Kjarninn greindi frá því á laugardag að drög skýrslu um þjóðhagsleg áhrif Leiðréttingarinnar hafi verið tilbúin í janúar 2016. Lokadrög voru tilbúin í júní 2016. Vinnslu við skýrsluna var síðan lokið í október 2016, fyrir síðustu kosningar. Skýrslan var hins vegar ekki birt fyrr en 18. janúar 2017, í kjölfar ítrekaðra fyrirspurna frá Kjarnanum um hana. Reyndar voru fleiri sem höfðu forvitnast um afdrif skýrslunnar. Þingmennirnir sem báðu um að hún yrði gerð spurðust fyrir um hana á Alþingi 11. október 2016, rúmum tveimur vikum fyrir kosningar. Þá sagðist Einar K. Guðfinnsson, þáverandi forseti Alþingis, ætla að kanna hvernig á því stæði að skýrslan væri ekki enn komin til þingsins. Sú umleitan skilaði engu.
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði við það tilefni í ræðustól Alþingis: „Maður spyr sig þá hvort þarna séu spurningar sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra [Bjarni Benediktsson] treysti sér ekki til þess að upplýsa um svörin við. Þarna er spurt um tekjur, eignir, hverjir fengu niðurgreiðsluna. Er það ekki einmitt eins og bent hefur verið á að þarna var ríku fólki rétt ríkisfé og stuðningur? Ég leyfi mér að fullyrða að þess vegna sé skýrslan ekki komin fram.“
Ógjörningur er að svara með fullvissu hvaða ástæður voru fyrir því að Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, ákvað að birta ekki skýrsluna fyrir kosningar. En það reyndist rétt hjá Oddnýju að hún staðfesti svart á hvítu að með Leiðréttingunni hafiríku fólki verið rétt ríkisfé. Og fullt af því.
Tók lengri tíma en öll framkvæmd Leiðréttingarinnar
Skýrslan sem um ræðir er átta blaðsíður og í henni eru valdar upplýsingar settar fram. Það liðu 19 mánuðir frá því að beðið var um hana á Alþingi af þingmönnum fjögurra flokka og þar til að hún var loks birt. Til að setja þann tíma í samhengi þá tók það ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hálft ár að láta vinna 58 blaðsíðna skýrslu þar sem höfuðstólslækkun húsnæðislána var rökstudd og framkvæmd aðgerðarinnar kynnt. Ári síðar, í nóvember 2014, var framkvæmdin að mestu frá og hlaðið var í 84 blaðsíðna glærukynningu í Hörpu þar sem farið var yfir valdar niðurstöður úr aðgerðinni.
Það tók því skemmri tíma – tæpa 18 mánuði – að undirbúa þess fordæmalausu aðgerð, smíða aðgerðaráætlun og lagafrumvörp, samþykkja lög, framkvæma Leiðréttinguna, skipuleggja útgreiðslur úr ríkissjóði vegna hennar og taka saman valdar en blekkjandi upplýsingar um hvernig hún skiptist til þess að fegra aðgerðina, en það tók að koma út átta blaðsíðna skýrslu um hvernig þessir 72,2 milljarðar króna skiptust á milli þjóðarinnar allrar.
Eina sem gert var við skýrsluna frá því í október 2016 og þangað til að hún var birt í janúar 2017 var að einni efnisgrein var bætt fremst í hana. Sú efnisgrein er eftirfarandi: „Fjármála- og efnahagsráðherra hefur ákveðið að leggja fyrir Alþingi skýrslu um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána á grundvelli 53. gr. laga um þingsköp Alþingis nr. 55/1991. Skýrslan var unnin á starfstíma síðasta þings á grundvelli skýrslubeiðnar þingmanna og fjallar um þau atriði sem þar var óskað eftir að tekin yrðu til umfjöllunar og er framsetning skýrslunnar í samræmi við það.“
Líklega er fátt sem átti jafn mikið erindi við almenning fyrir kosningar og þessi skýrsla. Leiðréttingin var stærsta kosningaloforðið árið 2013 og það sem tryggði Framsóknarflokknum forsætisráðuneytið í síðustu ríkisstjórn. Þegar kjósendur voru að gera upp verk ríkisstjórnarinnar þá skipti öllu máli að hafa upplýsingar um hvernig 72,2 milljarðar króna sem teknir voru úr ríkissjóði og færðir til hluta þjóðarinnar – að mestu tekju- og eignarmesta hluta hennar – skiptust.
Bjarni Benediktsson tók hins vegar ákvörðun um að birta hana ekki.
Önnur skýrslan sem ekki var birt
Þetta er önnur skýrslan sem greint hefur verið frá að hafi verið tilbúin fyrir kosningarnar í október síðastliðnum, en pólitísk ákvörðun var tekin um í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að birta ekki. Hin var skýrsla starfshóps sem skoðaði umfang aflandseigna Íslendinga og áætlaði hversu miklu eigendur slíkra eigna hefðu stungið undan skatti. Sú skýrsla var tilbúin um miðjan september 2016 og kynnt fyrir Bjarna Benediktssyni, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, í byrjun október saman ár. Skýrslan var ekki birt fyrr en 6. janúar, eftir að Kjarninn hafði ítrekað spurst fyrir um afdrif hennar.
Ástæða þess að kosið var í október 2016 en ekki í apríl 2017 var sú opinberun á aflandsfélagaeignum, m.a. stjórnmálamanna, sem birtist almenningi í Panamaskjölunum og umfjöllun fjölmiðla um þau. Í skýrslunni er farið yfir það hvernig hluti þjóðarinnar hafi ferjað gríðarlegt magn af fé sem varð til á Íslandi til aflandsfélaga til að komast undan því að greiða skatta hérlendis. Hluti var að brjóta lög, en flestir nýttu sér einfaldlega ömurlega tvísköttunarsamninga og ótrúlega sterkan vilja íslenska stjórnvalda til að bjóða útvöldum upp á skattahagræði sem venjulegu launafólki býðst aldrei. Það var beinlínis pólitísk ákvörðun að heimila fjármagnseigendum skattasniðgöngu. Ákvörðun sem tekin var af ríkisstjórnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem sátu frá 1995 til 2007.
Í skýrslunni kemur líka fram að eftirlit með peningaþvætti hérlendis hefur verið brandari. Kjarninn hefur greint frá því á undanförnum vikum að það hefur að mestu verið í höndum banka sem eiga að fylgjast með og tilkynna eigin viðskiptavini, en tilkynntu auðvitað engan. Eftirlitsmenn líktu Íslandi við Suður Súdan og Norður Kóreu þegar kom að eftirliti með peningaþvætti. Allt þetta eru upplýsingar sem eiga skýrt erindi við almenning og skiptir hann miklu máli. Bjarni sagði meira að segja sjálfur að hann teldi það „hafa verið gríðarlega mikilvægt að taka hana [skýrsluna] saman.“
Samt taldi ráðherrann að skýrslan þyrfti ekkert að birtast fyrir kosningar.
Hvað er spilling?
Spilling er mikið notað orð í íslenskri þjóðfélagsumræðu og Ísland er samkvæmt sérstakri spillingarvísitölu spilltast allra Norðurlanda. Samkvæmt orðabók þýðir hugtakið misnotkun á valdi eða stöðu þar sem einstakir aðilar eða hópur þeirra nýtir sér aðstöðu sína á óeðlilegan hátt til að hafa áhrif á stöðu mála, oftast til að hagnast á því.
Með því að birta ekki þessar tvær skýrslur fyrir kosningar þá var komið í veg fyrir að hægt yrði að eiga pólitíska umræðu um þær niðurstöður sem settar eru fram í þeim. Þess í stað fór umræða um aflandsfélagaeign og skattaundanskot þeirra sem slíkar áttu fram í upphrópunarstíl og án þess að byggja á neinu. Þess í stað fór umræðan um Leiðréttinguna, stærsta kosningaloforð síðustu ríkisstjórnar, fram án þess að þjóðhagsleg skipting hennar væri opinber og ábyrgðarmenn aðgerðarinnar gátu borið fyrir sig röksemdarfærslur sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum.
Það fullyrða margir að þessar upplýsingar hefðu ekki haft nein áhrif á niðurstöður kosninga hvort eð er. Kosningarnar hafi snúist um eitthvað allt annað. Það er óboðleg réttlæting. Þeir sem slíkt segja hafa ekki hugmynd um það hvort og þá hvaða áhrif staðreyndamiðuð umræða um skattaskjól og þjóðhagsleg áhrif Leiðréttingarinnar hefði haft á kosningarnar. Og það er ekkert hægt að verja það að sitja á upplýsingum sem skipta almenning sannarlega máli með slíkum fáránlegum eftiráskýringum.
Þegar stjórnmálamaður ákveður að birta ekki opinberlega upplýsingar sem eiga skýrt erindi við almenning fyrr en það hentar honum sjálfum þá er það misnotkun á valdi og stöðu. Það hefur á óeðlilegan hátt áhrif á stöðu mála. Ef upplýsingarnar sem um ræðir eru honum eða hans flokki skaðlegar þá er augljóst að viðkomandi stjórnmálamaður hagnast pólitískt á því að birta þær ekki. Þetta hlýtur að vera óumdeilanlegt.
Þörf á skýrri afstöðu
Svona framferði er algjörlega ólíðandi og það verður að taka afstöðu gegn því. Það verða fjölmiðlar með tilgang, stjórnarandstaða með erindi, stjórnarliðar með sjálfsvirðingu og almenningur sem er ekki sama að gera.
Einungis 17 prósent landsmanna treysta Alþingi. Það þarf að vinna sér inn traust með aðgerðum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar segir m.a.: „Unnið verður að því að byggja upp traust á grunnstoðum samfélagsins, meðal annars Alþingi[...]Ríkisstjórnin mun í öllum störfum sínum hafa í heiðri góða stjórnarhætti og gagnsæja stjórnsýslu.“ Óttarr Proppé, einn forystumanna ríkisstjórnarinnar, sagði daginn fyrir kosningarnar í október að Björt framtíð leggi „áherslu á vöndum vinnubrögð, breitt samráð og baráttu gegn fúski og sérhagsmunagæslu.“
Þetta hljómar innantómt í ljósi þess að sá sem leiðir ríkisstjórnina hefur tvívegis verið uppvís að því á örfáum dögum að leyna almenning vísvitandi upplýsingum.