Frakkar hafa ákveðið að frá og með næsta ári verði bannað að drepa karlkyns hænuunga með mölun eða gösun. Báðum þessum aðferðum er beitt hér á landi við aflífun tugþúsunda karlkyns varphænuunga árlega fljótlega eftir að þeir klekjast úr eggjum.
Frönsk stjórnvöld hafa þar með tekið undir gagnrýni dýraverndunarsamtaka um að aðferðirnar tvær séu grimmilegar og ætla þau að þrýsta á að bannið verði tekið upp í öllu Evrópusambandinu.
Á hverju ári eru um 50 milljónir karlkyns hænuunga drepnir í Frakklandi með annað hvort mölun (e. shredding) eða gösun, að sögn landbúnaðarráðherrans Julien Denormandie. Aðeins kvenkyns ungarnir fá að lifa en þó ekki lengi því ævi varphæna á verksmiðjubúum er stutt, oftast ekki lengri en 18 mánuðir.
„Frakkland verður fyrsta landið í heiminum ásamt Þýskalandi til að binda endi á að karlkyns hænuungar séu malaðir og gasaðir,“ sagði Denormandie er endanleg ákvörðun um bannið var tilkynnt nýverið.
Hann sagði að frönsk og þýsk stjórnvöld myndu beita sér fyrir því að önnur aðildarríki ESB færu sömu leið. Frá og með næsta ári þurfa alifuglabændur að koma sér upp búnaði til að kyngreina unga á meðan þeir eru enn í eggi.
Denormandie segir að ákvörðuninni verði framfylgt í skrefum. Gert sé ráð fyrir að meirihluti útungunarstöðva verði kominn með tækjabúnað til að kyngreina unga í eggi fyrir lok fyrsta ársfjórðungs næsta árs. Bannið gæti hækkað verð á sex eggja bakka um 0,1 evru eða um 15 krónur íslenskar.
Frakkar ætla að aðstoða eggjabændur við að koma sér upp nýjum tækjum og hefur heitið 10 milljóna evra styrks til verksins eða um 1,5 milljörðum króna.
Um tugur eggjabúa er starfræktur á Íslandi. Árlega má gera ráð fyrir að um 150-200 þúsund karlkyns hænuungar séu aflífaðir með ýmist mölun eða gösun.