Þjóðleikhúsið: Loddarinn
Höfundur: Molière
Þýðing: Hallgrímur Helgason
Leikstjórn: Stefan Metz
Leikmynd og búningar: Sean Mackaoui
Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson
Tónlist og hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson
Leikendur: Hilmir Snær Guðnason, Guðjón Davíð Karlsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Oddur Júlíusson, Ragnheiður Steindórsdóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Dóra Jóhannsdóttir.
Leikrit Molières, Loddarinn er betur þekkt undir heitinu Tartuffe og á stundum skeytt „hræsnarinn” aftan við í samræmi við franskt heiti þess, „Tartuffe, ou l’Imposteur”. Imposteur mun þó að merkingu vera nær „svikara” en „loddara” en hvað þetta varðar hefur leikhúsfólk gegnum tíðina tekið sér allnokkurt frelsi í samræmi við þann eiginleika leikhúss að fara mismunandi túlkunarleiðir í uppfærslu verka og tala til áhorfenda sinna á þann hátt sem hæfir hverjum tíma fyrir sig. Það er því engin ástæða til að fetta fingur út í þann merkingarmun; en eins og Guðrún Kristinsdóttir Urfalino bendir á í fróðlegri grein í leikskrá hafa leikstjórar og leikhópar lagt mjög ólíkar áherslur í túlkun sinni, einkum hvað varðar titilhlutverkið Tartuffe og eitt aðalhlutverkanna, hins velstæða Orgons. Í sýningu Þjóðleikhússins á Loddaranum hafa þeir reyndar hlotið ný og íslenskari nöfn – Guðreður og Orgeir – sem færir leikinn óneitanlega nær íslenskum veruleika auk þess að gefa góð færi á ýmsum orðaleikjum.
Ljóst er að þau mæðgin, Petrúnella og Orgeir, eru á bandi Guðreðar meðan aðrir fjölskyldumeðlimir finna Guðreði allt til foráttu. Andstaða þeirra verður vel skiljanleg í ljósi þess að Orgeir ákveður að gefa Guðreði dóttur sína fyrir eiginkonu í stað þess að samþykkja fyrirhugað hjónaband hennar við kærustuna Völu, hann rekur son sinn að heimann fyrir að ljúga upp á Guðreð að hafa gert hosur sínar grænar gangvart eiginkonunni Elmíru og heimilar Guðreði í kjölfarið ótakmarkað samneyti við eiginkonu sína og á endanum arfleiðir hann Guðreð að öllum eigum sínum. Minna má það nú vera – en fyrir Molière vakir auðvitað að skapa átök og dramatíska spennu.
Á endanum sér Elmíra engin ráð önnur en að egna gildru fyrir Guðreð til að sanna fláræði hans og svikulan huga gagnvart Orgeiri velgjörðamanni hans og það gerir hún að Orgeiri sjáandi. Við það opnast augu Orgeirs, en of seint. Hann er þegar búinn að afsala sér öllum eigum sínum og nú virðist ekkert bíða nema útburður úr húsi og heimili að boði Guðreðar. Um endalok sýningarinnar skal þó ekki uppljóstrað hér – lokaatriðið er glæsilegur lokahnykkur á sýningunni og vekur fleiri hugrenningar en unnt er að gera grein fyrir í stuttri gagnrýni.
Loddarinn er þýddur af Hallgrími Helgasyni og fylgir hann hefðinni að hafa textann stranglega bundinn og rímaðan; auk þess færir Hallgrímur málfarið til nútíma með skemmtilegum orðaleikjum og slanguryrðum; textinn verður fyrir vikið bráðfyndinn og mun Hallgrímskari en Molièrskur og ekki nema gott eitt um það að segja. Hið 350 ára leikverk Molières er sennilega jafn lifandi á fjölum Þjóðleikhússins núna á vordögum 2019 og það hlýtur að hafa verið við frumsýningu þess í Versölum 1664. Ekki skal dæmt um þýðinguna sem slíka hér, en texti Hallgríms er ákaflega vel saminn, áheyrilegur og fer yfirleitt vel í munni leikaranna.
Nokkuð bar þó á því að bundið mál er ekki tamt leikurum sýningarinnar. Undirritaður hefur margoft bent á að Þjóðleikhúsið þurfi að taka sig á í þeim efnum. Fullyrt hefur verið að meðferð texta sé vanrækt námsefni í leiklistarnámi Listaháskóla Íslands og þess ber greinilega merki í textameðferð almennt á íslenskum leiksviðum. Þó skal það sagt og fullyrt að Þjóðleikhúsið virðist auðheyrilega hafa tekið sig á í þessu efni. Hér fer leikhópurinn yfirleitt vel með textann og hann hvílir betur í munni en hefur oft áður heyrst. Loddarinn er því ekki síður eyrnakonfekt en augna og því ber að fagna. Hins vegar má benda á að það er talsverður munur á textaferð eldri og yngri leikara og það er óneitanlega staðreynd að fullkomnun í meðferð og framsögn texta verður ekki náð með því að vinna eina sýningu vel, heldur verður að vinna þrotlaust að vöndun framsagnar og textameðferðar og á að sjálfsögðu að vera hluti af vinnu við þjóðleikhús.
En Loddarinn er ekki síður augnakonfekt en eyrna. Sean Mackaoui hefur skapað ákaflega fallega, smekklega og ekki síður fyndna leik- og búningamynd. Allt er dregið skýrum dráttum og smekklegum litum. Hér má einnig njóta þess hversu hugvitsamlegt valið er á leikmunum þar sem hver hlutur þjónar tilgangi og á sinn þátt í að kynna karaktera og stuðla að framvindu sögunnar. Leikmunir, leikmynd og búningar segja ekki síður söguna en textinn og leikararnir og áhorfendur eru svo sannarlega hvattir til að taka eftir því hvernig öll þessu sjónrænu atriði taka fullan þátt í heildinni. Nefnd skal einnig hógvær og falleg lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar og frábær hljóðmynd Elvars Geirs Snævarssonar, þar sem má m.a. finna skemmtara er í kostulegu aðalhlutverki. Það má raunar segja um alla sjónræna þætti sýningarinnar að þeir byggja á smitandi hugarflugi og hugmyndaauðgi sem glæðir söguna sjálfstæðu lífi og ber listrænni stjórn sýningarinnar fagmannlegt vitni. Undirritaður getur þó ekki stillt sig um að minna á, að það ku hafa verið Tjekhov sjálfur sem sagði, að ekki skyldi hengja slökkvitæki á vegg nema úr því væri sprautað áður en yfir lyki …
Loddari Þjóðleikhússins á við ákveðinn vanda að stríða. Hann er sá að svo virðist sem lögn persónanna sé í ósamræmi við upphaflega sögu Molières. Það verður til dæmis hvergi séð með ótvíræðum hætti hvað vakir í raun fyrir Guðreði – það er eins og hann ásælist ekki það allt sem hann á endanum fær, heldur fái það bara upp í hendur af Orgeiri. Það væri kannski lagi ef ekki væri líka allsendis óljóst hvað vakir fyrir Orgeiri með því að taka Guðreð inn á heimilið og færa honum allt upp í hendur. Það er eins og Orgeir hafi frumkvæðið í þessari sýningu þótt færi jafnvel betur á því, sögunnar vegna, að Guðreður hefði það með höndum. Sá guðsótti sem var raunverulegt afl persóna á tímum Molières og gat rekið fólk til að gera ýmislegt sem þykir frekar ótrúverðugt á okkar tímum hjálpar ekki þessari sýningu, hér hefði þurft að finna annað afl, fyrst farin er sú leið að setja sýninguna í óræðan nútíma.
Það er líka athyglisvert, að ekkert er gert úr því að Orgeir hóf Guðreð upp úr sárustu örbirgð – það er sagt en hvergi sýnt og er ekki að sjá að þessi örbirgð sem Guðreður er komin úr hafi nokkuð að segja fyrir hans karakter – sem vel að merkja varðar ekki leik Hilmis Snæs heldur lögn leikstjóra og leikara fyrir karakterinn. Í áður nefndri grein í leikskrá Loddarans verður þess ekki heldur vart að aðrar sýningar hvorki erlendis né hérlendis hafi tekið á þessum uppruna Guðreðar / Tartuffe í örbirgð, og mætti þó ugglaust styðja það rökum og gefa karakternum þau gildi að það skipti máli. Loddari Stefan Metz og Þjóðleikhússins virðist ekki skera sig úr Tartuffehefðinni hvað það varðar.
Það er að þessu leytinu margt sem kemur fram í textanum, sem lítið eða ekkert er gert úr í þeirri túlkun sem fram kemur í leik og leikstjórn. Fyrir vikið verða til dæmis endalok leiksins illskiljanleg þótt þau séu að sönnu áhrifarík og glæsileg með hugvitsamlegri umbreytingu á leikmynd og algerlega nýrri stöðu persónanna. En efnislega er eins og botninn detti úr og lítið verði efnislega úr þó þeirri tilraun sem hér er gerð til að færa hið klassíska verk Molières til nútíma og er vissulega allrar virðingar verð.
Þessar vangaveltur eru þó ekki hér settar fram nema til að örva ímyndunarafl væntanlegra áhorfenda. Víst er að Loddari Stefans Metz og Þjóðleikhússins er að mörgu leyti skemmtilegt leikhús, hin ágætasta skemmtun og vel kvöldstundar virði.