Krónprins Sádi-Arabíu vakti mikla athygli á dögunum þegar hann talaði fyrir því að snúa landi sínu til meiri hófsemi í trúarmálum. Bókstafstrú hefur verið rík í Sádi-Arabíu allt frá stofnun ríkisins, en í tæp 40 ár hafa þarlendir talsmenn Wahhabíisma verið sérlega ötulir við að breiða út sína íhaldssömu sýn á íslam víða um heim með ráðum og dáð.
Það er ekki ofsögum sagt að krónprins Sádi-Arabíu Mohammed bin Salman hafi vakið töluverða athygli í síðustu viku þegar hann lét hafa eftir sé að hann stefndi að því að útrýma öfgaöflum innan landsins og að því yrði snúið á braut umburðarlyndis, sem langflestir múslimar segja hina raunverulegu undirstöðu íslam.
Það er nokkuð fráhvarf frá stefnu síðustu áratuga þar sem harðlínuöfl bókstafstrúarmanna hafa ráðið ríkjum og haldið aftur af margvíslegum trúarlegum og félagslegum umbótum. Vissulega má segja að eitt og annað hafi áunnist síðustu ár; til dæmis var gefin út konungleg tilskipun í síðasta mánuði að frá og með næsta sumri verði konum leyft að aka bíl í Sádi-Arabíu og að undirbúningur sé hafinn að stofnun nýrrar borgar, eins konar fríríkis innan landsins, á strönd Rauða hafsins, þar sem færri trúarlegar hömlur munu ráða lífi fólks.
En hvar liggja rætur bókstafstrúar Wahhabíisma saman við tilvist ríkisins Sádi-Arabíu?
Gagnkvæmur ábati
Raunar hefur Sádi-Arabía alltaf verið samofin bókstafstrú. Klerkur einn, Muhammed ibn Abd Al-Wahhab að nafni, hafði á fyrri hluta átjándu aldar valdið nokkru umróti fyrir kenningar sínar þar sem hann kallaði eftir afturhvarfi í iðkun íslam aftur til upprunalegu orða Múhameðs spámanns. Al-Wahhab var frá bænum Uyaynah, ekki langt frá núverandi höfuðborg Sádí-Arabíu og hafði meðal annars stundað nám í hinni helgu borg Medina og svo kennslu á því svæði sem í dag eru Íran og Írak.
Eftir að hann sneri aftur heim á Arabíuskaga skar hann upp herör gegn hinum ýmsu ósiðum sem honum fannst hafa mengað íslam. Jarðvegur er almennt ekki mjög frjósamur í þessum heimshluta, og að sama skapi var jarðvegur fyrir orð hans og kenningar ekki frjósamur. Fór svo að hann var gerður brottrækur frá heimabæ sínum árið 1744.
Hann leitaði ásjár hjá ættarhöfðingja að nafni Mohammad bin Saud, sem átti þá í baráttu við aðra ættbálka um yfirráð yfir hásléttum Arabíuskaga, og tókst með þeim bandalag þar sem hvor um sig fékk það sem þeir leituðu að. Al-Wahhab fékk vernd í skiptum fyrir stuðning sem veitti bin Saud ákveðið lögmæti sem og trúarlegan og hugmyndafræðilegan grundvöll.
Samstarfið gekk vonum framar og á næstu árum og áratugum náði Saud ættin undir sig mestöllum Arabíuskaga, þar á meðal hinum helgu borgum Mekka og Medina. Wahhabíisminn sem réði þar ríkjum var þá þegar mjög frábrugðinn því sem gerðist í annarsstaðar í hinum íslamska heimi. Útfærslan þar hefur verið kennd við náttúrulegar aðstæður, eyðimörkin og ættbálkamenningin fóstraði mun harðara og einangraðra íslam, en viðgekkst í fjölmenningarlegum borgum Mið-Austurlanda, t.d. Kaíró og Bagdad.
Ottómanaveldið tyrkneska brást við uppivöðslusemi Sauda með því að senda egypskar herdeildir niður á skagann í byrjun nítjándu aldar, þegar Al-Wahhab var látinn, og upphófust þar mikil átök. Þeim lauk endanlega árið 1818 þegar Abd Allah ibn Saud, sonarsonarsonur og arftaki Muhammads bin Saud, var tekinn höndum og færður til Istanbúl þar sem hann var afhöfðaður. Fjöldi Wahhabi-leiðtoga voru líka teknir af lífi og Egyptar tóku að festa sig í sessi, en kenningar Wahhabs lifðu enn í þorpum og meðal flökkuhópa þrátt fyrir það.
Annað ríki Saud ættarinnar var stofnað fimm árum síðar þegar Turki, sonarsonur Muhammads bin Saud, rak Egypta burt úr innri héruðunum, meðal annars höfuðborginni Ríad. Hann gætti þess þó að styggja ekki Ottómana og var í raun eins konar lénsherra þeirra. Eftir nokkrar innanhússerjur í Saud-fjölskyldunni, þar sem Turki var meðal annars myrtur, tók Faisal, sonur Turkis við völdum og hélt þeim til dauðadags árið 1865. Eftir það tók aftur við mikill upplausnartími þar sem valdastóllinn gekk manna á milli, sem endaði með því að Ottómanar og umboðamenn þeirra tóku völdin og áhrif Sauda og Wahhabía dvínuðu.
Saudar hörfuðu til Kuwait þar sem þeir biðu færis, og það gafst einmitt í upphafi tuttugustu aldarinnar þegar hinn ungi Ibn Saud hélt með fámennan hóp fylgismanna til Ríad og velti ríkjandi valdhafa af stóli og tók völdin til ættarinnar enn á ný.
Ibn Saud breiddi smám saman út áhrifasvæði sitt á Arabíuskaga, en gætti þess að styggja Ottómana ekki um of, auk þess sem hann leitaðist eftir samvinnu við Breta. Á árunum í kringum fyrri heimsstyrjöld börðust fjölmargar ættir og hópar um yfirráð í Arabíu og miðausturlöndum en miklu skipti að Ibn Saud náði Mekka og Medina enn og aftur undir ætt sína.
Hann herti sífellt á tökum og stækkaði áhrifasvæði ættarinnar. Þrátt fyrir að hann legði áherslu á yfirvald íslam, var bókstafshyggja Wahhabía ekki eins áberandi og á fyrri valdaskeiðum, þar sem meðal annars var litið fram hjá banni við tónlist, og í hópi nánustu ráðgjafa hans voru margir „útlendingar“.
Það var svo árið 1932 að völd Ibn Saud yfir Arabíuskaga voru staðfest með stofnun konungsríkis Sádi- Arabíu, en sex árum seinna voru völd ættarinnar meitluð í stein eftir að olíufyrirtæki uppgötvuðu stærstu olíulindir heims í Sádi-Arabíu. Þar með var efnahagsleg og stjórnmálaleg framtíð ríkisins tryggð, og ekki síður frelsi þess til að haga trúarmálum eftir eigin höfði og möguleikar á að breiða út „fagnaðarerindi“ Wahhabíisma.
Það var einmitt það sem Faisal, sonur Ibn Sauds, einsetti sér þegar hann tók við völdum árið 1964, að breiða út íslam í krafti olíuauðsins. Kenningar Wahhabíia nutu þar góðs af því að koma frá Sádi-Arabíu, sem var heimaland borganna helgu, Mekka og Medina. Innan ríkisins örlaði þó enn á hófsemdaráherslum og fjölbreytni, en árið 1979 breyttist allt.
Þreföld straumhvörf 1979
Árið 1979 var mikið örlagaár í Mið-Austurlöndum, sem og öllum hinum íslamska heimi.
Fyrst má nefna byltinguna í Íran þar sem sjítar veltu veraldlegum keisara úr sessi og lýstu yfir stofnun íslamska lýðveldisins. Með því var kominn beinn keppinautur við Sádi-Arabíu og súnníta um veraldleg og trúarleg áhrif í heimshlutanum.
Þessi nýja staða varð til þess að herða á viðleitni Sáda til að boða Wahhabíisma.
Annar afdrifaríkur atburður varð svo þegar öfgamenn tóku Stóru Moskuna í Mekka í herkví í tvær vikur og deildu á forvígismenn Sádi-Arabíu fyrir fylgispekt við Vesturlönd og svik við íslam.
Þó að öfgamennirnir hafi verið reknir á braut, var það einungis eftir að stjórnvöld samþykktu kröfur trúarleiðtoga um að styðja átak gegn frjálslyndi og fyrir ennþá ágengari trúboði Wahhabía um heim allan. Hundruð moska, skóla og trúarmiðstöðva hafa verið stofnaðar um heim allan síðustu áratugi með fjárstuðningi frá Sádi-Arabíu.
Loks var það undir lok árs 1979 að Sovétríkin gerðu innrás í Afganistan og stilltu þar upp kommúnískri leppstjórn. Fljótlega braust þar út uppreisn Mujahedeen – heilagra stríðsmanna íslams – sem voru aðallega styrktir af Bandaríkjunum og Sádi-Arabíu. Stríðið í Afganistan varð umfram allt til þess að skapa rómantíska mynd af hernaði fyrir íslam þar sem ungir menn víða að úr heiminum lögðu land undir fót til að fórna sér fyrir málstaðinn gegn villutrú.
Flókin staða eftir 11. september
Hið nána efnahagslega og pólitíska samband milli Sádi-Arabíu og Vesturlanda, sérstaklega Bandaríkjanna komst í fullkomið uppnám eftir árásirnar 11. september 2001. Hvernig stóð á því að þessi bandalagsþjóð hafði alið af sér ekki færri en fimmtán af nítján hryðjuverkamönnunum sem rændu farþegavélunum fjórum þennan örlagaríka dag (og raunar höfuðpaurinn sjálfan, Osama bin Laden, en það er kafli út af fyrir sig)?
Allt frá því, hefur umræðan um stuðning Sádi-Arabíu við hryðjuverkahópa verið hávær, en um leið er ljóst að yfirvöld í Ríad hafa sannarlega barist gegn öfgaöflum og hryðjuverkasamtökum á ýmsan hátt.
Á aðra höndina hafa hryðjuverkamenn og öfgahópar, til dæmis ISIS, tileinkað sér óbilgirni og afturhald sem felst í kenningum Wahhabíisma og jafnvel notað námsbækur frá Sádi-Arabíu þar sem farið er hörðum orðum um gyðinga, kristna og þá sem snúa baki við íslam. Þá gengu um 2.500 Sádi-Arabar til liðs við ISIS og börðust með þeim.
Hins vegar hafa Sádi-Arabar, sérstaklega í ljósi árása öfgamanna á skotmörk þar í landi, brugðist hart við þeim trúarleitogum sem hafa hvatt til ofbeldis með beinum hætti, skipst á upplýsingum við vestrænar leyniþjónustur til að koma í veg fyrir hryðjuverk og þúsundir imama hafa verið reknir eða sendir í endurmenntun (sem að vísu er ekki beint vottuð sem umburðarlyndismeðferð) fyrir að neita að afneita öfgahyggju.
William McCants, sérfræðingur á sviði hryðjuverka, stjórnmála og íslams, orðaði það ansi vel í grein New York Times, sem höfundur þessarar greinar hefur stuðst við. Þegar kemur að harðlínu-íslam eru Sádar „bæði brennuvargarnir og slökkviliðið. […] Bæði tala þeir fyrir skaðlegu afbrigði af íslam þar sem skarpar línur eru dregnar milli hóps hinna sanntrúuðu og alla annarra, hvort sem um er að ræða múslima eða aðra trúarhópa,“ sem virkar sem olía á eld ofstækis og ofbeldis, en um leið eru þeir „bandamenn í baráttunni gegn hryðjuverkum.“
Það er ef til vill fullmikil einföldun að skrifa alla þá sem segjast fremja hryðjuverk í nafni íslam, á reikning Sáda og Wahhabíisma. Þar er margt annað sem kemur til, til dæmis íhlutun Bandaríkjanna og annarra Vesturvelda í málefni Mið-Austurlanda. Wahhabíismi hefur hins vegar boðið upp á og styrkt hugmyndafræðilegan grundvöll fyrir óbilgirni og hatur í garð þeirra sem ekki hlíta ströngustu trúarkenningum íslams og réttlætt ofbeldi.
Það hillir kannski undir breytingar í Sádi-Arabíu, þar sem Salman krónprins hefur leitast við að tryggja völd sín. Hingað til hefur ríkinu verið stýrt af gömlum mönnum, en Salman er aðeins 32ja ára gamall og hefur skilning á að landið verður að bregðast við breyttum aðstæðum á alþjóðavettvangi, og ekki síst renna fleiri stoðum undir efnahagslífið þar sem olía hefur verið upphaf og endir alls allt frá fyrstu árum ríkisins. Kynslóðin sem nú er að komast á legg verður að fá tækifæri til atvinnu, sem ekki eru til staðar núna.
Hins vegar er enn langt í land, þar sem í Sádi-Arabíu ríkir kúgunarstjórn. Frelsi einstaklinga og hópa, ekki síst kvenna, er fótum troðið dag hvern og villimannslegum refsingum og aftökum er beitt fyrir litlar sakir. Þá stendur Sádi-Arabía í hernaði í nágrannalandinu Jemen þar sem mannslíf virðast engu máli skipta og milljónir barna eru á vergangi vegna átakanna.
Hundruð milljóna múslima um allan heim lifa lífi sínu í sátt við guð sinn og annað fólk. Fróðlegt verður að sjá hvort vítahringur valda, afturhalds og ofstækis í Sádi-Arabíu muni líða undir lok á næstu árum.
Helstu heimildir:
- Vísindavefurinn: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=2841 ,
- Britannica: https://www.britannica.com/place/Saudi-Arabia/The-Kingdom-of-Saudi-Arabia
- CNN: http://edition.cnn.com/2017/10/24/middleeast/saudi-arabia-prince-more-moderate-islam/index.html
- NY Times: https://www.nytimes.com/2016/08/26/world/middleeast/saudi-arabia-islam.html