Mölun á dagsgömlum hænuungum er leyfileg aðferð. Matvælastofnun (MAST) hefur eftirlit með varphænsnahaldi í samræmi við kröfur í lögum og reglugerðum en það er „ekki hennar hlutverk að taka afstöðu til siðferðilegra spurninga“.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari Matvælastofnunar við fyrirspurn Kjarnans. Spurt var um tvennt sem Kjarninn hefur fjallað um í fréttum nýverið: Algengan bringubeinsskaða hjá varphænum sem og mölun lifandi karlkyns hænuunga sem bæði Frakkar og Þjóðverjar hafa ákveðið að banna á næsta ári. Ætla má að um 150-200 þúsund karlkyns ungar séu aflífaðir hér á landi árlega, ýmist með mölun eða kæfingu með gasi.
Ekki stendur til af hálfu Matvælastofnunar að rannsaka umfang bringubeinsskaða í íslenskum varphænum. „Það er vegna þess að Matvælastofnun gengur út frá því að vandamálið sé til staðar hérlendis eins og alls staðar erlendis og í sambærilegu umfangi,“ segir í svari stofnunarinnar. Hægt sé „að gefa sér það“ vegna þess að forsendur hér séu nánast þær sömu og erlendis. „Hérlendis eru notaðar sömu varphænsnastofnar og innréttingar. Aðbúnaður, fóðrun og umhirða er í samræmi við erlendar ráðleggingar.“
Í nýlegri danskri rannsókn, sem Kjarninn hefur fjallað ítarlega um, kom fram að 85 prósent varphæna eru með brotið eða sprungið bringubein. Skýringin er m.a. rakin til þess að litlar hænur eru látnar verpa of stórum eggjum og það í gríðarlegu magni á hverju ári.
Brigitte Brugger, sérgreinadýralæknir alifuglasjúkdóma, sem skrifar svar við fyrirspurn Kjarnans fyrir hönd stofnunarinnar, segir að í eftirliti MAST sé bændum leiðbeint að greina skaða á bringubeini. „Hænur eru teknar til að þreifa bringubeinið og kemur þá glögglega í ljós að bringubeinsskaði er algengur þó svo einungis fá dýr séu skoðuð.“
Brigitte segir Matvælastofnun hafa brugðist við þessu vandamáli fyrir nokkrum árum með þátttöku í evrópska samstarfsverkefninu COST Action um bringubeinsskaða KBD (keel bone damage). Eggjabændur voru upplýstir um málið og framvindu rannsókna. „Þó svo að þessu verkefni sé lokið heldur Matvælastofnun áfram að fylgjast með rannsóknum erlendis og mögulegum lausnum til að draga úr þessu vandamáli,“ stendur í svari MAST við fyrirspurn Kjarnans. Stofnunin geti svo miðlað gagnlegum upplýsingum til eggjabænda og ráðlagt um frekari aðgerðir.
„Lausnin verður ekki auðfundin, vandamálið er margþætt og ekki dugar að huga eingöngu að aðbúnaði og innréttingum til að draga úr líkum á að hænur bringubeinsbrotni við að færa sig til í húsinu,“ skrifar Brigitte. Varphænsnastofninn geti einnig skipt máli sem og fóðrun og fleiri þættir. Rannsóknir hafi sýnt að bringubeinsbrot séu einnig að finna í hænsnfuglum sem verpa mun færri eggjum en nútíma varphænsnastofnar. Bringubeinsbrot hafi fundist í villtum hænsnfuglum (red jungle fowl) sem nútíma varpstofnar séu ræktaðir úr svo dæmi séu nefnd.
Kjarninn spurði einnig hvort MAST myndi beita sér fyrir því að reglum um aflífunaraðferðir karlkyns varphænuunga yrði breytt og í stað þess að mala dagsgamla unga yrði farin sú leið sem Frakkar og Þjóðverjar hyggjast fara sem er að kyngreina fóstur í eggi.
Brigitte segir að öll lönd í Evrópu, sem og Matvælastofnun hér á landi, fylgist með þróun mála vegna aflífunar á hanaungum sem „falla til“ við útungun í varphænsnarækt. „Umræðan er fyrst og fremst siðferðisleg, vegna þess að helmingur dýra sem verða til þarf að aflífafa þar sem hanarnir eru ekki notaðir. Til viðbótar þykir aflífunaraðferðin með mölun ómannúðleg.“
Verið sé að skoða margar leiðir til að leysa þetta. Ein sé sú að rækta svokallaðan „Dual-stofn“, þar sem hægt er að nýta kvendýrin, hænurnar, í eggjaframleiðslu en karldýrin, hanana, í kjötframleiðslu. „Sú leið hefur hingað til ekki náð að breiðast út og slíkir stofnar eru mjög lítið notaðir.“'
Kyngreining í eggjum
Önnur leið sé að kyngreina fóstur í eggjum svo hægt sé að taka karlkyns fóstur nægilega snemma úr útungunarvélum og farga þeim áður en taugakerfi er nægilega þroskað til að þeir finni fyrir sársauka. Frakkland og Þýskaland hafa kosið að fara þessa leið og þar með banna aflífun á hanaungum.
„Þessi lönd eru þó ekki alveg sammála hversu gamalt fóstur má vera við aflífun eftir vélræna kyngreiningu,“ bendir Brigitte á. Þýskaland ákvað að í byrjun árs 2024 verði bannað að aflífa fóstur eftir 6. dag í útungun. Í Frakklandi verður það einhverjum dögum seinna.
Fylgjast með þróun annarra aflífunaraðferða
„Mölun á fóstrum í eggjum og dagsgömlum ungum er leyfileg aðferð,“ ítrekar Brigitte. Um hana er fjallað í reglugerð (EB) nr. 1099/2011 um velferð dýra við aflífun sem hefur verið innleidd hér. „Aðferðin með mölun virkar ómannúðleg en það skiptir máli með þessa aðferð eins og með allar aflífunaraðferðir að rétt sé að henni staðið.“
Matvælastofnun fylgist með þróun mála, þá sérstaklega þróun annarra aflífunaraðferða og hvort þær verði teknar upp í löggjöfina. MAST hafi eftirlit með því að varphænsnahald sé í samræmi við kröfur í lögum og reglugerðum en „það er ekki hennar hlutverk að taka afstöðu til siðferðilegra spurninga“.