Reykjavíkurmaraþonið var sett á laggirnar árið 1984 af einhverjum hlaupalúðum, langt á undan sinni samtíð.
Tveimur árum síðar tóku 85 hlauparar þátt. 10 árum seinna (1996) voru hlaupararnir orðnir 129 og 197 árið 2000.
Síðan þá hefur þátttakendafjöldinn tæplega sjöfaldast og í fyrra hlupu 1324 einstaklingar 42,2 kílómetra í hlaupinu.
Kynjahlutföllin skána
Þegar hin ameríska Kathrine Switzer tjáði hlaupaþjálfaranum sínum það að hún ætlaði að hlaupa Boston maraþonið hélt þjálfarinn hennar að konan væri orðin móðursjúk. Hann útskýrði fyrir henni á karlmannlegan, lógískan og stóískan máta að 42,2 kílómetrar væri of löng vegalengd, fyrir „veikgeðja konur“. Kathrine virti þessa forsjárhyggju að vettugi. Hún skráði sig undir kynlausu nafni (K.V. Switzer) og varð því fyrsta konan til að formlega klára Boston maraþonið. Fimm árum seinna, árið 1972, var konum formlega leyft að taka þátt í Boston maraþoninu.
Mynd 1: Konur telja nú þriðjung allra hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu
Óvinsælt hlaup meðal Íslendinga
Það sem er kannski hvað undarlegast við Reykjavíkurmaraþonið er að vöxtur hlaupsins er að mestu drifinn af auknum vinsældum hlaupa á heimsvísu og tískueyjunnar Íslands. Árið 2010 hlupu nánast jafn margir Íslendingar og árið 2018. En á sama tímabili stökk fjöldi útlendinga sem hljóp úr 369 í 1.101. Sú staðreynd að þessi mikli vöxtur hafi að nánast öllu leiti komið erlendis frá kom mér á óvart.
Ég var nefnilega þeirrar skoðunar að langhlaupabólutilfellum hafi fjölgað á Íslandi á undanförnum árum. Kannski er ástæðan fyrir því að raunveruleginn sem Reykjavíkurmaraþonið sýnir rími ekki við þann sem ég sé í kringum mig sá að í minni sápukúlu hefur hlaupaáhugi aukist, en dregið hefur úr honum utan hennar. Eða, það sem mér þykir líklegra, þá telja Íslendingar grasið grænna handan við hafið. Ólíkt útlendingum, þykir þeim ekkert töff að hlaupa í Reykjavík, en vilja frekar fara í flott hlaup í Boston; London; New York; og Tókýó.
Mynd 2: Tískuhlaupaeyjan Ísland
Hægum hlaupurum gengur betur og hröðum verr
Eftir þá miklu vinnu sem fór í að safna, hreinsa og vinna hlaupagögnin stóðst ég að sjálfsögðu ekki freistinguna að skoða framgang hlaupara í hlaupum fortíðarinnar. Það er að segja, ég var forvitinn að vita hvort hlaupurum sem hlaupa í Reykjavík í annað skipti gangi betur eða verr í sínu seinna hlaupi. Það eru góðar ástæður fyrir því af hverju manni ætti að ganga betur í næsta hlaupi en því fyrra. Reynsla skiptir þar sérstöku máli. Einnig eru góðar ástæður fyrir því að manni gangi verr: bæði eldist maður á hverju ári; og sjálfsálitið sem maður vann sér inn í fyrra hlaupi getur orðið manni að falli.
Mynd 3: Þeim mun verra sem þú stóðst þig síðast, þeim mun betur munt þú standa þig næst
Þetta er annar af þremur pistlum sem ekki beint tengjast hagfræði, en hafa meira með aðferðir úr tölfræði að gera. Tilefnið er að sjálfsögðu Reykjavíkurmaraþonið sem haldið er á menningarnótt. Höfundur biður lesendur sem ekki eru hlauparar velvirðingar, en eikonomics snýr aftur í sýnu hefðbundna horfi í september.