Á þessum degi fyrir réttum 74 árum, hinn 18. febrúar árið 1943, handtóku fulltrúar frá Gestapo systkinin Hans og Sophie Scholl fyrir andóf gegn Nasistastjórn Þriðja ríkisins. Þau og félagar þeirra í æskulýðshreyfingunni Hvítu rósinni höfðu þá um nokkurra mánaða skeið stundað andóf gegn Nasistastjórninni í Þýskalandi.
Hans var á æskuárum meðlimur í Hitlersæskunni, en varð síðar afhuga nasisma eftir að hann áttaði sig á raunverulegum markmiðum Hitlers. Þegar hann var við læknanám við Ludwig-Maximilians-Universität í München komst hann í kynni við aðra stúdenta sem voru álíka þenkjandi. Margir þeirra höfðu farið á Austurvígstöðvarnar og séð hrylling stríðsins og grimmdarverk Nasista með eigin augum.
Hans skipti úr læknisfræði yfir í hugvísindi og Sophie, litla systir hans, sem hafði einnig verið í æskulýðshreyfingu Nasista, gekk til liðs við Hvítu rósina.
Friðsamleg andspyrna gegn kúgunarvaldinu
Sumarið 1942, eftir að hópflutningar á gyðingum í fangabúðir hófust, gátu félagar í Hvítu rósinni ekki setið aðgerðarlausir lengur. Hans og félagi hans prentuðu því fjögur dreifibréf, þar sem meðal annars var varpað ljósi á gerðir Hitlers, stjórnar hans og ofsóknir gegn gyðingum auk þess sem hvatt var til friðsamlegra mótmæla og andspyrnu. Í fyrstu útgáfunni var meðal annars talað um að þegar glæpir nasista myndu koma fram í dagsljósið myndi því fylgja þjóðarskömm, jafnvel fyrir næstu kynslóðir.
Þau einskorðuðu sig fyrst við München en brátt var hægt að nálgast efnið frá þeim í fleiri borgum í Suður-Þýskalandi og allt norður til Berlínar. Auk bæklingaútgáfunnar fóru þau um borgina og skrifuðu slagorð á veggi; t.d. „Frelsi“ og „Niður með Hitler“.
Það var svo örlagadaginn 18. september sem systkinin voru að dreifa nýjustu útgáfu Hvítu rósarinnar. Þau Hans og Sophie skildu eftir tösku fulla af bæklingum í aðalbyggingu háskólans þar sem þess var krafist, í nafni þýsku þjóðarinnar, að almenningur fengi á ný að njóta almennra mannréttinda.
Þar sá húsvörður til þeirra og tilkynnti til Gestapo og þau voru handtekin sama dag ásamt öðrum meðlimi Hvítu rósarinnar, Christopher Probst að nafni.
Hugrökk allt fram á síðustu stundu
Þau voru dregin fyrir dómstóla, sökuð um landráð. Réttarhöldin voru aðeins til málamynda þar sem sakborningar fengu ekki einu inni að bera vitni, en viðstaddir báru að Sophie hafi sagt: „Einhver þurfti að taka af skarið. Það sem við skrifuðum og sögðum er það sem býr í hugum margra annarra, þau hafa bara ekki dirfst að tjá sig líkt og við.“
Þau voru sakfelld hinn 22. febrúar og hálshöggvin með fallöxi samdægurs. Hans var 25 ára, Christopher var 24 ára og Sophie 21 árs. Síðustu orð Hans Scholls voru „Es lebe die Freiheit!“, eða „Lifi frelsið!“. Félagar þeirra í Hvítu rósinni og aðrir sem tengdust félagsskapnum voru handteknir og teknir af lífi áður en langt um leið.
Andinn lifir enn
Hvíta rósin varð aldrei fjöldahreyfing og náði augljóslega ekki markmiðum sínum áður en yfir lauk, þar sem stjórn nasista leið ekki undir lok fyrr en rúmum tveimur árum seinna. Þessi litli hópur háskólastúdenta skildi hins vegar eftir sig skrif sem urðu mörgum innblástur en ekki var það síður hugrekki þeirra sem eftir var tekið, en þau vissu mæta vel hvaða afleiðingar gætu beðið þeirra.
„Ég vissi hvað ég var að fara út í,“ sagði Hans við yfirheyrslur. „En ég var reiðubúinn að fórna lífi mínu.“
Jafnvel enn í dag eimir eftir af anda Hvítu rósarinnar og er oft vísað til hennar sem dæmi um staðfestu og hugrekki jafnvel þótt staðið sé frammi fyrir ofurefli.