Bandaríska dómsmálaráðuneytið vinnur að ákæru gegn Julian Assange, stofnanda WikiLeaks. Mögulegt er að hann hafi þegar verið ákærður en leynd hvílir yfir ákærunni ef og þar til hann verður handtekinn, svo Bandaríkin geti reynt að fá hann framseldan frá London. New York Times greinir frá þessu í dag.
Nafn Assange birtist í ótengdum dómskjölum frá því í ágúst, sem uppgötvuðust í gær, þar sem saksóknari var að reyna að fá dómara til að innsigla dómsskjöl í máli annars manns. Saksóknarinn í málinu er sá sami og hefur verið með Assange til rannsóknar. Joshua Stueve talsmaður alríkissaksóknara í Virgínu, sem hefur verið að rannsaka Assange segir að um mistök hafi verið að ræða og að nafn Assange hefði ekki átt að birtast í skjölunum.
Seamus Hughes, hryðjuverkasérfræðingur, sem fylgist vel með dómskjölum, fann nafn Assange í skjölunum og birti á Twitter-síðu sinni.
You guys should read EDVA court filings more, cheaper than a Journal subscription pic.twitter.com/YULeeQphmd
— Seamus Hughes (@SeamusHughes) November 16, 2018
Þyrfti að vera framseldur
Julian Paul Assange hefur verið þyrnir í augum bandarískra saksóknara í áraraðir en hann er eftirlýstur þar í landi fyrir margs konar brot. Hann er ástralskur forritari og blaðamaður sem er frægastur fyrir að stofna lekasíðuna Wikileaks. Hann til dæmis aðstoðaði Chelsea Mannig, fyrrverandi bandarískan hermann, að leka leynilegum gögnum um stríðið í Íran og Afganistan á síðunni Wikileaks. Chelsea Mannig var dæmd í júlí 2013 fyrir meðal annars að brjóta njósnalögin og situr nú 35 ára dóminn af sér.
Í dómskjölunum kom fram að vegna aðstæðna Assange og hver hann væri þyrftu skjölin að vera innsigluð þar til Assange verður handtekinn í tengslum við ákærurnar og hann gæti þar af leiðandi ekki lengur forðast handtöku og framsal. Assange hefur búið í sendiráði Ekvador í London í rúm sex ár en og hann flúði þangað vegna ákæru um nauðgun í Svíþjóð. Það mál hefur verið fellt niður en hann á þó enn handtöku yfir höfði sér í Bretlandi fyrir að hafa ekki mætt fyrir dómara. Assange þyrfti því að vera handtekinn í London og framseldur úr landi ef hann verður kærður fyrir alríkisdómsstóli bandaríkjanna.
Jeff Sessions, fyrrverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í fyrra að Bandaríkin ætluðu sér að handsama Assange og þar að auki hefur Robert Mueller verið að rannsaka Assange vegna Rússarannsóknarinnar svokölluðu.
Rússarannsóknin
Samkvæmt New York Times hefur dómsmálaráðuneytið í Bandaríkjunum lengi reynt að finna hvernig og hvort þeir geti dregið Assange fyrir dóm frá því að fyrstu skjölin voru birt á Wikileaks síðunni. En jafnvel í forsetatíð Barack Obama þegar mesti fjöldi uppljóstrara var ákærðir í Bandaríkjum þá var Assange ekki kærður.
Það sem hefur staðið í vegi fyrir saksóknurunum er spurningin um hvort að það sé lagalegur munur á því sem Wikileaks gerði og það sem aðrir fjölmiðlar gerðu með því að fjalla um upplýsingarnar sem komu fram á Wikileaks-síðunni. Samkvæmt New York Times hefur Assange ekki verið kærður hingað til vegna ótta um að slík kæra myndi senda þau skilaboð að ólöglegt sé að birta upplýsingar er varða þjóðaröryggi og það gæti leitt til kulnunar í rannsóknarblaðamennsku.
Það viðhorf breyttist síðan eftir að Wikileaks birti þúsundir tölvupósta frá demókrötum sem stolnir voru frá rússneskum tölvuhökkurum árið 2016 en talið er að sá gagnaleki hafi skaðað framboð Hillary Clinton í forsetakosningunum. FBI staðfesti að óyggjandi sannanir voru fyrir því að tölvuárásir í aðdragana forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2016 hafi verið tengdar Rússum. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að með þessum aðgerðum væri Assange að standa með einræðisherrum. Samkvæmt New York Times þykir grundvallarmunur á tölvupóstalekanum og fyrri lekum Assange vegna þess fyrrnefndir tölvupóstar demókrata voru ekki ríkisskjöl eða þjóðaröryggisleyndarmál.
Í umfjöllun New York Times kemur fram að ákæran er afgerandi yfirlýsing af hálfu bandarískra stjórnvalda, þar sem ákæra af þessu tagi getur skapað lagalegt fordæmi með djúpstæðum afleiðingum fyrir frelsi fjölmiðla.
Íslendingur nú ritstjóri Wikileaks
Kristinn Hrafnsson var skipaður ritstjóri WikiLeaks í september á þessu ári. Julian Assange steig þá til hliðar sem ritstjóri en hélt áfram sem útgefandi vegna. Kristinn er margreyndur blaðamaður sem starfaði meðal annars hjá Stöð 2, við fréttaskýringaþáttinn Kompás og hjá RÚV. Árið 2010 tók hann þátt í vinnslu frétta sem byggðu á gögnum frá WikiLeaks sem kölluðust „Collateral Murder“.