Í síðasta pistli fór ég aðeins yfir það hvernig einföldustu kenningar hagfræðinnar gætu mögulega útskýrt það að stundum kosta stuttar bækur jafn mikið og langar bækur. Í þeim pistli reyndi ég þó ekki að svara því hvort það sé tilfellið að stuttar skáldsögur séu að öllu jöfnu jafn dýrar og langar en í dag langar mig að skoða það.
Ef stuttar bækur eru jafn dýrar og langar þá gefur það til kynna að neytendahópurinn sem kaupir stuttar bækur sé, að öllu jöfnu, stærri eða með meiri greiðsluvilja (dýpri vasa) en sá sem kaupir langar bækur. Aftur á móti ef langar bækur eru dýrari en stuttar bækur, þá gæti það verið að það kosti meira að prenta og selja þær eða að fólk sem kaupir langar bækur sé til í að spreða meira en þeir sem kaupa stuttar bækur.
Til þess að reyna að varpa ljósi á það hvort kostnaður eða eftirspurn ráði för þegar kemur að verðlagningu skáldsagna hlóð ég niður verðskrá hjá Forlaginu. Því næst keyrði ég gögnin í gegnum smá stærðfræði þar sem ég reiknaði út verð og reyndi að taka inn í hluti eins og útgáfuár og hvort höfundur er íslenskur eða bókin þýdd.
Lítil gróðavon í löngum kiljum
Langar bækur kosta ekki meira en stuttar. Allavega þegar kemur að kiljum. Ég reiknaði þetta með öllum mögulegum aðferðum en svarið var alltaf það sama: Fólk er almennt ekki til í að borga mikið meira en 3.400 krónur fyrir kilju, sama hvort hún er löng eða stutt.
Þessi niðurstaða kemur kannski ekki svo mikið á óvart og margar mögulegar útskýringar til. Til dæmis er sá hópur lesenda sem kaupir kiljur eflaust varkárari í eyðslu sinni. Og líklegt að einhver óþægindi fylgi því að lesa stórar kiljur. Kannski kaupir fólk langar bækur helst innbundnar. Mögulega er leslisti þeirra sem kaupa langar kiljur svo langur að þau geta beðið með það að kaupa næstu bók þangað til hún fer á útsölu.
Sama hvað því líður þá virðist raunverulegur kostnaður við framleiðslu skipta takmörkuðu máli þegar kemur að verðlagningu kilja, allavega þegar kemur að þessum 500 bókum sem ég skoðaði. Og má lesa gögnin þannig að fámenni og sparsemi langbókalesara skipti mestu máli.
Rafbækur eru öðruvísi
En bækur eru til á allskonar formi og jafnvel áhugaverðara er að skoða skáldsagnabókahagfræði á grundvelli rafbóka. Sölukostnaðurinn við rafbók er eflaust óháður lengd bókarinnar, eða það hefði maður haldið, ef kostnaður við sölu réði för. Með öðrum orðum hefði maður haldið að langar rafbækur kostuðu ekki meira en stuttar. En því voru gögnin ósammála.
Langar rafbækur, í mínum gögnum, kosta nefnilega að meðaltali um 20% meira en stuttar bækur. Einnig fann ég það út með meiri stærðfræði að fyrir hverjar 100 auka blaðsíður þarf rafbókarfólk að borga um það bil 7% aukalega. Það er að segja bók sem hefur 400 blaðsíður kostar 7% meira en bók sem er 300 blaðsíður. Sem sagt, fyrir 25% auka orð borgar maður bara 7% meira – sem er svo sem ágætis díll, en samt verri en þegar kemur að kiljum.
Þó svo maður verði að passa sig að lesa ekki of mikið í greiningu á nokkur hundruð bókum þá er þessi niðurstaða áhugaverð. Þessi niðurstaða gæti verið að gefa það til kynna að rafbókarnotendur sem kunna að meta langar bækur séu almennt með hærri greiðsluvilja en rafbókarnotendur sem kunna að meta stuttar bækur.
Önnur skýring á þessu gæti verið að skilin á milli þessara hópa (lang- og stuttbókalesara) séu óskýrari þegar kemur að rafbókum. Kauphegðun er allt öðruvísi á netinu en í bókabúð. Ég rak mig á þetta sjálfur um daginn. Ég var að leita mér að nýrri rafbók að lesa og sá bókina Postwar, eftir Tony Judt, auglýsta á Amazon. Ég hlóð niður ókeypis prufu, las nokkrar blaðsíður og ákvað svo að kaupa bókina.
Eftir að hafa lesið um ævintýri þeirra Charles de Gaulle og Konrad Adenauer í marga daga tók ég eftir því að ég var að vinna mig óvenju hægt í gegnum bókina. Kindle telur ekki í blaðsíðum heldur í prósentum og þegar ég gáði var ég bara búinn að lesa 25% af bókinni. Það var ekki fyrr en þá að ég ákvað ég að gá hvað bókin væri löng og sá að hún er tæplega 900 blaðsíður. Hefði ég séð hlunkinn í hillu Máls og Menningar er ólíklegt að ég hefði keypt hana – sérstaklega hefði hann verið dýrari en lítil nett kilja.
Þetta er annar af nokkrum eikonomics-pistlum um bækur og verðlagningu. Pistlarnir koma til með að birtast hér á Kjarnanum í desember og janúar. Áhugasamir geta skoðað smáatriðin og séð nánari útskýringar á viðfangsefninu á eikonomics.eu.