Eitt helsta fréttamál vikunnar er án efa viðtal Steinunnar Valdísar þar sem hún lýsti því ofbeldi sem hún varð fyrir þegar þjóðþekktur maður hvatti til nauðgunar á henni. Hún talaði einnig um upplifun sína af því þegar mótmælendur fylktu liði að heimili hennar og sátu fyrir henni og fjölskyldu hennar í um fimm vikur.
Í kjölfar viðtalsins fór ákveðin umræða af stað á samfélagsmiðlum sem kemur svo sem ekki á óvart í svo stóru máli en hún hefur einkennst af samsuðungi milli þessara tveggja atburða. Annars vegar mótmælanna og hins vegar hótunarinnar.
Sjá má merki þess að hlutirnir og viðhorf séu að breytast. Það sem áður var viðurkennd hegðun er það ekki lengur.
Hótun um ofbeldi
Sá samfélagssáttmáli sem var viðloðandi á þessum árum og er í raun enn við lýði var þess eðlis að kynferðislegt áreiti var ekki litið hornauga nema um afmörkuð dæmi væri að ræða.
Hin tíðrædda færsla Egils „Gillzeneggers" Einarssonar frá árinu 2007 þar sem hann hvatti til kynferðisofbeldis á Steinunni Valdísi og fleiri konum hefur farið eins og eldur um sinu þar sem hann kallar hana portkonu fyrir að vilja breyta orðinu ráðherra í ráðfrú fyrir konur. „Steinunn þarf lim og það strax. Á hana Steinunni Valdísi dugar ekkert annað en lágmark tveir harðir og munu Buka og Yao taka þetta verkefni að sér. Fréttastofan ákvað að gefa Ásgeiri Kolbeinssyni frí í þetta skiptið, en Fréttastofan vill ekki hafa það á samviskunni að Ásgeir finnist hangandi í ljósakrónu í vesturbænum,“ segir hann meðal annars í færslunni.
Egill hefur nú beðist afsökunar á þessari tilteknu færslu en eftir standa öll hin skrifin, bloggfærslurnar og bækurnar, þar sem talað er með vafasömum hætti um konur. Batnandi mönnum er án efa best að lifa en Egill er ekki meginvandamálið sem þjóðfélagið þarf að takast á við. Skrif hans eru sjúkdómseinkenni mun stærra vandamáls sem nú er verið að reyna að útrýma.
Við sjáum það stanslaust nú um dagana hvernig konur þurfa að kljást við ofbeldi og áreiti en sögur þeirra kvenna sem komið hafa fram eru í senn sláandi og hryllilegar. Þessar sögur eru nálin sem stingur á þetta risastóra kýli.
Þjóðfélagsnormið molnar fyrir framan augun á okkur eftir því sem sögunum fjölgar og keisarinn lítur niður á rauðan kroppinn. Við vissum þetta öll en flestir sátu aðgerðarlausir hjá. Ef árangur herferðarinnar #metoo verður eins og allt stefnir í þá verður ekki aftur snúið og fólk mun ekki getað lokað augunum að nýju fyrir því áreiti sem konur þurfa að líða og því valdaójafnvægi sem ríkir milli kynjanna.
Mótmæli og mótmæli
Mótmælin sem beindust að Steinunni Valdísi lýstu sér í því að mótmælendur stóðu fyrir utan heimili hennar í fleiri vikur. Í viðtalinu í Silfrinu lýsti hún því sem ofbeldi. „Það eru núna tæplega átta ár síðan ég lenti í mínu ofbeldi vil ég segja, og ég hugsa stundum til baka og svona kemst að þeirri niðurstöðu að kannski hafi ég ekki brugðist rétt við á sínum tíma vegna þess að það ofbeldi átti náttúrulega ekkert að líðast,“ sagði hún.
Þannig talar hún ekki bara um nauðgunarhótunina sem ofbeldi, heldur einnig þessa hegðun mótmælenda sem hér um ræðir.
Margir í gamla flokknum hennar Samfylkingunni og fleiri stjórnmálamenn hafa stigið fram og fordæmt mótmælin og sagst skammast sín fyrir að hafa ekki staðið betur við bakið á henni.
En þá er vert að spyrja hvort mótmæli af þessu tagi séu í raun ofbeldi. Miðað við frásögn Steinunnar Valdísar af reynslu sinni og viðbrögð fólks eftir á þá má með sanni segja að svo sé. Farið var yfir strik sem afmarkar eitthvað sem heitir mótmæli yfir í áreitni eða aðkast. Staðsetningin skiptir þarna megin máli. Heimili fólks er heilagt og ætti að vera það.
Að því sögðu er nauðsynlegt að bæta því við að það að mótmæla gjörðum stjórnmálamanna ætti að vera leyfilegt enda nauðsynlegt aðhald í lýðræðislegu samfélagi. Það er aftur á móti tilefni í aðra umræðu.
Farið er að hlusta
Frásagnir kvenna úti um allan heim eru að breyta samfélagssáttmála okkar. Konurnar sem greindu frá reynslu sinni og rufu þagnarmúrinn voru valdar persóna ársins hjá tímaritinu TIME í gær en það sýnir að farið er að hlusta.
Í tilkynningu TIME segir að fólk sem brotið hefur þagnarmúrinn varðandi kynferðislegt ofbeldi og áreitni sé af öllum kynþáttum, úr öllum stéttum, sinni ýmiss konar störfum og búi víðs vegar í heiminum. Sameiginleg reiði þeirra hafi haft í för með sér gríðarlega miklar og átakanlegar afleiðingar. Vegna áhrifa þessa fólks á árinu 2017 hafi það því hlotið titilinn manneskja ársins.
Slíkt hið sama hefur sýnt sig hér á landi, þ.e. að konur úr ýmsum stéttum, á öllum aldri og hvaðanæva af landinu segja frá því sem þær hafa lent í. Sögurnar hlaupa á hundruðum og það eru einungis þær sem eru opinberar. Afleiðingarnar eru enn ekki fullkomlega ljósar en áhrifin eru þegar farin að sjást í almennu breyttu viðhorfi til kynferðislegs áreitis og ofbeldis. Það sýna til dæmis viðbrögðin við frásögn Steinunnar Valdísar af reynslu sinni, núna mörgum árum síðar.