Þjóðkirkjan hefur svarta sögu er varðar viðbrögð við kynferðislegri áreitni og ofbeldi en hæst fór mál Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups, á sínum tíma. Samskiptastjóri Biskupsstofu, Pétur Georg Markan, segir í samtali við Kjarnann að það sé skylda kirkjunnar að læra af þessari sögu. Ekkert annað sé í boði en hann telur enn fremur að tíð Agnesar M. Sigurðardóttur í embætti biskups verði minnst fyrir það að hún hafi tekið fast á slíkum málum.
Eitt mál hefur formlega komið á borð Biskupsstofu síðan Agnes tók við embætti árið 2012, að því er fram kemur í svari Biskupsstofu við fyrirspurn Kjarnans. Í svarinu segir að biskup hafi leiðbeint þolanda í formlegt ferli með pósti dagsettum 18. júní 2019. Sama bréf hafi farið í ábyrgðarpósti til viðkomandi. Einnig leiðbeindi biskupsritari nýlega einstaklingi til teymis þjóðkirkjunnar í gegnum síma.
Pétur hefur ekki upplýsingar um það hvort málið sem tilkynnt var í júní 2019 hafi ratað til lögreglu eða fagráðs. Allavega fór málið ekki lengra innan Biskupsstofu.
„Starfsfólk kirkjunnar (þar með biskup) fær engar upplýsingar um málsmeðferð einstaka þolanda eða hvort mál séu í umsjón og aðgæslu sérstaks faghóps – sem stofnað var til og ber ábyrgð á velferð þolanda. Hugur biskups er hjá hverjum þolanda,“ segir í svarinu.
Þá kemur fram hjá Biskupsstofu að sérstakt verklag fyrir þolanda kynferðislegs áreitni/áreitis eða ofbeldis hafi verið í stöðugri þróun innan kirkjunnar í gegnum árin. Sértæk aðferð kirkjunnar sé sjálfstæður vettvangur, sérstakur faghópur, sem skipulagður sé til að þjóna þolandanum. Hópurinn beri faglega ábyrgð á stuðningi og málsmeðferð þolandans.
Enginn fulltrúi kirkjunnar í teyminu
Árið 2019 tók vettvangurinn „teymi þjóðkirkjunnar“ við umsjón og aðgæslu „fagráðs“ sem var ábyrgt fyrir málefninu frá árinu 1998. Í svarinu segir enn fremur að teymi þjóðkirkjunnar sé aðeins skipað fagfólki og engum fulltrúa kirkjunnar – enda sé teymið sjálfstæður vettvangur utan kirkjunnar. Teymi þjóðkirkjunnar stuðli einnig að fyrirbyggjandi umbreytingum á menningu, skilvirkum aðgerðum gegn kynferðislegu ofbeldi, ágengni, áreiti og einelti.
Starfsfólk þjóðkirkjunnar, þar með biskup, hefur ekki annað aðgengi að teyminu en að vísa málum þangað, í ferlið. Verklag teymisins boðar þagnarskyldu eins og er að finna hjá starfsfólki kirkjunnar – hvar sem það er að finna, samkvæmt Biskupsstofu.
Pétur segir að þau hafi metið það sem svo að það væri best fyrir viðkomandi sem kvartaði formlega árið 2019 að leita til teymisins með sitt mál. „Þetta er í raun og veru gert til að mynda eldvegg á milli okkar og síðan stéttarinnar til þess að tryggja að málið sé algjörlega óháð og fái meðhöndlun á forsendum þolandans án þess að við komum þar nokkurn tímann nálægt,“ segir hann við Kjarnann.
Dularfulla bréfið
Í svari Biskupsstofu eru mál nefnd sérstaklega sem fengið hafa umfjöllun í fjölmiðlum og rekur Kjarninn þau hér fyrir neðan. Í fyrsta lagi má nefna mál séra Ólafs Jóhannssonar en hann var leystur frá embætti sem sóknarprestur hjá þjóðkirkjunni í september 2019. Þetta var niðurstaða biskupsembættisins eftir fundi með fimm konum sem stigu fram og lýstu kynferðislegu áreiti, siðferðisbrotum og óásættanlegri hegðun Ólafs, þegar þær störfuðu með honum í Grensáskirkju.
Í öðru lagi kom upp gamalt mál sem varðaði brot séra Þóris Stephensen. Fjölmiðlar greindu frá því árið 2018 að Þórir, sem var prestur um hálfrar aldar skeið og fyrrverandi dómkirkjuprestur, hefði mætt á fund sem haldinn var hjá biskupi Íslands þremur árum áður þar sem hann bað konu afsökunar á að hafa brotið á henni um miðja síðustu öld. Þórir var um tvítugt og í námi þegar þetta gerðist en stúlkan innan við fermingu.
Fram til ársins 2018 sinnti Þórir hinum ýmsu embættisverkum innan kirkjunnar eftir að hann lét formlega af embætti. Það ár bað Agnes Þóri um að taka ekki að sér fleiri athafnir eða þjónustu. Þau voru sammála um það, að sögn Agnesar á sínum tíma.
Árið 2019 sendi Þórir kirkjuráði umslag sem mátti ekki opna fyrr en ári eftir andlát hans. Kirkjan gaf það út í fyrstu að hún myndi virða þessa ósk Þóris en ekkert var vitað um innihald umslagsins. Kirkjuráð samþykkti aftur á móti að skila bréfinu en Agnes sagði í Kastljósi þá þessum tíma að hún myndi vilja að bréfinu yrði skilað og að hún vissi ekki hvert innihald bréfsins væri.
Sagði að samviskan væri hrein
Í þriðja lagi fékk mál séra Helga Hróbjartssonar umfjöllun í fjölmiðlum við andlát hans árið 2018. Í frétt DV frá þeim tíma var málið rifjað upp en árið 2010 játaði Helgi fyrir fagráði kirkjunnar að hafa brotið á börnum. Í umfjöllun DV sagði að málið hefði verið mönnum sem þekktu til Helga mikið áfall enda var hann ekki þekktur fyrir annað en óeigingjarnt starf og ósérhlífni heima og erlendis.
Á Íslandi starfaði hann sem prestur í Þorlákshöfn, Hrísey og á Akureyri. Það var á Norðurlandi sem Helgi braut á börnum, samkvæmt DV. Erlendis var Helgi trúboði um árabil í Eþíópíu en líka í Senegal. DV ræddi einnig við mann sem átti vin sem var misnotaður af Helga, þegar hann var 15 ára í ferð á vegum kirkjunnar.
Í fjórða lagi rataði mál séra Gunnars Björnssonar í fjölmiðla en árið 2019 ræddi Stundin við sex konur sem sögðu Gunnar hafa áreitt sig þegar þær voru á barns- og unglingsaldri. Atvikin áttu sér stað yfir meira en þriggja áratuga skeið á Ísafirði, Flateyri og Selfossi þegar Gunnar var sóknarprestur og tónlistarkennari. Gunnar sagði við Stundina að samviska hans væri hrein.
Að endingu verður að nefna stærsta málið, sem þó var löngu fyrir tíð Agnesar, en árið 1996 stigu þrjár konur fram með ásakanir á hendur séra Ólafi Skúlasyni, þáverandi biskupi Íslands, um að hann hefði áreitt þær kynferðislega. Kirkjan hafði vitað af þessu þar sem ein kvennanna hafði tilkynnt Ólaf áður þegar hann var prestur í Bústaðakirkju.
Ólafur kærði konurnar í kjölfarið og studdi kirkjan hann á meðan þetta gekk yfir. Þetta sama ár tilkynnti hann afsögn sína. Eftir andlát hans árið 2008 steig dóttir hans, Guðrún Ebba, fram og sagði frá því að Ólafur hefði misnotað hana sem barn. Gagnrýnisraddir heyrðust í samfélaginu í kjölfarið og töldu margir að kirkjan hefði brugðist í málum þessara kvenna.
Segjast ekki hika við að senda fólk í leyfi
Pétur ítrekar í samtali við Kjarnann að ef gamlir tímar hafi eitthvað kennt þeim þá væri það hversu mikilvægt það sé að vanda sig, læra af sögunni og tryggja öruggt umhverfi innan kirkjunnar.
Hann segir að með því að vísa málum til teymisins þá séu þau að reyna að fara með þau eins faglega og skilvirkt og mögulegt sé en enginn prestur situr í teyminu. Hann segir að í raun og veru vilji þau ekki fá þessi mál inn á borð Biskupsstofu. „Við viljum að þau fari beint í teymið því að það er faglegasti vettvangurinn. En þegar, eins og í þessum tilfellum sem ég nefni í svarinu, koma til okkar þá höfum við vísað málum í fagráðið og síðan teymið.“
Varðandi símtalið sem nýlega barst Biskupsstofu þá segir hann að þau hafi ekki tekið afstöðu til málsins heldur vísað á teymið. Þau hafi leyft viðkomandi að njóta vafans. Ef þau fái meldingu frá teyminu að eitthvað óviðeigandi hafi átt sér stað þá þurfi að setja þann aðila í leyfi undir eins. „Við hikum ekki við það.“