erum öll meira og minna óstöðug og óútreiknanleg. En ef okkur er falið það vald í hendur að geta byrjað kjarnorkustríð þá erum við komin á mjög skrítinn stað. Og Pútín virðist vera býsna harður, býsna grimmur, býsna miskunnarlaus og með býsna litlar tilfinningar til þess heims sem hann býr í.“
Kári telur að stríðið sé ekki háð með vilja rússnesku þjóðarinnar, heldur sé það einstaklingurinn sem standi að baki stríðsrekstrinum. „Þetta hefur nú ekki reynst gæfurík aðferð við að stjórna landi og ég er ekkert viss um að hann lifi þetta af. Það er náttúrulega ljótt að segja að maður vonist til þess að hann lifi þetta ekki af en einhvern veginn er maður kominn á þann stað.“
Vonar að þetta endi ekki með skelfingu
Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, sýndi strax í upphafi mikið hugrekki og óttaleysi þrátt fyrir, það sem margir töldu vera, vonlausa stöðu Úkraínu. Eða hefur hann sýnt fífldirfsku á móti kjarnorkuveldinu Rússlandi?
Kári brosir. „Þessi gamli uppistandari sem allt í einu er orðinn forseti Úkraínu og stendur sig svona rosalega vel,“ segir hann. „Sá sem lítur á eitthvað sem hetjudáð er að vissu leyti að búa til hetjudáðina en í tilfelli Zelenskys þá eru menn ansi sammála um að hann sé að sýna mikinn kjark, dugnað og svo framvegis. Við skulum bara vona að þetta endi ekki með skelfingu.“
Zelensky hefur blásið von og kjarki í úkraínsku þjóðina og í raun í stóran hluta heimsbyggðarinnar. Um leið hefur hann komið öðru af tveimur stærstu kjarnorkuveldum heims í opna skjöldu.
„Já, já,“ segir hann. „Sko, hann hrífur mann, það er engin spurning um það og maður verður rosalega montinn af honum. En sko, þetta er samt svo ofboðslega flókið. Ef þú veltir þessu fyrir þér, þegar Rússar réðust inn í Úkraínu, hvað hefðirðu viljað gera? Menn segja Pútín hafa gert ráð fyrir að geta bara rúllað inn í Úkraínu og þetta væri bara allt búið. Nú getur hann það ekki og við fylltumst stolti yfir hugrekki og dugnaði Úkraínskrar þjóðar. En þetta hugrekki og þessi dugnaður gæti verið það sem leiðir til kjarnorkustríðs þannig að þetta er mjög flókið hvernig maður á að hugsa um þetta, þó að ég sé náttúrulega þannig gerður að ég er voða fegin því að þeir eru að berjast á móti Rússunum en ekki láta þá rúlla yfir sig.“
„Ógnarjafnvægi“ er ógnarvald í höndum óþverra
Fyrirfram töldu margir að Úkraínumenn yrðu að gefast upp strax en eins og þú segir þá er hart barist á móti Rússum og stríðsrekstur þeirra hefur ekki gengið samkvæmt áætlun. Hins vegar styður stór hluti alþjóðasamfélagsins Úkraínu með ráðum, dáð og vopnasendingum. Eitt af því sem flækir stöðuna er að Pútín hefur fyrirskipað hernum að setja kjarnorkusveitir í viðbragðsstöðu og bandarískir embættismenn telja sumir hverjir að slæmt gengi Rússa geti aukið líkur á að Pútín beiti kjarnorkuvopnum.
„Sko, þessi hugmynd um að það sé hægt að viðhalda friði í heiminum með ógnarjafnvægi, það er að segja með því að hafa kjarnorkuvopn hjá Bandaríkjamönnum og Rússum, manni er algerlega ljóst núna að það bara virkar ekki vegna þess að það þarf ekki nema bara einhvern óþverra öðrum megin og hann hótar því að nota vopnin og þá getur hann leyft sér allt.“
Vonin sótt í smiðju sögunnar
Undanfarna daga hafa birst fréttir af friðarviðræðum Rússlands og Úkraínu. Zelensky hefur sætt sig við að Úkraína verði ekki meðlimur NATO en á sama tíma kemur Pútín fram á leikvangi í Moskvu, þar sem hann segir að Rússland muni ná öllum sínum markmiðum í Úkraínu. Bandarískir embættismenn óttast að þetta gæti þýtt harðari aðgerðir Rússa, jafnvel beitingu efnavopna. Á meðan á öllu þessu stendur eru margir borgarar Úkraínu fastir heimafyrir án rafmagns, matar og vatns. Íbúar sem komast ekki í burtu vegna þess að Rússar hafa ekki staðið við vopnahlé. En mannkynssagan geymir sögur sem veita von um að það sé ekki algilt að hinir sterku taki það sem þeir vilja og hinir veiku verði að þjást. Barátta fólks í veikri stöðu hefur borið árangur og veitir þeim sem á eftir koma von.
„Fyrir nokkrum dögum hringdi ég í vin minn sem er tónlistarmaður og sagði ,,nú verður þú að setjast niður og syngja þína útgáfu af laginu We Shall Overcome eftir Charles Albert Tindley’’, og ég breytti textanum pínulítið fyrir hann. Og nú erum við búin að fá fullt af tónlistarmönnum til þess að syngja sína útgáfu af þessum gamla baráttusöng, sem upphaflega var kaþólsk bæn, sem síðan Marteinn Luther King gerði að baráttusöng svartra í Bandaríkjunum,“ segir Kári.
Á þessum tímapunkti opnar Kári tölvuna sína og snýr henni að blaðamanni. Svo hljómaði lagið We Shall Overcome, með aðlöguðum texta Kára.
Texti: Charles Albert Tindley, aðlagaður af Kára Stefánssyni.
„Og nú ætlar Ellen Kristjánsdóttir og dætur hennar þrjár að syngja sína útgáfu af þessu lagi og síðan ætlar Eyþór Gunnarsson, maðurinn hennar, að spila hljóðfæra-útgáfu af laginu á píanó. Svo á að koma þessu öllu til útvarpsstöðva í Úkraínu,“ segir hann.
„Þetta eru svo flottir krakkar. Það eina sem ég gerði var að hringja í þau og segja „þetta er lagið sem þið eigið að syngja“.“
Kári lítur á úrið. Klukkan er korter í eitt. Hann á að vera mættur á fund klukkan eitt og á eftir að borða hádegismat. „En nú þarf ég að fara,“ segir hann og áður en blaðamaður nær að standa upp, er hann horfinn.
Lesa meira
-
2. janúar 2023Hungurleikar Pútíns grimma
-
2. janúar 2023Úkraínustríðið 2023: Skugginn yfir Evrópu
-
6. desember 2022Sjálfheldan í Úkraínu. Hatrið sigrar?
-
6. nóvember 2022Niðursoðin fiskilifur á meðal þess helsta sem selt hefur verið til Rússlands frá innrás
-
30. október 2022Flúði Hvíta-Rússland með röntgenmyndir særðra rússneskra hermanna
-
29. október 2022Frá Pushkin til Pútíns: Hugmyndafræði keisaraveldis í rússneskum bókmenntum
-
25. október 2022Samkeppni stórveldanna – Frá Úkraínu til Taívan
-
17. október 2022Barnafátækt stóraukist vegna innrásar Rússa
-
24. september 2022Víðtækar afleiðingar ósigra Rússlands
-
6. september 2022Dularfull dauðsföll auðmanna sem tengdust Pútín