Fullveldi felur í sér fullt vald ríkis til að stjórna sjálfu sér. Fullvalda ríki hefur vald til þess að eiga í misnánum samskiptum við erlend ríki og gera bindandi samninga. Ísland er fullvalda ríki. Og það gerði samning um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem felur í sér að Ísland skuldbindur sig til að taka þátt í aðlögun þess innri markaðar sem þar þrífst.
Í staðinn fær Ísland að mestu frjálst og hindrunarlaust aðgengi að um 500 milljón manna markaði fyrir allar sínar vörur. Í staðinn höfum við fengið stjórnsýslulög, upplýsingalög, mannréttindi, neytendavernd, neytendaúrbætur og alveg ótrúleg viðskiptatækifæri. Í staðinn höfum við fengið hægt en bítandi uppbrot á íslenska strokusamfélaginu sem var rekið úr rassvasanum á örfáum körlum með þeirra hagsmuni fyrst og fremst að leiðarljósi.
Það þarf efnahagslegt sjálfstæði til að vera sannarlega fullvalda. Ekkert eitt veitir okkur meira slíkt sjálfstæði en EES-samningurinn og þau gæði sem hann tryggir okkur.
Þriðji orkupakkinn
Orka hefur alltaf verið hluti af innri markaði Evrópu, enda orka markaðsvara. Hún er framleidd og seld. Hérlendis er þorri þeirrar orku sem er framleidd seld til erlendra stórfyrirtækja á smánarverði svo þau geti búið til ál úr súráli.
Þetta hefur gert Landsvirkjun kleift að greiða hratt niður skuldir og nú er fyrirtækið að auka arðgreiðslur sínar í ríkissjóð. Þær verða 4,25 milljarðar króna í ár. Forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt að þær geti farið í 10-20 milljarða króna innan fárra ára. Hin tvö stóru orkufyrirtæki landsins, sem eru þó dvergvaxin við hlið Landsvirkjunar, eru Orkuveita Reykjavíkur, að langstærsti leyti í eigu Reykjavíkurborgar, og HS Orka, sem í nánustu framtíð verður í eigu félags á vegum íslenskra lífeyrissjóða og bresks samstarfsaðila sem þau hafa valið sér. Engin sæstrengur tengir Ísland við raforkumarkað Evrópu og því er ómögulegt að selja þá orku sem er framleidd hér, og er að uppistöðu í eigu opinberra aðila eða almennings í gegnum lífeyrissjóði, út fyrir landsteinana. Og ákvörðun um lagningu slíks strengs verður auðvitað aldrei tekin af öðrum en íslenskum stjórnvöldum.
Samt er hér blásin upp umræða þar sem látið er sem að Ísland sé að gefa frá sér fullveldi sitt ef það samþykki það sem kallað er þriðji orkupakkinn. Að í honum felist hætta á því að landið afsali sér auðlindum. Allt þetta er rangt. Þvæla sem byggir á engu. Og þegar talsmenn þvælu eru hraktir út í horn með hana fara þeir að tala um að þetta sé allt gert fyrir börnin og barnabörnin, þrátt fyrir að við blasi að þetta er allt gert fyrir þeirra eigin hégómagirnd. Til að fóðra þeirra pólitíska metnað og áhrifaþrá.
En samt hefur þessum hópi tekist að hræða líftóruna úr fjölda fólks með áróðri um að innleiðsla á tilskipun sem snýst fyrst og síðast um aukna neytendavernd og virkari samkeppni sé einhverskonar fullveldisafsal. Með ríða popúlískir stjórnmálamenn á baki hentistefnuhrossum sínum, tilbúnir að beita Brexit- og Trumpískum aðferðum sem í felst að smætta flókin málefni í upplognar upphrópanir.
Trójuhestur inn í meginstrauminn
Þriðji orkupakkinn er þess vegna svokallaður Trójuhestur. Holur að innan en fullur af hermönnum sem vilja komast aftur inn fyrir borgarmúra meginstraumsumræðu. Þegar þangað er komið er stefnan sú að halda áfram að beita sömu meðölum, hálfsannleik, lygum og hræðsluáróðri til að sannfæra viðkvæma hópa sem finnst þeir hafa verið skildir eftir af alþjóðavæðingunni og að vondir útlendingar séu að fara að hirða af þeim völdin. Fullveldið. Sjálfstæðið.
Þeir sem þetta stunda telja að mun betra sé að þessi krúnudjásn þjóðarinnar séu í höndum fárra manna sem hafa ofurtrú á sjálfum sér. Það sé tærari mynd lýðræðis að handfylli manna taki ákvarðanir fyrir einangraða þjóð en að „djúpríki“, andlitslaust embættismannakerfi eða vondir útlendingar stjórni landinu. Sérfræðiþekking er slæm, staðreyndir eru áróður og andstaða er samsæri.
Við vitum alveg hvert þetta mun leiða okkur á endanum. Það eru þegar flokkar á Alþingi sem hafa opnað á það í stefnuskrám sínum að skoða möguleikann á því að segja sig frá EES-samningnum eða Schengen-samstarfinu.
Þetta mun enda í útlendingaandúð. Og sá endir er raunar löngu hafin.
Óttinn við hið óþekkta
Öll snýst þessi pólitík enda um að ala á ótta við hið óþekkta, sérstaklega útlendinga. Útlenska fjárfestingu, útlenska landeigendur, útlenska reglugerðarmenn og á endanum bara útlendinga.
Þeir eru orðnir ansi margir hérlendis. Rúmlega 45 þúsund í byrjun síðasta mánaðar og þeim hefur fjölgað um 50 prósent frá byrjun árs 2017. Um 113 prósent frá byrjun árs 2011. Nú búa fleiri Pólverjar hérna á Íslandi en íbúar eru í Reykjanesbæ eða á Akureyri.
Þessir fordæmalausu fólksflutningar hingað til lands eru afleiðing af alþjóðasamningum sem við höfum gert. Ein forsenda EES-samningsins er frjáls för fólks sem gerir okkur kleift að elta draumanna í öðrum löndum svæðisins án hindrana ef við teljum að þeir búi þar. Á sama hátt verðum við valkostur fyrir þá íbúa svæðisins sem leita af betra lífi en þeim býðst heima fyrir.
Á Íslandi hefur verið hagvöxtur á hverju ári frá 2011. Árið 2016 var hann 7,4 prósent. Bara Indland upplifði meiri hagvöxt það árið. Þessi vöxtur hefur skilað Íslendingum sem heild stórauknum auði, þótt honum hafi síðan verið misskipt milli hópa samfélagsins. Krafturinn á bak við þá þróun eru innflytjendur sem fylla störf sem við eigum ekki fólk til að fylla og drífa þar með áfram hagvöxtinn.
Hér þrífst samt orðræða í völdum fjölmiðlum sem virðast fyrst og síðast hafa tekið sér það hlutverk að selja hlustendum og lesendum sínum ranga mynd af gangverki samfélagsins. Þá mynd að þessi hópur liggi eins og mara á samfélaginu. Þá hugmynd að hagtölur og staðreyndir skipti ekki máli. Upplifun sé hinn eini sannleikur. Við slíka afstöðu er nær ómögulegt að eiga rökræðu.
Tækifærissinnar
Inn í þessa orðræðu hafa ýmsir stjórnmálamenn gengið með því að bjóða upp á skýra útlendingaandúð en telja sig síðan vera fórnarlömb pólitískrar rétthugsunar þegar þeirra eigin orð eru heimfærð upp á þá og mátuð fyrir fyrirliggjandi hugtök á borð við rasisma.
Einn slíkur skrifaði til að mynda grein nokkrum vikum fyrir kosningarnar 2017 þar sem hann sagði að sviðsmyndir sýndu að hælisleitendur á Íslandi gætu orðið tug þúsundir á næstu árum og að árlegur kostnaður vegna þeirra gæti orðið 220 milljarðar króna.
Annar hélt því fram í aðdraganda síðustu kosninga hælisleitendum væri mismunað á kostnað eldri borgara. Eldri borgarar hefðu ekki ráð á því að leita sér læknishjálpar á sama tíma og hælisleitendur fái fría tannlæknaþjónustu. Sú hélt því líka fram að hælisleitendur hérlendis fái fría leigubílaþjónustu,húsnæði og framfærslu.
Heildarútgjöld til útlendingamála úr ríkissjóði í fyrra, með framlagi á fjáraukalögum, var 4,2 milljarðar króna. Það er lægri krónutala en fór í málaflokkinn árið 2017 og því fer kostnaðurinn lækkandi. Þetta er kostnaður vegna flóttamanna. Þeir eru tvenns konar. Annars vegar þeir sem sækja hér um alþjóðlega vernd, eða hæli. Slíkir voru 800 í fyrra, en 1.096 árið 2017 og 1.130 árið 2016. Þeim er því að fækka umtalsvert. Og nú erum við farin að borga flóttamönnum fyrir að draga umsóknir sínar til baka og fara burt.
Hinn flóttamannahópurinn eru kvótaflóttamenn sem Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna hefur óskað eftir að þjóðir heims taki á móti vegna stríðsástands í heimalandi þeirra. Við höfum tekið við 695 slíkum frá árinu 1956 og ætlum að taka við 75 í ár. Í lok þessa árs höfum við því tekið á móti um tólf á ári frá því að við byrjuðum að taka á móti þeim. Það er allt og sumt.
Klifað á einhverju sem ekki er
Hvað hefur þessi aukni fjöldi útlendinga – innflytjenda og flóttamanna – skilað okkur? Í fyrsta lagi gríðarlegum hagvexti. Í öðru lagi þá fjölgaði erlendum ríkisborgurum sem greiddu skatta á Íslandi um 9.782 milli áranna 2016 og 2017, eða um 27,9 prósent. Á sama tíma fjölgaði þeim íslensku ríkisborgurum sem greiða skatta hérlendis um 1.166 talsins.
Alls greiddu 44.850 erlendir ríkisborgarar skatta á Íslandi á árinu 2017 og voru þeir þá 15,1 prósent allra skattgreiðenda. Árið áður voru þeir 12,2 prósent þeirra einstaklinga sem skráðir voru í skattgrunnskrá.
Erlendum ríkisborgurum fjölgaði því rúmlega 60 sinnum hraðar og átta sinnum meira en íslenskum á skrá. Erlendir ríkisborgarar voru um 89,3 prósent fjölgunar á skrá árið 2017.
Hvaða áhrif hefur þessi mikla fjölgun haft á íslenskt velferðarkerfi? Hafa útlendingarnir sem hingað flytja lagst eins og mara á það? Ekkert bendir til þess.
Kjarninn greindi frá því í gær að tölur Hagstofu Íslands sýni að innflytjendur þiggi mun minna af félagslegum greiðslum en aðrir íbúar landsins. Auk þess hefur meðaltal slíkra greiðslna lækkað á sama tíma og erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað gríðarlega og meðaltalsgreiðslur til annarra íbúa hækkað.
Auk þess hafa greiðslur sveitarfélaga vegna félagslegrar framfærslu dregist verulega saman á undanförnum árum, á sama tíma og útlendingum hefur fjölgað. Árið 2015 greiddu þau 3,4 milljarða króna í húsaleigubætur, félagslega aðstoð og styrki. Á árinu 2017 var sú upphæð 2,4 milljarðar króna.
En glæpatíðni? Fylgir aukning hennar ekki þessum útlendingum? Nei svo virðist sannarlega ekki vera. Árið 2010 voru 55 hegningarlagabrot framin á hverja eitt þúsund íbúa höfuðborgarsvæðisins. Árið 2017 voru þau 42. Árið 2010 voru 34 auðgunarbrot framin á hverja eitt þúsund íbúa höfuðborgarsvæðisins. Árið 2017 voru þau 22. Árið 2010 var eitt kynferðisbrot framið á hverja eitt þúsund íbúa höfuðborgarsvæðisins. Árið 2017 voru þau enn eitt á hverja þúsund íbúa.
Í byrjun árs 2018 voru 155 fangar að afplána refsingar í íslenskum fangelsum. Langflestir sem sátu þá í íslenskum fangelsum voru íslenskir ríkisborgarar. Alls voru 20 erlendir ríkisborgarar í afplánun á Íslandi 11. janúar 2018 auk þess sem 18 slíkir sátu í gæsluvarðhaldi, en fjöldi þeirra var óvenjulega mikil á þeim tímapunkti vegna fíkniefnainnflutningsmála sem upp höfðu komið. Á árunum 2008 til 2016 voru erlendir ríkisborgarar í gæsluvarðhaldi að meðaltali þrír til níu.
„Við“ og „þið“
En staðreyndir skipta ekki máli á þeim tímum sem við lifum. Upphrópanir og tilfinningarök eru það sem trompar allt annað. Það að stjórnmálamenn eru ekki lengur bara að hræra í þessum pottum heldur beinlínis að elda súpuna er mjög varhugaverð þróun sem þarf að takast á við af alvöru.
Það má ekki verða þannig að pólitík sem stillir hópum upp á móti hvorum öðrum verði ofan á í íslensku samfélagi líkt og hún hefur orðið í mörgum löndum í kringum okkur. Þar sem verða til skýrar línur milli „okkur“ og „þeirra“. „Elítu“ og „þjóðar“. Þar sem öryrkjum og lífeyrisþegum er stillt gegn innflytjendum og flóttamönnum. Íslendingum gegn útlendingum.
Skilaboðin í Brexit voru „Take back control“. Skilaboðin hjá Trump voru „Make America great again“. Báðar herferðirnar gáfu til kynna að „hinir“ hafi tekið eitthvað frá „þér“. Og að þeir væru að draga úr lífsgæðum þínum.
Íslenska útgáfan verður samsuða af báðu. Og þá reynir á stjórnmálamenn og fjölmiðla að standa í fæturna gagnvart lyginni og óttanum.