Þegar komið var fram á árið 1941 var Þýskaland í góðum málum, frá sínum eigin bæjardyrum séð, flestir aðrir íbúar meginlands Evrópu, ekki svo mikið. Á hálfu öðru ári hafði Þriðja ríkið undir forystu Adolfs Hitlers lagt undir sig, innlimað eða leppað meira eða minna alla álfuna. Þeir sem stóðu utan garðs Nasista voru annað hvort stuðningsmenn hans; Ítalía, Spánn, Slóvakía, Balkanlöndin og fleiri, eða hlutlausu ríkin Svíþjóð og Sviss.
Þjóðverjar gátu einbeitt sér að því að sækja linnulaust til vesturs þar eð Hitler hafði samið við Sovétríkin og Stalín um grið milli ríkjanna og þau skiptu Póllandi á milli sín á fyrstu vikum styrjaldarinnar.
Á vormánuðum voru Þjóðverjar hins vegar komnir á fullt með undirbúning fyrir innrás í Sovétríkin. Einn af nánustu samstarfsmönnum Hitlers, Rudolf Hess, hafði áhyggjur af því að Þýskaland gæti ekki staðið í stríði á tvennum vígstöðvum og lagði því einsamall upp í djarfa ferð. En hver var þessi Rudolf Hess og hvað gekk honum til?
Kaupmannssonur frá Alexandríu hittir Hitler
Rudolf Hess fæddist í Alexandríu í Egyptalandi árið 1894, sonur velmegandi kaupmanns af bæverskum ættum, og ól þar manninn þar til að hann var sendur til náms í Þýskalandi og Sviss á unglingsárum. Hann gegndi herþjónustu fyrir Þýskaland í fyrra stríði og hlaut meðal annars Járnkrossinn fyrir frammistöðu sína þar.
Eftir stríð skráði hann sig í nám en eftir að hann heyrði Hitler fyrst gaspra úr ræðustól árið 1920 heillaðist hann strax af honum, enda aðhylltust þeir báðir hugmyndafræði Rýtingsstungunnar, þ.e. að Þýskaland hafi ekki tapað heimsstyrjöldinni í hernaði, heldur vegna svika innanlands, aðallega af höndum kommúnista og gyðinga.
Hess gekk strax í Flokk þjóðernissósíalista, Nasistaflokkinn, og hóf fljótlega að vinna að því að skipuleggja flokksstarfið og fjáraflanir á meðan meðlimum fjölgaði ört. Hess var líka við hlið Hitlers í Bjórkjallarauppreisninni svokölluðu árið 1923 þar sem Nasistar og aðrir jaðarhópar af hægri kantinum, reyndu að ná völdum í Bæjaralandi og koma á nýrri stjórn undir stjórn Ludendorffs hershöfðingja.
Valdaránstilraunin rann út í sandinn eftir hörð átök við lögreglu í Munchen og Hitler, Hess og fleiri voru dæmdir til fangelsisvistar.
Eins og alkunna er, reit Hitler bók sína, Mein Kampf, á meðan hann sat inni í Landsbergfangelsinu, en Hess aðstoðaði hann ötullega við skriftirnar. Eftir ársvist bak við rimla var þeim félögum sleppt og þá hófst uppgangur þeirra Nasista fyrir alvöru.
Næstráðandi Foringjans
Flestum er vel kunn sagan bak við valdatöku Nasista, en á árunum fram til 1933 var Hess nánasti samstarfsmaður Hitlers, einkaritari og trúnaðarvinur. Árið 1932 var Hess gerður að stjórnanda innra starfs flokksins.
Eftir valdatökuna ári seinna var Rudolf Hess næstur Hitler að völdum og sem ráðherra bar hann ábyrgð á fjölmörgum málaflokkum. Má segja að allar lagasetningar hafi farið um hans borð, fyrir utan þau mál sem sneru að hernum, lögreglu og utanríkismálum.
Hess skipulagði hópfundina frægu sem haldnir voru í Nürnberg og var í raun staðgengill foringjans í margs konar erindum, til dæmis í samningaviðræðum við helstu iðnjöfra Þýskalands.
Hann tók einnig virkan þátt í að setja saman lög sem drógu úr réttindum gyðinga í Þýskalandi og fylgdi fordæmi Hitlers í einu og öllu. Rétt áður en heimsstyrjöldin síðari braust út með innrás Þýskalands í Pólland haustið 1939 hafði Hitler skipað Hess sem annan í röð arftaka sinna, á eftir Hermanni Göring.
Uppgangur Hess innan stjórnarinnar og raða flokksins hafði fyrst og fremst stafað af elju hans og fölskvalausri tryggð við Hitler, en ekki klækjum eða innanflokkspólitík. Á fyrstu árum heimsstyrjaldarinnar var augljóslega langmest áhersla á stríðsreksturinn í störfum flokksins, en þau mál voru, sem fyrr segir, að miklu leyti utan hans verksviðs, sem leiddi til þess að hann seig stöðugt neðar í valdastiganum. Meira að segja fyrrverandi aðstoðarmaður hans, Martin Bormann, skaut honum aftur fyrir sig í goggunarröðinni.
Örþrifaráð á örlagastundu
Til að sanna sig á ný setti Hess saman ævintýralega og ótrúlega langsótta áætlun. Hinn tíunda maí 1941 flaug hann af stað frá Augsburg áleiðis til Bretlands þar sem hann ætlaði að koma á friði milli Bretlands og Þýskalands, svo Þriðja Ríkið gæti einbeitt sér að því að valta yfir Sovétríkin.
Hess, sem var fær flugmaður, átti nokkrar flugvélar og var búinn að láta sérútbúa eina Messerschmidt Bf 110 fyrir sig, með stærri eldsneytistönkum en venjulega.
Áætlunin var að hitta á mann einn, Hertogann af Hamilton, sem Hess skildist (ranglega) að væri forvígismaður eins stjórnarandstöðuflokkanna og andsnúinn hernaði við Þýskaland. Í gegnum hann hugðist Hess komast í samband við stjórnvöld og bjóða Bretum grið gegn því að Þýskaland fengi að athafna sig óáreitt á meginlandinu og endurnýjuð yfirráð yfir sumum þeirra nýlenda sem það missti eftir fyrra stríð.
Hann beið eftir hagstæðri veðurspá og lét svo til skarar skríða. Hann tók fyrst stefnuna á Bonn en hélt svo áfram í átt að strönd Norðursjós og sveigði þar austur til að forðast ratsjár Bretanna. Þegar fór að skyggja tók hann stefnu yfir Norðursjó í att til Bretlands og flaug lágt, í um 5.000 fetum lengst af en svo allt niður í 50 fet, um 15 metra, þegar hann kom að austurströnd Englands. Hann tók svo stefnuna norður til Skotlands þar sem hann ætlaði að koma að dvalarstað Hamiltons. Hess var við það að verða eldsneytislaus um klukkan 23 en þá hækkaði hann flugið og stökk út í fallhlíf.
Hess fannst fljótlega, skammt suður af Glasgow, þar sem plógmaður einn kom að honum þar sem hann var að baksast við að komast úr fallhlífinni, nokkuð meiddur á fæti. Hess gaf um rangt nafn og kvaðst vilja hitta Hertogann af Hamilton. Hess var handtekinn og færður á herstöð þar sem gert var að sárum hans.
Hamilton kom daginn eftir til að hitta Hess, sem var glaður með heimsóknina og kynnti sig með réttu nafni og tilkynnti um ástæðu komu sinnar.
Hess var fluttur til Lundúna og svo á herragarð í Surrey. Þar voru aðstæður ekki sem verstar miðað við stríðsfanga, en Hess undi hag sínum afar illa. Hann kvartaði undan heilsuleysi og grunaði verðina um að reyna að eitra fyrir sér. Andlegu ástandi hans fór hrakandi og reyndi hann í tvígang að svipta sig lífi, meðal annars með því að henda sér niður stiga með þeim afleiðingum að hann lærbrotnaði. Hann varði síðustu þremur árunum í haldi Breta á sjúkrahúsi. Hann fékk aldrei áheyrn hjá breskum ráðamönnum, enda var ljóst að hann hefði ekkert umboð frá Foringjanum til að semja um neitt.
Heima í Þýskalandi þurftu Nasistar að gæta þess hvernig sagt yrði frá þessu óvænta uppátæki Hess. Vonbrigði Hitlers voru gríðarleg og sagði Albert Speer meðal annars frá því í ævisögu sinni að þessi persónulegu svik trúnaðarvinar hafi verið mikið áfall fyrir Foringjann.
Að skipan Hitlers var Hess útmálaður sem geðsjúklingur sem hafi lagt upp í ferðina á eigin vegum, án vitundar Foringjans. Það var þó þvert á ráðleggingar manna eins og Göbbels og Görings sem vildu ekki að það spyrðist út að slíkir einstaklingar gætu komist til svo hárra metorða innan Nasistaflokksins.
Dómur og refsing
Hess var fluttur til Þýskalands í stríðslok þar sem hann skildi dreginn fyrir dóm ásamt öðrum eftirlifandi forsvarsmönnum Nasista. Við réttarhöldin bar Hess við minnisleysi, en hann var sakfelldur – þó ekki fyrir glæpi gegn mannkyni – og dæmdur í lífstíðarfangelsi.
Hess, Speer, Dönitz marskálkur og fjórir aðrir nasistar voru settir til afplánunar í Spandau fangelsinu í Vestur-Berlín. Hess kunni afar illa við sig þar og kvartaði löngum yfir heilsuleysi og var viss um að verið væri að eitra fyrir sér.
Einn af öðrum fengu samfangar Hess frelsi, þeir síðustu árið 1966, en áralöng barátta hans til að fá dóminn styttan var árangurslaus, aðallega vegna mótstöðu Sovétmanna.
Þannig sat Hess einn í 600 klefa fangelsi allt til dauðadags árið 1987. Hann hafði oft reynt að svipta sig lífi en tókst svo loks áætlunarverkið á fallegum sumardegi, 93ja ára gamall. Hann hafði farið út í garðskála til að lesa, en hengdi sig í rafmagnssnúru sem hann batt við stormjárn í glugga.
Spandau-fangelsið var rifið eftir dauða Hess til að koma í veg fyrir að það yrði að einhverskonar helgistað fyrir nýnasista.
Hess var jarðaður í fjölskyldugrafreitnum og, viti menn, hann varð að nokkurskonar helgistað nýnasista, sem féll illa í kramið hjá bæjaryfirvöldum í Wunsiedel, þannig að árið 2011, með samþykki afkomenda hans, voru jarðneskar leifar Hess grafnar upp, brenndar og dreift á ótilteknum stað.
Hvað gekk honum til?
Sagan af örlagaför Rudolfs Hess hefur allt frá upphafi vakið upp fjölmargar kenningar um ástæðuna að baki henni. Vilja margir meina að Hitler hafi sjálfur staðið á bak við ferðina og í raun og veru viljað segja Winston Churchill frá yfirvofandi innrás í Sovétríkin og jafnvel að kanna jarðveginn fyrir hugsanlegu andbolsévísku bandalagi. Þá segir sagan að Stalín sjálfur hafi lengi vel verið sannfærður um að Hess hafi flúið að undirlagi Breta.
Hvað sem því líður varð víst lítið úr áætlun Hess. Hann slasaðist, var handtekinn og eyddi 46 árum á bak við lás og slá, lengst af innilega óhamingjusamur og vænisjúkur, og endaði á því að takast loksins eitthvað sem hann ætlaði sér, sem var að binda enda á sitt eigið líf.