Jón Óttar Ólafsson ráðgjafi Samherja sagði í upphafi febrúarmánaðar á þessu ári að „skoðun“ væri hafin á því hvort fréttamaðurinn Helgi Seljan væri mögulega staddur í Namibíu. „Það er verið að tekka a þvi. Su skoðun byrjaði i dag,“ sagði Jón Óttar í spjalli við skipstjórann Pál Steingrímsson, sem hafði spurt Jón Óttar að því hvort fréttamaðurinn væri staddur í Namibíu.
Þetta er sami Jón Óttar og var opinberaður í lok ágúst í fyrra á síðum Kjarnans fyrir að hafa áreitt Helga ítrekað um nokkurra mánaða skeið, meðal annars með því að sitja fyrir honum á kaffihúsi í miðborg Reykjavíkur og senda honum ógnandi SMS-skilaboð. Í kjölfarið baðst Jón Óttar afsökunar á skilaboðunum sem hann sendi Helga og kom því á framfæri að hann sjálfur hefði verið undir miklu persónulegu álagi vegna neikvæðrar umfjöllunar um hann í fjölmiðlum. Samherji hefði ekkert vitað af því sem hann var að gera.
Helgi Seljan fór til Kýpur undir lok janúarmánaðar og heimsótti borgina Limassol, en þar hafa þónokkur félög Samherjasamstæðunnar verið skráð með skrifstofur. Ferðin var farin til þess að varpa ljósi á umfang starfsemi Samherja á Kýpur og komast í samband við þá sem að nafninu til hafa verið í forsvari fyrirtækja samstæðunnar þar sem stjórnarmenn. Lítil svör fengust og starfsemi Samherja á Kýpur virðist öll í mýflugumynd þrátt fyrir að hafi verið umfangsmikil á pappírum árum saman, eins og þáttur Kveiks varpaði glöggu ljósi á.
Nokkrum dögum eftir að Samherji fékk veður af Kýpurferð Helga birti fyrirtækið yfirlýsingu á vef sínum undir fyrirsögninni „Ríkisútvarpið reynir fyrirsát á Kýpur í ferða- og útgöngubanni“ og gagnrýndi þar að Helgi hefði „freistað þess að endurvinna fréttir um mál sem tengjast útgerð í Namibíu og sett sig í samband við núverandi og fyrrverandi stjórnarmenn félaga sem tengjast Samherja.“ Þar var einnig birt myndband af Helga við störf ásamt kvikmyndatökumanni.
Jón Óttar sagði í samtali við Pál þann 29. febrúar að myndbandið sem Samherji hefði birt á vef sínum kæmi úr öryggismyndavél hjá „lögmannsstofunni okkar“ og Páll lýsti yfir ánægju með birtingu þess. „Haha já ok en djöfull er þetta gott á þá,“ sagði Páll.
Í framhaldinu lýsti Páll þeirri skoðun sinni að Samherji ætti að ráðast í að taka „viðtöl í Namibíu“ því „þessi hópur [innsk. blm.: sennilega fjölmiðlafólks] er ekkert að hætta svo mikið er víst“. Jón Óttar svaraði því til að það væri allt væri tilbúið fyrir slík viðtöl og hægt væri að byrja á þeim strax næsta mánudag.
Í samskiptum Páls við aðra innan Samherja hafði hann ítrekað lýst þeirri skoðun sinni að það ætti að fara til Namibíu og tala við fyrrverandi skipverja sem störfuðu fyrir dótturfélög Samherja þar í landi, því þeir hefðu þá sögu að segja að allur aðbúnaður hefði verið betri þegar Samherji var enn að róa á miðin syðra. Ljóst virtist á Jóni Óttari að slíkt stæði til, þarna í lok janúarmánaðar. Slíkt myndband úr smiðju Samherja hefur þó ekki birst.
Þann 3. febrúar hefur Samherjamenn grunað að Helgi væri mögulega staddur í Namibíu, en óljóst er af þeim samskiptum sem Kjarninn hefur undir höndum af hverju það var. Ein af mörgum spurningum sem Samherji hefur kosið að svara ekki í tengslum við yfirstandandi umfjöllun Kjarnans um starfshætti starfsmanna og ráðgjafa Samherja snýr einmitt að því hvernig þessi „skoðun“ hafi farið fram.
Leitaði til ráðuneytisstjóra eftir upplýsingum
Ofangreint var ekki í eina skiptið sem meintar ferðir Helga Seljan um heiminn báru á góma í samskiptum Samherjafólks. Í upphafi þessa árs ræddi Páll við lögmanninn Örnu McClure um að hann ætlaði sér að komast að því hvort Helgi hefði verið viðstaddur er uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson fór til Berlínar í Þýskalandi árið 2019 og gaf namibískum yfirvöldum skýrslu um Namibíumálið í sendiráði landsins þar í borg.
Páll sagðist þann 3. janúar ætla að leita til persónulega til Martins Eyjólfssonar, fyrrverandi sendiherra í Þýskalandi og núverandi ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, og grennslast fyrir um þetta – hvort Helgi Seljan hefði farið með Jóhannesi til Berlínar. Páll sagði við Örnu að hann ætlaði að „heyra í Martin“ því Martin hefði eitt sinn sagt að hann myndi hiklaust ráða sig í borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins.
„Var að tala við Martin Eyjólfs,hann er núna ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu 😃“ sagði Páll síðan við Örnu þann 4. janúar og lét fylgja að það hefði verið „mjög gott spjall“ sem Páll sagðist ætla að „segja mönnum af“ því hann teldi það endurspegla „svolítið hvað fólk er að hugsa“, en ekki var þó á Páli að skilja að hann hefði fengið nokkrar upplýsingar frá ráðuneytisstjóranum.
Kjarninn bar þessi samskipti undir Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu.
„Ég get staðfest að Páll Steingrímsson leitaði til mín í byrjun árs til að kanna möguleika á aðstoð utanríkisþjónustunnar. Eins og viðbrögð Páls bera með sér var ekki unnt að verða við beiðninni enda fellur hún utan verksviðs utanríkisþjónustunnar og kom því ekki inn á borð hennar,“ segir Martin í skriflegu svari til Kjarnans.
Blaðamaður spurði Martin einnig um kynni hans og Páls, en Páll sagði Örnu frá því að þeir hefðu kynnst fyrir nokkrum árum og haldið sambandi. Martin segist málkunnugur Páli vegna vandasams borgaraþjónustumáls frá þeim tíma er hann gegndi embætti sendiherra í Berlín.
„Sökum eðlis slíkra mála get ég ekki greint frekar frá því en samstarf sendiráðsins og Páls við úrlausn þess máls gekk með ágætum,“ segir Martin.
Páll sagði við Örnu í spjalli þeirra tveggja að Martin bæri mikla virðingu fyrir honum og að hann hefði sagt við Máa, Þorstein Má Baldvinsson, að fyrirtæki sem hefði mann eins og Pál innanborðs væri ekki á flæðiskeri statt.
Kjarninn spurði Martin út í þessi samskipti og hvort hann ætti einhverjar skýringar á þeim orðum sem voru eignuð honum í samtali Páls og Örnu.
„Varðandi þau orð sem eftir mér eru höfð hef ég sennilega getið samskipta Páls og sendiráðsins við úrlausn áðurnefnds borgaraþjónustumáls og hrósað honum í samtali sem ég átti við Þorstein Má Baldvinsson nokkru síðar í Cuxhaven við nafngiftarathöfn tveggja nýrra skipa Deutsche Fischfang Union, dótturfélags Samherja. Þangað var ég boðinn sem sendiherra Íslands,“ segir Martin.
Páll sagði við Örnu að hann hefði sagt Jóni Óttari frá samskiptum sínum við Martin.
„Ég sagði Jóni Óttari frá samtali mínu við Martin til að nota á okkar menn, til að benda á hvaða fólk við erum að tala við þegar að við erum að koma fram með okkar málstað" skrifaði Páll.