5. Um meint lúxuslíf hælisleitenda
„Tannlæknaþjónusta sem hælisleitendur á Íslandi fá felst í tveimur valkostum. Annaðhvort taka verkjalyf við tannpínu eða láta draga úr sér tennurnar. Í undantekningartilvikum er gert við tennur í börnum þjáist þau af tannpínu.
Leigubílaþjónusta hefur ekki staðið hælisleitendum til boða nema í neyðartilvikum þar sem um alvarleg veikindi hefur verið að ræða, en ekki svo alvarleg að sjúkrabíl þyrfti til. Hluti hælisleitenda hefur fengið strætókort. Eftir að ný reglugerð um útlendinga tók gildi er óljóst hvernig það verður framvegis.“
Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossin á Íslandi, skrifaði grein og kallaði eftir vandaðari umræðu um flóttafólk og hælisleitendur á Íslandi.
Hægt er að lesa greinina í heild sinni hér.
4. Harmleikur
„Fyrir framan mig stóð unga, fallega, góða dóttir mín - niðurbrotin manneskja á líkama og sál. Sítt hárið hékk í tætlum niður eftir bakinu eftir að hann dró hana fram og til baka á hárinu. Hársvörðurinn var þakinn kúlum. Hún var rispuð og marin í andliti. Hálsinn var þakinn marblettum beggja vegna eftir kyrkingstak fingra. Eyrun bólgin, hvellrauð og brjóskið marið eftir að hann hélt í eyrun til að lemja höfðinu niður í stólinn og steingólfið. Það blæddi úr eyrnahlustinni öðru megin. Skafsár voru á herðablöðum og mjóbaki eftir að hann dró hana á bakinu eftir steingólfinu. Fingraför/marblettir voru á báðum framhandleggjum. Rispuð og marin á mjöðm og fótum, helaum yfir brjóstbeini.“
Guðrún Sverrisdóttir skrifaði grein um ofbeldi sem dóttir hennar varð fyrir. Máli hennar var vísað frá vegna formgalla frá hendi ákæruvaldsins.
Hægt er að lesa greinina í heild sinni hér.
3. Kerfið sem átti að vernda og verja systur okkar sem þolanda heimilisofbeldis brást
„Þegar systur minni tókst með hetjuskap og þrautseigju að enda ofbeldissambandið hafði hún upplifað í langan tíma að hún skipti engu máli og hún á allan hátt háð ákvörðunum X. Loksins þegar hún komst út úr þessu og í fang þeirra aðila sem áttu að vernda hana og verja, varð upplifunin sú hin sama - að hún skipti ekki máli.“
Systurnar Erna, Ransý og Sólveig Guðmundsdætur, dætur Guðrúnar sem skrifaði greinina hér að ofan, skrifuðu saman um heimilisofbeldi sem yngsta systir þeirra varð fyrir og hvernig þær töldu að kerfið hefði brugðist henni með margskonar hætti.
Hægt er að lesa greinina í heild sinni hér.
2. Þögnin rofin
„Ég hef álasað sjálfa mig fyrir að hafa þagað yfir málinu. Að hafa ekki sagt frá og þar með lagt mitt á vogarskálarnar til að forða því að menn af þessu tagi kæmust í áhrifastöður. Að hafa með þögninni stefnt öðrum konum í hættu. En ekki lengur. Tíminn þagnarinnar er liðinn. Við verðum, sem þjóðfélag, að rísa upp gegn kúltúr sem lætur einstaklinga halda að þeir geti traðkað yfir annað fólk á skítugum skónum. Við verðum, sem þjóð, að krefjast þess að virðing sé borin fyrir öllum og standa vörð um þá hugsjón.“
Ragnhildur Ágústsdóttir varð ung forstjóri hjá fyrirtæki í tæknigeiranum. Hún var beitt kynbundnu ofbeldi af mönnum sem lokuðu hana inni í fundarherbergi, neyddu Ragnhildi, sem var barnshafandi, til að skrifa undir samning og meinuðu henni útgöngu.
Hægt er að lesa greinina í heild sinni hér.
1. Tabú á Íslandi: Leiga fyrir nfp íbúðir 61.000 á mánuði
„Núorðið er íslensk húsnæðispólítík samin af almannatenglum stuttu fyrir kosningar. Glærusýningarnar eiga eitt sameiginlegt: Þær byggja allar á sömu kerfisvillu og olli hruninu. NFP er ekki til í orðabókinni.
Niðurstaðan er olía á hækkunareld fasteignaverðs. Og síhækkandi þröskuldur nýliða á íbúðamarkaði.
Stefna nýrrar ríkisstjórnar í húsnæðismálum er ekkert verri en fyrirrennara hennar. Engin stefna þarf ekki að vera verri en vond eða heimskuleg stefna. Sem er klastrað saman á auglýsingastofu. Korteri fyrir kosningar.“
Guðmundur Guðmundsson á mest lesnu aðsendu grein ársins. Hún fjallar um húsnæðisstefnu sem rekin er án hagnaðarsjónarmiða, eða NFP (e. Not for profit).