5. Seldi fyrirtækið sitt til Twitter og ætlar að greiða alla skatta af sölunni á Íslandi
Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, seldi fyrirtækið til Twitter í byrjun árs. Skömmu síðar greindi hann frá því að allir skattar sem greiddir yrðu vegna sölunnar yrðu greiddir á Íslandi.
Haraldur sagði að hann hafi fæðst á Íslandi og að foreldrar hans hafi verið lágtekjufólk. Auk þess glími hann við alvarlega fötlun. „En þar sem þetta land býður upp á fría skóla og fría heilbrigðisþjónustu þá gat ég ég dafnað.“
4. Aðalsteinn hættur á RÚV og í Kveik – „Ekki vinnustaður fyrir mig eins og stendur“
Aðalsteinn Kjartansson, sem hafði verið lykilmaður í teyminu sem stendur að fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV, ákvað í apríl að hætta störfum hjá ríkismiðlinum. Hann sagði að eftir margra mánaða umhugsun hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að RÚV væri „ekki vinnustaður fyrir mig eins og stendur.“
Aðalsteinn sagðist ekki vera að fara í neinu fússi heldur að vandlega athuguðu máli. „Löngunin til að gera góðar fréttir er sannarlega enn til staðar og sem betur fer eru fleiri fjölmiðlar sem geta veitt mér vettvang til þess.“
Hann réð sig í kjölfarið til starfa á Stundinni.
3. Gylfi Þór sagður til rannsóknar fyrir meint kynferðisbrot gegn barni
Í júlí var greint frá því að Gylfi Þór Sigurðsson, skærasta knattspyrnustjarna Íslands og leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni, væri til rannsóknar hjá lögreglunni í Manchester á Englandi vegna meints kynferðisbrots gegn barni.
Rannsókn á máli Gylfa stendur enn yfir.
2. „Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“
Kjarninn ræddi við Vasile Tibor Andor, sem lifði eldsvoðann á Bræðraborgarstíg af, í júní. Tilefnið var að daginn eftir átti að kveða upp dóm í manndrápsmáli yfir manninum sem bar eld að húsinu.
Tibor missti allt sitt í eldsvoðanum. Hann missti heimili sitt. Hann hlaut reykeitrun og brunasár. Það eru hins vegar afleiðingar á hans andlegu líðan sem hann glímdi enn við.
1. Faraldurinn tekur U-beygju í Suður-Ameríku
Á fyrri hluta ársins var faraldur COVID-19 einna verstur í Suður-Ameríku. Í sumar og snemma í haust hafði hins vegar tekist að bólusetja stóra hluta margra þjóða álfunnar og bæði smit og dauðsföll af völdum sjúkdómsins voru á hraðri niðurleið.
Bólusetningin ein og sér skýrði það ekki og vísindamenn klóruðu sér í kollinum um hver ástæðan væri.