Flokkur fólksins býður fram í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavíkurborg undir slagorðinu „Fólkið fyrst – í Reykjavík“.
Kolbrún Baldursdóttir er eini borgarfulltrúi flokksins, sem fékk 4,3 prósenta fylgi í kosningunum árið 2018. Samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar fengi flokkurinn 4,9 prósent atkvæða, sem myndi skila Kolbrúnu inn í borgarstjórn á ný.
Flokkurinn hefur kynnt forgangsmál á vef sínum fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Kjarninn leit yfir þau og tók saman það helsta.
Reykjavík eigi nóg land undir lóðir
Í húsnæðismálum segir Flokkur fólksins að eitt helsta hagsmunamál borgarbúa sé að „efnt verði til stórátaks í framboði á lóðum og ódýrum íbúðum“. Flokkurinn segir „sjálfsagt“ að þétta byggð en segir sína forgangröðun vera þá að brjóta strax land undir „ódýrar lóðir í suðurhlíðum Úlfarsfells og svæðinu austur af Úlfarsárdal“.
„Ártúnshöfðinn er langt kominn í skipulagsferli, í Keldnalandi er hægt að byggja meira og Kjalarnes kemst í alfaraleið með Sundabraut. Reykjavík á nóg land undir lóðir. Nýtum það strax og höfum allar lóðir að kostnaðarverði!“ segir um húsnæðismálin í málefnaskrá Flokks fólksins.
Flokkurinnn segist einnig ætla að „tryggja öllum aðgengi að félagslegu húsnæði sem þarfnast þess“ og „skipuleggja svæði undir uppbyggingu húsnæðis fyrir aldraða í umhverfi sem hentar þeirra þörfum“.
Sundabraut í forgang og ekki þrengja að bílum
Í samgöngumálum segist Flokkur fólksins vilja „mæta mismunandi samgönguþörfum borgarbúa, í stað þess að þvinga þá til að nota lausnir sem henta þeim ekki“. Flokkurinn segir að Sundabraut sé „algjört forgangsmál“ og framkvæmdir verði að hefjast sem fyrst og að skipulag borgarinnar megi ekki „þrengja meira að bílaumferð en þegar er orðið“ og taka verði á „óþolandi töfum í umferðinni“.
Flokkurinn vill að það verði frítt í strætó fyrir alla og að tryggja þurfi „aðgengi allra borgara, þ.á.m. bílastæðaaðgengi öryrkja og aldraðra um alla borg“. Flokkurinn segir að miðbær Reykjavíkur megi ekki verða „einkaeign hinna útvöldu“.
Vilja eyða biðlistum og borga foreldrum fyrir að vera heima með börn
Flokkur fólksins segir að 1.900 börn bíði þess að fá faglega aðstoð frá skólaþjónustu Reykjavíkurborgar. „Við munum útrýma slíkum biðlistum,“ segir flokkurinn, en nefnir ekki eina einustu aðgerð sem hægt væri að grípa til í því skyni.
Flokkurinn segist ætla að tryggja aðgengi allra barna að tómstundastarfi, óháð fjárhagsstöðu foreldra og vill einnig koma á gjaldfrálsum máltíðum í skólum „fyrir þau börn sem þarfnast þeirra“.
Flokkur fólksins segist vilja greiða foreldrum sem ákveða að hafa börn sín heima á aldrinum 1 til 2 ára mánaðarlegan styrk sem jafngildi niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir hvert barn í leikskóla. „Þannig eiga foreldrar þess kost að vera heima með börnunum sínum og þar með minnkar álagið á leikskólana,“ segir um þetta í stefnu flokksins.
Flokkurinn segist vilja efla stuðning við viðkvæma hópa eins og öryrkja og aldraða, meðal annars með fjárstyrkjum frá borginni til hagsmunasamtaka þeirra. Flokkur fólksins segir einnig að tryggja þurfi öryrkjum og öldruðum „betra aðgengi að þjónustustofnunum borgarinna, rækta samskipti við þá og koma uppýsingum til þeirra sem nota ekki netlausnir“.
Flokkurinn segir einnig að það þurfi að tryggja „viðeigandi heimaþjónustu“ til að eldri borgarar geti búið eins lengi heima og þeir vilji og flokkurinn segist einnig ætla að „berjast með kjafti og klóm„ fyrir því að útrýma biðlistum vegna skorts á hjúkrunarrýmum í Reykjavík.
„Það er með öllu ótækt að fólk með færni og heilsumat þurfi að dveljast mánuðum saman á Landspítala vegna skorts á hjúkrunarrýmum,“ segir í stefnu flokksins um þetta atriði.