5. Vítalía um fráfarandi forstjóra Festi: „Ég á Eggerti mikið að þakka“
„Ég á Eggerti mikið að þakka og ég vona að hann viti það,“ sagði Vítalía Lazareva í færslu á Twitter. Í færslunni birti hún hlekk á umfjöllun Mannlífs þar sem ýjað er að því að nokkuð óvænt tíðindi um starfslok Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra Festi, í júní tengdust frásögn Vítalíu af kynferðisofbeldi í janúar þar sem hún sagði sig hafa orðið af hendi þriggja manna.
Einn þeirra, Þórður Már Jóhannesson, var stjórnarformaður Festi.
4. Helgi Seljan búinn að segja upp – RÚV á ekki að þurfa að stilla upp í vörn
Helgi Seljan, sem hafði starfað hjá fréttaskýringaþættinum Kveik hjá RÚV árum saman og þar áður hjá Kastljósi, sagði upp störfum í janúar. Hann réð sig í kjölfarið sem rannsóknarritstjóra Stundarinnar.
Í stöðuuppfærslu sem Helgi birti inni lokuðu vefsvæði starfsmanna RÚV, þar sem hann greindi frá ákvörðuninni, sagði hann að hún hafi hvorki tekin í skyndi eða af neinni vonsku. „Ég ætla þó ekki að halda því fram að atburðarrás undanfarinna missera hafi ekki haft nein áhrif á að ég yfirleitt fór að velta þessum möguleika fyrir mér.“
3. Kallar sigurvegara í prófkjöri Sjálfstæðisflokks í Mosfellsbæ trúða og segir sig úr flokknum
Frambjóðandi sem sóttist eftir þriðja sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga fyrr á árinu sagði sigurvegara prófkjörsins hafa smalað atkvæðum.
Hún sagði skilið við flokkinn – „Ég þarf ekki lengur að starfa með þessum tveimur trúðum.“
2. Ragnar Þór: Allir vissu en ekkert var aðhafst fyrr en málið komst í fjölmiðla
Í byrjun árs ásakaði Vítalía Lazareva þrjá valdamenn í íslensku viðskiptalífi um kynferðisbrot. Kjarninn leitaði álits Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR stærsta stéttarfélags landsins, á málinu.
Hann sagði að íslenskt samfélag væri „óþolandi meðvirkt“ og að oft væri horft framhjá alvarlegum málum ef þau komast ekki í almenna umræðu eða fara á forsíðu fréttamiðla. Lífeyrissjóðir, stærstu fjárfestar landsins, virtust ekki hafa mikinn hvata til að leita réttar síns ef grunur léki á brotlegri eða siðlausri háttsemi stjórnenda fyrirtækja sem þeir fjárfesta í, þrátt fyrir fagurgala um siðferðisviðmið og alþjóðleg samfélagsleg viðmið.
1. „Ekkert annað en fordómar“
Lögreglan hafði afskipti af 16 ára dreng í annað sinn á tveimur dögum þann 21. apríl vegna leitar að strokufanga. Í þetta skiptið var hann að kaupa bakkelsi með móður sinni, mannréttindalögmanninum Claudiu Wilson.
Hún sagði í samtali við Kjarnann að þetta væri ekkert annað en áreiti úr hendi lögreglunnar. Hún tók upp atvikið sem um ræðir.