Bylting hefur orðið í þróun gervigreindar, segir Úlfar Erlingsson, starfsmaður Google í tölvuöryggisrannsóknardeild. Google er að hans sögn í fararbroddi í þróun gervigreindar enda hefur fyrirtækið þegar komið tækninni í notkunn meðal almennings. Í nýjustu uppfærslum forrita frá Google getur notandinn fært sér lærdóm tölva í nyt, hvort sem það er til þess að þýða texta eða leita að myndum af pítsum í myndasafni sínu.
Úlfar kennir masterskúrs í greinalestri við Háskólan í Reykjavík. Þar sem hann undirbýr nemendur undir að stunda vísindastarf í tölvuöryggi. Sjálfur lærði hann tölvunarfræði og stærðfræði í Háskóla Íslands og tók doktorspróf í kerfum og tölvuöryggi við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum. Á haustráðstefnu Advania í Hörpu á föstudag flutti Úlfar fyrirlestur um þessa byltingu í lærdómi tölva.
„Við erum í raun og veru í miðjunni á byltingu á því hvernig tölvur geta gert það sem hingað til hefur aðeins verið á færi manneskja,“ segir Úlfar í samtali við Kjarnann. Hlusta má á samtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. Hann útskýrir þessa byltingu þannig að fyrir fjórum árum hafi vísindamenn farið að vinna með svokölluð tauganet til þess að vinna úr gríðarlegu magni upplýsinga sem tauganetin geta svo lært af. „Þá geta þau leyst verkefni sem eru aðeins á færi manneskja. Til dæmis horft á mynd og skilið strax hvað stendur á myndinni, hlustað á einhvern tala og ekki aðeins gripið það að þarna sé verið að tala eitthvað tungumál heldur þýtt merkingu þess á annað tungumál.“
„Það sem er mekilegast í þessu er að það er sami hugbúnaðurinn sem er bak við allar þessar þjónustur,“ útskýrir Úlfar og vísar þar í nýjungar í Google Photos, Google Translate og þar fram eftir götunum. „Það er sama vélin sem er notuð til að túlka myndir yfir í orð eins og köttur, sólarlag eða barn. Sama tækni er notuð til að þýða úr þýsku yfir á kínversku.“
Úlfar spjallar um nýjungar Google, nútíma gagnanám úr gagnagnótt og tölvuöryggi í spjalli við Kjarnan. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.