Hógvær frásögn sem varðar líf – í nafni móður Jarðar

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans skrifar um gjörning Andra Snæs Magnasonar í Borgarleikhúsinu.

Andri Snær-1.jpg
Auglýsing

Borgarleikhúsið: Um tímann og vatnið

Höfundur: Andri Snær Magnason

Flytjendur: Andri Snær Magnason, Högni Egilsson, Skólakór Kársnesskóla

Það er óneitanlega athyglisvert að ganga inn í stóra sal Borgarleikhússins þegar leikhúsið býður til kvöldstundar með listamanni – sem að þessu sinni er Andri Snær Magnason rithöfundur sem flytur frásögn sína um tímann og vatnið ásamt tónlistarmanninum Högna Egilssyni og svo er lokahljómur í bláendann fram borinn af Skólakór Kársnesskóla til að minna á að erindið er ekki síst ætlað ungu kynslóðinni, þeirri sem erfa skal landið, já, jörðina alla, loftslagið og vistkerfið.

Athyglisvert vegna þess að undirritaður hefur sjaldan séð jafn einsleitan áhorfendaskara í leikhúsi, jafn “landverndarlegt” públíkúm ef svo má að orði komast – þetta ekki sagt til að gera minna úr viðburðinum, öðru nær, en áhorfendahópurinn var einfaldlega ákaflega einsleitur og þótt það kunni að virka dálítið fyndið, er það engu að síður áhyggjuefni þegar að er gætt. Andra Snæ þarf vart að kynna þjóðinni – hann hefur skrifað ljóð og bækur, jafnt fyrir börn sem fullorðna, og ein bók einkum gerði nafn hans frægt víðar en bara á Íslandi: Draumalandið, en í þeirri bók skoðaði hann afdrif Káranhnjúka þegar virkjunin við þá kennda var byggð og öræfin norðan Vatnajökuls munu aldrei verða söm á eftir. Þar tók hann sér stöðu svo um munaði í umhverfismálunum.

Auglýsing
Viðbrögðin við bókinni Draumalandið vörpuðu líka ljósi á að á Íslandi búa tvær þjóðir – ein, sem telur sjálfsagt að virkja og lítur á það sem hluta af vegferðinni til framfara og framtíðar, og svo er önnur þjóð, sem telur að náttúran eigi að njóta vafans og að virkjanir séu óafturkræf náttúruspjöll. Áhorfendur Borgarleikhúss þetta kvöld voru fulltrúar þeirrar þjóðar.

Það er þess vegna áhyggjuefni, miðað við tilgang og markmið Andra Snæs, að áhorfendahópurinn virðist eingöngu heyra til þessum seinni hóp; þeim sem þegar eru sannfærðir í trúnni og hafa komið í Borgarleikhúsið til að hlýða á boðskap síns erkibiskups. Andra Snæ er áreiðanlega í mun að gefa hinum þegar sannfærðu andlega styrkingu, efla þá í þeirri vissu að ef ekkert verður að gert varðandi loftslagsvána stefnir óhjákvæmilega í óefni – en mér segir ekki síður hugur að hann vilji líka tala til þeirra sem enn eru grunlausir og ekki síst til þeirra sem líta á hnattræna hlýnun sem hindurvitni og bábiljur.


Hugsanlega eru einhverjir grunlausir í salnum, en ekki varð mikið vart við síðastnefnda hópinn – þann hóp sem raunverulega þyrfti að hlusta á Andra Snæ og taka fyrstu skrefin í átt að skilningi á því sem er að gerast í kringum okkur og um leið fyrstu skrefin í átt að skilningi á því hvernig eigi að segja frá því. “The Media is the Message” sagði eitt sinn fjölmiðlafræðingurinn Marshall Mcluhan og Andri Snær leiðir vönduð rök að því að skilningur á loftslagsvánni eins og hún blasir við á okkar tímum hefst á því að umturna tungumálinu, læra það upp á nýtt, beita því í þágu breytinga!

Andri Snær býður gestum sínum uppá mikilfenglegt ferðalag í tíma og rúmi á stóra sviði Borgarleikhússins. Það er mikilfenglegt í ljósi þess að það tekur á loftslagsvánni sem sögð er vofa yfir okkur og vera lífsspursmál verði ekki að gert í tæka tíð, en einnig vegna þess að þær breytingar á vistkerfinu sem eru í vændum, eru svo stórtækar og gífurlegar að ekki einu sinni tungumálið nær að lýsa þeim þannig að skiljanlegt verði venjulegum manni og þar er kannski að finna skýringuna á andvaraleysinu sem virðist ríkja þegar kemur að viðbragði okkar manna – við skiljum hreinlega ekki hvað er að gerast, gerum okkur ekki grein fyrir umfangi breytinganna né hversu hratt þær eiga sér stað. Fljótum sofandi að feigðarósi.Andri Snær Magnason.

Andri Snær fullyrðir – og styður það rökum sótt í vísindin – að á aðeins næstu hundrað árum – sem spanna svona einsog þrjár, kannski fjórar kynslóðir – mun jörðin okkar ganga í gegnum breytingar sem eru stærri en svo að tungumálið, myndhverfingar okkar, líkingamál og kenningar geti höndlað þær. Um breytingarnar sem slíkar þarf tæplega að efast, þótt vissulega sé þrefað um það í athugasemdakerfum félagsmiðla hvort þær verði jafn afdrifaríkar og hamfaraspámenn segja og svo auðvitað hverjum sé um að kenna – náttúrunni eða manninum!

Hvað sem því líður þá eru nægar vísbendingar sem kveða á um að afdrifaríkra breytinga sé að vænta. Það er kjánaskapur að horfast ekki í augu við það. Hins vegar virðist lausnin vera sú, sem manninum er ótömust: að breyta lífsstíl og hegðan, að horfa til annarra lausna en sívaxandi hagvaxtar, að láta móður Jörð í friði og virða hennar þolmörk.

Andri Snær horfir á umhverfismálin, loftslagsbreytingar og hamfaravána útfrá afar athyglisverðu sjónarmiði – í því skyni að reyna að sjá samhengi hlutanna og gera það skiljanlegt öðrum: hann byrjar á því að segja frá jöklaferðum afa síns og ömmu (sem reyndast kynntust og felldu hugi saman á stærsta jökli Evrópu!) sem er upphaf þeirra jöklarannsókna sem við búum að í dag. Þekking okkar á jöklum, viðhorf okkar til þeirra og annarrar ósnortinnar náttúru er hreint ekki gamalt ef því er að skipta, yngra en aldargamalt þegar að er gáð. Hér á Íslandi var það náttúruvísindamaðurinn Sveinn Pálsson sem rannsakaði jökla einna fyrstur en svo hefjast ekki skipulegar rannsóknir á jöklum fyrr en með sænsk-íslenska leiðangrinum 1936 á Vatnajökul undir stjórn Jóns Eyþórssonar veðurfræðings og sænska jöklafræðingsins Hans Ahlmanns.

Ósjálfrátt dettur manni í hug að kannski háir þetta reynsluleysi okkur, tilfinningatengsl okkar við móður Jörð, þau sem byggja á þekkingu, eru svo ný af nálinni að við verðum að leita til goðsagna og náttúrutrúar fyrri tíma til að skilja hvers eðlis þessi tilfinningatengsl eru og hvers móðir Jörð má krefjast af okkur.

Frásögn Andra Snæs er lipur, fer vel í eyra og það er býsna auðvelt að fylgjast með, jafnvel þegar kemur að ströngustu vísindum. Honum er lagið að breyta öllum yfirþyrmandi, vísindalegum stærðum í skiljanlegar stærðir, skýrðar á mannamáli, frásögnin verður spennandi og grípur mann ekki síst vegna tungumálsins, orðfærisins sem hann notar til að flytja frásögnina til okkar, færa okkur hana og gera hana að okkar.

Auglýsing
Það auðveldar sögumanninum Andra Snæ – sem vissulega er frábær sögumaður sem veit hvað virkar á áheyrendur – að áheyrendur eru algerlega með á nótunum, þeir eru sá söfnuður sem frásöguglaðir sagnamenn vilja hafa í kringum sig. Það sýnir vissulega styrk Andra Snæs sem boðbera mikilvægs erindis en það er dálítið eins og þyrfti að gera átak í því að koma hinum vantrúuðu inn í salinn, þeim sem misst hafa af því að kýrin Auðhumla er upphaf lífs á jörðinni og að Auðhumla er jökull Himalayafjalla.

Hvað sem því líður – Andri Snær er áhrifamikill boðberi þeirra tímalausu gilda sem minna okkur mannfólkið á að við erum ekki nema brot af vistkerfinu og verðum að finna okkar sess í því þannig að ekki sé gengið á vistkerfið vegna þess að við horfum ekki bara til okkar þarfa, heldur einkum vegna þess að okkur hættir til að horfa umfram þarfirnar og vilja meira. Það kallast græðgi og hentar engan veginn móður Jörð.

Það væri óskandi að allir – ekki síst þeir sem efast um vaxandi hnattræna hlýnun – gæfu sér tíma til að hlusta á hógværa frásögn Andra Snæs. Hún einkennist af gildum sem hollt er að hafa í huga: mannkærleik og virðingu fyrir móður Jörð.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiFólk