Allir íbúar Sovétríkjanna voru í losti í mars 1953. Leiðtoginn ógurlegi Jósef Stalín hafði fengið heilablóðfall og lést svo vegna þess viku síðar 5. mars þetta ár.
Íbúarnir voru í losti, enda var óvíst hvað myndi taka við. Stalín var 74 ára þegar hann dó en þá hafði hann eytt 31 ári við stjórnvölinn í kommúnistaríkinu Sovétríkjunum, hafði tekið við sem aðalritari Kommúnistaflokksins árið 1922 og staðið fyrir blóðugustu atburðum í sögu Sovétríkjanna fyrr og síðar.
Á meðan á hreinsunum Stalíns stóð snéri hann Sovétríkjunum, landi öreiga og verkafólks, gegn íbúum landsins og lét taka meira en 600 þúsund manns af lífi fyrir meinta pólitíska glæpi. Ógnarstjórn Stalíns varð þess utan valdandi dauða margra milljóna manns. Það er varla fjölskylda í Rússlandi sem varð ekki fyrir áhrifum af Stalín.
Hlutverk Sovétríkjanna í Seinni heimsstyrjöldinni, þar sem meira en 26 milljónir Sovétmanna létust, og þáttur Sovétmanna í að hrinda Þýskalandi nasista hlaut fljótlega goðsagnakenndan stað í sögulegu tilliti. Sigurinn varð tileinkaður Stalín og hann gat í krafti þess orðið enn valdameiri.
Árið 1953 var Stalín enn kynntur sem alráður leiðtogi, jafnvel þó heilsu hans hafi tekið að hraka hratt og hann orðinn mjög hrumur. Það kom þess vegna almenningi í Sovétríkjunum á óvart að Stalín væri dauður.
Útför leiðtogans var haldin 9. mars 1953. Hún var ofboðsleg í sniðum, þar sem öll dagskráin var vandlega framkvæmd. Í Sovétríkjunum átti ríkið allar kvikmyndavélar sem þar var að finna, í það minnsta þær sem festu útförina á filmu. Þannig hefur Kreml getað stjórnað því hvernig útförin kom fyrir sjónir þeirra sem ekki voru viðstaddir.
Nýfundin upptaka af útförinni
Nú er það hins vegar breytt vegna þess að fyrstu óopinberu upptökunni af útför Stalíns hefur verið varpað á alnetið. Martin Manhoff, ofursti í bandaríska hernum, kvikmyndaði nefnilega jarðarförina úr glugga bandaríska sendiráðsins sem þá var til húsa við Rauða torgið í Moskvu.
Á upptöku Manhoffs má sjá annað sjónarhorn af útför einræðisherrans en hingað til hefur sést. Opinberar upptökur hafa allar verið klipptar og upptökunum ritstýrt þannig að þær sýndu aðeins líkræður fyrirmenna fyrir Stalín.
Mikilvægar heimildir um lífið í Sovétríkjunum
Óopinbera upptakan er hins vegar hrá – stundum er upptakan mjög hreyfð – og sýnir aðra hlið viðburðarins: Langar raðir uppklæddra hermanna, kistu Stalíns hulda rauðum dúk og gríðarlega langar raðir fólks með kransa.
Það var Douglas Smith, sagnfræðingur í Seattle í Bandaríkjunum, sem fann upptökurnar af útförinni ásamt hundruðum mynda og kvikmynda sem Martin Manhoff tók í Sovétríkjunum. Manhoff-skjalasafnið svokallaða er sjaldséður spegill á óvanaleg augnablik í sögu Rússlands.
Endurreisn ímyndar Stalíns
Nú þegar Rússar líta frá vestrinu á ný hefur ímynd Stalíns verið endurreist í auknum mæli. Á vef The Moscow Times er sagt frá því að ný söfn hafi verið opnuð og minnisvarðar reistir til heiðurs einræðisherranum. Embættismenn hafi oftar vísað til þess sem þeir telja að hafi verið jákvætt við stjórn Stalíns. Þá hafi Kommúnistaflokkur Rússlands, hyllt Stalín sem „ímynd vonar“ árið 2016.
Í könnun sem gerð var í febrúar af Levada Center, sjálfstæðum könnunaraðila í Rússlandi, kom fram að 46 prósent Rússa tengja Stalín jákvæðum hugmyndum. Stalín er einnig þriðji vinsælasti rússneski leiðtoginn, á eftir Vladimír Pútín og Leonid Brezhnev.
Kommúnistar eru 42 í Dúmunni, neðri deild rússneska þingsins. Alls sitja þar 450 þingmenn, svo kommúnistar eiga um það bill níu prósent og eru næst stærsti flokkurinn á þinginu. Lang flestir þingmenn eru úr flokki Vladimírs Pútín, Sameinuðu Rússlandi eða 343.