Á miðvikudag var kynnt skýrsla starfshóps sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði í byrjun árs og hafði það hlutverk að vinna tillögur til að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Hópurinn var skipaður vegna þess að traust milli almennings og helstu stofnana samfélagsins er sláandi lítið og rúmlega sjöundi hver landsmaður treystir til að mynda ekki Alþingi.
Rannsóknir sýna að almenningur telur að mikil fyrirgreiðsla sé til staðar í stjórnmálum og tæplega 70 prósent telja að spilling sé í íslenskum stjórnmálum.
Ástæðan fyrir þessu er margþætt. Hana er að finna í gegndarlausri fyrirgreiðslupólitík undanfarna áratugi þar sem aðgangur að tækifærum fer meira eftir því hver þú ert og hvaða liði þú tilheyrir en hvað þú getur. Hana er að finna í efnahagshruni sem hafði gríðarleg áhrif á venjulegt fólk en var orsakað af algjörlega skeytingarlausum, og nú dæmdum, efnahagsbrotamönnum sem í krafti eftirlitsleysis og meðvirkni þeirra sem áttu að hafa hemil á þeim fengu að blekkja sig í að verða efnahagslegt gereyðingarvopn. Og hana er að finna í röð spillingar- og valdníðslumála sem tröllriðið hafa íslensku þjóðfélagi síðastliðin ár, meðal annars með þeim afleiðingum að ríkisstjórnir hafa sprungið.
Ein birtingarmynd þessa vantrausts er sú að eðlisbreyting hefur orðið á íslenskum stjórnmálum. Hið gamla 4+1 kerfi er búið, tími sterkra tveggja flokka ríkisstjórna sem öllu ráða er liðinn og átta ólíkir flokkar sitja nú á þingi. Þetta gerði þjóðin sjálf án aðkomu stjórnmálamanna.
Hagsmunaskráning, upplýsingaréttur og uppljóstrarar
Tillögur starfshópsins eru flestar þess eðlis að skynsömu fólki ætti að þykja þær sjálfsagðar, og líklega kemur það mörgum á óvart að margar þeirra sé ekki nú þegar hluti af regluverkinu. Staðreyndin er hins vegar sú að sáralítið aðhald og gegnsæi er til staðar í því regluverki sem hefur fyrst og síðast verið byggt upp með þeim hætti að almenningur eigi bara að treysta því að fólkið sem það treystir fyrir rekstri samfélagsins og skattfénu sínu sé heiðarlegt fólk. Flestir ættu að vera sammála um að síðastliðin ár hafi sýnt það svart á hvítu, því miður, að ansi margir víðsvegar að úr hinni pólitísku flóru, hafa ekki staðið undir því trausti. Þess vegna þarf að setja reglur sem tryggja að stjórnmálamennirnir haldi sig innan siðlegra marka, og tryggja að almenningur og fjölmiðlar geti veitt þeim eðlilegt aðhald.
Á meðal þess sem er lagt til er að hagsmunaskráning ráðherra verði útvíkkuð til maka og ólögráða barna. Að siðareglur verið settar fyrir fleiri en ráðherra, meðal annars aðstoðarmenn þeirra og ráðuneytisstjóra. Að gagnsæi verði aukið og upplýsingaréttur almennings styrktur, meðan annars með því að stytta afgreiðslutíma úrskurðarnefndar um upplýsingamál úr því að vera svo langur að stjórnmálamenn virðast meðvitað notfæra sér það að vísa málum til meðferðar hjá nefndinni í von um að þau verði gleymd þegar niðurstaðan liggur loks fyrir.
Hópurinn leggur líka til að mótuð verði löngu tímabær löggjöf um uppljóstraravernd fyrir opinbera starfsmenn og einkageirann. Sambærileg löggjöf er þegar til staðar í Noregi og er mjög nauðsynleg til að starfsmenn sem verða varir við misgjörðir eða rangindi, jafnvel lögbrot, í starfi sínu geti tilkynnt um það án þess að eiga á hættu að setja lífsviðurværi sitt í hættu.
Aðförin að sérhagsmunagæslunni
Þær tillögur sem munu breyta mestu, og erfiðast verður að fá í gegn, snúa annars vegar að því að hefta völd og aðgengi hagsmunaaðila og hins vegar að því að setja reglur um starfsval eftir að einstaklingar ljúka opinberum störfum.
Í dag er staðan sú að hagsmunaverðir, oftast kallaðir „lobbíistar“, hafa miklu meiri áhrif á íslenskt samfélag en flestir átta sig á. Sérhagsmunaöfl í landbúnaði stýra til dæmis að mörgu leyti hvernig landbúnaðarkerfið er mótað, þar með talið fjárframlög til þeirra sjálfra. Hagsmunasamtök sjávarútvegsins, valdamestu hagsmunasamtök landsins, hafa gríðarleg áhrif á alla löggjöf sem tengist atvinnugreininni. Þau áhrif birtast bæði beint, en líka óbeint og á bakvið tjöldin í gegnum persónuleg samskipti. Og svo framvegis.
Það er ekkert tilviljun að formaður hagsmunasamtaka laxeldisfyrirtækja er fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, að framkvæmdastjóri hagsmunasamtaka banka er fyrrverandi fjármálaráðherra, að framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins er fyrrverandi efnahagsráðgjafi þáverandi forsætisráðherra og að framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar sé fyrrverandi aðstoðarmaður sama forsætisráðherra, svo fáein dæmi séu nefnd. Það er heldur ekki tilviljun að áhrifamestu almannatengsla- og ráðgjafarfyrirtæki landsins eru rekin af mönnum sem eiga sér langa pólitíska fortíð og náið samband við þá sem stýra landinu í dag. Það borgar sig fyrir hagsmunagæsluaðila að vera með slíkt fólk í vinnu, sem þekkir kerfin út og inn og getur tryggt aðgengi að ákvörðunartökuborðinu án þess að sú aðkoma komi nokkru sinni fram opinberlega.
Starfshópurinn leggur til að allir „lobbíistar“ sem eiga samskipti við stjórnmálamenn og stjórnsýslu verði að skrá sig sem slíka og að reglur verði settar um hvernig samskiptum verði háttað til að fullt gagnsæi verði tryggt um samskiptin.
Bannað að græða á trúnaðarupplýsingum
Hin umdeilda tillagan, sem er þegar farin að fara mikið fyrir brjóstið á mörgum innan þeirra flokka sem eru vanir að stýra Íslandi, snýr að því að setja þurfi reglur um „starfsval eftir opinber störf sem koma í veg fyrir að starfsfólk stjórnsýslu eða kjörnir fulltrúar gangi inn í störf hjá einkaaðilum vegna aðgangs að upplýsingum úr opinberu starfi. Slíkar reglur varða einkum tíma sem nauðsynlegt er að líði frá starfslokum og þar til starf fyrir einkaaðila hefst.“ Slíkar reglur eru við lýði víða, t.d. í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og víðar.
Það er mjög skynsamlegt að setja slíkar reglur. Þær skerða ekki atvinnufrelsi viðkomandi umfram það að þeir geti ekki farið beint í að starfa hjá þeim sem þeir unnu áður við að hefta, eða hafa andstæða hagsmuni við hið opinbera. Í Bandaríkjunum er ein skýrasta birtingarmynd þessara reglna sú að þeir sem vinna við varnarmál landsins mega ekki fara í starf hjá vopnaframleiðanda í ákveðinn tíma eftir að þeir hætta í opinbera starfinu.
Fíllinn sem forðast er að horfa á
Það er ljóst að mikil andstaða er í ákveðnum kreðsum við innleiðingu þessara reglna. Þegar er til að mynda byrjað að atyrða Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, sem á samkvæmt tillögunum að sjá um innleiðingu þeirra og eftirlit með þeim, að minnsta kosti tímabundið.
Það verður áhugavert að sjá hvort það sé raunverulegur vilji hjá forsætisráðherra og þeim þingmönnum sem segjast hafa raunverulegan breytingarvilja til að innleiða þessar breytingar eða hvort að um leikþátt sé að ræða til að selja þá hugmynd að umbótaöfl séu við ríkisstjórnarborðið sem taki gjánna milli þings og þjóðar alvarlega.
Og þá stendur auðvitað eftir fíllinn í herberginu. Hann er sá að starfshópnum var ekki gert að taka með neinum hætti á því hvernig stjórnmálamenn eiga að axla ábyrgð á því þegar þeir bregðast bersýnilega trausti almennings, t.d. með því að fela eignir í aflandsfélögum og komast þannig hjá því að greiða rétta skatta og gjöld, sýna af sér leyndarhyggju með því að setja hagsmuni flokks fram yfir hagsmuni almennings eða þegar geðþóttaákvarðanir þeirra eru dæmdar ólöglegar af æðsta dómstóli landsins.
Bætt regluverk getur leitt til þess að spilling, leyndarhyggja og frændhygli minnki. En traustið kemur ekki til baka fyrr en að stjórnmálamennirnir hafa sýnt það í verki að pólitísk menning hafi breyst í þá veru að trúverðugleiki stjórnvalds skipti meira máli en að ákveðnir einstaklingar sitji sem fastast í ráðherrastólum sínum þegar augljós trúnaðarbrestur hefur átt sér stað milli þeirra og almennings.