Virði útgerða sem skráðar eru á markað hefur aukist um 142 milljarða á tíu mánuðum
Eignarhlutur þeirra fámennu hópa sem eiga um eða yfir helmingshlut í Síldarvinnslunni og Brim hefur samanlagt hækkað um næstum 80 milljarða króna í virði frá því í maí í fyrra. Stærstu hluti þeirra verðmæta hefur runnið til Samherja og Guðmundur Kristjánssonar. Virði bréfa í þessum tveimur af stærstu útgerðarfélögum landsins, þeim einu sem skráð eru á markað, tóku kipp eftir að stærsta loðnukvóta í næstum tvo áratugi var úthlutað skömmu eftir kosningar í haust.
Fyrir rúmum tíu mánuðum lauk hlutafjárútboði Síldarvinnslunnar og í lok maí 2021 voru viðskipti með bréf félagsins, sem er eitt stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, tekin til viðskipta í Kauphöll. Við það voru tvö útgerðarfyrirtæki skráð á markað hérlendis, en fyrir var Brim sem hefur verið á markaði frá 2014.
Fyrir vikið geta almenningur og fagfjárfestar keypt hluti í þessum útgerðum sem stendur ekki til boða í öðrum fyrirferðamiklum sjávarútvegsfyrirtækjum hérlendis.
Í dag eiga lífeyrissjóðir landsins samanlagt að minnsta kosti tæplega 19 prósent beinan hlut í Síldarvinnslunni sem metinn er á tæplega 32 milljarða króna. Lífeyrissjóðirnir eiga sömuleiðis að minnsta kosti samanlagðan 33,4 prósent hlut í Brimi sem er metinn á 59 milljarða króna. Þarna er um að ræða eign almennings í gegnum lífeyrissjóðakerfið. En mest eiga hópar tengdra útgerðarmanna, sem halda á um eða yfir helmings hlutafjár í félögunum tveimur.
Eignarhlutir í þessum einu tveimur útgerðarfyrirtækjum landsins sem skráð eru á markað hafa hækkað gríðarlega í verði á síðustu tíu mánuðum. Markaðsvirði Síldarvinnslunnar hefur aukist um 67 prósent, eða 67,7 milljarða króna, og var i lok dags á þriðjudag 169 milljarðar króna. Markaðsvirði Brims hefur á sama tímabili aukist um 75 prósent, eða 74 milljarða króna, og var í lok dags á þriðjudag 176,7 milljarðar króna.
Samanlagt markaðsvirði þessara tveggja útgerðarfyrirtækja var því 345,7 milljarðar króna.
Loðnukvóti lykilatriði
Brim er það íslenska útgerðarfyrirtæki sem heldur á mestum kvóta. Í síðustu samantekt Fiskistofu fór Brim yfir tólf prósent lögbundið hámark og þurfti að selja frá sér aflaheimildir í kjölfarið. Þær voru seldar til stærsta eiganda Brims, Útgerðarfélags Reykjavíkur, og Brim heldur nú á rétt undir tólf prósent af úthlutuðum kvóta. Síldarvinnslan er í þriðja sæti yfir það útgerðarfyrirtæki sem heldur á hæstri hlutdeild af kvóta, eða 9,41 prósent hans. Samanlagt halda þessi tvö skráðu fyrirtæki samtals á um 21,4 prósent af öllum aflaheimildum landsins. Aðilar þeim tengdir halda svo á töluverðum hluta til viðbótar líkt og lesa má um hér að neðan.
Stóra ástæðan fyrir því að markaðsvirði Síldarvinnslunnar og Brims hafa hækkað jafn mikið og raun ber vitni er úthlutun á loðnukvóta í fyrrahaust. Engum slíkum kvóta hafði verið úthlutað í tvö ár en Kristján Þór Júlíusson, þáverandi sjávarútvegsráðherra sem var hættur á þingi en beið myndun nýrrar ríkisstjórnar á ráðherrastóli, ákvað að úthluta stærsta kvóta sem úthlutað hafði verið í tæpa tvo áratugi, rúmlega 900 þúsund tonn. Kvótinn var síðan skertur um 34.600 tonn í febrúar síðastliðnum eftir mælingar á stofninum. Væntingar eru til þess að loðnuvertíðin muni skila útgerðum landsins sem stunda slíkar uppsjávarveiðar yfir 50 milljörðum króna í nýjar tekjur.
Þrjú fyrirtækið fengu 56,5 prósent af þeim loðnukvóta sem var úthlutað. Ísfélag Vestmannaeyja, einkafyrirtæki að mestu í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og barna hennar, fékk mest, 19,99 prósent. Síldarvinnslan og tengd félög komu þar á eftir með 18,5 prósent og Brim var í þriðja sæti með um 18 prósent. Eftir að þetta var tilkynnt rauk markaðsvirði skráðu félaganna tveggja upp.
Seldu fyrir tugi milljarða en virðið hefur hækkað um enn hærri tölu
Hlutafjárútboði Síldarvinnslunnar lauk 12. maí í fyrra. Alls voru til sölu 498,6 milljónir hluta, alls 29,3 prósent í félaginu, en rúmlega tvöföld eftirspurn varð eftir hlutum. Þeir nálægt 6.500 aðilar sem skráðu sig fyrir hlut sóttust eftir að kaupa fyrir um 60 milljarða króna en selt var fyrir 29,7 milljarða króna. Útboðsgengi í tilboðsbók A var 58 krónur á hlut en 60 krónur á hlut í tilboðsbók B. Miðað við þetta verð er heildarvirði Síldarvinnslunnar 101,3 milljarðar króna.
Við lok dags á þriðjudag var markaðsvirði félagsins, líkt og áður sagði, 169 milljarða króna og hafði því hækkað um 67,7 milljarða króna á tíu mánuðum.
Langstærstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Samherji hf. (32,64 prósent) og Kjálkanes ehf. (17,44 prósent), félags í eigu Björgólfs Jóhannssonar, fyrrverandi forstjóra Samherja, og fólks sem tengist honum fjölskylduböndum. Stærstu hluthafar eignarhaldsfélagsins með 45 prósenta hlut eru systkinin Anna og Ingi Jóhann Guðmundsbörn.
Auk þess á Eignarhaldsfélagið Snæfugl, sem er meðal annars í eigu Samherja og Björgólfs, fjögur prósent hlut. Samanlagt halda því þessir þrír aðilar á um 54,1 prósent hlut í Síldarvinnslunni og skipa þrjá af fimm stjórnarmönnum þess. Hlutur þessara þriggja aðila hefur því hækkað um 36,6 milljarða króna frá því að útboðið fór fram. Beinn hlutur Samherja hefur hækkað um 22,1 milljarð króna.
Þeir sem seldu eignarhluti í útboðinu í maí í fyrra voru ofangreindir stærstu eigendur Síldarvinnslunnar og helstu stjórnendur hennar. Samherji fékk um 12,2 milljarða króna af þeirri upphæð sem selt var fyrir í sinn hlut og Kjálkanes seldi fyrir 15,3 milljarða króna. Eignarhaldsfélagið Snæfugl seldi hluti fyrir einn milljarð króna og Síldarvinnslan fékk um 738 milljónir króna fyrir þá eigin hluti hennar sem hún seldi.
Kjálkanes seldi svo viðbótarhlut í júní í fyrra fyrir alls um tvo milljarða króna. Félagið hefur því þegar selt hluti fyrir meira en 17 milljarða króna á síðustu mánuðum.
Brim líka rokið upp
Sama dag og hlutafjárútboði í Síldarvinnslunni lauk var markaðsvirði Brim, annars útgerðarfélags sem er skráð á markað, 102,7 milljarðar króna. Líkt og rakið var hér að ofan hefur það síðan hækkað um 75 prósent og var í lok dags á þriðjudag 176,7 milljarðar króna. Markaðsvirðið hefur því aukist um 74 milljarða króna.
Langstærsti eigandi Brim er Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 43,97 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf. Það félag er að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar. Hlutur Útgerðarfélags Reykjavíkur í Brim hefur því hækkað um 32,5 milljarða króna á tíu mánuðum.
Útgerðarfélag Reykjavíkur keypti fyrst hluti í Brimi árið 2018 þegar það keypti um 34,1 prósent hlut Kristjáns Loftssonar og Halldórs Teitssonar á 21,7 milljarða króna. Sá hlutur hefur hækkað um 38,6 milljarða króna í virði síðan þá, eða um 177 prósent.
Næsta árið hélt félagið eða tengdir aðilar áfram að stækka í Brimi, ýmist með kaupum á bréfum eða í gegnum hlutafjáraukningar vegna kaupa Brims á eignum Útgerðarfélags Reykjavíkur. Hjálmar átti á þeim tíma í Útgerðarfélagi Reykjavíkur og um tíma voru félög bræðranna með meirihluta í Brimi. Þeir framkvæmdu hins vegar fjárhagslegan aðskilnað á eignarhlut sínum í Brimi í lok árs 2019 sem gerði það að verkum að Hjálmar fór út úr Útgerðarfélagi Reykjavíkur en eignaðist KG Fiskverkun að fullu.
Auk þess eiga félögin KG Fiskverkun og Stekkjasalir, í eigu Hjálmars Kristjánssonar bróður Guðmundar og sona hans, 5,89 prósent hlut í Brimi og félagið á 1,79 prósent hlut í sjálfu sér. Bræðurnir halda því á 49,86 prósent hlut í útgerðarrisanum og geta saman myndað meirihluta í honum ef atkvæðavægi eigin hlutar Brims er dregið frá. Hlutur félaga Hjálmars í Brim er metinn á 10,4 milljarða króna og hefur hækkað um 4,4 milljarða króna á tíu mánuðum.
Samanlagt hefur hlutur bræðranna og sona Hjálmars því hækkað um næstum 43 milljarða króna frá því í maí í fyrra.
Stefnir í metár
Síðasta ár, 2021, var besta ár íslenskra útgerða frá upphafi ef miðað er við heildaraflaverðmæti. Samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í byrjun mars var heildaraflaverðmæti íslenskra útgerða 162 milljarðar króna miðað við fyrstu sölu og jókst um níu prósent milli ára. Í ljósi þess að einungis var búið að veiða, landa og selja loðnu fyrir um fimmtung af því sem vænst er að fáist fyrir úthlutaðan kvóta vegna yfirstandandi fiskveiðiárs um síðustu áramót má vænta þess að árið 2022 verði enn betra ár fyrir útgerðir landsins. Veiking krónunnar mun auk þess ýkja rekstrarniðurstöðuna en hækkandi olíuverð auka kostnað á móti.
Þess var því beðið með nokkurri eftirvæntingu að skráðu útgerðarfélögin myndu birta ársuppgjör sín, fyrstu birtu uppgjör útgerða vegna ársins 2021. Það gerðist í lok febrúar og byrjun mars.
Bæði félögin, Síldarvinnslan og Brim, högnuðust um rúma ellefu milljarða króna í fyrra. Á grundvelli þessa árangurs ætlar Brim að greiða hluthöfum sínum rúmlega fjóra milljarða króna í arð vegna frammistöðu síðasta árs og Síldarvinnslan ætlar að greiða sínum 3,4 milljarða króna. Útgerðarfélag Reykjavíkur og félög Hjálmars Kristjánssonar fá um tvo milljarða króna af arðgreiðslu Brims í sinn hlut og Samherji, Kjálkanes og Snæfugl rúmlega 1,8 milljarða króna af arðgreiðslur Síldarvinnslunnar.
Greiða meira í arð en í opinber gjöld
Síldarvinnslan greiddi 531 milljónir króna í veiðigjöld í fyrra og tæplega 2,1 milljarð króna í tekjuskatt. Því námu samanlagðar greiðslur vegna veiðigjalds og tekjuskatts í ríkissjóð um 2,6 milljörðum króna, eða 76 prósent af þeirri upphæð sem til stendur að greiða hluthöfum í arð og 23 prósent af hagnaði Síldarvinnslunnar vegna síðasta árs.
Brim greiddi alls um 907 milljónir króna í veiðigjald á árinu 2021 og tæpa þrjá milljarða króna í tekjuskatt. Samtals greiddi Brim því rúmlega 3,8 milljarða króna í tekjuskatt og veiðigjöld til ríkissjóðs, sem er lægri upphæð en til stendur að greiða hluthöfum í arð og um þriðjungur af hagnaði félagsins.
Þetta er viðsnúningur sem fyrst varð vart á árinu 2020. Þá greiddu öll sjávarútvegsfyrirtæki landsins í fyrsta sinn eigendum sínum meira í arð en þau greiddu samtals í tekjuskatt, tryggingagjald og veiðigjald. Arðgreiðslurnar 2020 voru 21,5 milljarðar króna en opinberu gjöldin 17,4 prósent.
Lestu meira:
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
30. desember 2022Rammi sameinaður Ísfélaginu og til stendur að skrá nýju risaútgerðina á hlutabréfamarkað
-
29. desember 2022Baldvin Þorsteinsson eignast erlenda útgerð Samherja sem metin er á 55 milljarða króna
-
19. desember 2022Hagnaður sjávarútvegs þrefaldaðist milli ára en afkoma tæknifyrirtækja breyttist lítið
-
13. desember 2022Fallið frá því að hækka gjöld á sjókvíaeldi um mörg hundruð milljónir á ári
-
9. desember 2022Prentsmiðjan og skuldir Árvakurs við hana færðar úr útgáfufélagi Morgunblaðsins
-
6. desember 2022Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
-
30. nóvember 2022Samherjasamstæðan átti eigið fé upp á tæpa 160 milljarða króna um síðustu áramót
-
28. nóvember 2022SFS styðja frumvarp Svandísar um að hækka veiðigjöld á næsta ári en lækka þau árin á eftir
-
23. nóvember 2022Svandís leggur fram frumvarp sem hækkar veiðigjöld um 2,5 milljarða á næsta ári