Það fór líkt og spáð var á þessum vettvangi fyrir fimm mánuðum síðan, að kjarasamningar fyrir 110 þúsund manns, rúman helming íslensks vinnumarkaðar, voru kláraðir með stóraukinni aðkomu stjórnvalda sem ætlað er að stuðla að annars konar lífskjarabótum en launahækkunum. Það var talað við fólk, í stað þess að tala á það.
Við blasti að annað hefði verið ómögulegt. Til að verkalýðsforystan myndi slá af launakröfum sínum, sem voru allt of háar fyrir hagkerfið við þær aðstæður sem nú eru, þá þurfti til skattkerfisbreytingar, aukið fjármagn í millifærslukerfi sem ratar fyrst og síðast til viðkvæmustu hópa samfélagsins og táknrænar aðgerðir vegna ótrúlegra launahækkanna forstjóra ríkisfyrirtækja, æðstu ráðamanna og annarra háttsettra embættismanna.
Þá setti fyrirséð gjaldþrot WOW air, með tilheyrandi skammtímaáhrifum á efnahagslífið og atvinnustigið í landinu, pressu á alla hlutaðeigandi að leysa þá stöðu sem upp var komin af ábyrgð.
Aðkoma þriggja kvenna lykilatriði
Athygli vekur að þrjár sterkar konur léku lykilhlutverk í þessari niðurstöðu. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sem hefur setið undir því að vera kölluð vanstillt, galin og vitfirrt auk þess sem geðheilsa hennar og andlegt heilbrigði hefur verið dregið í efa með ýmsum öðrum hætti, lék lykilhlutverk í því að saman náðist. Það gerði hún með því því að beita skynsemi og læsi á umhverfið, gera „vopnahlé“ á baráttu sinni, og meta þann árangur sem hörð stéttabarátta hennar og félaga formannsins náðu þó fram með því að spila ekki eftir leikreglum ráðenda samfélagsins, heldur ákveða að standa fast upp í hárinu á þeim.
Líkast til efast enginn um það lengur hversu stórt pláss á sviðinu Sólveig Anna hefur tekið sér með því að vera óhrædd og óhefðbundin á þeim skamma tíma sem hún hefur gengt sínu nýja hlutverki.
Lískjarasamningarnir eru stór pólitískur sigur fyrir Katrínu og ríkisstjórn hennar. Persónulega var pólitísk lífsnauðsynlegt fyrir hana að ná honum.
Flokkur hennar er álitin, hvort sem honum líkar betur eða verr, hafa gefið gríðarlega eftir gagnvart Sjálfstæðisflokknum – flokki sem margir flokksmenn og kjósendur Vinstri grænna líta á sem hugmyndafræðilega andstæðu sína – það sem af er kjörtímabilinu. Skýrasta birtingarmynd þess er að kannanir sýna að Sjálfstæðisflokkurinn mælist með stuðning við kjörfylgi, Framsóknarflokkurinn með fylgi sem er nánast innan vikmarka frá því sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum en Vinstri græn hafa tapað þriðjungi kjósenda sinna.
Innihald lífskjarasamninganna er að uppistöðu mun nær yfirlýstri stefnu Vinstri grænna en Sjálfstæðisflokks.
Allir þurftu að vinna, og því að gefa eftir
Það þurftu allir að gera málamiðlanir í þeim samningum sem nú hafa verið gerðir. Verkalýðshreyfingin sætti sig við að fá 75 prósent af krónutöluhækkunarkröfum sínum á lægstu laun á tæpum fjórum árum í stað 100 prósent á þremur árum. Atvinnurekendur gáfu þar eftir en fengu í staðinn lægri hækkanir á árinu 2019 á meðan að efnahagslífið er að rétta úr kútnum eftir mjúka lendingu sem stendur nú yfir og langa samninga sem tryggja stöðugleika og fyrirsjáanleika.
Þetta eru þó viðkvæmir samningar og margt þarf að ganga upp til að þeir haldi.
Það samkomulag sem gert er milli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda er nokkuð skýrt. Lægstu laun hækka um 90 þúsund krónur á samningstímanum og um samdist um krónutöluhækkanir annarra, sem tryggir að launahærri taki ekki áfram til sín aukna sneið allra hækkana líkt og þegar samið er um hlutfallshækkanir. Til að setja þetta í dæmi þá munu almenn laun hækka um 17 þúsund krónur strax, bæði hjá þeim sem var með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun og þeim sem er með eina milljón króna. Fyrir láglaunamanninn er þetta hækkun um 5,6 prósent í ár en fyrir hálaunamanninn 1,7 prósent. Ef samið hefði verið um 5,6 prósent launahækkun fyrir alla hefði láglaunamaðurinn því áfram fengið 17 þúsund krónur í launahækkun en hálaunamaðurinn 56 þúsund krónur, eða 39 þúsund krónum meira en samið var um.
Auk þess var samið um launaauka sem kemur til framkvæmda ef hagvöxtur verður á næstu árum. Þetta virðist aðallega vera táknræn hækkun sem á að tryggja launafólki hlutdeild í verðmætasköpun samfélagsins. Mat ASÍ er að hún geti skilað 3-13 þúsund krónum á ári, sem eru smápeningar í öllu samhengi.
Pakki stjórnvalda lykillinn að samningunum
Lykilatriðið í að kjarasamningar voru gerðir var, líkt og áður sagði, aðkoma stjórnvalda sem blasað hefur við mánuðum saman að þyrfti til svo hægt væri að leysa kjaradeilur.
Ástæður þeirrar gjáar sem er til staðar í íslensku samfélagi er að það er vitlaust gefið. Og gjöfin hallar verulega á þá sem höllustum fæti standa. Það eru lágtekjuhópar, öryrkjar, lífeyrisþegar og stór hópur landsmanna sem getur ekki eignast húsnæði en er þess í stað fastur á leigumarkaði sem leiðir af sér skort á húsnæðisöryggi, hærri húsnæðiskostnað sem étur upp alla kaupmáttaraukningu og enga eignamyndun.
Pakki stjórnvalda telur alls 45 aðgerðir og þau meta hann á 80 milljarða króna. Það segir reyndar ýmislegt um hversu út í loftið sú tala er að í kynningargögnum sem lögð voru fyrir aðila vinnumarkaðarins á þriðjudag, þegar ríkisstjórnin ætlaði að halda blaðamannafund og kynna sitt framlag en blés hann af 18 mínútum síðar, var upphæðin sögð 100 milljarðar króna. Endanlegur „kostnaður“ hins opinbera mun ráðast á þróun mála og það að setja fram krónutölu umfangs er fyrst og fremst ætlað til pólitísks heimabrúks.
Það má skipta aðgerðum stjórnvalda í þrennt.
Skattar, barnabætur, húsnæðismál og fjárfesting
Í fyrsta lagi breytingar á skattkerfi og millifærslukerfum og aðgerðir í húsnæðismálum, sem skipta raunverulegu máli við að minnka þann kerfislega ójöfnuð sem innleiddur hefur verið hér á landi á undanförnum árum. Til að mæta þessum kröfum lækkar ríkið skatta um 20 milljarða króna og mesta lækkunin fer til lægstu tekjuhópanna, sem eiga að fá um tíu þúsund krónur meira á mánuði í ráðstöfunartekjur. Þá verða barnabætur, sem hafa dregist skammarlega mikið saman á undanförnum árum, hækkaðar um 16 prósent og skerðingarmörk þeirra verða hækkuð úr 242 í 325 þúsund krónur. Líklega er ekki til nein betri millifærsluleið til að færa fé með beinum hætti úr ríkissjóði til viðkvæmra barnafjölskyldna sem eiga erfitt með að láta enda ná saman en greiðsla barnabóta. Með viðbótinni mun þær ná til fleiri og gagnast þeim sem þær fá meira.
Í öðru lagi aðgerðir vegna húsnæðismála. Sú ákvörðun að banna 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán, einu lánin sem viðkvæmustu lágtekjuhópar á íslenskum húsnæðismarkaði ráða við að taka til að tryggja sér einhverja eignarmyndun og húsnæðisöryggi, kallar á að eitthvað annað komi samstundis í staðinn fyrir þennan hóp. Þetta eitthvað annað er kallað „startlán“ og „eiginfjárlán“. Samkvæmt framlögðum tillögum ganga „startlán“ út á að ríkið láni á „hagstæðum vöxtum“ til hópa sem eiga sérstaklega erfitt að eignast húsnæði upp að 90 prósent veðhlutfalli. Það þýðir á mannamáli að ríkið ætlar að lána viðbótarlán undir markaðsvöxtum. „Eiginfjárlán“ eiga síðan að beinast að þeim sem ráða ekki við greiðslubyrði „startlána“. Í þeim felst að ríkið ætlar að í raun að fjárfesta í húsnæði með tekjulágum með því að lána 15-30 prósent af kaupverði án þess að viðkomandi þurfi að greiða neinar afborganir af því láni auk þess sem „lánið“ er vaxtalaust í fimm ár og ber síðan óskilgreinda lága vexti. Ríkið fær síðan sitt hlutfall til baka þegar íbúðin er seld eða þegar 25 ár eru liðin frá því að hún var keypt.
Þá ætlar ríkið að lána á mjög lágum vöxtum til almennra leigufélaga, bjóða fram þann möguleika að ráðstafa 3,5 prósent lífeyrisiðgjalds skattfrjálst til húsnæðiskaupa og áframhaldandi nýting séreignarsparnaðar til að greiða skattfrjálst niður íbúðalán, en það úrræði verður framlengt fram á mitt ár 2021. Ríkið lofar líka að auka framboð af ódýrara húsnæði, meðal annars með því að stuðla að uppbyggingu í Keldnalandi, risastóru byggingarlandi í eigu ríkisins innan borgarmarka Reykjavíkur.
Í þriðja lagi ætlar ríkið að ráðast í stórtækar fjárfestingar í innviðum, meðal annars vegum, á næstu árum til að örva efnahagslífið í niðursveiflu þess og skapa störf.
Í fjórða lagi eru aðgerðir sem eru endurnýttar eða hafa þegar komið fram, eins og lenging fæðingarorlofs og aðgerðir gegn félagslegum undirboðum.
Forsendur endurmetnar á næsta ári
Þrjár meginforsendur eru fyrir gerð kjarasamninganna. Í fyrsta lagi þarf kaupmáttur launa að aukast á samningstímabilinu. Sá vöxtur verður metin út frá launavísitölu Hagstofu Íslands.
Mikilvægasta forsenda kjarasamninga er þó sú þriðja, að stjórnvöld standi við að framkvæma þann pakka sem þau komu með að borðinu til að liðka fyrir gerð þeirra. Ef nægilega stór hluti forsendunefndar aðila vinnumarkaðarins, skipuð þremur frá hvorri hlið, metur stöðuna þannig haustið 2020 að ríkisstjórnin hafi ekki gert nóg þá gætu kjarasamningar verið fyrir bí áður en kjörtímabilið endar, en stefnt er að því að næstu kosningar verði vorið 2021. Það er því mikil pressa á ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að sýna sýnilegan árangur hratt í að efna það sem er í pakkanum hennar næsta tæpa eina og hálfa árið.
Vopnahlé, ekki stríðslok
Mikilvægt að ítreka að þorri þeirra aðgerða sem stjórnvöld eru að grípa til eru viðbragð vegna pólitískra ákvarðana sem teknar hafa verið á síðustu árum og áratugum. Ástandið á húsnæðismarkaði er samblanda af niðurlagningu félagslega húsnæðiskerfisins, Leiðréttingarinnar og skorti á framboði á sama tíma og fjöldi ferðamanna og íbúa óx hraðar en nokkru sinni fyrr. Breytingar á skattkerfi og millifærslukerfum sem færðu skattbyrðar á lægri tekjuhópa eru sömuleiðis stjórnmálamannanna verk.
Enn er verulega misjafnt gefið í hinu auðuga íslenska samfélagi. Hér hefur ríkt kerfisbundinn ójöfnuður. Og engin ástæða til annars en að taka Sólveigu Önnu Jónsdóttur trúanlega þegar hún segir í stöðuuppfærslu sinni á fimmtudag að hún vilji „árétta afstöðu mína um að barátta vinnuaflsins fyrir efnahagslegu réttlæti snýst ekki síst um það að hér fái meðlimir auðstéttarinnar og stjórnmálastéttarinnar ekki að fara fram eins og þeim sýnist með algjöru skeytingarleysi gagnvart hagsmunum vinnuaflsins. Hér hafa fulltrúar launafólks setið undir linnulausum árásum á meðan að fyrirtækjaeigandi fékk að blása upp bólu sem sprakk með hörmulegum afleiðingum fyrir hið svokallaða venjulega fólk. Við, verka og láglaunafólk, berum ekki ábyrgð á að blása upp bólur. Við förum ekki fram af skeytingarleysi gagnvart hagsmunum almennings. Þvert á móti. En þrátt fyrir það erum við samt ávallt látin axla ábyrgð á öllu því sem á sér stað í efnahagslífinu.“
Kjarasamningarnir eru því vopnahléssamningar, ekki samningar um stéttastríðslok.