Mannkynssagan er ansi hreint þéttskipuð mönnum sem hafa lagt sig fram um að öðlast völd og auð án tillits til annars fólks. Sumir hinna verstu hafa ofsótt, pyntað og drepið, jafnvel sína eigin þegna, en í efstu lögum þessa mannfélagsmengis eru nokkur nöfn sem standa uppúr; Adolf Hitler, Maó Zedong og Jósef Stalín.
Stalín stýrði Sovétríkjunum með harðri hendi, svo ekki sé dýpra í árina tekið, á árunum 1929 til 1953 og í valdatíð hans er talið að allt að 20 milljónir manna hafi látið lífið, annað hvort í skipulögðum ofsóknum gegn raunverulegum og ímynduðum andstæðingum, eða vegna efnahagsaðgerða sem áttu að gera Sovétríkin að iðnaðarstórveldi en ollu þess í stað hungursneyðum með gífurlegu mannfalli.
Síðustu æviárin ágerðist ofsóknarbrjálæði og vitfirring Stalíns verulega en eftir að hann fékk heilablóðfall náði hann sér aldrei og lést í mars 1953.
Eftir fráfall Stalíns tók við hörð valdabarátta milli Gerogys Malenkov, eins nánasta samstarfsmanns leiðtogans heitins, og Krústsjeffs, sem hafði klifið metorðastigann af mikilli list, frá smábæ í Úkraínu upp í efstu lög flokksins.
Malenkov tók fyrst við stjórninni en fljótlega tók að fjara undan honum, aðallega þar sem hann þótti frekur til fjörsins og vildi treysta tök sín á bæði stjórnkerfinu og flokknum. Innan flokksstarfsins hafði Krústsjeff hins vegar komið sér vel fyrir og beitti áhrifum sínum til að skáka Malenkov og árið 1955 stóð Krústsjeff uppi með pálmann víðfræga í höndunum.
Slakað á harðstjórninni
Krústsjeff hófst fljótlega handa við að vinda nokkuð ofan af því helsi sem Stalínsárin höfðu lagt á þegna ríkisins. Slakað var á ritskoðunartilburðum stjórnvalda og þúsundir pólitískra fanga sneru aftur úr Gúlag-fangabúðum og rannsókn hófst á grimmdarverkum Stalíns og valdmisbeitingu. Krústsjeff hafði hugsað sér að kynna niðurstöður rannsóknarinnar á 20. landsþingi flokksins sem fyrirhugað var árið eftir, en margir kollega hans, meðal annars Malenkov og Molotov utanríkisráðherra, voru því mótfallnir. Krústsjeff lét það ekki á sig fá og ákvað að láta vaða.
Landsþingið var haldið í febrúar 1956 og það sóttu tæplega 1.500 fulltrúar. Fyrir lá að fara yfir ýmsar stöðuskýrslur, meðal annars um ástand efnahagsmála, alþjóðamála og ekki síst téða skýrslu Krústsjeffs sjálfs, sem enginn vissi í raun hvað fjallaði um.
Trúlega hafa margir orðið hvumsa þegar Krústtsjeff hélt setningarræðu sína, en þegar hann bað viðstadda að standa upp til að minnast þeirra mektarmanna flokksins sem höfðu fallið frá frá síðasta þingi, var nafn Stalíns þar á blaði með lítt þekktum félögum án þess að meira mál væri gert úr honum.
Ellefu dögum seinna, á lokadegi þingsins, steig Krústsjoff hins vegar skrefið til fulls og flutti ræðu sína á fundi sem kallað var til eftir að formlegum fundi var lokið og var lokaður blaðamönnum og öðrum gestum (þó voru um 100 sérstakir gestir viðstaddir, en þeim hafði nýlega verið sleppt úr Gúlaginu).
Steinhissa þingfulltrúar
Ræðan, sem jafnan hefur gengið undir nafninu „Leyniræðan“ þar sem hún var ekki birt opinberlega í Sovétríkjunum fyrr en árið 1989, bar yfirskriftina „Um persónudýrkun og afleiðingar hennar“.
Þar hlóð Krústsjeff í fjögurra tíma yfirhalningu á stjórnarháttum Stalíns sem var fordæmalaus í tæpra fjögurra áratuga sögu Sovétríkjanna, sem þekktu í raun aðeins tvo leiðtoga; Lenín og Stalín.
Meginþráðurinn í ræðunni var til þess fallinn að svipta helginni af minningu og störfum Stalíns, hvers líkamlegar leifar lágu smurðar við hlið Leníns í grafhýsi þess síðarnefnda.
Krústsjeff vitnaði meðal annars í tilmæli Leníns sjálfs, sem varaði við því, í bréfi sem birt var helstu stjórnendum flokksins að honum gengnum, að Stalín væri ekki ákjósanlegur leiðtogi og mælti meðal annars til þess að hann yrði settur af sem aðalritari flokksins.
Þessu bréfi hafði á sínum tíma verið stungið undir stól af Stalín og félögum hans og vissu tiltölulega fáir innan Sovétríkjanna af tilvist þess fyrr en með opinberum Krústsjoffs.
Lenín sagði í bréfi sínu að Stalín væri óhæfur stjórnandi og frekar ómerkilegt eintak af manni (ekki með þeim orðum þó) og líklegur til að misnota allt það vald sem honum yrði falið.
Þetta greip Krústsjeff á lofti og þuldi upp ótal dæmi um einmitt það, sérstaklega hreinsanirnar sem Stalín stóð að á seinni hluta fjórða áratugarins þar sem hálf önnur milljón einstaklinga var tekin höndum fyrir misvel undirbyggð brigsl um and-sovéskt athæfi. Þar af voru hátt í 700.000 tekin af lífi, oftar en ekki í sýndarréttarhöldum á grundvelli játninga sem fengnar voru með pyntingum.
Þá fór hann hörðum orðum um frammistöðu Stalíns í Seinni heimsstyrjöldinni þar sem hann sagði að varnir Sovétríkjanna gagnvart Þýskalandi hafi verið ófullnægjandi auk þess sem yfirstjórn hersins hafi verið veikari en ella sökum hreinsana í efstu lögum heraflans þar sem fjölmargir hershöfðingjar höfðu verið settir af eða drepnir.
Þá var Stalín gagnrýndur harðlega fyrir nauðungarflutninga þjóðfélagshópa frá heimahéruðum sínum og fyrir að fæla Júgóslavíu burtu úr samstarfi austantjaldsþjóða.
Eitt af aðalatriðum Krústsjeffs var svo auðvitað persónudýrkunin sem Stalín stóð fyrir, sem var satt að segja skefjalaus.
Stjórnartíð Stalíns einkenndist, að mati Krústjeffs, af umburðarleysi, grimmd og misbeitingu valds og að hann hafi oft beitt kúgun og morðum bæði gegn óvinum og fólki sem hafði ekki gert sig sekt um nokkra glæpi gegn flokknum eða stjórnvöldum.
Um viðbrögð viðstaddra sagði Krústsjeff sjálfur í endurminningum sínum: „Þingið hlýddi á mig í algerri þögn. Eins og segir í máltækinu, þá mátti heyra saumnál detta. Þetta bar allt svo brátt að og var svo óvænt.“ Einnig er hermt að mörgum fundarmanna hafi orðið svo um við að hlýða á lesturinn að þeir hafi þurft að yfirgefa salinn vegna vanlíðanar.
Ekki var boðið upp á neinar spurningar eða umræður í kjölfar ræðunnar þannig að viðstaddir héldu út úr salnum, eflaust margir óvissir um hvað þeir hafi hlýtt á þarna.
Afdrifaríkar uppljóstranir
Ræðan var ekki gefin út, eins og fyrr sagði, en þetta sama kvöld fengu erlendir fulltrúar á þinginu að lesa hana og viku síðar var henni dreift til miðstjórnarmanna í flokknum. Í framhaldinu var svo fyrirskipað að hún skyldi lesin á flokksfundum í héruðum víða um landið og þarna í byrjun mars hafði eintaki verið lekið til Reuters, sem dreifði innihaldi hennar víða um vesturlönd.
Það sem þykir ljóst með tilgang Krústsjeffs með skýrslunni, er að hann hafði hugsað hana fyrst og fremst til að styrkja eigin stöðu við stjórnvölinn gagnvart gömlum bandamönnum Stalíns. Enda er ekki eins og skýrslan sé einhvers konar hvítbók um frammistöðu kommúnistaflokksins við stjórn Sovétríkjanna.
Þar er til dæmis skautað framhjá dauða þeirra milljóna manna, kvenna og barna sem létust vegna misráðinna tilrauna með endurskipulagningu landbúnaðar, hún getur auk þess bara ofsókna á hendur flokksmeðlima en ekki gegn almennum borgurum og gagnrýnir Stalín ekki fyrir gjörðir hans fyrstu árin, þegar hann atti kappi um völdin við menn eins og Búkharín og Trotskí.
Smátt og smátt fór efni ræðunnar að kvisast út og ímynd Stalíns beið mikla hnekki á árunum sem fylgdu. Meðal annars var lík hans flutt út úr grafhýsi Leníns 1961.
Afhjúpununum fylgdu nokkrar róstur, meðal annars í Póllandi og Ungverjalandi. Ástandið róaðist fljótt í Póllandi en ágerðist nokkuð í Ungverjalandi þar til Krústsjeff ákvað að senda sovéska herinn á vettvang. Þar voru gagnrýnisraddir barðar niður með harðri hendi og létust um 2.500 manns í aðgerðum Sovétmanna.
Næstu ár einkenndust Sovétríkinn þó af eins konar „þíðu“ þar sem Krústsjeff lagði nokkuð uppúr því að draga úr völdum leynilögreglunnar, opna landið fyrir erlendum gestum og áhrifum og efldi jafnframt geimferðaáætlun landsins með góðum árangri.
Engu að síður var Krústsjeff síst nokkur friðar- eða sáttapostuli á alþjóðavettvangi þar sem hann, öðrum fremur, var kominn á fremsta hlunn með að steypa stórveldunum út í kjarnorkustríð árið 1962 þegar hann lét koma fyrir eldflaugaskotpöllum á Kúbu, í bakgarði Bandaríkjanna.
Þessi stefna átti hins vegar ekki alfarið upp á pallborðið hjá flokksforystunni og árið 1964, átta árum eftir flutning ræðunnar stórmerku, var Krústsjeff settur af sem leiðtogi Sovétríkjnna og lifði friðsömu lífi á eftirlaunum allt til ársins 1971. Við tók Leoníd Bresnjeff sem var þaulsetinn í embætti, en stýrði Sovétríkjunum inn í skeið efnahagslegrar hnignunar.
Krústsjeff barðist í sjálfu sér ekki gegn því að vera settur af, enda sagði hann að framkvæmd valdaskiptanna, þ.e. að leiðtoga væri tilkynnt að hann nyti ekki trausts og yrði því settur af, væri til marks um það að áætlun hans með opinberunum í leyniræðunni hafi gengið eftir.