5. Spurði hvort „örlítill grenjandi minnihluti“ ætti að geta neitað þjóðinni um þjóðgarð
„Á einhver örlítill grenjandi minnihluti að hafa neitunarvald um það að þjóðin megi stofna þennan þjóðgarð sinn á sínu eigin landi?“ spurði Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis og þingmaður Vinstri grænna í ræðu sinni um Hálendisþjóðgarð á Alþingi föstudagskvöldið 8. desember.
Forseti Alþingis er ekki tíður gestur í ræðustól þingsins, en Steingrímur sagðist hafa látið það eftir sér að halda ræðu um málið, sem hann sagði sér mikilvægt. „Ég hef sterkar taugar til þessa svæðis,“ sagði Steingrímur og bætti því við að fyrir honum væri leyndist hjarta Íslands og helgidómar á hálendinu.
Þessi ummæli áttu eftir að hafa miklar afleiðingar og urðu að sameiningartákni andstæðinga Hálendisþjóðgarðsins.
Lesið fréttina í heild sinni hér.
4. Kári býðst til að skima fyrir veirunni
Í byrjun mars var greint frá því að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefði haft samband við heilbrigðisyfirvöld og boðist til að skima í samfélaginu fyrir nýju kórónuveirunni. „Einstakt á heimsvísu,“ sagði Alma Möller landlæknir um málið á sameiginlegum blaðamannafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Landlæknisembættisins og Landhelgisgæslunnar sem fór fram þennan dag.
Lesið fréttina í heild sinni hér.
3. Fjögur ráð til að hætta að snerta á sér andlitið
Það virðist sammannlegt að snerta stöðugt á sér andlitið með fingrunum. Við nuddum augun, klórum okkur í nefinu, styðjum hönd undir kinn og stöngum jafnvel úr tönnunum með nöglunum. En þegar við snertum á okkur andlitið berum við líka alls konar sýkla að því og þaðan eiga þeir greiða leið inn í líkamann.
Einnig var bent á að hnerra og hósta í pappír eða olnbogabót því bakteríur og veirur smitast með úða. Þá er okkur ráðlagt að sleppa kossaflensi, knúsi og því að heilsa fólki með handabandi.
Og svo er okkur bent á að hætta að snerta á okkur andlitið í tíma og ótíma.
Kjarninn tók saman fjögur ráð til að hætta að þeim ósið.
Lesið fréttina í heild sinni hér.
2. Sjö útgerðir krefja ríkið um 10,2 milljarða króna auk hæstu mögulegu vaxta
Sjö útgerðir kröfðu íslenska ríkið um samtals 10,2 milljarða króna auk hæstu fáanlegu vaxta vegna fjártjóns sem þau töldu sig hafa orðið fyrir vegna makrílkvóta sem fór ekki til þeirra á árunum 2011 til 2018. Útgerðirnar ákváðu að höfða mál eftir að tveir dómar féllu í Hæstarétti í desember 2018 sem sögðu að ekki hefði verið rétt haldið á úthlutun á makrílkvóta.
Um var að ræða fyrirtækin Gjögur hf., Ísfélag Vestmannaeyja hf., Skinney-Þinganes hf., Loðnuvinnslan hf. og Huginn ehf., Eskja hf. og Vinnslustöðin hf. Hluti þeirra féll frá kröfum sínum í kjölfar þess að umfang hennar var opinbert, og kröfurnar voru almennt fordæmdar.
Það gerðist eftir að Kjarninn greindi frá málinu 11. apríl 2020.
Lesið fréttina í heild sinni hér.
1. Víðir: Við erum að leggja í mikla óvissuferð
„Það sem við erum að velta mjög mikið fyrir okkur og er auðvitað áhyggjuefni er hvað gerist núna 4. maí. Hvernig útfærslan á þessu verður endanlega, hvernig viðbrögðin verða og hvaða afleiðingar það hefur á þau verkefni sem við erum með í þessu. Og við erum að leggja í mikla óvissuferð með það. Við erum að reyna að finna samspilið milli þess að finna bestu lausnina sóttvarnalega séð og gera það sem okkar sérfræðingar telja öruggt að gera til að koma samfélaginu í gang.
Við erum öll orðin langþreytt og höfum lagt gríðarlega mikið á okkur. Og ef maður horfir aðeins til baka í dag þá erum við búin að vera í þessu í um þrjá mánuði, frá því að við byrjuðum að vinna í þessu á fullu. Auðvitað væri það skelfilegt ef að það sem við gerum í maí myndi verða til þess að við þyrftum að byrja upp á nýtt.“
Þetta sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, á upplýsingafundi almannavarna 17. apríl 2020. Og frétt Kjarnans um þessi ummæli var mest lesna frétt ársins á miðlinum.