Nú er rúm vika liðin frá því að Reykjavíkurmaraþonið var haldið. Þar reyndu sig margir, bæði til gamans og til keppnis (þetta brýtur örugglega í bága við málfræðireglur). Sigurvegarar dagsins voru að sjálfsögðu þau góðu málefni sem nutu góðs af. Einnig mætti segja að allir þátttakendur hefðu verið sigurvegarar í sjálfu sér… en það væri strangt til tekið rangt. Sigurvegarar voru þau Natasha Yaremczuk í kvennaflokki og Arnar Pétursson í karlaflokki, en Arnar kom í mark á tímanum 2:28:17.
Maraþonhlaup eru hins vegar íþrótt með ævafornar rætur. Sagnaritarar, sem Vísindavefurinn vísar til, hafa boðið uppá ýmsar útgáfur af „fyrsta maraþonhlaupinu“ og er þar annað hvort talað um sendiboðann Filippídes, sem átti að hafa hlaupið 240 kílómetra leið frá Aþenu til Spörtu til að óska eftir liðsinni í orrustu gegn Persum, eða sendiboða sem hét annað hvort Þersippos eða Evkles, og hljóp frá Maraþon í Grikklandi til Aþenu (um 42 km) til að tilkynna um sigur Aþeninga í téðri orrustu.
Hver sem sannleikurinn er í þessu, var maraþonhlaup gert að keppnisgrein á fyrstu nútímaólympíuleikunum árið 1896. Lengd hlaupanna var fyrst um sinn ekki fullkomlega stöðluð. Miðað var við að hlaupin væru um 40km, þar sem aðstæður á hverjum keppnisstað réðu lengdinni. Árið 1921 var svo ákveðið að öll maraþonhlaup skyldu vera 42,195km og nú til dags eru hlaupin um 800 maraþonhlaup árlega um heim allan.
Sveitastrákur slær í gegn
Hinn 7. ágúst 1932 fæddist drengur í litlu þorpi Shewa-héraði í Eþíópíu, einmitt sama dag og keppni í maraþonhlaupi fór fram á Ólympíuleikunum í Los Angeles. Piltur þessi hlaut nafnið Abebe BIkila og átti sannarlega eftir að skapa sér nafn í íþróttaheiminum.
Bikila gekk í herinn þegar hann var tvítugur. Þar var hann „uppgötvaður“, ef svo má segja, af sænskum þjálfara, sem hafði horft upp á hann hlaupa 20km á hverjum degi. Við tóku markvissar æfingar til að koma honum í fremstu röð og hann hljóp sitt fyrsta maraþonhlaup í keppni meðal hermanna árið 1956, 24 ára að aldri, og lenti í öðru sæti.
Þegar fór að líða að Ólympíuleikunum árið 1960 var Bikila í hörkuformi. Hann tók þátt í sínu fyrsta alvöru maraþonhlaupi í júlí og sigraði, og bætti öðru gulli við í ágúst. Bæði hlaupin fóru fram í Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu, en nú tók stóra sviðið við, sjálfir Ólympíuleikarnir.
Sleppti skónum
Bikila hafði alltaf hlaupið berfættur, en þegar komið var til Rómar, með sín steinum lögðu stræti, ákvað hann að breyta til og kaupa sér keppnisskó. Þeir meiddu hann hins vegar og hann fékk blöðrur á fæturna undan þeim, þannig að hann ákvað að sleppa skónum.
Það voru hreint engir aukvisar sem mættu til leiks í maraþonhlaupinu. Fremstur meðal jafningja var Sovétmaðurinn Sergei Popov, sem átti heimsmetið í greininni, en skömmu eftir ræsingu tók Belginn Aurèle Vandendriessche forystuna. Í humátt á eftir honum komu Bretinn Arthur Keily, Marokkómaðurinn Rhadi Ben Abdesselam og svo Abebe Bikila, sem vakti talsverða athygli fyrir að hlaupa skólaus. Þegar hlaupið var um það bil hálfnað höfðu Bikila og Abdesselam tekið forystuna og hlupu svo til hlið við hlið það sem eftir lifði. Hlaupið fór fram síðdegis og þegar keppendur nálguðust endamarkið var tekið að rökkva og var ekki laust við að nokkuð sérstök stemmning hafi myndast þar sem ítalskir hermenn lýstu upp Via Appia með kyndlum. Þegar um 500m voru í mark tók Bikila á rás og stakk Abdesselam af. Hann kom í mark á tímanum 2:15:16,2 og bætti þar með heimsmetið um tæpa sekúndu. Nýsjálendingurinn Barry Magee varð í þriðja sæti og Popov mátti sætta sig við fimmta sætið á eftir landa sínum Konstantin Vorobyov.
Ekki var hins vegar að sjá á Bikila að hann væri sérstaklega uppgefinn þar sem hann skokkaði á staðnum strax eftir að í mark var komið og lét hann þess getið síðar að hann hefði getað hlaupið 10-15km í viðbót.
Afrekið var enn merkilegra í ljósi þess að þetta var fyrsta ólympíugullið sem féll í skaut íþróttamanns frá Afríkulandi sunnan Saharaeyðimerkurinnar og markaði upphaf mikilla yfirburða Austur-Afríkufólks í maraþonhlaupi. Fram að þessu höfðu Bandaríkjamenn, Vestur-Evrópubúar, Japanir og Suður-Kóreumenn verið mest áberandi meðal heimsmethafa.
Þjóðhetja verður goðsögn
Þegar heim var komið fékk Bikila að sjálfsögðu hetjumóttökur og var sæmdur heiðursmerki af sjálfum keisaranum Haile Selassie. Hann hélt áfram störfum sínum í varðliði keisarans, en var einnig iðinn við að keppa. Árið eftir sigraði hann í hlaupi sem fór fram í Aþenu og hélt hann þar uppteknum hætti og hljóp berfættur, en þegar hann keppti (og sigraði) í Osaka í Japan og Kosice í Júgóslavíu síðar sama ár var hann í skóm.
Hann tók þátt í Boston-maraþoninu árið 1963 og varð í fimmta sæti, en í aðdraganda Ólympíuleikanna í Tókýó árið 1964 vann hann enn eitt hlaupið á heimavelli sínum í Addis Ababa.
Verkefnið sem horfði við Bikila var ansi stórt. Enginn hafði áður varið Ólympíutitil í maraþonhlaupi. Undirbúningurinn virtist hins vegar ætla að fara í handaskol þegar Bikila veiktist hastarlega fjörutíu dögum fyrir setningu leikanna. Hann reyndist vera með botnlangabólgu og var botnlanginn tekinn úr honum í snarhasti hinn 16. september. Hann var hins vegar hinn keikasti strax eftir aðgerðina og var útskrifaður á innan við viku.
Það var svo hinn 21. október sem maraþonhlaupið fór fram á ÓL í Tókýó og ekki að sjá á okkar manni að hann væri svo til nýkominn af skurðarborðinu. Bikila var meðal fremstu manna í byrjun, í flúnkunýjum Puma-skóm, en nokkuð fór að skilja á milli eftir um 10km. Þá voru Bikila og tveir aðrir hlauparar komnir alllangt fram úr hópnum. Áður en hlaupið var hálfnað var Bikila hins vegar búinn að setja í fluggírinn og stakk alla af.
Hann kom einn inn á Ólympíuleikvanginn þar sem hann var hylltur ákaft af 75.000 áhorfendum, og lauk keppni á nýju heimsmeti (metið hafði verið slegið fjórum sinnum frá síðustu Ólympíuleikum) 2:12:11,2 en það var rúmri einni og hálfri mínútu undir fyrra meti.
Ekki voru fagnaðarlæti heima við minni að þessu sinni og fleiri heiðursmerki bættust við safnið, auk þess sem hann fékk íbúð og bíl til umráða frá hernum.
Sorglegur endir á glæsilegum ferli
Bikila hafði skorið nafn sitt í annála frjálsíþrótta þegar þarna var komið við sögu og hann átti enn eftir að láta til sín taka. Sigurganga hans hélt óslitin áfram til ársins 1967, þegar hann meiddist á aftanverðu læri og náði sér aldrei almennilega á strik aftur.
Upp að því hafði hann keppt í 15 alþjóðlegum maraþonhlaupum og unnið fjórtán þeirra.
Draumurinn um að verja Ólympíutitilinn í annað sinn árið 1968 fór fyrir lítið þegar í ljós kom, skömmu fyrir keppni, að Bikila var með sprungu í leggbeini og þrátt fyrir að hann hafi reynt að harka af sér, varð hann að hætta keppni eftir um 16km. Þetta reyndist vera hans síðasta hlaup.
Árið eftir lenti Bikila í bílslysi þar sem hann velti bifreið sinni seint að kvöldi og sat þar fastur fram á morgun. Ekkert er vitað með vissu um aðdraganda slyssins, en líkur eru á að hann hafi drukkið áfengi áður enn hann ók af stað.
Bikila var lamaður frá háls og niður úr eftir slysið, en fékk síðar afl í handleggina.
Hann reyndi fyrir sér í margs konar íþróttum þrátt fyrir fötlun sína, meðal annars bogfimi, borðtennis og jafnvel hundasleðahlaupi.
Við setningu ÓL í Munchen 1972 var Bikila heiðursgestur og fékk standandi lófaklapp þegar hann kom inn á völlinn.
Bikila lést rúmu ári síðar, í október 1973, af völdum heilablæðingar, 41 árs að aldri. Blæðinguna mátti rekja til afleiðinga slyssins sem hann hafði lent í fjórum árum áður. Hann var jarðsettur við mikla athöfn í Addis Ababa og fylgdu tugir þúsunda honum til grafar, þar á meðal keisarinn sjálfur.
Á stuttum en gifturíkum ferli skapaði Abebe Bikila sér nafn sem einn fremsti maraþonhlaupari allra tíma, ef ekki sá allra fremsti. Sú staðreynd að hann hljóp berfættur framan af, er vissulega skemmtileg kúríósa og eflaust það sem flestum dettur fyrst í hug. En hann skildi þó eftir sig miklu meira en það, og var leiðarljós fyrir ótal hlaupara frá Austur-Afríku sem hafa borið höfuð og herðar yfir aðra langhlaupara um árabil.