Stefán Már Símonarson, formaður Félags eggjabænda og framkvæmdastjóri Nesbús, telur að um næstu áramót verði noktun búra í eldishúsum varphæna hætt „að mestu“. Til stóð að banna að halda hænur í búrum á eggjabúum um síðustu áramót en fyrrverandi landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, ákvað að gefa bændum árs frest til viðbótar til að losa sig við búrin.
Reglugerðin var kynnt og ákveðin með sex ára fyrirvara svo bændurnir hafa um næstu áramót fengið sjö ár til að undirbúa umskiptin. Þau eru kostnaðarsöm því í stað búranna hafa bændur víða um lönd gripið til þess ráðs að setja upp svokölluð pallakerfi, kerfi sem miða að því að koma sem flestum dýrum fyrir í hverju húsi. Þannig hefur krafa um lausagöngu hæna, sem varð hávær fyrir mörgum árum, verið uppfyllt. Slíkur búnaður er nú þegar til staðar á mörgum búum hér á landi, að minnsta kosti að hluta.
Stefán Már segir í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans að þeir bændur sem ekki verði búnir að klára breytingarnar, þ.e. að leggja búrin af, séu þeir sem ætli að hætta framleiðslu. „Eftir því sem ég best veit þá munu tvö lítil bú hætta og í öðru tilvikinu er um aldraðan bónda að ræða,“ segir hann. „Það verður held ég ekki mikil framleiðsluminnkun vegna þessa og eflaust munu aðrir stækka eitthvað á móti.“
Brigitte Brugger, sérgreinadýralæknir í heilbrigði og velferð alifugla hjá Matvælastofnun (MAST, segir að samkvæmt reglugerðinni og bráðabirgðaákvæðinu sem sett var í fyrra skuli notkun á hefðbundnum búrum hætt 31. desember 2022. „Svo að það er rétt skilið að ekki er heimilt að halda hænur í hefðbundnum búrum eftir það,“ segir hún við Kjarnann.
Í reglubundnu og sérstöku eftirliti fylgist Matvælastofnun með að ákvæðinu sé framfylgt. Á þessum tímapunkti liggja ekki fyrir upplýsingar hjá stofnuninni hver framvinda hjá eggjaframleiðendum er og hvað það eru mörg hús í dag sem eru ennþá í notkun þar sem hænur eru haldnar í hefðbundnum búrum.
Hins vegar er Matvælastofnun með upplýsingar um það hversu mörg hús eru til á landinu sem hafa verið tekin út samkvæmt reglugerðinni og sem hafa uppfyllt skilyrði hennar varðandi húsakost, búnaði og þekkingu.
„Þau hús skiptast þannig að 40% húsa eru með hefðbundnum búrum og 60% húsa eru lausagönguhús,“ segir Birgitte.
Búr voru bönnuð með sambærilegri reglugerð í öðrum Evrópuríkjum árið 2012 eða fyrir áratug. Íslenskir bændur hafa því fengið mjög rúman frest til aðlögunar.
Þótt búrin verði bönnuð verður eitt helsta heilsufarsvandamál varphæna í þauleldi ekki úr sögunni. Bringubeinsskaði sem er talinn hrjá um 85 prósent allra varphæna í stórum eldishúsum, hér sem annars staðar, hlýst ekki af verunni í þröngum búrum. Tvennt er talið valda því að svo mikill fjöldi hæna er ýmist eð sprungið eða brotið bringubein. Annars vegar sú staðreynd að litlar hænur eru látnar verpa mjög mörgum eggjum og stórum. Vísindamenn í Danmörku, sem rannsakað hafa málið, segir þetta geta verið skaðlegt fyrir dýrin.
Hitt er svo „brotlending“ hæna á búnaði í eldishúsunum. Hænur eru ekki góðir flugfuglar en þær flögra þó um, sérstaklega ef þær fyllast ofsahræðslu. Þá geta þær lent á innréttingum í eldishúsunum, „brotlenda“ líkt og Birgitte orðaði það í ítarlegum fréttaskýringum Kjarnans um málið í fyrra.
Æviskeið varphænu er stutt. Er ungarnir koma úr eggi er eins og gefur að skilja um helmingurinn hanar. Ungarnir eru kyngreindir við útungun og hanarnir aflífaðir. Nota má tvenns konar aðferðir við það hér á landi; gösun með koldíoxíði og mölun (e. shredding).
Hænurnar eyða hins vegar um það bil fyrstu fjórum mánuðum lífs síns í svokölluðum uppeldishúsum en um það leyti sem þær verða kynþroska og byrja að verpa eru þær fluttar í varphús. Er þær ná um 16-18 mánaða aldri eru þær drepnar með gösun, hræjunum fargað og nýr varphænuhópur fluttur inn í húsin.
Sársaukafullt
Hæna með bringubeinsskaða ber það ekki endilega utan á sér. Hún getur jafnvel haldið áfram að verpa. Brotin bein valda þeim að sjálfsögðu sársauka, líkt og öðrum dýrum með sambærileg mein.
Engar rannsóknir hafa verið gerðar á bringubeinsskaða varphæna hér á landi en allar aðstæður eru þær sömu og t.d. í Danmörku, svo yfirfæra má rannsóknarniðurstöðu vísindamanna þar í landi.
Með því að hætta með búrin geta hænurnar „meira sýnt sitt eðlilega atferli,“ sagði Brigitte um ávinninginn af reglugerðarbreytingunni. „Í búrunum geta þær lítið annað gert en að drekka og éta. Þær geta ekki sandbaðað sig. Þær geta ekki hvílst á prikum eins og þeim er eðlilegt. Þær geta ekki dregið sig í hlé til að verpa í hreiðri. Þannig að með því að taka búrin þá fá þær að minnsta kosti þennan aðbúnað, geta hreyft sig miklu meira og það styrkir líka beinin.“
Það er þó ekki þannig að þessi breytti aðbúnaður muni útrýma bringubeinsskaða. Síður en svo. „Bringubeinsskaði er vandamál hjá hænum í búrum en hann er ekkert minna vandamál hjá lausagöngu hænum af því að þá eru meiri líkur á árekstrum,“ benti Birgitte á í samtali við Kjarnann í fyrra.
Á Íslandi eru að jafnaði um 260 þúsund varphænur.