Fimleikasamband Íslands (FSÍ) hefur fengið tilkynningar um fimm tilfelli er varða kynferðislega áreitni eða ofbeldi inn á borð til sín á síðustu fjórum til fimm árum. Á vef sambandsins er sérstakur tilkynningarhnappur þar sem hægt er að tilkynna mál til sérstaks fagráðs.
Þetta kemur fram í svari FSÍ við fyrirspurn Kjarnans.
„Stjórn FSÍ hefur á síðustu misserum lagt mikla áherslu að búa til þannig umhverfi að ef iðkendur hafa upplifað erfiða lífsreynslu geti þeir leitað til sambandsins og við stutt þá og brugðist við,“ segir í svarinu.
Þjálfara sagt upp störfum eftir tilkynningar
Fram kemur hjá FSÍ að í lok árs 2016 hafi sambandið fengið ábendingu frá fagteymi þeirra um ósæmilega hegðun þjálfara í landsliðsverkefni á vegum sambandsins. Í kjölfarið hafi málið verið tilkynnt til Íþrótta-og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) en þjálfarinn var þá að störfum við þjálfun í félagi innan þeirra raða.
Samkvæmt FSÍ var stjórn viðkomandi félags upplýst um málið og þjálfarinn boðaður á fund hjá FSÍ þar sem honum hafi verið tilkynnt að málið hefði borist á borð stjórnar og að hann kæmi ekki til greina sem þjálfari í verkefnum á vegum sambandsins aftur. Málið hafi sömuleiðis verið tilkynnt til barnaverndar.
Í lok árs 2017 hafði félagið sjálft fengið fleiri tilkynningar um þjálfarann og var honum í framhaldinu sagt upp störfum, að því er fram kemur í svarinu. FSÍ hafi þá aftur komið inn í málið til að styðja við félagið, safnað upplýsingum og tilkynnt hann aftur til barnaverndar, sem hafi leitt til rannsóknar hjá lögreglu. Þjálfarinn sem um ræðir er af erlendu bergi brotinn og fluttist af landi brott í framhaldinu, að því er fram kemur hjá FSÍ.
Endurskoðuðu siðareglur sambandsins í kjölfarið
Eftir reynslu sambandsins af þessu máli ákvað stjórn FSÍ að stofna óháða aga- og siðanefnd sem starfar sem leiðbeinandi nefnd fyrir iðkendur og félögin. Í henni sitja lögmaður, læknir og sálfræðingur. Hægt er að tilkynna mál til nefndarinnar og fá ráð nafnlaust, kjósi viðkomandi það.
Samhliða stofnun aga- og siðanefndar FSÍ, voru siðareglur sambandsins endurskoðaðar og í kjölfarið sendar til félaganna, þeim til leiðsagnar.
Fleiri mál áttu eftir að koma inn á borð sambandsins. Fram kemur hjá FSÍ að í byrjun árs 2018 hafi landsliðskona leitað til þeirra með mjög erfiða lífsreynslu í keppnisferð á vegum FSÍ, þar sem henni hafi verið nauðgað af keppanda frá öðru landi.
Samkvæmt FSÍ voru viðbrögð stjórnar við þeim fréttum þau „að allt kapp var lagt á að standa við bakið á konunni, henni veittur sá stuðningur sem hana vantaði og við hvöttum hana eindregið til að segja sína sögu og vorum til staðar fyrir hana og hjálpuðum henni við undirbúning og framsetningu“.
Eitt mál nú til meðferðar hja aga- og siðanefnd FSÍ
Í fyrra leituðu síðan konur til FSÍ vegna erfiðrar reynslu á árunum 2008 til 2013 þar sem félagsþjálfari þeirra áreitti þær kynferðislega um árabil. „Þegar að svo langt var liðið frá þessum erfiðu atburðum var þjálfarinn, sem var af erlendu bergi brotinn, fluttur af landi brott og var því ákveðið, í samráði og samvinnu við félagið, að tilkynna málið til samskiptaráðgjafa íþróttahreyfingarinnar, sem hafði nýlega hafið störf. Þar fengu konurnar ráðgjöf og sálfræðiþjónustu. Félagið sem um ræðir hafði á sínum tíma brugðist við tilkynningu þeirra með því að segja þjálfaranum upp störfum,“ segir í svari FSÍ.
Nýjasta tilkynningin barst á borð stjórnar fyrir stuttu. Samkvæmt FSÍ á félagsþjálfari að hafa nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart iðkanda. Málið hafi verið tilkynnt til aga- og siðanefndar sambandsins og sé þar til meðferðar.
Krefjast nú sérstakt þjálfaraleyfis
FSÍ segist hafa farið í mikla vinnu til að bregðast við málum sem þessum – bæði sem komið hafi upp hér á landi sem og í fimleikahreyfingunni erlendis.
„Tekið var inn í samninga við landsliðsþjálfara FSÍ að óskað er eftir leyfi til uppflettingar í sakaskrá og slíkt er gert áður en samningur er kláraður.
Árið 2017 var tekin ákvörðun um að fræða þjálfara í fimleikum enn frekar og ákveðið að setja upp kerfi þar sem krafist er sérstaks þjálfaraleyfis til að þjálfa ólíka iðkendahópa. Eitt af skilyrðunum til að fá þjálfaraleyfi er að þjálfarar mæta á fræðsludag FSÍ sem haldinn er á hverju hausti, þar sem tekin eru fyrir málefni líðandi stundar í samfélaginu hverju sinni,“ segir í svari FSÍ. Í fyrra, á fræðsludegi ársins 2020, voru samskipti við iðkendur, siðareglur FSÍ og transbörn í íþróttum í brennidepli.
Vilja setja aukinn kraft í forvarnir og greiningu á stöðu mála
Þing Fimleikasambands Íslands árið 2020 fagnaði því að opin umræða hefði átt sér stað um það ofbeldi sem hefur liðist í fimleikahreyfingum víðs vegar um heiminn, því aðeins með hispurslausri umræðu væri hægt að sporna við því að slíkt ofbeldi liðist í framtíðinni.
„Iðkendur eiga rétt á öruggu umhverfi án alls ofbeldis. Við ætlum öll að taka höndum saman um að ofbeldi í hvaða formi sem er innan fimleikahreyfingarinnar verði ekki liðið. Við erum öll sammála um að standa sameiginlega vörð um faglega meðhöndlun á þeim málum sem upp kunna að koma og við hvetjum jafnframt alla iðkendur og aðra innan hreyfingarinnar til að tilkynna til aganefndar Fimleikasambandsins ef þeir upplifa ofbeldi af einhverju tagi við fimleikaiðkun. Til að fyrirbyggja að iðkendur og aðrir innan hreyfingarinnar verði fyrir ofbeldi og áreitni ætlum við að stuðla að menningu virðingar og jafningjasamskipta og setja aukinn kraft í forvarnir og greiningu á stöðu þessara mála hér á landi,“ segir í ályktun þingsins síðan í fyrra.
Þá felur samþykkt aðgerðaráætlun sambandsins meðal annars í sér að farið verði í rannsókn á andlegri líðan iðkenda innan sambandsins til að hægt sé að meta næstu skref á þessari vegferð og standa viðræður yfir við háskólasamfélagið um samstarf.
Á nýafstöðnu Fimleikaþingi þann 4. september síðastliðinn fékk stjórn FSÍ samskiptaráðgjafa Íþróttahreyfingarinnar til að halda erindi með það að markmiði að kynna vel fyrir félögunum hvernig þjónusta hennar virkar í þeim tilgangi að auðvelda félögum að tilkynna mál af þessu tagi til hennar núna og síðar meir, ef einhver væru.