Tíu atburðir og ákvarðanir sem okkur hefur verið sagt að læra af
Síðastliðin 14 ár hafa verið stormasöm. Margar rannsóknarskýrslur hafa verið gerðar sem sýndu aðra mynd en haldin var að almenningi. Stjórnmálamenn hafa tekið ákvarðanir sem hafa virst vera í andstöðu við gildandi lög eða þau viðmið sem eru ráðandi í samfélaginu. Eitt þema hefur verið ráðandi í viðbrögðum við flestum þeirra mála sem koma upp. Þjóðin þarf að læra af þeim.
Lært af hruninu
Í desember 2008 birtist viðtal í DV við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins. Bankahrunið var nýbúið að eiga sér stað og mótmælendur gerðu hróp að ríkisstjórninni þegar hún mætti til fundar í Ráðherrabústaðnum. Í viðtalinu var sagði Þorgerður að það ríkti tortryggni í samfélaginu og að hún væri skiljanleg. Ríkisstjórnin hefði ekki miðlað upplýsingum nægilega vel og ekki sagt nægilega frá þeim úrræðum sem hún væri að bjóða upp á til að hjálpa heimilum og fyrirtækjum í landinu. Aðspurð hvort eitthvað myndi breytast, hvort þetta væru ekki bara sama fólk að hræra í sömu pottunum með nýju nafni að nota sama hráefnið svaraði Þorgerður því til að umboðsmaður Alþingis og fleira traust fólk hefði verið skipað í rannsóknarnefnd Alþingis og að það myndi segja frá því sem hefði misfarist fyrir hrunið. „Þeir sem bera mestu ábyrgðina, eins og forsvarsmenn fyrirtækja og banka, verða að axla ábyrgð. Og við þurfum að læra af þessu.“
Lært meira af hruninu
Skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom út í apríl 2010 og opinberaði svart á hvítu að flest allt sem gat misfarist í íslensku fjármálakerfi fyrir hrun, misfórst. Einn stærsti eigandi Landsbanka Íslands, Björgólfur Thor Björgólfsson, var mættur í viðtal hjá DV skömmu síðar, 4. júní 2010. Þar var hann spurður hvernig honum hefði liði í kjölfar hrunsins? Hann svaraði: „Ég eins og margir aðrir hef þurft að takast á við margskonar erfiðleika vegna hrunsins sem hefur haft verulega áhrif á mig, fjölskyldu mína, vini og samstarfsfólk. Þetta hefur tekið á og stundum verið erfitt. En ég eins og aðrir er að reyna að læra af þessu.“
Hann sagðist líka hafa „saknað þess að sjá ekki meiri viðleitni til þess að bera saman Ísland og íslenska banka við önnur lönd og aðra banka bæði fyrir og eftir hrun. Mér finnst ég vera að læra einna mest af því.“
Lært af axarsköftum Íbúðalánasjóðs
Önnur rannsóknarnefnd var skipuð síðar, til að skoða Íbúðalánasjóðs. Óskað var eftir skýrslunni eftir að ljóst varð að ríkissjóður þurfti að leggja sjóðnum til 33 milljarða króna svo hann yrði ekki gjaldþrota. Skýrslan var svört og í henni sagði einfaldlega: „Þessi vegferð endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt.“
Hin dýrkeypta niðurstaða er að stærstum hluta rakin til lagabreytingar ársins 2004 sem breytti útlánum Íbúðalánasjóðs og fjármögnun hans, aðallega til að geta staðið við kosningaloforð Framsóknarflokksins um að sjóðurinn myndi lána almenningi 90 prósent íbúðalán.
Skömmu eftir að skýrslan var birt árið 2013 mættust nokkrir þingmenn í Morgunútvarpi Rásar tvö til að ræða skýrsluna. Þar sagði Höskuldur Þór Þórhallsson, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins, að það væri „mjög mikilvægt að við sem störfum í stjórnmálum lærum af þeim mistökum sem þarna voru gerð.“ Eygló Harðardóttir, þá félags- og húsnæðismálaráðherra Framsóknarflokksins, sagði við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni á svipuðum tíma: „Við verðum að læra af þessu og vera tilbúin að taka gagnrýni.“
Síðan hefur staða Íbúðalánasjóðs, sem nú heitir ÍL-sjóður, hríðversnað og nú vantar um 200 milljarða króna inn í hann á núvirði svo hann geti staðið við skuldbindingar sínar. Ríkisstjórnin reynir nú að velta þeim kostnaði að stærstu leyti yfir á lífeyrissjóði landsins.
Ekkert lært af sparisjóðum sem breyttust í fjárfestingafélög
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um sparisjóði landsins var birt árið 2014. Skýrslan var kolsvört og alls voru 21 mál tilkynnt af nefndinni til ríkissaksóknara vegna gruns um refsivert athæfi. Í skýrslunni kom meðal annars fram að fjórir stærstu sparisjóðir landsins fyrir hrun: SPRON, Byr og Sparisjóðirnir í Keflavík og Mýrasýslu, höguðu sér að mörgu leyti meira eins og fjárfestingarfélög en sparisjóðir. Þau voru undir hælnum á stærri bönkum eða ákveðnum viðskiptamannahópum og fjármögnuðu oft á tíðum gjörninga sem stóru bankarnir annaðhvort vildu ekki eða gátu ekki, sökum hámarksútlána til ákveðinna aðila, fjármagnað. Kjarnastarfsemi þeirra var ónýt, vaxtamunur lítill eða enginn og sumum þeirra tókst meira að segja ekki að hagnast á því að lána út verðtryggð íbúðalán. Lán voru veitt án nægjanlegra trygginga og lánað var til stofnfjárkaupa með veði í bréfunum sjálfum, sem er andstætt lögum. Í stað þess að þjónustutekjur og vaxtamunur inn- og útlána einkenndi rekstur sjóðanna fyrir bankahrun var uppistaðan í vexti og hagnaði þeirra nánast einvörðungu útlán sem orka í besta falli tvímælis og gríðarlega áhættusamar fjárfestingar í verðbréfum. Auk þess tóku þeir oft á tíðum þátt í fjárfestingarstarfsemi sem skilaði miklu tapi.
Þegar skýrslan var rædd á Alþingi tók Guðmundur Steingrímsson, þáverandi formaður Bjartrar framtíðar, til máls og sagðist hafa áhyggjur „af því að við séum ekkert sérstaklega mikið að læra af þessari skýrslu og öðrum skýrslum sem hafa lýst svipuðu ástandi fyrir hrun."
Lært af blekkingunni um erlent eignarhald á Búnaðarbankanum
Enn var hlaðið í rannsóknarnefnd Alþingis árið 2017, þá til að rannsaka þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á 45,8 prósent eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands. Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar lýsti allt öðrum veruleika en tvær skýrslur Ríkisendurskoðunar sem fjölluðu um söluferli Búnaðarbankans höfðu gert. Hún opinberaði að aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupunum á hlut í Búnaðarbankanum hafi verið blekking. Kaupþing fjármagnaði kaupin að fullu, að baki lágu baksamningar sem tryggðu Hauck & Aufhäuser fullt skaðleysi, þóknanatekjur upp á eina milljón evra fyrir að leppa og sölurétt á hlutnum eftir að þýski leppbankinn var búinn að halda á honum í tæp tvö ár. Tilgangurinn var að komast yfir Búnaðarbankann svo hægt yrði að sameina hann Kaupþingi og búa til stærsta banka á Íslandi. Það var gert nokkrum mánuðum eftir einkavæðingu.
Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar lýsti allt öðrum veruleika en tvær skýrslur Ríkisendurskoðunar sem fjölluðu um söluferli Búnaðarbankans höfðu gert. Hún opinberaði að aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupunum á hlut í Búnaðarbankanum hafi verið blekking. Kaupþing fjármagnaði kaupin að fullu, að baki lágu baksamningar sem tryggðu Hauck & Aufhäuser fullt skaðleysi, þóknanatekjur upp á eina milljón evra fyrir að leppa og sölurétt á hlutnum eftir að þýski leppbankinn var búinn að halda á honum í tæp tvö ár. Tilgangurinn var að komast yfir Búnaðarbankann svo hægt yrði að sameina hann Kaupþingi og búa til stærsta banka á Íslandi. Það var gert nokkrum mánuðum eftir einkavæðingu.
Eftir að skýrslan var birt ræddi Morgunblaðið við Svein Arason, þáverandi ríkisendurskoðanda, en stofnunin hafði tvívegis gert úttektir sem snertu einkavæðingu Búnaðarbankans á árum áður. Sveinn sagði Ríkisendurskoðun ekki hafa þær rannsóknarheimildir sem til þurfti. „Í sambandi við þessa nýju skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þá tek ég bara undir það sem menn hafa verið að segja, að menn eiga að læra af þessu.“
Óskað eftir lærdómi af einkavæðingu banka áður en ný einkavæðing yrði sett í gang
Skýrslan kallaði á umræður á Alþingi. Í óundirbúnum fyrirspurnartíma daginn eftir birtingu hennar steig Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og þá stjórnarandstæðingur, í pontu og spurði fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Jóhannesson, hvort það væri ekki ástæða til að ljúka rannsókn á allri einkavæðingu íslenskra ríkisbanka á árunum fyrir hrun í ljósi niðurstöðunnar?
Þar sagði Katrín orðrétt: „Íslenskt samfélag hefur orðið gegnsýrðara af grunsemdum og tortryggni á síðustu árum þegar kemur að viðskiptalífinu og þessi tíðindi sýna að eina leiðin til að eyða þeirri tortryggni sé að sýna vönduð vinnubrögð, ráðast í gagngera rannsókn á söluferlinu öllu eins og Alþingi samþykkti árið 2012 þannig að hægt sé að horfa fram á veginn, draga lærdóm af ferlinu áður en ráðist verður í aðra einkavæðingu á hlut ríkisins í bönkunum.“
Engin slík rannsóknarnefnd hefur verið skipuð en ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur selt 13 prósent hlut sinn í Arion banka og alls 57,5 prósent hlut í Íslandsbanka síðan að þessi umræða átti sér stað.
Lært af ólöglegri skipun dómara
Þann 1. desember 2020 staðfesti yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu dóm réttarins í Landsréttarmálinu svokallaða. Niðurstaðan er sú að Guðmundur Andri Ástráðsson, maður sem dæmdur var fyrir umferðarlagabrot í Landsrétti skömmu eftir að millidómsstigið tók til starfa, hefði ekki notið þess að fá úrlausn máls síns fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstól. Dómstóllinn felldi fyrri dóm sinn í málinu 12. mars 2019. Í honum fengu bæði Sigríður Á. Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra og Alþingi á sig áfellisdóm fyrir það hvernig haldið var á skipan fimmtán dómara við Landsrétt í byrjun júní 2017.
Sigríður fyrir að hafa brotið stjórnsýslulög með því að breyta listanum um tilnefnda dómara frá þeim lista sem hæfisnefnd hafði skilað af sér, og fært fjóra dómara af þeim lista en sett aðra fjóra inn á hann án þess að rannsaka og rökstyðja þá ákvörðun með nægjanlegum hætti. Alþingi fyrir að hafa kosið um skipan dómaranna allra í einu, í stað þess að kjósa um hvern fyrir sig. Sigríður sagði af sér embætti daginn eftir dóminn og óvissa ríkti um starfsemi millidómstigsins í kjölfarið.
Í reynd hafði niðurstaða Mannréttindadómstólsins í för með sér að dómararnir fjórir sem ekki voru á lista hæfisnefndar hafa verið álitnir ófærir um að dæma í réttinum á grundvelli upphaflegar skipunar sinnar, þar sem hún hefði verið ólögleg.
Eftir að niðurstaða yfirdeildarinnar lá fyrir mætti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtal á Vísi. Þar sagði hún að nú væri það verkefni „okkar að vinna úr þessum dómi framávið og nýta hann til lærdóms.“
Lært af ómannúðlegri brottvikningu fatlaðs manns
Þann 3. nóvember var fimmtán manneskjum í leit að vernd vísað frá landinu og flogið í fylgd 41 lögreglumanns, í leiguflugvél á vegum stjórnvalda, frá Keflavíkurflugvelli til Aþenu í Grikklandi. Hópurinn samanstóð af ellefu körlum og fjórum konum, fólki sem flúði upprunalega Afganistan, Írak, Palestínu eða Sýrland.
Ýmislegt hefur verið gagnrýnt við þessa aðgerð, m.a. tímasetningin – að margir í hópnum hefðu dvalið hér á landi lengi og biðu niðurstöðu kærunefndar útlendingamála við beiðnum um endurupptöku mála sinna. Þá var ungur, fatlaður karlmaður frá Írak, sem notast við hjólastól, sendur úr landi en hann beið þess að kærumál hans gegn íslenska ríkinu yrði tekið fyrir í héraðsdómi. Fólkið var að sumt hvert handtekið og sett í gæsluvarðhald, haldið í fjötrum í fluginu og segist ekki hafa fengið að taka með sér persónulegar eigur sínar.
Daginn eftir sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við Fréttablaðið að hún gæti tekið undir gagnrýni á framkvæmd brottflutningsins að sumu leyti „en við erum auðvitað að kafa ofan í hana til þess að geta dregið lærdóm af henni.“
Lært af skipun í stöðu sem ekki var auglýst
Tveimur vikum síðar ræddi Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, umdeilda skipan þjóðminjavarðar, við fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis. Hún hafði skipað Hörpu Þórsdóttur safnstjóra Listasafns Íslands í stöðuna í ágúst án auglýsingar. Starfsmannafélag Þjóðminjasafnsins, Félag þjóðfræðinga, Félag fornleifafræðinga og BHM voru á meðal þeirra sem gerðu alvarlegar athugasemdir við að staðan hefði ekki verið auglýst og málið var tekið til umræðu í stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd Alþingis.
Allt frá árinu 1954, þegar lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins voru sett, hefur það verið meginregla í lögum á Íslandi að auglýsa skuli opinberlega laus embætti og störf hjá ríkinu.
Þegar lögin voru endurskoðuð og ný lög sett árið 1996 voru áfram ákvæði um auglýsingaskylduna. Í þessum reglum er það meginreglan að auglýsa skuli laus störf en þau tilvik þegar ekki er skylt að auglýsa störf eru afmörkuð sérstaklega. Þessar undanþágur frá auglýsingaskyldu eiga við um störf sem aðeins eiga að standa í tvo mánuði eða skemur, störf sem eru tímabundin vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingar- og foreldraorlofs, námsleyfis, leyfis til starfa á vegum alþjóðastofnana og því um líkt, enda sé ráðningunni ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt.
Þá eru undanþágur frá reglunum sem fela í sér að störf sem hafa verið auglýst innan síðustu sex mánaða ef þess er getið í auglýsingunni að umsóknin geti gilt í sex mánuði frá birtingu hennar. Að endingu er að finna undanþágur um störf vegna tímabundinna vinnumarkaðsúrræða á vegum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu. Engar fleiri undanþágur er að finna í lögunum.
Það hefur hins vegar færst verulega í vöxt hérlendis að ráðherrar skipi í embætti án þess að þau séu auglýst. Það leiddi meðal annars til þess að umboðsmaður Alþingis tók upp frumkvæðisathugun á málinu. Hann gafst upp á þeirri athugun í fyrravor.
Í viðtalinu sagðist Lilja vera ánægð með skipunina. Gagnrýnin á ferlið hafi verið lærdómsrík.
Lært af sölu á hlut í ríkisbanka
Þann 22. mars 2022 seldi íslenska ríkið 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði á nokkrum klukkutímum til 207 fjárfesta fyrir 52,65 milljarða króna. Ferlið var harðlega gagnrýnt nánast frá fyrsta degi og kallað var eftir því að rannsóknarnefnd Alþingi yrði skipuð til að fara í saumana á því. Þess í stað ákvað ríkisstjórnin að styðja ákvörðun Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, að fela Ríkisendurskoðun að gera úttekt á söluferlinu.
Bankasýsla ríkisins, stofnunin sem bar ábyrgð á framkvæmd sölunnar, skilaði minnisblaði til fjárlaganefndar í lok apríl .Þar sagðist hún meðal annars vonast til þess að athugun Ríkisendurskoðunar, og rannsókn Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á ferlinu, myndi verða „til þess að allir aðilar, sem komu að útboðinu, dragi viðeigandi lærdóm af því.“
Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu sinni fyrir skemmstu og felldi þar margháttað áfelli yfir Bankasýslunni og söluferlinu. Að mati stofnunarinnar voru annmarkar söluferlisins fjölmargir sem lúta bæði að undirbúningi og framkvæmd sölunnar. Í skýrslunni segir meðal annars að ljóst megi vera að „orðsporðsáhætta við sölu opinberra eigna var vanmetin fyrir söluferlið 22. mars af Bankasýslu ríkisins, fjármála- og efnahagsráðuneyti og þingnefndum sem um málið fjölluðu í aðdraganda sölunnar.“ Hægt hefði, að mati Ríkisendurskoðunar, að fá hærra verð fyrir eignarhlut ríkisins en ákveðið var að selja á lægra verði til að ná fram öðrum markmiðum en lögbundnum. Þá hafi huglægt mat ráðið því hvernig fjárfestar voru flokkaðir.
Bankasýslan hefur hafnað nánast allri gagnrýni sem sett hefur verið fram á hana og sagt að skýrslan afhjúpi takmarkaða þekkingu Ríkisendurskoðunar á viðfangsefninu.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mætti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í vikunni og sagði þar að helstu markmiðin hafi náðst með sölunni á hlutnum í Íslandsbanka en að hægt sé að draga lærdóm af skýrslu Ríkisendurskoðunar.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
3. desember 2022Var Ríkisendurskoðun að misskilja eða veitti Bankasýslan ráðherra ekki réttar upplýsingar?
-
1. desember 2022Íslandsbanki segir ekki hversu margir fengu flokkun sem hæfir fjárfestar á meðan að á útboðinu stóð
-
30. nóvember 2022„Það var mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi“
-
25. nóvember 2022Yfir 60 prósent treysta ekki stjórninni til að selja Íslandsbanka og vilja rannsóknarnefnd
-
24. nóvember 2022„Ríkisendurskoðun hafnar aðdróttunum ákveðinna fjölmiðla um annarleg sjónarmið“
-
21. nóvember 2022Spyr Bjarna hvort Fjármálaeftirlitið hafi lagaheimildir til að rannsaka Bjarna
-
21. nóvember 2022Ekki í fyrsta sinn sem ríkisbanki, Ríkisendurskoðun og Bankasýslan fara í hár saman
-
18. nóvember 2022Vill að Katrín mæti fyrir fjárlaganefnd og geri grein fyrir næstu skrefum í bankasölu
-
17. nóvember 2022Sögðu Sjálfstæðisflokkinn bara vilja ræða leka, ekki bankasöluna eða skýrsluna um hana