Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, ásakar þrjá nafngreinda fjölmiðla, Kjarnann, Stundina og RÚV, um einelti og óheilindi í viðtali við útvarpsstöðina Bylgjuna í gærmorgun. Hann atyrti sömu fjölmiðla úr pontu Alþingis á miðvikudag og ásakaði þá um að ganga erinda stjórnmálaafls.
Í þingræðunni sagði Ásmundur: „„Ég sagði óvart SS-sveitin. Sérfræðingarnir að sunnan. Það fannst mér mjög miður. Og hafi ég ætlað að vera með eitthvað gáttlæti í huga á þessari stundu, sem var mjög alvarleg, að þá var það ekki svo. En það stóð ekki á viðbrögðunum. Píratarnir stóðu hér upp og fóru að bendla mig við stormsveitir þriðja ríkisins. Og það er eins og þegar þeir tala um mig í þessum sal, að það er eins og bóndi blístri á hlýðinn smalahund, þegar Stundin og Kjarninn, í þessu tilfelli, og oftast Ríkisútvarpið, taka upp eftir þeim það sem ég mismælti mig hér í gær. Og þeir fara að bera mig saman við þessa morðóðu hunda frá Þýskalandi.“
Í viðtalinu við Bylgjuna sagðist Ásmundur hafa upplifað einelti frá áðurnefndum þremur fjölmiðlum og bætti við: „Frá því að ég fór að tala um hælisleitendur, þá hef ég verið settur á svartan lista af ákveðnum hópi fólks, fjölmiðlafólks. Það er bara alveg nákvæmlega sama hvað ég segi í þinginu, ef það er eitthvað andstætt þeirra hugsjónum eða ég er með skoðanir sem þeim fellur ekki í geð, þá er ég bara tekinn.“
Ásmundur talaði um SS-sveitir
Skilgreiningin á einelti er eftirfarandi: Einelti er ofbeldi þar sem einn eða fleiri ráðast að einum og beita hann ofbeldi yfir lengri tíma.
Nú skulum við fara yfir nokkrar staðreyndir. Í þingræðu sinni um fiskeldi á þriðjudag sagði Ásmundur: „En það er einhver SS-sveit, sveit sérfræðinga að sunnan, sem kemur alltaf í veg fyrir að eitthvað gerist á Vestfjörðum.“
Þannig að það var sérstaklega tekið fram að Ásmundur, sem sjálfur valdi að notast við orðin SS-sveit í málflutningi sínum, hefði ekki átt við sérsveit nasista. Slíkt var eðlilega endurtekið í meginmáli fréttarinnar.
En Ásmundur skautar yfir þetta í eigin fórnarlambavæðingu. Það að fjölmiðill segi frétt af málflutningi þingmanns í pontu Alþingis er bara einelti að hans mati. Það er ekki honum að kenna hvað hann segir, heldur þeim sem segja frá því.
Ásmundur rukkaði fyrir akstur
Ásmundur var að eigin sögn líka beittur einelti að hálfu þriggja fjölmiðla í umfjöllun um aksturspeninga sem hann þáði á síðasta ári. Í því máli var opinberað í svari við fyrirspurn þingmanns að Ásmundur hefði keyrt 47.644 kílómetra vegna starfs síns á árinu 2017 þrátt fyrir að stjórnarmyndunarviðræður, stjórnarslit, kosningar, páskafrí, jólafrí og ótrúlega langt sumarfrí hafi gert það að verkum að einungis 80 dagar fóru undir þing- og nefndarfundi á því ári. Hann fékk 4,6 milljónir króna endurgreiddar frá Alþingi vegna þess kostnaðar, eða 385 þúsund krónur á mánuði að meðaltali. Enginn annar þingmaður fékk nálægt því jafn mikið endurgreitt, enda dugði uppgefin keyrsla til að keyra 36 sinnum í kringum landið.
Fjölmiðlar fjölluðu eðlilega mikið um þessi mál því augljóst var að pottur væri brotinn. Og við blasti að hluti þingmanna hafði látið Alþingi, og þar með skattgreiðendur, greiða fyrir akstur í prófkjörsbaráttu sinni. Um það sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis: „Eigum við bara að hafa það skýrt að þátttaka í prófkjörum er ekki tilefni til að senda inn eigin reikning?“
Alþingi var á endanum sammála því að endurgreiðslukerfið væri galið, það byði upp á misnotkun og reglunum var breytt í kjölfarið. Viðbótargreiðslur til þingmanna eru nú opinberar á vef þingsins.
Og hverju skilaði það? Jú, því að þingmenn fengu samtals 4,9 milljónir króna endurgreiddar frá Alþingi vegna aksturs eigin bifreiða á fyrstu sjö mánuðum ársins 2018, eða um 701 þúsund krónur á mánuði samtals. Ef endurgreiðslur yrðu sambærilegar síðustu fimm mánuði ársins munu heildargreiðslur vegna aksturs eigin bifreiða nema um 8,4 milljónum króna.
Alls hafa þingmenn síðan til viðbótar leigt sér bílaleigubíla fyrir 11,3 milljónir króna á fyrstu sjö mánuðum ársins.
Í fyrra, á árinu 2017, fengu þingmenn samtals 29,2 milljónir króna endurgreiddar vegna aksturskostnaðar, eða 2,4 milljónir króna á mánuði.
Á fyrstu átta mánuðum ársins 2018 er heildarkostnaður Ásmundar vegna keyrslu innanlands (á eigin bíl, bílaleigubílum og vegna eldsneytiskostnaðar) 1.665 þúsund krónur. Ef það meðaltal heldur út árið verður heildarkostnaður vegna þeirra ferða hans 2.498 þúsund krónur. Kostnaður skattgreiðenda vegna keyrslu Ásmundar verður því rétt rúmlega helmingur þess sem hann var í fyrra.
En Ásmundur er samt fórnarlamb eineltis þriggja fjölmiðla.
Ásmundur fór með staðlausa stafi um múslima
Ásmundur segir rót eineltisins sem hann telur sig verða fyrir vera þá að hann hafi farið að tala um hælisleitendur. Þorað að taka umræðuna. Nú skal rifjað upp, samhengisins vegna, að Ásmundur hefur tvívegis ákveðið að tjá sig opinberlega um annars vegar múslima og hins vegar hælisleitendur með hætti sem átti ekkert skylt við raunveruleikann.
Ásmundur brást við gagnrýni á þessi ummæli sín með því að kalla þá sem kölluðu hann rasista fyrir að segja hluti sem falla undir skilgreiningu hugtaksins...rasista. Hann var fórnarlambið. Sá sem varð fyrir einelti.
Ásmundur skrifaði hræðsluáróður um hælisleitendur
Tveimur vikum fyrir síðustu kosningar ákvað Ásmundur að birta aðsenda grein í Morgunblaðinu þar sem hann hélt ýmsu fram um hælisleitendur sem átti sér enga stoð í raunveruleikanum. Hann setti einfaldlega fram ósannindi og ömurlegan hræðsluáróður. Og stillti upp hælisleitendum að ósekju upp sem ástæðu þess að eldri borgarar og öryrkjar liðu skort með afar óskammfeilnum hætti. Hægt er að lesa ítarlega hrakningu með vísum í staðreyndir á því sem hann hélt þar fram hér.
Fjölmiðlar, þar á meðal Kjarninn, fjölluðu eðlilega um þessa grein. Aldrei áður hafði þingmaður stærsta stjórnmálaflokks landsins skrifað grein tveimur vikum fyrir kosningar sem var drekkhlaðin útlendingaandúð og staðleysum. Raunar hefur útlendingaandúð blessunarlega verið að mestu bundin við jaðarflokka í íslenskum stjórnmálum hingað til. Framganga Ásmundar, og skortur á viðbrögðum innan flokks við henni, var því afar fréttnæm.
En Ásmundi fannst vegið að málfrelsi sínu, sem hann telur að nái yfir það að segja hvað sem er án þess að því sé svarað eða staðreynt. Annað er einelti.
Byrði Ásmundar og annarra miðaldra hvítra karla
Ásmundur kvartaði einnig yfir því á Bylgjunni í gærmorgun að það væri „engar síur gerðar“ hjá fjölmiðlum. Þar átti hann við að þáttarstjórnandi Silfursins á RÚV hefði í febrúar síðastliðnum átt með einhverjum hætti að koma í veg fyrir að gestur þáttarins, þingmaður Pírata, segði að rökstuddur grunur væri um að Ásmundur hefði dregið að sér fé í akstursmálinu. „Því var haldið fram í mörgum fjölmiðlum að ég væri þjófur og það er þyngra en tárum tekur að búa við það. Ég er mjög viðkvæmur fyrir því.“
Það er örugglega erfitt að vera hvítur miðaldra karl í samfélagi þar sem réttur slíkra til að segja og gera óboðlega hluti er ekki lengur alger. Sumir þeirra líða vítiskvalir yfir því að mega ekki lengur koma fram af óvirðingu eða með lítillækkandi hætti við konur. Öðrum, eins og Ásmundi, líður illa yfir því að málfrelsi þeirra til að bera á borð vanhugsaða, og oft á tíðum meiðandi, orðræðu fylgi ekki friðhelgi gagnvart réttmætri og eðlilegri gagnrýni.
Ásmundur ber ábyrgð á því sem Ásmundur segir og gerir
Þessir menn eru ekki fórnarlömb og það er móðgun við þá sem raunverulega verða fyrir einelti að kalla umfjöllun fjölmiðla um orð og gjörðir stjórnmálamanns slíkt.
Við Ásmund Friðriksson er einungis þetta að segja: þeir sem bjóða sig fram til að gegna opinberum störfum verða að þola umræðu og umfjöllun um störf þeirra. Það er ekki einelti heldur aðhald.
Þessi þrjú mál sem hann tínir til eru öll þess eðlis að fréttaflutningur um þau er fullkomlega eðlilegur og nauðsynlegur. Og öll málin eru til komin vegna þess að Ásmundur tók ákvarðanir um að segja eða gera þá hluti sem eru andlag fréttanna.
Það voru ekki fjölmiðlar sem ákváðu að fara með staðlausa stafi um hælisleitendur, heldur Ásmundur Friðriksson. Það voru ekki fjölmiðlar sem rukkuðu Alþingi 4,6 milljónir króna á einu ári fyrir keyrslu, heldur Ásmundur Friðriksson. Og það voru ekki fjölmiðlar sem ákváðu að tala um SS-sveitir í pontu Alþingis, heldur Ásmundur Friðriksson.
Ef þingmanninum svíður að um hann sé fjallað vegna axarskafta þá ætti hann að líta í eigin barm. Hann ber ábyrgð á eigin orðum og gjörðum, ekki sá sem segir frá þeim.