5. Hismið - 12. maí: Markaðsdeildir landsins að vakna og hræðsla við smurstöðvar
Síðasta Hismi fyrir verðskuldað sumarfrí Árna Helgasonar og Grétars Theodórssonar, umsjónarmanna þáttarins, var jafnframt tímamótaþáttur þar sem markaðsdeildir landsins virtust vera að vakna og fyrsta eiginlega spons þáttarins frá upphafi var orðið að veruleika. Árni og Grétar ræddu óvænt frumkvöðulsstarf, PR stunt vikunnar hjá Bjarna Ben, trampólín og þá óttablöndnu virðingu sem þeir hafa fyrir starfsmönnum smurstöðva.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.
4. Grettistak - 24. janúar: „Ég er í miklu betri stöðu til að bregðast við hótunum en fullt af öðru fólki“
Helgi Seljan var fyrsti gestur nýrrar seríu af Grettistaki í umsjón Grettis Gautasonar. Herra Seljan fór um víðan völl og snerti meðal annars á æskuárunum á Reyðarfirði, hvort RÚV ætti að vera í ríkiseigu og hvaða handrukkarar hafi brotið rúður heima hjá sér.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.
3. Hismið - 30. mars - Hismið og Gæi á Tenerife
Hismið hringdi til Tene í heitasta snappara landsins sem var með Tenerife með fjölskyldunni og tók stöðuna á honum þar. Gæi hafði þá á stuttum tíma orðið að einum vinsælasta snappara landsins. Hægt er að fylgjast með snöppunum frá honum með því að leita að iceredneck í Snapchat.
Árni Helgason og Grétar Theodórsson, umsjónarmenn Hismisins, ræddu einnig pizzahvíslarann og stóra Hauck & Aufhäuser-málið.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.
2. Grettistak - 15. apríl: Erpur Eyvindarson: „Ég hef ekki fengið neina frípassa“
Erpur Þórólfur Eyvindarson, sem oft gengur undir nafninu Ali Höhler, var gestur Grettistaks. Þrátt fyrir að vera pólitískur öfgamaður með víðtæk tengsl við ógæfu og óreglumenn gaf hann sér dágóðan tíma til þess að spjalla um hin ýmsu mál. Eftir að hafa rætt Havana Club, sem fyrir algjöra tilviljun var á boðstólunum, var farið yfir gamla tíma og allt það helsta.
Úr varð lengsti þáttur í sögu Grettistaks, og hlaðvarps Kjarnans.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.
1. Kvikan - 15. mars: Hver græðir hvað á afnámi hafta (sem er ekkert verið að afnema)?
Þrátt fyrir að tilkynnt hefði verið um fullt afnám hafta var augljóst af nýjum reglum að enn væru margar hindranir á frjálsu flæði fjármagns. Þá væru enn til staðar miklar hömlur á vaxtamuna- og afleiðuviðskiptum og hluti aflandskrónueigenda auðvitað enn fastur innan hafta. En hverjir hagnast á afnámi hafta? Hver er hagur almennings, fyrirtækja, fjármagnseigenda, ríkisins og Illuga Gunnarssonar? Þessum spurningum og mörgum fleirum var svarað í Kvikunni, sem reyndist ein sú síðasta sem gerð var, að minnsta kosti í bili. Ástæðan er sú að skömmu síðar hóf sjónvarpsþáttur Kjarnans göngu sína á Hringbraut, en hann er afbrigði af Kvikunni.
Í þessum mest áhlustaða hlaðvarpsþætti ársins var einnig farið yfir þá uppstokkun sem var að eiga sér stað á fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði með kaupum Vodafone á helsta innvolsi 365 miðla og staðan tekin í Trumplandi.
Umsjónarmenn þessarar Kviku voru Þórður Snær Júlíusson og Magnús Halldórsson.