Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hefur farið mikinn í gagnrýni á fjölmiðla á síðustu dögum. Í þeirri vegferð, sem er almenn, hefur hann m.a. fullyrt að flestir fjölmiðlar og -menn stundi „meiri pólitík en stjórnmálamenn.“ Brynjar hefur komið áleiðis þeirri skoðun sinni að fjölmiðlar séu „afar mikilvægir í lýðræðisríkjum til að miðla upplýsingum og veita þeim aðhald sem fara með hið formlega vald“ en séu samt, að mati Brynjars, veikasti hlekkurinn í íslensku valdasamfélagi. „Eiginlega í ruslflokki, eins og þeir segja hjá matsfyrirtækjunum“.
Brynjar bætti við skömmu síðar að hann geri ekki athugasemd við að fjölmiðlar hafi „pólitísk markmið“. Þeir verði þá „bara að viðurkenna það og hætta að þykjast vera hlutlausir og óháðir.“
Ættu að taka Davíð til fyrirmyndar
Orðræðan er auðvitað beint upp úr leikjafræði forseta Bandaríkjanna sem hefur gert árásir á frjálsa fjölmiðla að leiðarstefi í forsetatíð sinni. Trump kallar þá óheiðarlega og hefur meira að sagt þá vera „óvini þjóðarinnar“.
Brynjar er ekki sá eini hérlendis sem hefur hoppað á þennan vagn. Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins setur ítrekað fram órökstudda gagnrýni á umfjöllun stórra meginstraumsmiðla og setur „fréttaflutning“ og „fréttaskýrendur“ innan gæsalappa eins og um gervifyrirbæri sé að ræða. Þá velur Morgunblaðið ítrekað að birta skrif samsærissinnaðra jaðarbloggara sem ráðast á fjölmiðla og fjölmiðlamenn af hörku í Staksteinum sínum.
Allt þetta er í boði sérhagsmunaafla sem hafa gefið það út opinberlega að þau vilji ná að hafa áhrif á umræðuna sem skili þeim áframhaldandi heljartökum á samfélaginu. Fyrir það hafa þau greitt vel á annan milljarð króna vegna tapreksturs Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins.
Þingmanninum Brynjari Níelssyni þykir framganga Davíðs Oddssonar til mikillar eftirbreytni og hvetur aðra fjölmiðla að fylgja fordæmi hans. Í umræðu um yfirlýsingar sínar um fjölmiðla á Facebook sagði Brynjar: „Það hefur aldrei farið á milli máli hvar ritstjóri Moggans stendur í pólitík og ekki eins og hann hafi falið það. Aðrir ritstjórar mættu taka hann til fyrirmyndar.“
Það er mjög auðvelt að færa rök fyrir því að það væri skelfilegt fyrir lýðræðislega umræðu ef Davíð Oddsson yrði fyrirmynd allra ritstjóra á Íslandi. Í fyrsta lagi er Davíð einn helsti gerandi íslensks samtíma. Hann hefur setið á ritstjórastóli í næstum níu ár og reynt að endurskrifa eigin sögu. Í öðru lagi er Davíð í stjórnmálaflokki og yfirlýstur hluti valdahóps. Þar fer sannarlega fjölmiðlamaður sem stundar pólitík frekar en að hafa almannahagsmuni að leiðarljósi. Öll hans skrif mótast af því hvar hann situr og hver áhrifin verða fyrir þá hagsmuni sem hann er til fyrir. Miðillinn hans er niðurgreiddur af litlum hópi fólks sem á tugi milljarða króna og vill fyrst og síðast fá að nota þá milljarða til að eignast fleiri, og með því ná sterkari tökum á íslensku samfélagi.
Frelsi og óhæði felst í að ganga ekki erinda
Að því sögðu eru frjálsir og óháðir miðlar ekki skoðanalausar upplýsingaveitur. Blaðamennska snýst um áhuga á samfélaginu og hvernig það eigi að virka. Þeir staðsetja sig mismunandi út frá ákefð, framsetningu og umfjöllunarefnum. Svo reynir á ritstjórn að láta blaðamenn aðskilja skoðanir sínar og fréttaskrif ef með þarf. Og skoðanir á þjóðfélagsmálum birtast auðvitað í ritstjórnarskrifum á borð við leiðara, líkt og þau hafa gert frá upphafi samtíma blaðamennsku.
Þá gera fjölmiðlar oft mistök. Þau mistök eru sýnilegri en hjá flestum öðrum geirum, enda vinna fjölmiðlamanna lögð fyrir framan alþjóð daglega. Þegar mistök eru gerð á að leiðrétta þau og gangast við þeim. Án undantekninga. En í langflestum tilvikum er um mannleg mistök að ræða, ekki verk óheiðarlegra pólitískra innrætingarsinna.
Frelsið og óhæðið felst hins vegar í því að ganga engra erinda. Að vera ekki flokkspólitískur eða hluti af sérhagsmunagæslu. Þannig eru blessunarlega flestir miðlar á Íslandi í dag. Það er arfleið frumkvöðla eins og Jónasar Kristjánssonar sem náðu að reka fleyg í það fyrirkomulag fjölmiðlunar á Íslandi sem var algjörlega undir hæl stjórnmálaafla, sem áttu blöð og stýrðu ríkismiðlinum. Fyrir vikið er meirihluti fjölmiðla að starfa á hlutlægan hátt um það sem á sér stað í samfélaginu. Frásögnin af því sem gerist í samfélaginu er ekki lengur bara hjá gerendunum heldur er til staðar aðhald sem er ekki í neinu liði og reynir eftir bestu getu að upplýsa, greina og setja það sem gerist í samhengi.
Sleggjudómur, ekki gagnrýni
Brynjar fékk mikið lof frá skoðanabræðrum sínum fyrir að þora að taka þennan slag. Líkt og hjá þingmanninum sjálfum þá bar lítið á rökstuðningi hjá klappliðinu fyrir því að fjölmiðlar væru svona agalegir, nema að viðkomandi fannst það. Því var ekki um rökstuddar staðreyndir að ræða heldur valkvæðar. Sem eru ekki staðreyndir heldur tilfinningarlegt ástand án fótfestu í raunveruleikanum.
Brynjar var líka mikið gagnrýndur fyrir þessa framsetningu og hversu ómálefnaleg hún var, sérstaklega vegna þess að Brynjar nefndi ekki nein sértæk dæmi máli sínu til stuðnings.
„Gagnrýni“ hans var því orðabókaskilgreining á sleggjudómi, enda með öllu órökstudd.
Gagnrýnin virðist hafa komið við Brynjar og hann birti nýja færslu þar sem hann sagðist ætla að útskýra hvað hann ætti við, en gerði það síðan ekki. Dæmin sem Brynjar taldi til eru ekki um neinar sértækar fréttir eða framferði einstakra nafngreindra fjölmiðla heldur upptalning á málum sem eiga það flest sameiginlegt að hafa snúist um ákvarðanir og athafnir samflokksmanna hans í valdastöðum.
Ómögulegt er að átta sig á því hvaða einstöku fréttir Brynjar er að gera athugasemd við og því ekki hægt að eiga rökræðu um hvort og hvernig þeim fjölmiðli sem flutti þær hafi orðið á. Það er mögulega tilgangurinn. Að kasta út stórum sleggjudómum, fella alla (nema Morgunblaðið) undir, og þannig grafa undan öllum fjölmiðlum í landinu sem falla ekki nákvæmlega að frásagnarvilja Brynjars Níelssonar.
Aðgerðarleysi og valdbeiting
Það er þó ekki allt afleitt sem Brynjar Níelsson hefur borið á borð á undanförnum dögum. Þar á meðal segist hann telja að gagnrýnir fjölmiðlar gegni mikilvægu hlutverki, og þrátt fyrir að aðrir sleggjadómar hans dragi upp aðra mynd er hægt að vera sammála þeirri skoðun hans í tómarúmi. Brynjar segir líka að mikilvægt sé að fagleg umgjörð fjölmiðla sé sterk.
Þar komum við að kjarna málsins. Á sama tíma og stjórnmálamenn hafa styrkt stöðu þeirra sem fjölmiðlarnir eiga að veita aðhald með ótrúlegri aukningu fjárframlaga úr ríkissjóði (sjá laun stjórnmálamanna og framlög til stjórnmálaflokka) þá hefur átt sér stað kerfisbundnar árásir á tilverugrundvöll einkarekinna fjölmiðla. Þetta er gert bæði með aðgerðarleysi og valdbeitingu.
Í aðgerðarleysinu felst að ekkert hefur verið brugðist við því að helstu sögulegu tekjustoðir fjölmiðla hafa hrunið vegna þeirrar tækni- og upplýsingabyltingar sem við lifum og Ísland er eitt af fáum ríkjum í hinum vestræna heimi sem styðja ekki við fjölmiðla með styrkjum eða ívilnunum. Afleiðingin er spekileki, minnkandi sérþekking, allt of fátt starfsfólk, allt of lág laun, allt of lítill tími til vinnslu frétta, taprekstur flestra miðla og hert tök sérhagsmunaafla með djúpa vasa á umræðunni í gegnum eignarhald á stórum fjölmiðlafyrirtækjum. Eðlilega hefur þetta áhrif á gæði fjölmiðla.
Í valdbeitingunni felst til dæmis að setja lögbann á fréttaflutning fjölmiðils af fjármálum forsætisráðherra nokkrum vikum fyrir kosningar. Lögbann sem enn er við lýði.
Ögurstund framundan
Nú liggur fyrir að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra fjölmiðlamála, ætlar að leggja fram tillögur í haust um hvernig eigi að styðja við íslenskt fjölmiðlaumhverfi. Líklega er um ögurstund að ræða fyrir frjálsa og óháða fjölmiðla hérlendis. Ef tillögurnar framkalla mikla röskun á samkeppni stórum aðilum til heilla, eða verða þess eðlis að þær gagnist miðlum sem þóknanlegir eru ráðandi öflum umfram aðra þá munu þær leiða af sér fábrotnara og veikara fjölmiðlalandslag sem verður verr til þess fallið að vinna að almannahag.
Áhugavert verður að sjá hvor hliðin á Brynjari Níelssyni greiðir atkvæði um þær tillögur: sú sem telur gagnrýna fjölmiðla gegna mikilvægu hlutverki og þurfi sterka faglega umgjörð, eða sú sem telur alla gagnrýna, óháða og frjálsa fjölmiðla vera óheiðarlega flugumenn pólitískra afla sem ættu að taka sér Davíð Oddsson meira til fyrirmyndar.
Ef sá fyrri mætir þá er það vel. Ef sá síðari gerir það hins vegar, og með honum aðrir skoðanabræður, þá reynir á Lilju Dögg og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að standa í lappirnar.
Geri þær það ekki verða þær veikasti hlekkurinn í lýðræðiskeðjunni. Og afleiðingarnar gætu orðið alvarlegar.