„Þetta er viljayfirlýsing og því engin niðurstaða komin í málið,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, spurður hvort stjórnendum bankans þyki viljayfirlýsing sem gerð hefur verið við eigendur kísilversins á Bakka um möguleg kaup á kísilverksmiðjunni í Helguvík, samræmast stefnu bankans, grænu vegferðinni. Í stefnunni segir m.a.: „Við hjá Arion banka viljum stöðugt gera betur og viljum að verkefnin sem við styðjum viðskiptavini okkar í hafi jákvæð áhrif á bæði umhverfi og samfélag.“
Augljós og mikil andstaða er meðal bæði bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ og íbúa sveitarfélagsins við þau áform Stakksbergs, dótturfélags Arion banka, að gera endurbætur á verksmiðjunni, endurræsa hana og stækka. „Auðvitað vonumst við til að niðurstaðan, hver sem hún verður, verði í sem mestri sátt við samfélagið,“ svarar Haraldur Guðni ennfremur.
Hann segir stjórnendur Arion banka hafa um nokkurt skeið kannað ýmsa möguleika varðandi framtíð kísilverksmiðjunnar í Helguvík. „Bankinn hefur haft það markmið að annað hvort finna hæfa aðila með viðurkennda reynslu af starfsemi kísilvera til að taka við starfsemi kísilversins eða finna aðra lausn sem þá fæli ekki í sér að starfsemi hæfist á ný í kísilverinu,“ segir Haraldur.
Líkt og Kjarninn greindi frá í gær hafa Arion banki og PCC nú undirritað viljayfirlýsingu varðandi möguleg kaup PCC SE, meirihlutaeiganda PCC BakkiSilicon hf., á verksmiðjunni. „Þar sem um viljayfirlýsingu er að ræða er á þessum tímapunkti óvíst hvort af kaupunum verði,“ segir í skriflegu svari Haraldar til Kjarnans við þeirri spurningu hvort Arion banki ætli, þrátt fyrir hina miklu andstöðu í Reykjanesbæ, að halda því til streitu að selja verksmiðjuna.
Vilji bæjaryfirvalda stendur til þess að verksmiðjan verði rifin og sagði Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs í samtali við Kjarnann fyrr í vikunni að á því hefðu aðilar sýnt áhuga.
Haraldur segir að einn af þeim kostum sem hafi verið til skoðunar á undanförnum árum sé sá að flytja verksmiðjuna, „en nú er málið komið í þennan farveg og við þurfum bara að sjá hvernig því mun vinda fram“.
Félagið Sameinað sílikon (United Silicon) rak kísilverksmiðjuna um tíu mánaða skeið á árunum 2016-2017. Allan þann tíma gekk reksturinn illa og hundruð kvartana bárust frá íbúum vegna ólyktar og heilsufarslegra óþæginda. Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemina haustið 2017. Sameinað Sílikon fór í þrot og stærsti kröfuhafi verkefnisins, Arion banki, tók eignirnar yfir.
Bankinn ætlar sér vissulega ekki sjálfur að reka kísilver. Dótturfélag hans, Stakksberg, hefur síðustu ár unnið að nýju umhverfismati fyrir verksmiðjuna sem miðar að endurbótum á henni, endurræsingu og stækkun úr einum ljósbogaofni í fjóra. Matinu lauk með áliti Skipulagsstofnunar sem gefið var út á gamlársdag. Sala á verksmiðjunni, með hvaða hætti sem hún á sér stað, hefur ávallt verið markmið bankans.
„Áhugavert væri að sjá grænni starfsemi“
Það hefur hins vegar ekki alltaf legið beint við að kísilmálmbræðsla hefjist í verksmiðjunni að nýju í Helguvík. Á uppgjörsfundi í febrúar á síðasta ári sagði Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, að þar sem bankinn bókfærði aðeins hrakvirði á verksmiðjuna væri það „vísbending um að litlar vonir séu um að verksmiðjan muni starfa aftur, áhugavert væri að sjá aðra og græni starfsemi eiga sér stað þar í framtíðinni“.
Er þessi orð voru látin falla, fyrir tæpu ári síðan, hafði bankinn fært niður bókfært virði Stakksbergs um 5,3 milljarða á innan við tveimur árum. Virði þess var því þá 1,6 milljarðar króna.
En nú er eignin, löskuð verksmiðja sem ekki hefur verið starfrækt í rúmlega fjögur ár, en með stimpli Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum endurbóta og stækkunar, orðin söluvænni en áður. Verð á kísli hafði verið á niðurleið áður en heimsfaraldurinn skall á. Flestar hrávörur hafa hins vegar hækkað í verði undanfarna mánuði og er kísill þar engin undantekning.