Eitt af síðustu verkum Alþingis fyrir jólafrí var að afgreiða frumvarp um breytingar á lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru. Ástæðan fyrir því að ráðist var í þessar breytingar ætti að vera öllum augljós: Uppreist æru fyrirkomulagið, með sitt hulda fyrirgreiðsluform þar sem áhrifamenn í samfélaginu kvittuðu upp á syndaaflausnir fyrir dæmda glæpamenn, var augljóslega ekki boðlegt í nútímasamfélagi.
Á meðal þess sem þurfti að breyta í mýmörgum lögum var að fella þurfti á brott orðin „óflekkað mannorð“, sem krafa var gerð um í þeim að væri til staðar. Í mörgum tilvikum er þess í stað gerð krafa um „gott orðspor“, sérstaklega í þeim lagabálkum sem snúa að fjármálakerfinu.
Það hugtak er ekki almennilega skilgreint í lögum, en er þó að finna í lögum um fjármálafyrirtæki. Þar segir: „Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða og hafa gott orðspor og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað.“
Er orðspor íslenska fjármálageirans gott?
Nú liggur fyrir að orðspor íslenska bankakerfisins sem heildar er ekki gott, hvorki innanlands né erlendis. Ástæður þess liggja í bankahruninu 2008, aðdraganda þess og eftirmálum.
Erlendis voru leikendur með reynslu löngu búnir að sjá hversu mikil spilaborg íslenska bankakerfið var, áður en það hrundi. Eftir að aðgangur íslensku bankanna að því að sækja lánsfé á alþjóðlega lánamarkaði takmarkaðist á árunum 2006 og 2007 drógu þeir ekki saman seglin, heldur fundu nýjar, afdrifaríkar og alveg jafn áhættusamar leiðir til að endurfjármagna sig.
Það fólst aðallega í söfnun innlána erlendis á ósjálfbærum vöxtum og skammtímaveðlánum, stundum kölluð ástabréfaviðskipti, þar sem eignir voru veðsettar fyrir lausafjárfyrirgreiðslu hjá seðlabönkum. Þetta sáu erlendir bankar strax í lok árs 2007 og upphafi árs 2008. Þetta sáu greiningaraðilar sömuleiðis og þetta sáu erlendir seðlabankar þegar leið á árið 2008, og þeir fóru að kvarta yfir því við íslensk yfirvöld að íslensku bankarnir væru að misnota þær leiðir til endurhverfra viðskipta sem boðið var upp á til að veita bönkum lausafjárfyrirgreiðslu. Um það má meðal annars lesa í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
Eftirlitsstofnanir í löndum þar sem íslensku bankarnir störfuðu höfðu miklar áhyggjur af starfsemi þeirra löngu áður en þeir lögðust á hliðina. Þegar lánamarkaðir lokuðust fyrir íslensku bankana fóru þeir að beita óhefðbundnum – og ólöglegum – leiðum til að halda sér á floti. Margháttuð umboðssvik, allsherjarmarkaðsmisnotkun og ótrúleg áhættusækni í viðleitni sinni til að lifa af var það sem af þessu leiddi.
Að endurskrifa söguna ...
Þeir sem báru ábyrgð á þessu ástandi með beinum eða óbeinum hætti, hafa reynt að endurskrifa sögu bankahrunsins síðastliðinn áratug. Helsta tilraun þeirra snýst um að selja svokallaða umsáturskenningu, en í henni felst að ekkert séríslenskt hafi verið við það ástand sem skapaðist á Íslandi og olli hruninu. Að geisað hafi alþjóðlegt fárviðri á fjármálamörkuðum og að Ísland hafi einfaldlega verið fórnarlamb þess. Erlend ríkí og seðlabankar hafi neitað að rétta Íslandi hjálparhönd og þess í stað brugðið fæti fyrir litla eyþjóð.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið fól meira að segja Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, pólitískum áróðursmanni sem átt hefur í viðskiptasambandi við nokkra fyrrverandi lykilstarfs- og stjórnarmenn hrunbanka við rekstur bókaútgáfu sem gefur meðal annars út bækur um þeirra útgáfu af sögu síðustu ára, að gera skýrslu um helstu erlendu áhrifaþætti bankahrunsins. Fyrir það fékk hann greitt tíu milljónir króna af skattfé.
Niðurstaða hans, sem byggði að mestu á viðtölum við helstu gerendur í bönkunum og stjórnsýslunni fyrir hrun, var að íslensku bankarnir hefðu í raun ekkert verið lakari en aðrir bankar, að Seðlabanki Íslands, og sérstaklega Davíð Oddsson, hafi verið hrópandi í eyðimörkinni og séð allt sem miður fór fyrir, og að erlend ríki hafi hagað sér ruddalega og með óbilgjörnum hætti gagnvart Íslandi á ögurstundu.
Davíð Oddsson, sólin í sólkerfi Hannesar Hólmsteins, er nefndur 163 sinnum í skýrslunni og Icesave 211 sinnum. Kaup íslensku bankanna á eigin bréfum með eigin peningum og fordæmalausir dómar vegna þeirra eru nefnd einu sinni.
... lagar ekki orðsporið
Í skýrslunni heldur Hannes Hólmsteinn því hins vegar fram að brot íslensku bankamannanna, í sumum tilfellum heimildarmanna skýrslu hans, séu „misdemeanors“, sem mætti þýða sem væg lögbrot. Hæstiréttur Íslands er vitanlega að öllu leyti ósammála Hannesi Hólmsteini og lýsti þessum brotum sem alvarlegustu efnahagsbrotum Íslandssögunnar.
Hin „vægu lögbrot“ íslensku bankamannanna hafi aðallega, samkvæmt niðurstöðu Hannesar Hólmsteins, verið vegna örvæntingarfullra tilrauna sumra bankamanna og viðskiptavina þeirra að „lifa af lánsfjárkrísuna með markaðsmisnotkun“. Hannes Hólmsteinn dregur þá ályktun að íslensku bankamennirnir hafi verið „hugmyndaríkir og snjallir á árunum 2006-2008, eftir að þeir voru sviptir aðgengi að lánsfé, á viðunandi kjörum, á evrópskum markaði“.
Þessi skýrsla hefur verið afhent sumum erlendum ráðamönnum. Og aðrir slíkir hafa orðið sér úti um hana. Samræður við diplómata gefa það skýrt til kynna að hún hafi sannarlega ekki bætt orðspor Íslendinga erlendis. Þvert á móti.
Íslenskur almenningur treystir ekki bönkum
Innanlands er orðspor íslenska bankakerfisins ekkert betra.
Í byrjun árs 2008 treystu 40 prósent landsmanna bankakerfinu á Íslandi. Ári síðar mældist traust á bankakerfið fjögur prósent. Þótt traustið hafi braggast eilítið samhliða því að við höfum bætt regluverkið í kringum fjármálastarfsemi, að endurskipulagningu viðskiptalífsins eftir fordæmalaust bankahrun er lokið og að gríðarlegur viðsnúningur hefur átt sér stað í efnahagslífi Íslands þá hefur traustið ekki endurheimst nema að litlu leyti.
Í október 2018 sögðust einungis 16 prósent þjóðarinnar treysta bankakerfi sem þó er að langstærstu leyti í eigu íslenska ríkisins. Og 57 prósent sögðust alls ekki treysta því.
Að hluta til er þetta söguleg arfleið þjóðar með langvarandi áfallastreituröskun í kjölfar bankahruns sem hafði mikil og oft eyðileggjandi áhrif á mörg svið samfélagsins. Bankahruns sem orsakaði það að krónan veiktist um tugi prósenta, að verðbólga fór í 18,6 prósent um tíma, stýrivextir í 18 prósent, atvinnuleysi í tveggja stafa tölu, ríkissjóður fór úr því að vera nær skuldlaus í að verða nær gjaldþrota, skuldir heimila margfölduðust, skattar voru hækkaðir, sparnaður tapaðist, neyðarlög tóku gildi, fjármagnshöft voru sett, Íslands þurfti að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir aðstoð og allt traust milli almennings og stofnana samfélagsins hvarf. Ástæðu þessara afleiðinga, sem íslenskur almenningur þurfti að axla, var að finna í atferli íslenskra banka, og þeirra sem stjórnuðu þeim.
Orðsporið síðasta áratuginn
En traustleysið liggur líka í því hvernig hlutirnir hafa atvikast á síðastliðnum áratug. Þótt regluverk hafi verið hert til muna, eftirlit styrkt, bankarnir þvegnir og atvinnulífið endurskipulagt þá liggur samt sem áður fyrir að stærstu gerendur hrunsins eru enn á meðal mestu áhrifamanna í íslensku viðskiptalífi.
Margir þeirra hafa verið opinberaðir sem eigendur aflandsfélaga sem voru stútfyllt af peningum fyrir hrun, þeim síðan haldið frá skattayfirvöldum og réttmætum kröfuhöfum, og peningarnir loks fluttir aftur til Íslands með liðsinni Seðlabanka Íslands til að kaupa upp eignir á brunaútsölu.
Orðspor þeirra, sem hefur kostað lífeyrissjóði og aðra kröfuhafa milljarða króna, virðist þar engu máli skipta. Þeir fá fyrirgreiðslu í bönkum og lífeyrissjóðir og jafnvel opinberir aðilar eru meira en tilbúnir til að vinna með þeim.
Ekkert ofangreint þykir fela í sér háttsemi eða athöfn til að draga í efa hæfni þeirra til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri. Ekkert ofangreint þykir benda til þess að líkur séu til að viðkomandi muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða fyrirtækin sem þeir stýra eða stjórna. Ekkert ofangreint er talið rýra trúverðugleika eða skaða orðspor fjármálafyrirtækis.
Þar með verður krafan um gott orðspor ómarktæk.