Klíkan sem tók völdin í Rússlandi eftir byltinguna fyrir réttri öld síðan var skipuð mörgum svívirðilegum illvirkjum, en helstu framámennirnir í þessum hópi og samböndin þeirra á milli vekja enn áhuga. Það undirstrikaðist enn nú fyrir skemmstu þegar fréttir bárust af því að ísöxin sem notuð var til að bana Leon Trotský kom í ljós eftir að hafa verið týnd í áratugi.
Í framvarðarsveit byltingarmanna
Bolsévikar náðu völdum í Rússlandi árið 1917, nokkru eftir að Nikulás keisari hafði verið settur af. Þar fór fremstur í flokki Vladimír Ilýits Úlýanov Lenín, en einn af hans nánustu samverkamönnum var fyrrnefndur Trotský.
Trotský fæddist í Úkraínu árið 1879, sonur sæmilega stöndugra bænda af gyðingaættum. Þegar Lev Davidóvits Bronstein, eins og hann var nefndur, var níu ára var hann sendur til náms í borginni Odessa. Borgin sú var ólík flestum rússneskum borgum, suðupottur fólks og hugmynda úr mörgum áttum, og er getum leitt að því að þarna hafi pilturinn orðið fyrir áhrifum sem gerðu hann að alþjóðasinna.
Ungur fór Lev Bronstein að hneigjast að Marxisma og tók að starfa með róttækum öflum innan verkalýðshreyfingarinnar. Fyrir það var hann fangelsaður árið 1898 og tveimur árum síðar var hann sendur í útlegð til Síberíu.
Þaðan slapp hann árið 1902 og komst til Englands á fölsuðum skilríkjum með nafninu Leon Trotský. Í Englandi hitti hann marga skoðanabræður sína sem höfðu flúið Rússland, meðal annars Lenín, en þeir voru framan af á öndverðum meiði sósíalismans, þar sem Trotský var „menséviki“ og hneigðist að lýðræðislegri aðferðum en Lenín og bolsévikar.
Þegar ástandið í Rússlandi fór að taka á sig form byltingar árið 1905, eftir fjöldamorð keisaravarða á friðsömum mótmælendum (sem fjallað var um í fyrri pistli), hélt Trotský heim á leið en þegar rósturnar dofnuðu var hann aftur sendur í útlegð til Síberíu, þaðan sem hann slapp – aftur – árið 1907.
Næstu tíu ár gerði Trotský víðreist. Hann bjó í Vín um hríð, var fréttaritari í Balkanstríðunum, fór svo til Sviss, Parísar og Spánar. Eins og flestir forvígismenn sósíalista var hann andvígur þátttöku Rússlands í Fyrri heimsstyrjöldinni. Hann var af þeim sökum rekinn bæði frá Frakklandi og Spáni og var staddur í New York þegar fréttir bárust af byltingunni í Rússlandi.
Trotský hélt þegar af stað aftur til Rússlands og eftir að hann hafði skipt yfir í hóp bolsévika varð hann lykilmaður í valdatöku þeirra í Petrograd (síðar Leníngrad og nú St. Pétursborg), áður en Lenín sneri sjálfur heim.
Trotský var herforingi bolsévika í átökunum við stjórnarher Alexanders Kerenskýs, sem hafði stýrt rússnesku stjórninni sem tók við eftir að keisaranum var steypt af stóli.
Eftir að bolsévikar höfðu tekið völdin var Trotský skipaður utanríkisráðherra, og hans fyrsta verk var að hefja vopnahlésviðræður við Þýskaland og bandamenn þeirra. Eftir að samningar tókust tók Trotský að sér að vera yfirmaður heraflans, þar sem hans beið það mikla verk að mynda Rauða herinn úr rústum keisarahersins.
Það gekk að óskum, miðað við að Rauði herinn vann fullnaðarsigur á Hvítliðum and-kommúnista í borgarastyrjöldinni sem lauk 1920. Trotský lagði mikla áherslu á aga og fagmennsku í röðum hersins og réði meira að segja foringja úr keisarahernum. Nálgun hans var umdeild og aflaði hann sér margra óvildarmanna innan forystusveitar kommúnista, meðal annars Stalíns.
Þó var flestum ljóst að Trotský stóð Lenín næst að völdum á þessum tíma. Ekki var hann hið einasta foringi heraflans, heldur var hann líka einn af fimm meðlimum í hinni fyrstu Politburo, valdamestu stofnun Kommúnistaflokksins, og var höfundur stefnuyfirlýsingar Komintern, alþjóðasambands kommúnistaflokka árið 1919.
Ókrýnda arftakanum bolað í burtu
Hann var hins vegar ekki eins sleipur pólitíkus og margir félaga hans, og þegar Lenín veiktist árið 1922 tóku hinir þrír meðlimir Politburo, Grígorí Zinovjeff, Lev Kameneff og Stalín, sig saman gegn honum og mynduðu eins konar þríveldi, eða tríumvírat.
Lenín batnaði nokkuð á tímabili og nýtti tímann til að rita skýrslu um framtíð flokksins þar sem hann fór meðal annars yfir mannkosti helstu undirmanna sinna. Þar varaði hann við uppgjöri milli Trotskýs og Stalíns og lagði hann meðal annars til að sá síðarnefndi yrði settur af sem aðalritari flokksins.
Það kom hins vegar ekki til framkvæmda – augljóslega – og eftir að annað heilablóðfall lagði Lenín að velli árið 1923, var Stalín búinn að tryggja ítök sín innan flokksins og stjórnkerfisins.
Umsvifalaust var farið að grafa undan Trotský á vettvangi flokksins. Stefna hans um alþjóðlega byltingarhreyfingu sósíalista og „varanlega byltingu“ var töluð niður sem trúvilla úr herbúðum mensévika og lítið var gert úr framlagi hans til byltingarinnar.
Loks var honum bolað úr stól sem hernaðarkommisar árið 1925 og næstu misseri var hann rekinn úr Politburo, miðstjórn flokksins og loks flokknum sjálfum.
Útlegð
Árið 1928 var Trotský sendur í útlegð til Kasakstan og ári síðar var hann rekinn úr landi. Hann kom sér fyrst fyrir í Tyrklandi, þá Frakklandi og Noregi, en þegar honum var ekki lengur vært þar, sökum þrýstings frá Sovétríkjunum kom hann sér til Mexíkó árið 1936.
Í hreinsununum sem Stalín stóð fyrir á næstu árum voru stuðningsmenn Trotskýs ræstir út úr stjórnkerfinu, og Trotský sjálfur dæmdur fjarverandi fyrir landráð.
Trotský hafði komið sér, konu sinni Natalíu og börnum fyrir í úthverfi Mexíkóborgar og vann þar við skriftir og að framgangi sósíalismans og var óspar á gagnrýni á Stalín. Hann var meðal annars í nánum samskiptum við listamannahjónin Diego Rivera og Fridu Kahlo, sem höfðu haft milligöngu um að Trotský var boðið hæli í Mexíkó.
Myrtur í annarri tilraun
Stalín gat ekki unað fjanda sínum það að reyna að grafa undan sér og samþykkti árið 1939 áætlun um að ráða Trotský af dögum.
Áætlunin var tvíþætt. Annars vegar var mexíkóskur listamaður, David Alfaro Siqueiros að nafni, sem var einnig útsendari NKVD (forvera KGB) látinn fara fyrir sveit byssumanna sem dulbjó sig sem lögreglumenn. Þeir létu byssukúlum rigna yfir hús fjölskyldunnar nótt eina í maí árið 1940, en Trotský og kona hans sluppu ómeidd.
Hins vegar var ungur Spánverji, Ramon Mercader, tilbúinn til að klára verkið. Sá hafði verið fenginn til að flytja til Mexíkó tveimur árum áður og koma sér í mjúkinn hjá Trotský.
Þremur mánuðum eftir fyrra tilræðið kom Mercader að húsi Trotskýs, einu sinni sem oftar, nema nú sagði hann við lífverðina að hann hafi ritað grein sem hann vildi bera undir „hinn gamla“ eins og hann sagði.
Mercader kom vopnaður byssu, hníf og ísöxi sem hann faldi í samanbrotnum frakka sem hann hafði undir hendinni. Hann ætlaði sér að sleppa eftir verknaðinn og því vildi hann forðast í lengstu lög að nota byssuna.
Trotský hleypti unga manninum inn og settist niður við skrifborð sitt til að lesa greinina. Mercader beið ekki boðanna og keyrði öxina í höfuð Trotskýs. Áætlunin gekk hins vegar ekki upp því að Trotský rak upp óp og réðist á Mercader. Verðirnir komu fljótt aðvífandi og börðu árásarmanninn nær til ólífis, en Trotský kallaði á þá að drepa hann ekki. „Ekki drepa hann! Hann verður að tala!“ á hann að hafa sagt.
Trotský lést af sárum sínum daginn eftir, 60 ára að aldri, en Mercader var dæmdur til 20 ára fangelsisvistar. Sovétríkin sóru af sér öll tengsl við morðið, en eftir að Mercader var sleppt úr haldi var honum boðið til Kúbu þar sem hann lést árið 1978.
Roquella, eiginkona hans, sagði að síðustu orð hans á dánarbeðinu hafi verið „Ég heyri það stöðugt. Ég heyri öskrið. Ég veit að hann bíður mín hinum megin.“
Öxin finnst
Ísöxin var, eins og önnur sönnunargögn í málinu, í vörslu lögreglunnar þar til að lögreglumaður einn, Alfredo Salas, tók hana með sér heim, að eigin sögn í þeim tilgangi að varðveita hana. Hann gaf dóttur sinni hana og sú geymdi öxina undir rúmi sínu í 40 ár.
Dóttirin Ana vildi fá eitthvað fyrir sinn snúð og bandarískur safnari, Keith Melton, sem hafði leitað að öxinni um áraraðir, keypti hana loks og hefur nú komið henni fyrir á safni.
Melton segist fullviss um að þetta sé öxin, enda sé hún af sömu stærð og gerð og vopnið og auk þess sjáist enn merki eftir blóðugt fingrafar morðingjans.