Á þessum degi fyrir réttum 79 árum, hinn 12. mars árið 1938 var Austurríki innlimað í Þýskaland án nokkurrar teljandi mótspyrnu. Fréttamyndir þess tíma sýna mikil fagnaðarlæti almennings þegar Adolf Hitler ekur sigri hrósandi um götur Vínarborgar eftir að hafa lagt undir sig fæðingarland sitt. Eftir stríð var staða Austurríkismanna lævi blandin. Voru þeir sannarlega „fyrsta fórnarlamb nasista“, eins og margir vildu vera láta?
Adolf Hitler fæddist í austurríska bænum Braunau am Inn (sem þá tilheyrði Austurrísk-Ungverska keisaraveldinu) rétt við landamæri Þýskalands. Hann flutti ungur til Vínar og svo til Munchen rétt áður en fyrri heimsstyrjöldin braust út og skráði sig í þýska herinn.
Eftir ósigur í stríðinu liðaðist Austurríki-Ungverjaland sundur og Austurríki var stofnað sem lýðræðisríki. Þar tókust hins vegar á tvö öfl, annars vegar íhaldsmenn og hins vegar sósíalistar. Fylkingarnar tókust á um árabil, en þeim átökum lauk með því að þeir fyrrnefndu tóku öll völd í landinu í febrúar 1934 eftir nokkurra daga rimmu sem kölluð er „Austurríska borgarastyrjöldin“.
Afarkostir Hitlers
Stjórnartíð íhaldsmanna fram að innlimuninni 1938 bar sterk merki fasisma, en þeir höfðu þó bannað starfsemi nasistaflokksins þar í landi árið 1933. Nasistar reyndu að steypa stjórnvöldum í Vín – með stuðningi þýskra stjórnvalda – um sumarið 1934, en höfðu ekki erindi sem erfiði. Uppreisninni var hrundið og þúsundir nasista voru handteknir.
Þegar kom fram á árið 1938 hafði Hitler þegar tekið stjórnina í Saarlandi og Rínarlöndum og hafði hug á að bæta enn við landsvæði Þýskalands. Hann kallaði kanslara Austurríkis, Kurt von Schuschnigg, því til fundar við sig í Arnarhreiðrinu svokallaða, afdrepi sínu í Berechtsgaden hinn 12. febrúar það ár.
Þar beið Hitler ekki boðanna og hellti sér yfir von Schuschnigg vegna meintra svika og ósamvinnufýsi austurrískra stjórnvalda. Lagði hann þar fram kröfur um að allir nasistar yrðu látnir lausir úr austurrískum fangelsum, nasistaflokkurinn yrði leyfður á ný og stækur nasisti yrði settur í embætti innanríkisráðherra með fulla stjórn yfir lögreglunni. Auk þess skyldi stríðsmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið verða sett undir stjórn nasista.
Þessar kröfur voru óumsemjanlegar og Hitler gaf skilmerkilega í ljós að ef ekki yrði gengið að þeim myndi þýski herinn þramma inn í Austurríki og taka þar stjórnina.
Von Schuschnigg taldi sig ekki geta annað en skrifað undir skilmálana, en aðeins eftir að hafa fengið fullvissu um að fullveldi Austurríkis yrði virt.
Innrásin fyrirsjáanlega
Eftir að nasistum hafði verið sleppt úr haldi hófu þeir umsvifalaust að grafa undan stjórnvöldum og var mikill órói í landinu. Von Schuschnigg brást við með því að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Austurríki ætti að halda sjálfstæði sínu. Það hvatti Hitler til þess að bregðast skjótt við og hinn 12. mars rúllaði þýski herinn yfir landamærin undir því yfirskini að þýsk-ættaðir Austurríkismenn hefðu kallað eftir hjáp. Hitler kom við í fæðingarbæ sínum og lagði blómsveig að leiði foreldra sinna í Leonding á leið sinni til Vínar þar sem honum var fagnað eins og hetju tveimur dögum eftir innlimunina.
Hinn 10. apríl fór þjóðaratkvæðagreiðslan svo fram og var innlimunin samþykkt með 99% atkvæða.
Ekki leið á löngu þar til að ofsóknir gegn gyðingum hófust af fullum krafti og Austurríki varð fullgildur hluti af Þriðja ríkinu. Sem dæmi um það má nefna að 800.000 Austurríkismenn börðust fyrir þýska herinn í Seinni heimsstyrjöldinni og þá varð Rapid Wien þýskur meistari í fótbolta árið 1941.
Framhaldið á vegferð Hitlers í Evrópu þarf ekki að fjölyrða um, enda brugðust Evrópuríki ekkert við útbreiðslustefnu hans, frekar en áður. Tékkóslóvakía var næst, og þá Pólland áður en Seinni heimsstyrjöldin braust út.
Arfleifð innlimunar
Leiðtogar Bandamanna skilgreindu Austurríki árið 1943 sem „fyrsta fórnarlamb útþenslustefnu Hitlers“, en sama ár hófust loftárásir á skotmörk þar í landi. Austurríki var svo hertekið í apríl 1945, nokkrum dögum áður en Þýskaland gafst upp. Eftir stríð lýstu stjórnvöld í Austurríki því yfir að aðeins lítill hópur Austurríkismanna hafi sannarlega unnið með nasistum, en aðrir höfðu þjáðst og jafnvel veitt mótspyrnu.
Allar götur síðan hefur viðhorf almennings í Austurríkis á árunum undir stjórn nasista verið umdeilt. Sannarlega var mannfagnaður á götum úti, en það voru að sjálfsögðu áróðursmyndir sem voru ekki að skjalfesta undirliggjandi kergju, og þjóðaratkvæðagreiðslan var sömuleiðis lítt marktæk vegna hótana og annars konar misferlis.
Mál þessi komu upp á yfirborðið með miklum krafti þegar Kurt Waldheim, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, bauð sig fram til forseta Austurríkis árið 1986. Þá kom í ljós að hafði ekki einungis verið í þýska hernum á stríðsárunum, heldur tekið virkan þátt í aðgerðum þar sem fjöldamorð voru framin á skæruliðum á Balkanskaga sem og þar sem gyðingar voru fluttir í útrýmingarbúðir.
Ekkert bendir til þess að Waldheim hafi sjálfur framið stríðsglæpi, en eftir að hann var kjörinn forseti lokaði alþjóðasamfélagið á öll samskipti við hann.
Síðan þá hefur margt gerst í austurrískum stjórnmálum sem hefur orðið til þess að rifja upp þessa óþægilegu fortíð, ekki síst ákvarðanir almennra kjósenda sem hafa kosið flokka og fólk yst af hægri jaðri stjórnmálanna. Þar ber hæst Frelsisflokkinn sem var meðal annars í ríkisstjórn á árunum 2000 til 2007 og er enn þann dag í dag þriðji stærsti flokkurinn á þingi og hefur mælst stærstur í skoðanakönnunum í tæp tvö ár. Að ógleymdum fulltrúa flokksins, Norbert Hofer, sem tapaði forsetakosningum í fyrra með örlitlum mun.